Túrismi heltekur miðbæinn - engin stefnumótun

Fréttamaður RÚV fann varla Íslending í miðborg Reykjavíkur þegar hann tók vegfarendur tali. Öll uppbyggin miðbæjarins undanfarin ár miðar við túrisma. Hótel og lundabúðir ryðja í burtu verslunum og þjónustu sem íbúar sækjast eftir.

Borgaryfirvöld sýna andvaraleysi yfir þessari þróun og gefa út yfirlýsingar um bjargleysi gagnvart túristavæðingu miðborgarinnar. Hitt er líklegri skýring að engin stefna sé mótuð í málefnum miðborgarinnar og í skjóli stefnuleysis ráði einhlít peningasjónarmið.

Vinstrimeirihlutinn í ráðhúsinu er hlýtur að vera með önnur forgangsmál en þróun miðbæjarins. Forgangurinn er ábyggilega ekki viðhald gatnakerfisins.


Kunna Þjóðverjar að reka Grikkland?

Forsætisráðherra Grikklands samþykkti að gríska efnahagskerfið yrði stokkað upp að kröfu Þjóðverja gegn því að fá þriðja björgunarlánið á fimm árum.

Guardian segir að fyrir utan lækkaðan lífeyrisaldur og ýmis sparnaðarúrræði í ríkisútgjöldum þá verði Grikkir að breyta lögum um verslunartíma á sunnudögum. Einnig að brjóta upp skipulag mjólkurframleiðslu og samkepnnishættir bakara verða sömuleiðis endurkoðaðir.

Víðtæk útlensk (les: þýsk) inngrip í grískt samfélag gerir Grikkland ekki endilega betra. Raunar er ólíklegt að lagabreytingar um grísk innanríkismál muni gera annað en að auka andstyggð Grikkja að fylgja opinberri forskrift. Og fannst mörgum nóg um frjálslega umgengni Grikkja við lög og reglur.

Grískir samfélagshættir, lög og regla þar á meðal, eru niðurstaða grískra siða og venja og það sem mest eru um vert; grískrar málamiðlunar.

Það er ekkert sem bendir til að Þjóðverjar kunni betur en Grikkir sjálfir að reka Grikkland.


mbl.is „Þið yfirgefið ekki herbergið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran afnemur lýðræði, gerir þjóðir ósjáflbjarga

Í morgun skrifðu grísk stjórnvöld undir samning um björgunarlán frá ESB sem er til muna verri en samningurinn sem grískir kjósendur höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir viku.

Grikkland, sem  telur um 2% af efnahagskerfi evru-ríkjanna, sýnir í hnotskurn afleiðingar af myntsamtarfinu:

a) evran er ósamrýmanleg lýðræði

b) evran gerir þjóðir ósjálfbjarga

c) evran veldur raðneyðarfundum leiðtoga evru-ríkja

Evran er komin með 15 ára sögu. Nær helmingur þeirrar sögu, frá 2008 að telja, er evran til vandræða hvort heldur mælt efnahagslega, félagslega og pólitískt.

Engu að síður þykir það álíka viðeigandi að leggja til afnám evrunnar og að nefna snöru í hengds manns húsi.


mbl.is Evran „meiriháttar glæfraspil“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög og sæmd í Njálu og nútíma

Á köflum er Njála handbók í lögum. Undan og yfir lagahugsun Njálu er sæmdin, sú hugmynd að sérhver maður eigi sóma sem hann verði að gæta til að lífið sé einhvers virði. Njáli bauðst útganga úr brennunni en svaraði:

Eigi vil eg út ganga því eg er maður gamall og er eg lítt til búinn að hefna sona minna en eg vil eigi lifa við skömm.

Nútímamenningu er framandi að skömm fylgi skertum sóma. Skyldi ætla að lög og lagatúlkun í menningu þjóðveldisaldar væri álíka fjarri okkar tíma og sæmdin. En svo er ekki.

Gunnar á Hlíðarenda deildi við þá nafna Þorgeir Starkarðarson og Otkelsson. Eftir mannvíg náðust sættir. Þorgeir Starkarðarson undi málalokum illa og mútaði fjandmanni Gunnars, Merði Valgarðssyni, lögspekingi, að setja saman ráðagerð til að klekkja á Gunnari.

Mörður ráðleggur Þorgeiri Starkarðarsyni að fá nafna sinn Otkelsson í lið með sér að herja á Gunnar. Þorgeir Otkelsson færist undan með þeim rökum að hann sé í sáttum við Gunnar og vilji ekki teljast ,,griðníðingur".

Þorgeir Starkarðarson færi þau rök, ættuð úr lagasmiðju Marðar, að Gunnar hafi rofið sættina við þá nafna, með því að sækjast eftir jörðum í eigu þeirra vegna óskyldra mála. Nafnarnir tölu bersýnilega að sáttin milli þeirra og Gunnars skyldi taka til allra ágreiningsefna. Lögsátt og sómi, sem er persónubundinn, eru hér nátengd .

Þorger Otkelsson fellst á að fara að Gunnari með nafna sínum. En tilræðið misheppnast og málin fara til alþingis. Njáll sækir málið fyrir Gunnar vin sinn en Mörður fyrir Þorgeirana tvo.

Mörður endurtekur rökin hér að ofan, að Gunnar hafi rofið sátt með lögsókn gegn þeim og fengið sáðland af Þorgeiri Otkelssyni og jörðina Móeiðarhvol af Þorgeiri Starkarðarsyni.

Njáll svarar eins og lögspekingur í samtíma:

,,Eigi er það sættarrof," segir Njáll, ,,að hver hafi lög við annan því að með lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða."

Lög og sæmd á okkar dögum eru aðskilin atriði. Það er helst í meiðyrðamálum sem sæmd kemur til  sögunnar. Í lagaþrætum, þar sem koma við sögu manndráp og fasteignadeilur, er sæmdin víðsfjarri.

Njáll undirstrikar hlutlægni laganna, að þau séu ekki persónubundin. Orðalagið að ,,hver hafi lög við annan" fer nokkuð nærri því að segja alla jafna fyrir lögum. Og það er nútímaleg hugsun.

 

 


Eltipólitík Samfylkingar

Frá stofnun stundar Samfylkingin eltingarleik við tíðarandann. Markmiðið er að detta inn í tískuna til að fá þar fylgi og í framhaldi völd í samfélaginu. Samfylkingin var beinlínis stofnuð til að verða valdaflokkur, ólíkt Vinstri grænum sem voru stofnaðir um málefni.

Allir stjórnmálaflokkar stefna að völdum, út á það gengur pólitík. Það sem aðgreinir Samfylkinguna frá öðrum flokkum er að völdin eru valdanna vegna hjá Samfylkingu en ekki málefna eða hagsmuna.

Talsmenn Samfylkingar stæra sig stundum af því að hefja sig yfir hagsmuni, starfa í þágu almannahags en ekki sérhagsmuna. Það stenst ekki. Stærsta málið sem Samfylkingin gerði að sínu er aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þjóðfélagshópurinn sem græðir á aðild er afmarkaður hópur sérfræðinga og háskólaborgara sem kæmist inn á atvinnumarkaðinn í Brussel annars vegar og hins vegar gósenlendur styrkjakerfa ESB. Allur þorri almennings myndi tapa á aðild að Evrópusambandinu.

Eltipólitíkin gerði Samfylkinguna að ESB-flokki. Forysta flokksins um aldamótin, þegar flokkurinn var nýstofnaður, sannfærðist um að ESB væri í tísku. Forystunni var vorkunn. Bloggarar, fjölmiðlamenn, sérfræðingar og háskólakennarar, svokallaðar kjaftastéttir, voru um aldamótin yfirmáta hlynnt ESB enda sambandið að kynna til sögunnar glænýja afurð, evruna.

Evran skyldi breyta Evrópusambandinu úr milliríkjasamstarfi fullvalda þjóða í sambandsríki Evrópu. Íslensku kjaftastéttirnar vildu með í þá för enda dagpeningarnir fyrir endalausr Brusselferðir drjúg launauppbót, að ekki sé talað um ferðapunktana sem safnast í vinnunni og nota má í sumarfrí fjölskyldunnar.

Evran reyndist mýrarljós sem skilaði almenningi ekki lofaðri velsæld heldur kreppu og atvinnuleysi.

Þegar Samfylkingin komst óvænt til æðstu valda, í kjölfar hrunsins, var flokkurinn fangi eltistjórnmálanna og tilneyddur að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samfylkingin bjó hvorki að tengingu við meginhagsmuni í samfélaginu né flokksmenningu sem gat forðað flokknum frá vanhugsuðum Brusselleiðangri. Valdaflokkurinn var komin með völd og nú skyldi nota þau, skítt með yfirvegun og greiningu á aðstæðum.

Samfylkingin nær ekki vopnum sínum fyrr en hún gerir upp við mistök fortíðar. Líklega er það uppgjör flokknum ofviða. 


mbl.is Samfylkingin ekki náð fótfestu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grikkir kyssa vöndinn

Grikkir tóku út mestan sársaukann í kreppunni þegar þeir urðu að loka bönkum og setja á peningahöft. Ábatinn er kæmi í rökréttu framhaldi væri nýr gjaldmiðill, um 30 til 50% lægri en evra, er lækkaði kostnað og gerði Grikkland samkeppnishæft á ný. Fólk fengi vinnu í stað ölmusu.

Með því að fallast á kröfur lánadrottna og Evrópusambandsins verður Grikkland í herkví evru og kreppu í fyrirsjáanlegri framtíð. Gríska ríkisstjórnin verður i reynd umboðsstjórn Brussel. Engar ákvarðanir um grísk málefni verða tekin í Aþenu án heimildar frá ESB.

Grikkir sögðu nei í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag en kyssa vöndinn á fimmtudag.

Aðild að Evrópusambandinu dregur allan þrótt úr þjóðum að standa á eigin fótum. Kannski er það einmitt tilgangurinn.


mbl.is Niðurskurðarhnífurinn reiddur til höggs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll og Katrín Júl. á flótta

Ekki náðist í formann eða vara­formann Sam­fylk­ing­ar­inn­ar við vinnslu frétt­ar­inn­ar þrátt fyr­ir ít­rekaðar til­raun­ir.

Ofanritað er niðurlag fréttar mbl.is um kreppu Samfylkingar. Forystumenn stjórnarandstöðuflokka sem vilja ekki láta ná í sig eru komnir í veruleg vandræði.

Líkast til er það önnur Katrín, sum sé Jakobsdóttir, sem veit meira um framtíð Samfylkingar en Árni Páll og Katrín Júl. samanlagt.


mbl.is Fylgiskrísan stærri en formaðurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kratar eru deyjandi stjórnmálategund

Kratar gera ekki gott mót í Grikklands-krísunni. Þýskir kratar í stjórn Merkel standa harðir gegn afslætti handa Grikkjum. Franskir kratar með Hollande forseta í fararbroddi styðja áframhaldandi veru Grikkja í evru-samstarfinu.

Kratar eru alþjóðlegir að upplagi. Þegar systurflokkar taka hvor sína stefnuna í stórmáli er alþjóðavíddin komin undir járnhæl innanlandshagsmuna. Evrópskir krataflokkar eru á flótta frá stærstu hugsjón sinni, Evrópusambandinu, vegna þess að allur almenningur er búinn að gefast upp á hugmyndinni um Stór-Evrópu með Brussel sem höfuðborg.

Velferðarríkið, annar hornsteinn kratismans, sækir ekki lengur pólitíska næringu til verkamannaflokka. Danski þjóðarflokkurinn, andstæðingur ESB og gagnrýninn á innflytjendur en hlynntur velferðarkerfinu, kom fleiri ófaglærðum á þing en Verkamannaflokkurinn. Breska verkamannaflokknum var hafnað í síðustu kosningum. Hann átti ekki svör við spurningum bresku þjóðarinnar um innflytjendamál, afstöðunnar til ESB og efnahagsmál.

Samfylkingin er krataflokkur Íslands. Eftir ömurlega kosningu 2013, þar sem flokkurinn fékk 12,9% fylgi, er flokkurinn kominn í 9,3% fylgi í könnunum og minni en Vinstri grænir.

Samfylkingin gerði sig að ESB-flokki Íslands og geldur þess að umsóknin frá 16. júlí 2009 var klúður á klúður ofan. Til að bæta gráu ofan á svart er enginn endir á hörmungarfréttum af Evrópusambandinu. Eyjólfur í Brusel er ekkert á leiðinni að hressast næstu árin. Einsmálsflokkurinn á Íslandi gerir ekki annað en að tapa ESB-tengingunni.

Samfylkingin er flokkur háskólaborgara með næmni fyrir veruleikanum á borð við prófessorana sem sögðu að Ísland yrði Kúba norðursins ef við samþykktum ekki Icesave-klyfjarnar. (Prófið að slá upp prófessorunum Þórólfi Matthíassyni, Þorvaldi Gylfasyni og Gylfa Magnússyni og Icesave).

Samfylkingin er ekki með boðskap fyrir almenning og enga aðra hugsjón en Evrópusambandið. Kratisminn stendur höllum fæti á alþjóðavísu en er í útrýmingarhættu á Íslandi. 

 


Sálfræðilegt áfall Samfylkingar, minni en Vinstri grænir

Fylgi Vinstri-grænna mælist nú 12,0% en Samfylkingin fær 9,3%. Þar með eru Vinstri grænir orðnir leiðandi á vinstri kanti stjórnmálanna en Samfylkingin er í sárum.

Fyrrum ráðherra Samfylkingar spyr um síðustu daga Samfylkingar og biður menn að snúa bökum saman, líkt og gert er þegar liðsflokkur er umkringdur.

Samt er engin hætta á að samfylkingarfólk berjist til síðasta blóðdropa. Tækifærismennskan leyfir það ekki. Samfylkingarmenn eru á leiðinni yfir til Pírata, þar er fylgið.


mbl.is Píratar enn langstærstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landnámsskálinn í Reykjavík, minni en í Garðabæ

Landnámsskálinn, sem er til sýnis í Aðalstræti, er minni en landnámsskálinn á Hofsstöðum í Garðabæ. Skálinn í Aðalstræti er um 25 metrar á lengd en Hofsstaðir eru nær 30 metrum.

Það er heldur rýrt fyrir höfuðborgina að fá þá umsögn þræla í Landnámu að vera ,,útnes"; eiga lítinn skála og lítilmótlegt nafn á meðan Garðabær státar af stórum skála og reisulegu nafni.

Á Hofsstöðum sóttu menn blót úr nálægum sveitum. Reykjavíkurbændur guldu kannski hoftolla til höfðingja í Garðabæ?

Skálinn sem fannst við Lækjagötu gæti kannski rétt hlut útnessins, sem varð höfuðborg á 18. öld fyrir tilviljun fremur en verðleika.


mbl.is Skáli frá landnámsöld fannst óvænt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband