Föstudagur, 25. desember 2015
Jólasaga Össurar
Jólin eru tími ævintýra. Ævaforn frásögn frá upphafi tímatals okkar minnir á trú, von og kærleika. Lengri dagur boðar bjartari tíð og þá eru jólín bókahátíð þar sem höfundar bera á borð skáldskap sinn.
Á jóladag er lítið í fréttum og kærkomið tækifæri að taka snúning á fjölmiðum með eins og einni örsögu um sjálfan sig.
Hvað er fallegra en saga af stjórnmálamanninum síkáta sem gerði smáfylkinguna að stórflokki um hríð en berst nú hetjulega gegn illum öflum sem vilja kveða hann í kútinn? Hetjan okkar lætur ekki deigan síga gagnvart innanflokksbófum með þeim beittu rökum að grasrót smáfylkingarinnar standi með honum.
Sögur eins og jólasaga Össurar eru viðbit með jólamatnum. Þær eru samdar til að nafn og persóna söguhetjunnar festist í minni. Það líður að formannskjöri smáfylkingarinnar. Trú, von og kraftaverk þarf til að aflóga töskuberar verði teknir í smásætið. En jólin eru tími ævintýra.
![]() |
Þyrfti að henda Össuri öfugum út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 24. desember 2015
Línurit um evruna sem söguleg mistök
Uppsláttarfrétt Die Welt í morgun er að Finnar telji evruna söguleg mistök. Með fréttinni er sláandi línurit sem sýnir þrjár kreppur í finnskri efnahagssögu.
Með sjálfstæðum gjaldmiðli unnu Finnar sig hratt og vel úr tveim kreppum. Þriðja kreppan, sem nú stendur yfir, er til muna verri en hin tvær - enda Finnar bundnir í báða skó með evru sem gjaldmiðil.
Finnar horfa öfundaraugum til Svía. Efnahagskerfi Svía hefur frá kreppuárin 2008 vaxið um átta prósent, þökk sé sjálfstæðum gjaldmiðli. Á sama tíma hefur orðið sex prósent samdráttur í efnahagskerfi Finna.
Paul Krugman nóbelsverðlaunahafi í hagfræði talar enga tæpitungu: Finnar áttu aldrei að taka upp evru. Því miður fyrir þá er hægara sagt en gert að hverfa úr evru-samstarfinu.
![]() |
Hefðu aldrei átt að taka upp evruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 23. desember 2015
Gunnar Bragi skilur ekki utanríkismál
Úkraína er ein spillingarhrúga í aldarfjórðung þar sem auðmannaklíkur stela öllu steini léttara. Barátta um forræði yfir Úkraínu stendur á milli Bandaríkjanna og ESB annars vegar og hins vegar Rússa. Úkraínudeilan er gamaldags stórveldaþræta um áhrifasvæði.
Íslendingar ættu ekki að troða illsakir við Rússa sem reyndust okkur vel þegar við glímdum við gömlu nýlenduveldin í Evrópu. Bretland beitti okkur viðskiptaþvingunum, og neitaði íslenskum fiskiskipum löndun í Bretlandi, vegna útfærslu landhelginnar 1952. Stjórnvöld í Moskvu hlupu undir bagga og keyptu af okkur frystan fisk. Löndunarbann Breta stóð í fjögur ár og átti að knýja okkur til uppgjafar í landhelgisdeilunni. Rússaviðskiptin voru vörn Íslands gegn yfirgangi Breta.
Við skuldum hvorki Bandaríkjunum né Evrópusambandinu liðveislu í Úkraínudeilunni. Bandaríkin sýndu það árið 2006, þegar þau hurfu með liðsafla sinn á Miðnesheiði nánast í skjóli nætur, að þau láta þrönga þjóðarhagsmuni ráða ferðinni í utanríkismálum og skeyta hvorki um heiður né skömm. Evrópusambandið lagðist á árarnar með Bretum og Hollendingum í Icesave-deilunni í því skyni að íslenskur almenningur axlaði ábyrgð á skuldum einkabanka.
Sitjandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, skilur ekki utanríkismál. Hann lætur embættismenn segja sér fyrir verkum. Þetta eru sömu embættismennirnir og vildu að Ísland axlaði Icesave-ábyrgðina og ætluðu að fórna fullveldinu með ESB-aðild.
Gunnar Bragi mun ekki skilja utanríkismál úr þessu. Hann er óhæfur að fara með utanríkispólitíska hagsmuni þjóðarinnar.
![]() |
Fullkomlega eðlilegt að fara varlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Miðvikudagur, 23. desember 2015
Lágir vextir auka misrétti - hagsæld auðmanna
Lífeyrissjóðum og verkalýðshreyfingunni er stundum gefið að sök að halda uppi vaxtastigi. Vextir eiga samkvæmt kennslubókum í hagfræði að vinna með hagkerfinu; vera lágir þegar slaki er í efnahagsstarfseminni en háir í þenslu.
Vegna mikils slaka efnahagslífs vestan hafs og austan frá kreppunni 2008 eru vextir í sögulegu lágmarki. Afleiðing af lágum vöxtum er stóraukið efnahagslegt misrétti. Auðmenn nýta sér lága vexti í fjárfestingar, t.d. hlutabréf og fasteignir, en stóraukið peningamagn í umferð eykur verðgildi slíkra fjárfestinga. Almenningur fær brauðmolana í formi aðeins skárri atvinnuframboðs en annars væri.
Tilkynning Seðlabanka Bandaríkjanna í síðustu viku um að vaxtahækkunarferli stæði fyrir dyrum markar endalok hagsældar auðmanna vestan hafs. Alexander Friedman fagnar ákvörðuninni um leið og hann tíundar hve auðmenn græddu á lágum vöxtum en almenningur tapaði.
Seðlabanki Evrópu keyrir enn lágvaxtastefnu og auðmenn munu halda áfram að græða á kostnað almennings í evru-ríkjunum.
![]() |
Eign lífeyrissjóða aukist um 10,7% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. desember 2015
Evran er vond hagfræði og misheppnuð pólitík
Evran er hagfræðileg mistök. Hún skilar lágum hagvexti en miklu atvinnuleysi. Evran átti að auka samhljóm Evrópu en skilar öndverðri niðurstöðu.
Vegna evrunnar og afleiðinga af innleiðingu hennar vex sundurþykkja í Evrópu.
Samfylkingin, eini ESB-flokkur landsins, er fangi vondrar hagfræði og misheppnaðra stjórnmála.
![]() |
Telja Finnland betur sett án evrunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 22. desember 2015
Trúarmenning
Frásögnin af tilurð sálmsins Heims um ból er örlítil flís af kristinni trúarmenningu. Líkt og aðrar frásagnir sem lifa tímans tönn stílfærist hún frá einni kynslóð til annarrar.
Trúarmenning er að stofni til trú á yfirskilvitlegt afl sem ætlað er að gefa lífinu merkingu. Menningarhluti trúarinnar er viðleitni mannsins að aðlaga ævaforna opinberun að síbreytilegum heimi. Barnsfæðing tengir sálminn Heims um ból við fæðingu frelsarans. Þannig vinnur trúarmenning; hún leitar að sígildum samnefnara fyrir samtíðina.
Trúarmenning fléttast inn í alla kima samfélagins. Sveinbjörn Egilsson, sem endurorti þýska sálminn, lagði til þessa ljóðlínu ,,frelsun mannanna, frelsisins lind". Þýska frumgerðin talar aðeins um frelsun guðs frá eymd mannanna. Frelsi Sveinbjörns er ekki skilyrt við guðs náð. Tvíendurtekið frelsið er ómur frá pólitískri umræðu á Íslandi um miðja 19. öld þar sem frelsi frá dönsku yfirvaldi var rætt af þunga.
Maður heitir Mustafa Akyol og er múslími. Hann freistar þess að bjarga trú sinni frá túlkun bókstafstrúarmanna sem kenna sig við Ríki íslams og höggva mann og annan fyrir þær sakir einar að vera rangrar trúar. Trúarmenning eldmóðs og baráttu ,,réttrar trúar" er ekki í takti og tón við ráðandi veraldarhyggju sem mælir fyrir aðskilnaði trúarsannfæringar og mannréttinda.
Vestræn trúarmenning ræktar með sér þann skilning að hvert barn eigi þann rétt að velja köllun sína þegar það vex úr grasi. Persónulegt val einstaklingsins er æðri trúarsetningum. Múslímsk trúarmenning fóstrar ekki sömu sömu hugsun. En, eins og Mustafa Akyol vekur athygli á, er til í helgum textum múslíma vitund um takmörk mannsins að ákveða trúarhlutskipti meðbræðra sinna.
Hugtak ættað úr arabískum heimi miðalda, irja, mælir fyrir um að guð einn viti hver gangi veg ,,réttar trúar" og hver ekki. Ríki íslams segir irja hættulegustu villtrúna. Skiljanlega þar sem irja tekur frá mönnum réttinn að dæma um rétttrúnað annarra.
Mustafa Akyol skrifar grein í New York Times til að úskýra irja og hvaða afleiðingar það hefði ef hugtakið fengi útbreiðslu.
Trúarmenning vinnur hægt. Á Íslandi var stofnað til lýðveldis hundrað árum eftir frelsisumræðuna um miðja 19. öld þegar Sveinbjörn endurorti Heims um ból með frelsisstefi. Ríkjandi trúarmenning múslíma styður fremur við guðs lög á jörðu, sharía, en irja. Ríki íslams er tilbúið, eins og dæmin sanna, að sjá um framkvæmdina á vilja guðs spámannsins.
![]() |
Heims um ból í tæp 200 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. desember 2015
Schengen-aðild: ESB-löggur á Íslandi
Lögreglulið sem stjórnar því hverjir fara til og frá Íslandi og lýtur boðvaldi Brussel er vitanlega hernámslið. Utanríkisráðherra hlýtur þegar í stað að gera ráðstafanir til að Ísland hverfi úr Schengen-samstarfinu.
Ísland er ekki í Evrópusambandinu en Schengen er sameiginlegt landamæraeftirlit ESB-ríkja.
Það voru mistök að Ísland varð Schengen-land. Nú þegar rökrétt afleiðing Schengen, ESB-löggur á Íslandi, er lýðnum ljós er ekkert annað að gera en að hverfa úr samstarfinu. Strax.
![]() |
Jafnvel þó ekki sé beðið um aðstoð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 21. desember 2015
Endimörk vestræns lýðræðis
Vestrænt lýðræði verður til á grunni menningarheims sem kenndur er við þrjár borgir: Jerúsalem, Aþenu og Róm. Vestrænt lýðræði fæddist með blóðugum hætti í frönsku og bandarísku byltingunum á 18. öld.
Vestrænt lýðræði var lengi vel ekki fyrsti valkostur allra Evrópuþjóða, samanber vöxt kommúnisma og fasisma á 20. öld.
Með þessa sögu í huga er ekki ofmælt að vafi leiki á að vestrænt lýðræði sé heppileg útflutningsafurð til annarra menningarheima.
![]() |
Vilja ekki endurreisa Sovétríkin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 21. desember 2015
65 þús. öfgamúslímar reiðubúnir í heilagt stríð
Flestir skæruliðanna í sýrlenska borgarastríðinu eru hlynntir hugmyndafræði Ríkis íslams. Ef Ríki íslam verður knésett eru að minnsta kosti 65 þúsund skæruliðar tilbúnir að taka upp merki þeirra, segir skýrsla breskrar hugveitu sem Guardían endursegir.
Með þúsundir stolinna vegabréfa er hægt að gera út skæruliða til Vestur-Evrópu að stunda hryðjuverk og vekja til öfga staðbundna múslíma.
Trú, glæpir og grimmd fléttast saman í veruleika íslamskra skæruliða, eins og glöggt má lesa í umfjöllun New York Times um lífshlaup eins af millistjórnendum Ríkis íslam, Hassan Aboud.
Borgarastríð múslíma í mið-austurlöndum fóstrar öfgar. Múslímsk trúarsannfæring verður enn öfgafyllri og var hún þó fyrir enginn elsku mamma boðskapur.
![]() |
Stálu þúsundum vegabréfa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 20. desember 2015
Valdamiðstöðvar, þingmenn og uppreisn almennings
Þingmenn hér áður komu gjarnan úr viðurkenndum valdamiðstöðvum í samfélaginu, s.s. verkalýðshreyfingu, hagsmunasamtökum af ýmsu tagi, sveitastjórnum og tilteknum atvinnugreinum.
Stjórnmálaflokkar, sem voru valdamiðstöðvar á eigin forsendum, gátu búið til framboðslista í því skyni að höfða til sem breiðasta hóps kjósenda.
Opin prófkjör stjórnmálaflokka breyttu vali á frambjóðendum. Peningar, saumaklúbbar og íþróttafélög fengu meira vægi en áður.
Við hrunið fengu bæði sitjandi þingmenn, starfandi stjórnmálaflokkar og þekktar valdamiðstöðvar slæmt orð á sig.
Almenningur gerði uppreisn, kaus Jón Gnarr í Reykjavík og veitir Pírötum brautargengi í skoðanakönnunum.
Uppreisn almennings er hvorki langvinn né róttæk. Jón Gnarr fékk stuðning í eitt kjörtímabil og Píratar fá ekki skoðanakönnunarfylgi í kosningum.
Uppreisn almennings beinist gegn stjórnmálakerfi sem virðist ekki virka. Það er sitjandi þingmanna, einkum stjórnarþingmanna, að sýna fram á að kerfið virki.
![]() |
Mikið af lélegum þingmönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)