Fréttamenn RÚV og fagleg uppgjöf

Þegar fréttamaður stefnir vegna gagnrýni á frétt er það yfirlýsing um faglegt þrot. Fréttir eru frásagnir af tíðindum dagsins. Eðli frétta er að þær segja sjaldnast allan sannleikann og í þeim skilningi er stök frétt aðeins framlag til umræðunnar.

Frétt sem þolir ekki umræðu heldur er farið með í réttarsal til að fá þar vörn dómstóla stendur einfaldlega ekki undir nafni. Slík frétt er eins og nátttröll í dagsbirtu.

Hádegisfrétt RÚV, sem gangrýnd var í þessu bloggi 16. júlí sl., var hlutdræg og dró upp einhliða mynd af ESB-ferlinu. Með því að breyta lykilatriði í fréttinni, þýðingunni á ,,accession process", í sjónvarpsfréttum þá um kvöldið viðurkenndi RÚV að hádegisfréttinni hefði verið ábótavant.

Í stað þess að senda bloggara vinsamlega kveðju með þökkum fyrir uppbyggilega gagnrýni ákvað RÚV-liðið að stefna. Það var hvorki faglegt né viturlegt.


mbl.is Páll sýknaður í meiðyrðamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjöl fölsuð til að koma höggi á Hönnu Birnu

Einhver falsar skjöl um hælisleitanda, þar sem farið er meiðandi ummælum um viðkomandi, fölsunin sögð ráðuneytisskjal. Þetta er gagngert til láta líta svo út að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sé ábyrg fyrir útbreiðslu meiðandi ummæla um hælisleitandann.

Þeir sem þykjast vinir hælisleitandans, bæði þeir sem eru innan Samfylkingar og utan, verða að gera grein fyrir tilvist fölsunarinnar.


mbl.is Tvö skjöl um Tony Omos í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðsógn í þágu Stór-Evrópu, lýðræðið virkar ekki

Evrópusambandið stækkar í austur, hvort sem almenningur vill það eða ekki, segir van Rompuy forseti leiðtogaráðs ESB og gefur Pútín í Rússlandi rök í ofsóknarorðræðuna sem kyndir undir Úkraínudeilunni. 

Stór-Evrópa gæti orðið til sem skálkaskjól vegna stríðsógna í austri. Stríðsæsingar þjappa ríkjum saman, um það eru ótal dæmi allt frá dögum Pelópsskagastríði Spörtu og Aþenu. Tilraunir elítunnar í Brussel til að smíða Stór-Evrópu í kringum gjaldmiðil runnu út í sandinn og hernaðarbrölt er til muna öflugra meðal.

Víst er að lýðræðið er ekki hvati til samrunaþróunar álfunnar. Fyrirsjáanlegir sigurvegar kosninganna til Evrópuþingsins í lok mánaðar eru flokkar sem krefjast afbyggingar ESB ef ekki beinlínis að sambandið verði lagt niður.

Hægrimenn í ESB sameinast um Juncker til að verða næsti forseti framkvæmdastjórnarinnar og vinstrimenn bjóða fram þann þýska Schulz. Hvorugur býður af sér slíkan lýðræðisþokka að gagn sé af. Tillögur eru um að sniðganga niðurstöður Evrópuþingkosninganna og finna betri forseta. Sigmar Gabríel leiðtogi þýskra jafnaðarmanna segir það yrði forheimskun að virða ekki niðurstöðu kosninganna.

Vandræði Evrópusambandsins er að lýðræðislegt umboð Evrópuþingsins er hallærislega lélegt. Eftir því sem ríkjum ESB fjölgar lækkar hlutfall kjósenda sem nenna á kjörstað, - aðeins 43% greiddu atkvæði í síðustu kosningum.

Lýðræðið virkar ekki í Evrópusambandinu en stríðstól koma hreyfingu á málin. Félagsskapur sem þarf skriðdreka til að stækka er ekki eftirsóknarverður.


Framtíðarsýn 365: dautt sjónvarp án pappírs

Framtíð fjölmiðlunar er pappírslaus fjarskipti í símum og tölvum. 365 miðlar eru fyrst og fremst sjónvarp upp á gamla móðinn og pappírsútgáfa Fréttablaðsins sem enginn vill kaupa en auglýsendur halda uppi.

Nýr aðstoðarforstjóri 365, sem á að móta stefnuna til framtíðar, kemur úr heimi fjarskipta. Tekjumódel 365-miðla er illa samhæft fjarskiptafjölmiðlun 21stu aldar. Fólk kaupir ekki lengur áskrift að sjónvarpsstöð 20stu aldar með læstri dagskrá heldur að fjölmiðlaveitum. Auglýsendur kaupa stöðugt færri dálksentímetra í blöðum en flytja sig á netmiðla.

Framtíð útgáfufélags án fjarskiptafjölmiðlunar er harla dökk.


mbl.is Sævar ráðinn aðstoðarforstjóri 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Napoleón og Evrópa nútímans

Napoleón er maðurinn sem klauf Miðalda-Evrópu frá Þjóðríkja-Evrópu. Franska byltingin 1789 var uppgjör við samfélagsskipan miðalda með lögstéttum og einveldi. Án Napoleóns gæti gagnbylting aðals og konungssinna hafa undið ofan af byltingunni.

Napoleón rændi völdum og tryggði framgang byltingarinnar. Hann fléttaði hugmyndafræði upplýsingarinnar inn í franska útþenslustefnu sem reis hvað hæst í ofmetnaði með innrásinni í Rússland og lauk með tárum í Waterloo.

Franskir yfirburðir urðu Þjóðverjum hvatning. Ungur Prússi, Carl von Clausewitz, skrifaði handbók um stríð, byggða á hervirkjum Napoleóns. Lífsseigasta setning bókarinnar: ,,stríð er pólitík með öðrum úrræðum". Á þeim grunni stofnuðu Þjóðverjar til ríkisheildar hálfri öld eftir dauða lágvaxna Korsíkumannsins.

Og rétt eins og stríð má nota til að setja saman ríki er hægt að búta þjóðríki í sundur með sömu úrræðum. Lágvaxinn Rússi er einmitt að því í Úkraínu um þessar mundir.

 


mbl.is Napoleon aftur til Elbu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

12,9%-flokkurinn og metnaðarleysi vinstrimanna

Í taugaáfalli eftir hrun kaus þjóðin, eða tæp 30 prósent þjóðarinnar, Samfylkinguna. Eftir fjögur ár með Samfylkingu í stjórnarráðinu sá þjóðin að sér og skaut flokkinn niður í 12,9 prósent fylgi.

Samfylkingin er bandalag hrokafullra einstaklinga og smáhópa sem telja sig vita betur en þjóðin - enda fór ESB-umsókn Samfylkingar til Brussel án þjóðaratkvæðagreiðslu. Yfirgengilegur hroki þessa fólks kemur fram í því að þeir heimta þjóðaratkvæðagreiðslu um afturköllun á umboðslausu umsókninni frá 16. júlí 2009.

Einar Kárason segir Samfylkinguna valkost við Sjálfstæðisflokkinn. Einu sinni áttu vinstrimenn sér stærri draum en að vera jaðarsport stjórnmálanna.


Lögreglan dregin inn í pólitískan hráskinnaleik

Svokallað lekamál er að stærstum hluta tilbúningur, kokkaður upp aðgerðarsinnum á DV og borinn fram af vinstrimönnum til að klekkja á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Tilbúningurinn fékk vængi þegar saksóknarinn í landsdómsmálinu, sem starfaði í þágu pólitískra ofsókna ríkisstjórnar Jóhönnu Sig., vísaði málinu til lögreglurannsóknar.

Málið snýst um grun um vændisstarfsemi hælisleitanda. Aðgerðasinnar úr röðum vinstrimanna, Teitur Atlason bloggari á DV og frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingar þar á meðal, finnst réttur hælisleitanda til að þagað yrði um grunsemdirnar um afbrot ríkari en réttur almennings af fá upplýsingar um grun um afbrotaferli hælisleitandans. Eins og það sé ekki nóg til af flekklausum flóttamönnum að veita hæli hér á landi að ekki þurfi að púkka upp á vafagemsa.

Fjölmiðlar birtu upplýsingar um grunsemdirnar og þá varð ,,lekamálið" til. Það er hallærislega hálfvitalegt, en vel í anda vitleysisgangs vinstrimanna, að þeir krefjast núna að blaðamenn hætti að gæta trúnaðar gagnvart heimildamönnum sínum svo að þeir geti haldið áfram að slá pólitískar keilur undir yfirskini mannúðar.

Lekamálið svokallaða er áminning um hvar óábyrgustu og verstu þættir íslenskra stjórnmála eiga heima: í Samfylkingunni.


mbl.is „Fyrir neðan allar hellur og sýnir lítinn skilning“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk dagskrá ekki í höndum stjórnmálamanna

Í gegnum áhrif á fjölmiðla gátu stjórnmálamenn til skamms tíma lagt línurnar um pólitíska dagskrá umræðunnar. Vegna stóraukins fjölræðis, með tilkomu nýmiðlunar á netinu, misstu stjórnmálamenn þetta dagskrárvald.

Evrópumálið, eins og Bjarni Benediktsson orðar það, er á dagskrá umræðunnar óháð því hvort honum sjálfum finnst það ,,of fyrirferðamikið." Með óvarlegu tali í kosningabaráttunni gaf Bjarni andstæðingum Sjálfstæðisflokksins vopn í hendurnar - þ.e. að krefjast þjóðaratkvæðis um ESB-umsókn Samfylkingar frá síðasta kjörtímabili með vísun í til orða Bjarna er mátti skilja á þann veg.

Stjórnmálamenn ráða ekki dagskrá umræðunnar. En þeir geta með staðfestu eða skorti á henni ýmist sigrað eða tapað í umræðunni. Bjarni lærir vonandi af mistökunum.


mbl.is Evrópumálið of fyrirferðarmikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV birtir ekki tölur

Aðgerðafréttamennska á RÚV felur í sér að halda á lofti tilteknum málstað, finna fréttir og sjónarhorn á fréttir sem eru málstaðnum til framdráttar. RÚV hefur lengi haldið málstað ESB-sinna á lofti, bæði með fjölda frétta í þágu málstaðarins og leitast við að finna áherslur og sjónarhorn er sýna ESB-sinna í jákvæðu ljósi. Dæmi eru líka um hreinan skáldskap fréttum. 

Þegar ESB-sinnar boða til aðgerða, s.s. mótmælastöðu, er RÚV einatt með ýktar fréttir af fjölda þeirra sem mæta. Í gær efndu ESB-sinnar til fundar og mætingin var léleg. Jafn eindregnustu  ESB-sinnar gátu ekki leynt vonbrigðum sínum og töluðu um fámenni á fundinum.

En nú bregður svo við að RÚV birtir ekki tölur um fjölda fundarmann, aðeins frétt sem gerir því skóna að sveitarstjórnarkosningar snúist um utanríkismál. Heldur klént, RÚV, heldur klént.


Samfylkingarflokkur Benedikts og Sveins Andra

Benedikt Jóhannesson og hugmyndafræðingur hans, Sveinn Andri Sveinsson, ætla að stofna ESB-flokk til höfuðs Samfylkingunni, sem til skamms tíma sat einn flokka að ESB-inngöngustefnu. Sveinn Andri tilkynnti úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum og Benedikt hlýtur að gera það von bráðar.

Benedikt og Sveinn Andri stefna sínum flokki aftur til fortíðar, kalla framtakið viðreisnin, með vísun í viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Síðasta tilraun þessara stjórnmálaafla til að vinna sama var hrunstjórn Geirs H. Haarde. Sporin hræða ekki jafn vaska menn og Benedikt og Svein Andra.

Meginmarkmið Samfylkingarflokksins er að gera Ísland hluta af Evrópusambandinu. Virtur þýskur blaðamaður, Henryk M. Broder, sagði nýlega að Evrópusambandið væri risastór tilraun með 500 milljónir tilraunakanínur. Að bæta rúmlega 300 þús. íslenskum tilraunakanínum er trúlega litið mál.

Broder rifjar upp stjórnarhætti Evrópusambandsins, eins og þeim er lýst af fyrrum forsætisráðherra Lúxembúrg, Jean-Claude Juncker, sem keppist við að verða arftaki Barroso í stól forseta framkvæmdastjórnar ESB. Juncker lýsti starfsháttum ESB með þessum hætti fyrir nokkrum árum:

Wir beschließen etwas, stellen das dann in den Raum und warten einige Zeit ab, was passiert. Wenn es dann kein großes Geschrei gibt und keine Aufstände, weil die meisten gar nicht begreifen, was da beschlossen wurde, dann machen wir weiter – Schritt für Schritt, bis es kein Zurück mehr gibt.
(Við ákveðum eitthvað, látum ákvörðunina standa á opinberum vettvangi um sinn og bíðum átekta. Ef enginn gerir hávaða og mótmælir, enda skilja fæstir ákvörðunina, þá höldum við áfram, skref fyrir skref uns ekki verður aftur snúið.)

Samfylkingarfólk sem skundar á Austurvöll stillir upp sem tilraunakanínur Benedikts og Sveins Andra sem stefna að Samfylkingarflokki með hægripólitík. Árni Páll situr heima í Kópavogi með skeifu enda flokkurinn í heimabyggð klofinn og flokksmenn híma undir regnhlíf á Austurvelli eftir herútboð hægrimanna. Og enginn fattar fyrr en allt er um seinan.

Þegar Benedikt og Sveinn Andri eru búnir að hirða samfylkingarfólkið í nýjan Samfylkingarflokk hægrimanna er búið að grisja Sjálfstæðisflokknum gott rými til að verða aftur stórveldi íslenskra stjórnmála.

 


mbl.is Sjöundi útifundurinn á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband