Allir ánægðir með forsetann - nema vinstrimenn

Píratar, hægrimenn og ópólitískir eru allir ánægðir með Ólaf Ragnar Grímsson í starfi forseta. Einu pólitísku afbrigðin sem eru ósáttir við forsetann eru stuðningsmenn Samfylkingar og Vinstri grænna.

41 prósent stuðningsfólks Pírata er ánægt með störf Ólafs Ragnars, en 32 prósent óánægt. Dyggustu stuðningsmenn forsetans koma úr röðum framsóknarmanna, 81 prósent ánægja er með forseta lýðveldisins þar á bæ. Ánægjuhlutfall sjálfstæðismanna er 66 prósent. Þá er afgerandi stuðningur við Ólaf Ragnar meðal þeirra sem standa utan stuðningsmanna flokka og framboða.

Óánægjan með Ólaf Ragnar er bundin við stuðningsmenn Samfylkingar, 55 prósent, og Vg, 49 prósent.

Vinstrimenn fyrirgefa Ólafi Ragnari ekki að senda Icesave-lögin tvisvar í þjóðaratkvæði þar sem almenningur rassskellti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og gerði hana óstarfhæfa.

 


mbl.is 47,8% ánægð með störf forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðmenningastríð, trúarmenning og snjallvald

Stríðið við Íslamska ríkið er barátta siðmenninga, líkt og Samúel P. Huntington forskrifaði í lok kalda stríðsins. Ríki íslams sækir réttlætingu sína í súnníútgáfu múslímatrúar, sem er ráðandi meðal múslíma, en hún boðar að trúaðir skulu drottna yfir vantrúuðum. Veraldleg hófsemd, sem kristni fóstrar, er víðs fjarri trúarspeki súnna.

Trú er réttlætingin en tilefni hermanna múslímsku fasistanna til að gefa sig í baráttuna eru af margvíslegum toga, segja þeir sem hitt hafa þá að máli, t.d. Martin Chulov.

Sérfræðingar i hernaði telja baráttuna gegn Ríki íslam aðeins að hluta hernaðarlega. Bandaríski eftirlaunaherforinginn James Stavridis segir í grein í Foreign Affairs að úrslit átakanna við Ríki íslam ráðist með snjallvaldi. Með snjallvaldi er átt við aðgerðir til að vinna hug og hjörtu andstæðingsins. Stavridis nefnir nokkrar sem eru tækilegar í eðli sínu s.s. að skipuleggja alþjóðlega umgjörð friðar í miðausturlöndum og tryggja atvinnuframboð þannig að fólk geti orðið matvinnungar og tileinkað sér lífstíl þeirra sem fá fast kaup.

Stóra verkefni snjallvaldsins, segir Stavridis, er að sigra íslamistana á markaðstorgi hugmyndanna. Þótt hægt sé að taka undir með eftirlaunaherforingjanum, að vesturlönd verði að reyna að fá róttæka múslíma til að gerast hófsamir, þá er nokkur bjartsýni að ætla snjallvaldi að trompa 1500 ára trúarmenningu.

Huntington benti á í sinni grein að maður getur verið að hálfu Frakki og að hálfu arabískur. En það er enginn að hálfu kristinn og að hálfu múslímskur. Harla litlar líkur eru á því að vestrænt snjallvald hreyfi við trúarsannfæringu margra múslíma. Ríkjandi súnníútgáfa múslíma er töluvert fjarlæg kristnu menningunni sem bjó til hugmyndina um snjallvald.

 


mbl.is Íraska fánanum flaggað í Ramadi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran og óhamingja ESB

Evran átti að bæta upp skort á hagfræðilegri undirstöðu með vera pólitískur hvati til hraðari samruna ESB-ríkja. Samkvæmt Valdis Dombrovskis, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og yfirmann peningamála, er evran ekki lengur hvati til samruna heldur dragbítur.

Evran leikur efnahagskerfi ríkja grátt, jafnvel þeirra sem fylgja forskriftinni, samanber Finnland.

Eini möguleiki evrunnar til að virka sem gjaldmiðill er að stofnað verði til Stór-Evrópu, evrópsks sambandsríkis sem myndi starfa á líkum grunni og Bandaríkin. Í Evrópu er enginn áhugi á slíku sambandsríki og þess vegna á evran enga framtíð fyrir sér.


mbl.is Evran ekki eins aðlaðandi og áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán einn öflugri en vinstriflokkarnir allir

Hvert mannsbarn veit að einkaframtakið ber höfuðábyrgð á hruninu. Einabankar og einkafyrirtæki keyrðu Ísland í þrot. Úr þessum staðreyndum ætti að vera hægt að búa til mikla pólitík. Það ætti að standa vinstriflokkunum næst að setja fram pólitíska valkosti byggða á gagnrýni á einkaframtakið og öfgar þess.

En vinstriflokkarnir stunda hvorki slíka gagnrýni né uppbyggilega pólitík. Þeir eru mest hvergi. Nema þegar tækifæri er til upphlaups í bloggheimum þar sem einhver tittlingaskítur er blásinn upp í tveggja til þriggja daga moldviðri sem ekkert skilur eftir sig.

Stefán Ólafsson, sem skrifar pólitík í hjáverkum, er einn og sér öflugri rýnir og beittari málafylgjumaður en samanlagðir vinstriflokkar. Samt fá stjórnmálaflokkar stórfé frá almenningi til að setja saman pólitík.


Flóttamenn og dauði fjölmenningar

Þjóðverjum þykir ekki verra að Danir leiði andófið gegn opnum landamærum Evrópu fyrir flóttamönnum. Spiegel segir frá ráðstöfunum Dana við að stemma stigu við flóttamannastraumi, m.a. hertar reglur um sameiningu flóttamannafjölskyldna og upptöku reiðufjár flóttamanna, sem fá allt greitt af danska ríkinu.

Færri flóttamenn sækja um hæli í Danmörku en Svíþjóð og Þýskalandi, segir Spieel vera áhrif harðari stefnu danskra yfirvalda.

Á meðan Danir herða reglur um viðtöku flóttamanna eru Þjóðverjar alveg búnir að snúa við blaðinu hvað áhrærir aðlögun þeirra. Til skamms tíma var í nafni fjölmenningar talið sjálfsagt að flóttamenn yrðu ríki í ríkinu, byggju í sér hverfum tíðkuðu sína siði og trú rétt eins og þeir væru heima hjá sér. Ekki lengur.

Jóhanna Wanka menntamálaráðherra Þýskalands segir það skyldu flóttamanna að aðlagast þýsku samfélagi. Samkvæmt FAZ felur það í sér að flóttamenn læri þýsku, skilji þýskt gildismat og fallist á grunnreglur þýsks samfélags.

Vesturlönd eru óðum að læra af þeirri reynslu að fjölmenning elur af sér haturshópa sem í nafni trúarmenningar múslíma ráðast með manndrápum á vestræn gildi.


mbl.is Ósáttur við flóttamannasáttmála SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónas bloggar, Birgitta ritskoðar

Jónas Kristjánsson bloggaði í hádeginu um að lærisveinar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar gerðu sig gildandi á spjallsvæði Pírata.

Birgittu Jónsdóttur höfuðpírata varð svo um að hún lokaði spjallsvæðinu síðdegis.

Píratar umbera aðeins sumar skoðanir.


Árni Páll grætur nýsköpun Össurar

Björt framtíð var hönnuð af Össuri Skarphéðinssyni þegar hann var utanríkisráðherra. Hann fékk tvo samfylkingarkettlinga, Guðmund Steingrímsson, sem dvalið hafði um hríð í Framsóknarflokknum, og Róbert Marshall til að vera andlit flokksins.

Björt framtíð þjónaði tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi að rjúfa einangrun Samfylkingar í ESB-málum og í öðru lagi að sópa upp óánægjufylgi Samfylkingar. Björt framtíð varð ,,mjúkur" flokkur, ekki með einarða afstöðu í neinu máli en sammála flestu til vinstri og frjálslegu. ESB-stefna flokksins var að ,,kíkja í pakkann".

Flokkshönnunin klúðraðist. Í stað þess að sópa upp óánægjufylgi þá geirnegldi Björt framtíð stærsta ósigur nokkurs stjórnarflokks í Vestur-Evrópu eftir stríð. Fylgi Samfylkingar hrapaði úr tæpum 30 prósentum í 12,9% í síðustu kosningum. ,,Kíkja í pakkann" stefnan hjálpaði Samfylkingu lítt enda ESB-málið sjálfdautt fyrir kosningar þegar vinstristjórnin gerði hlé á aðildarferlinu.

Skiljanlega grætur Árni Páll Árnason formaður Samfylkingar pólitíska nýsköpun hins síkáta Össurar.


mbl.is Skylda að reyna ríkisstjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varoufakis líkir ESB við Sovétríkin

Evrópusambandið er eins og Sovétríkin. Almennt var vitað að þau hryndu en ekki hvernig eða nákvæmlega hvenær.

Yanis Varoufakis, fyrrum fjármálaráðherra Grikklands, býður upp á þessa líkingu á heimasíðu sinni, þar sem hann endurbirtir viðtal við sig í L'Espresso.

Í lok viðtalsins boðar Varoufakis evrópska hreyfingu róttækra til að bjarga Evrópusambandinu frá sjálfu sér.


Múslímavæðing Evrópu: harkan sigrar mýktina

Gagnrýnin bók á múhameðstrú er ein söluhæsta fagbókin í Noregi í ár. Höfundurinn Hege Storhaug segir í viðtali við Aftenposten: múslímsk gildi eru hörð en okkar mjúk. Hörðu gildin sigra.

Björn Bjarnason segir frá tilraunum danskra yfirvalda að halda á lofti dönskum menningarverðmætum. Góða fólkið með mjúku gildin gagnrýnir slíka tilburði með þeim rökum að dönsk menning ,,ögri" menningu innflytjenda.

Prófessor Robert Skidelsky segir meginhvata múslímavæðingar Evrópu vera vestrænt skilningsleysi á trúarfestu múslíma sem ráði ferðinni andspænis vestrænni veraldarhyggju.

Múslímar aðlagast ekki vestrænni menningu. Frjálslynda vestræna hefðin á engin svör við múslímavæðingu Evrópu. Evrópskur almenningur snýr sér til harðari pólitískra gilda sem veita þeim múslímsku viðnám. Trúarharka kallar á pólitíska hörku.


Blankir arabar sýna stríðsþreytu

Samtímis fréttum af falli íslamsks leiðtoga uppreisnarmanna í Sýrlandi gerast þau tíðindi að fyrir milligöngu Sameinuðu þjóðanna fái uppreisnarmenn suður af höfuðborg Sýrlands, Damaskus,  að flytja sig um set til samherja sinna í norðurhluta landsins.

Samkvæmt Guardian vekja vopnahléssamningar milli stríðandi fylkinga vonir um að hægt verði að koma á friðarferli í Sýrlandi.

Olíuríkin sem styðja meginfylkingarnar í borgarastríðinu í Sýrlandi eru Íran, sem styður stjórn Assad forsta, og Sádi-Arabía, er fjármagnar uppreisnarhópa. Íran er öflugasta ríki shíta-múslíma en Sádi-Arabía er höfuðból súnní-múslíma.

Verðfall olíu og fyrirsjáanlega minni eftirspurn í framtíðinni, m.a. vegna alþjóðlegra aðgerða til að draga úr hlýnun jarðar, skerðir möguleika olíuríkjanna að fjármagna ófrið í Sýrlandi og Írak.

Ríki íslams, öfgasamtök sem hyggjast stofna nýtt kalífadæmi að hætti miðaldamúslíma, eru ekki hátt skráð meðal múslíma. Samkvæmt stórri könnun meðal araba, sem Spiegel greinir frá, eru nærri níu af hverjum tíu með neikvæða afstöðu til Ríkis íslam. Könnunin leiðir í ljós blendna afstöðu til lýðræðis. 71 prósent telja múhameðstrú og lýðræði samræmast en 48 prósent eru þeirrar skoðunar að lýðræði henti ekki þeirra landi. Arabarnir eru með neikvæða afstöðu til eina lýðræðisríkisins í þessum heimshluta: 85 prósent eru mótfallin viðurkenningu á Ísrael.

Trúardeilur og skortur á lýðræðishefðum eru ekki einu stríðshvatarnir í miðausturlöndum. Stórveldin, Bandaríkin og Rússland, eru á bakvið og toga í spotta. Stríðsþreyta skilar ekki endilega friði í nálægri framtíð.


mbl.is Uppreisnarleiðtogi látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband