ESB-bréfið og ekki-umsóknin

Til að umsókn um aðild að Evrópusambandinu standi undir nafni verður hugur að fylgja máli. Þjóðir sem sækja um aðild fara áður í gegn um ítarlega umræðu og þingkosningar þar sem tryggur þingmeirihluti nær kjör á þeim forsendum að sótt skuli um aðild.

Hér á Íslandi var engin sannfæring fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Eini flokkurinn sem má kalla ESB-flokk, Samfylking, fékk mesta fylgi sitt í kosningunum 2009, tæp 30%. Það er vitanlega ekki nóg að þriðjungur þingheims hafi umboð frá kjósendum að leiða landið inn í ESB. Enda var það aðeins með svindli þingmanna Vinstri grænna að tillaga um umsókn fór í gegnum þingið.

ESB-umsóknin gat ekki staðið á eigin fótum enda fæddist hún krypplingur. Umsóknin átti lítið fylgi meðal þjóðarinnar og þótt ráðuneyti samfylkingarráðherra voru virkjuð í þágu umsóknar og fé borið á fólk, fyrirtæki og stofnanir varð ESB-umsóknin frá 16. júlí 2009 aldrei trúverðug.

Össur Skarphéðinsson þáverandi utanríkisráðherra, aðalábyrgðarmaður ESB-umsóknarinnar, hafði sjálfur svo litla trú á framgangi ESB-ferlisins að hann gerði fríverslunarsamning við Kínverja. En allir fríverslunarsamningar falla úr gildi við inngöngu í ESB. Össur hefur sagt Kínverjum í trúnaði að ESB-umsóknin væri aðeins platpólitík til heimilisnota.

Ríkisstjórnarflokkarnir viðurkenndu að ESB-umsóknin væri dauðvona í janúar 2013 þegar ESB-ferlið var stöðvað með samkomulagi Samfylkingar og Vg. Í kosningum þá um vorið fékk Samfylkingin 12,9% fylgi og var enn eini ESB-flokkurinn.

Samfylkingin er hætt að tala fyrir ESB-aðild Íslands. Landsfundur flokksins er um helgina og þar er ekki gert ráð fyrir neinni umræðu um Evrópumál.

ESB-umsóknin var aldrei í alvöru, hún var ekki-umsókn til innanlandsbrúks.


mbl.is ESB-bréfið ekki rætt fyrirfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frekar huglaus en heimskur, Einar Kárason

Einar Kárason rithöfundur segir andstæðinga ESB-aðildar Íslands huglausa. Rök Einars eru eftirfarandi:

Ég vil ekki gera lítið úr andstæðingum Evrópusambandsins, en mér finnst að viðhorf þeirra beri keim af hugleysi. Að þeir þori ekki að klára samningaviðræðurnar og þannig þurfa að horfast í augu við það hvaða kostir gætu boðist okkur,...

Einar veit ekki hvernig ESB veitir ríkjum inngöngu og ímyndar sér að það sé á grunni samningaviðræðna. Svo er ekki. ESB tekur aðeins á móti ríkjum sem eru búin að aðlaga lög sín og regluverk að laga- og reglugerðasafni ESB, sem kallast acquis. Þetta heitir aðlögun og er útskýrð af ESB með þessum orðum:

Candidate countries* have to accept the acquis before they can join the EU and make EU law part of their own national legislation. Adoption and implementation of the acquis are the basis of the accession negotiations*.

(Umsóknarríki verða að samþykkja lög og reglur ESB áður en þau verða aðilar og gera lög ESB að sinni þjóðarlöggjöf. Aðlögun og innleiðing laga- og reglugerða ESB er grundvöllur aðlögunarviðræðna.)

Það er ekki hægt að ,,klára samningaviðræður" nema að hafa áður innleitt í íslensk lög og reglugerðir laga- og regluverk ESB. Það er ekki hægt að sjá ,,hvaða kostir gætu boðist okkur" í óskuldbindandi samningaviðræðum. Þannig gerast ekki kaupin á eyrinni, Einar Kárason. 

 

 


Samfylking hættir að ræða ESB-mál

Landsfundur Samfylkingar um helgina er ekki með einn dagskrárlið fyrir umræðu um Evrópumál. Stefnumál flokksins eru rædd í sex málstofum í tvo daga. Ekki ein málstofa fjallar um utanríkismál, hvað þá ESB.

Málstofunar sex eru samkvæmt dagskrá:  1. sveitarstjórnarpóitík, 2. ungir jafnaðarmenn, 3. 60 plús, 4. húsnæðismál 5. kvennahreyfingin og 6. græna netið.

Þegar eini ESB-flokkur landsins nennir ekki lengur að ræða Evrópumál er dálítið bratt að krefjast þess að ESB-umsóknin gildi áfram. Er það ekki?


mbl.is Engar nýjar upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldmiðlastríð og evru-skrímslið

Álitsgjafar í efnahagsmálum vara við gjaldmiðlastríði stórþjóða er leiða mun til heimskreppu. Seðlabankar stórvelda s.s. Bandaríkjanna, Japans, Bretlands og núna Evrópusambandsins og Kína beita óhefðbundnum aðferðum eins og peningaprentun til að örva hagvöxt.

Peningaprentun gjaldfellir eina mynt gagnvart annarri og skapar tímabundið samkeppnisforskot - þangað til aðrir gjaldfella sína mynt. 

Peningaprentun er orðinn spenntur bogi í alþjóðahagkerfinu sem er við að bresta, en enginn veit hvernig og hvenær.

Flestir veðja þó á að bresturinn verði á evru-svæðinu enda fær það viðurnefnið skrímslið hjá hagspekingum á borð við Thomas Piketty.

Það er svo eftir öðru að íslenskir ESB-sinnar líta á það sem höfuðkost við Evrópusambandið að með aðild yrði hagkerfið okkar skrímslavætt.


mbl.is Kínverjar vilja örva hagvöxt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæði um ESB myndi ógilda alþingiskosningar

Þingræði er að framkvæmdavaldið fylgi stefnu meirihluta alþingis. Ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti kýs þjóðin til alþingis.

Krafa um þjóðaratkvæði vegna ESB-umsóknar núna myndi ógilda niðurstöðu síðustu alþingiskosninga þar sem þjóðin kaus sér meirihluta sem er mótfallinn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Með afturköllun ESB-umsóknar er framkvæmdavaldið að framfylgja úrslitum síðustu þingkosninga.

Þjóðaratkvæðagreiðsla sem beindist gegn skýrum niðurstöðum alþingiskosninga væri beinlínis tilræði við stjórnskipun landsins.


mbl.is Dauðadæmt án pólitísks vilja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landráð Árna Páls - taugarnar að bresta

Árni Páll Árnason telur stappa nærri landráðum að Ísland skuli tekið af lista umsóknarríkja um aðild að Evrópusambandinu.

Einn flokkur, Samfylking, bauð fram ESB-aðild í síðustu þingkosningum og fékk stuðning 12,9% þjóðarinnar.

Tveir flokkar, sem mynda meirihluta á alþingi, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, buðu fram þá skýru og ótvíræðu stefnuskrá að Íslandi væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess.

Þegar Árni Páll kennir það við landráð að losa Ísland úr ESB-ferlinu, í samræmi við niðurstöður þingkosninga, er örvænting formanns Samfylkingar komin á það stig að taugarnar bresta. 


mbl.is „Stappar nærri landráðum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrifylkingin stelur fylgi Pírata og ekki-umsóknin

Samfylkingin ætlar sér oddvitahlutverk á alþingi í ESB-málinu enda dregur það hlutverk fjöður yfir þá staðreynd að Píratar fá mesta fylgið hjá þjóðinni að Sjálfstæðisflokknum undanskildum.

Feisbúkk-mótmælin um helgina, sem skiluðu innan við 2000 manns á Austurvöll, eru ekki til skiptanna; um leið og Píratar fatta snúning Árna Páls munu þeir kippa að sér hendinni.

Óðum rennur upp fyrir fólk það sem Svavar Alfreð Jónsson orðar hnyttilega að lýðræðið var aldrei með í för þegar ESB-umsókninni var hrundið úr vör fyrir sex árum. ESB-sinnar sem kynna sér sjónarmið annarra en trúbræðra sinna, t.d. Egill Helgason, átta sig á að Ísland var aldrei á leiðinni í ESB. Samfylkingarumsóknin var ekki-umsókn; ætluð til innanlandsbrúks en aldrei stóð til að hún breytti stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Draumórar Árna Páls um að leiða nýja ESB-sinnaða vinstrifylkingu verða orðnir að martröð fyrir vikulok.


mbl.is „Gunnar Bragi fullkomlega úti að aka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fasismi Illuga verður að flensu

Bréfið sem utanríkisráðherra afhenti Evrópusambandinu er upphafið að fasisma, skrifar Illugi Jökulsson á fimmtudag.

Á sunnudag heitir það flensa hjá Illuga að utanríkisráðherra fari ekki að vilja háværa minnihlutans.

Kannski að Illugi viðurkenni eftir tvo daga að viðbrögðin við bréfinu voru stormur í vatnsglasi.


Þingræði, feisbúkkmótmæli og gíslataka á alþingi

Á næsta fundi alþingis geta ESB-sinnar lagt fram tillögu um að ríkisstjórnin sæki um aðild að Evrópusambandinu. Þingsályktunartillaga þessa efnis fengi þinglega meðferð og yrði samþykkt eða hafnað. Verr er nú ekki komið fyrir þingræðinu á Íslandi.

Minnihlutinn á alþingi er í raun ekki að kvarta undan skorti á þingræði heldur hinu að ríkisstjórnarmeirihlutinn kom í veg fyrir gíslatöku á alþingi með því að leggja ekki fram þingsályktunartillögu um afturköllun ESB-umsóknar.

Feisbúkkmótmæli á Austurvelli og málþóf á alþingi er aðferð sem minnihlutinn beitti á þinglega meðferð, sem boðið var upp á sl. vetur í ESB-umræðunni. Pólitískur skæruhernaður af þessu tagi hefur ekkert með þingræði að gera.

Pólitískur skæruhernaður sem kemur í veg fyrir að yfirlýstur vilji meirihluta þjóðarinnar, eins og hann birtist í alþingiskosningum nái fram að ganga, er heldur ekki lýðræðinu til framdráttar.

 

 


mbl.is „Atlaga að þingræðinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæði-og-stjórnmál virka ekki í ESB-umræðunni

Stjórnmálamönnum er tamt að finna stærsta samnefnarann í hverju máli til að hafa sem flesta góða. Bæði-og-stjórnmáli gera sig ekki í stórum málum eins og Icesave, stjórnarskránni og í Evrópumálum. Þar gildir annað hvort eða; með ábyrgð almennings á Icesave-skuldum einkabanka eða á móti; fylgjandi nýrri stjórnarskrá eða mótdrægur; hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Sumir í röðum ESB-sinna reyna að finna sér bæði og stöðu, t.d. með því að kalla sig ,,viðræðusinna" en það er sama aðferðin og úlfurinn notaði með sauðagærunni og er fláttskapur en ekki málamiðlun.

Þjóðin kaus sér meirihluta á alþingi vorið 2013 sem var andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Báðir flokkarnir, sem mynduðu meirihlutann, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru með skýra og afdráttarlausa stefnuskrá um að hag Íslands væri betur borgið utan ESB en innan.

Af því leiddi að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar hefði átt að vera að afturkalla ESB-umsóknina frá 16. júlí 2009 sem fór í gegnum alþingi á svindli Vg-þingmanna.

Ríkisstjórnin ákvað á hinn bóginn að freista þess að finna bæði og leið í ESB-umræðunni og pantaði skýrslur frá Hagfræðistofnun HÍ. Þegar búið var að gefa undir fótinn með afslátt af skýrri og ótvíræðri stefnu gekk stjórnarandstaðan á lagið og hnekkti tilraun meirihlutans til að koma í gegn þingsályktun um afturköllun ESB-umsóknar s.l. vetur.

Að hálfnuðu kjörtímabili styttist í upptaktinn að næstu kosningabaráttu. Til að nokkur von væri fyrir ríkisstjórnarflokkanna að halda baklandi sínu óskertu urðu þeir að standa við stærsta kosningaloforðið; að binda endi á ESB-ferlið.

Allar líkur er á því að ESB-ferlinu, sem hófst 16. júlí 2009, sé lokið með bréfi utanríkisráðherra. Að því gefnu að Ísland verði tekið af lista umsóknarríkja um aðild þá er búið að núllstilla formlega stöðu Íslands gagnvart ESB. Við erum komin í sama flokk og Norðmenn, sem hafa gert tvær árangurslausar tilraunir til inngöngu i ESB.

Þegar ESB-ferlinu er formlega lokið skapast nýjar víglínur í stjórnmálum. Samfylkingin, sem er eini raunverulegi ESB-flokkurinn, verður að endurmeta stöðuna. Björt framtíð, sem er með bæði og afstöðu, er einnig í vanda. ESB-málið er búið að skaða Vg of mikið til að hann beri sitt barr í fyrirsjáanlegri framtíð. Líklegast er að Vg leggi upp laupana.

Vinstri vængur íslenskra stjórnmála er í uppnámi vegna ESB-málsins og það er meginskýringin á fylgi Pírata sem bera minnsta ábyrgð á mistökunum. Vinstrimenn munu ekki bjóða fram sömu flokka í næstu kosningum og þeir gerðu vorið 2013.

Þeir sem fylgjast með erlendum fréttum vita að Evrópusambandið er í kreppu. Sú kreppa leysist ekki í bráð. Hröð og skilvirk lausn á vanda ESB er mæld í áratugum.

Stjórnmálöfl á Íslandi, sem bjóða upp á ESB-ferli, vilja að Ísland bóki herbergi á hóteli sem stendur í ljósum logum. Verði þeim að góðu sem reyna það í næstu alþingiskosningum.


mbl.is „Ferlinu er lokið af okkar hálfu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband