Gemmér pening, ég á fjölmiðil

Ritstjóri Kjarnans skrifar langan leiðara með þeim skilaboðum að hann eigi fjölmiðil og vilji fá peninga úr ríkissjóði til rekstursins. Stjórnmálamenn sem ekki opna pyngju almennings í fjölmiðlahítina, tja, þeir hata fjölmiðla. Segir ritstjórinn.

Á mælistiku ritstjóra Kjarnans leggja stjórnmálamenn ofurást RÚV enda er mokað þangað ótöldum milljörðum króna á ári af almannafé.

Ekki svo að skilja að Þórður Snær Júlíusson krefjist aukins aðhalds gagnvart hagsmunahópnum á Efstaleiti. Öðru nær, Þórður Snær er fastagestur í settinu hjá RÚV að tjá sig um menn og málefni, og vill alls ekki að skorið sé á fjárstreymið til hagsmunahópsins.

En ritstjórinn vill líka opinbert fé til sín og Kjarnans, sem er valinkunn samfylkingarútgáfa og gerir ekki annað en að skila tapi. Tómstundaiðju vinstrimanna skal ríkið borga með góðu eða illu. Þingmenn sem ekki spila með hata fjölmiðla.


Viðreisn og Samfylking stefna á bæjarútgerð

Af umræðum á alþingi er að skilja að Þorgerður Katrín Viðreisnarforingi og Logi fylkingarformaður stefni á bæjarútgerðir.

Ekki kemur á óvart að Samfylkingin vilji opinberan rekstur en nýrra ber við er Viðreisn daðrar við sameignarstefnuna.

Hætt er við að heldur drægi úr arðseminni þegar útgerðin er komin á forræði stjórnmálamanna. En þá má alltaf skammta lífskjörin með margvíslegum höftum. Stjórnmálamenn kæmust í feitt en almenningur fengi sult og seyru.

 


mbl.is Mestu útflutningsverðmætin á þessari öld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða kreppa?

Störfum fjölgar, ferðaþjónusta glæðist, bankar skila auknum hagnaði, farsóttin lætur undan síga og vorið er blítt.

Kreppan virðist farin áður en hún almennilega nam land.

Ástandið er að vísu kvikt, eins og sagt er á hagfræðimáli, þegar óvissa er á markaði. En það erfitt að vera ekki bjartsýnn á framhaldið. 


mbl.is Bókunum fjölgar ört
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sölva saga Tryggvasonar og réttlætið

Maður er nefndur Sölvi Tryggvason. Hann kemur fram opinberlega og segir sóst eftir mannorði sínu með tilhæfulausum ásökunum um kynferðisbrot. Líða svo tveir til þrír dagar. Kemur þá fram ákæra og vitnisburður um að Sölvi sé ekki jafn saklaus og hann vill vera láta. Sölvi tékkar inn á geðdeild en sölvískur stormur skekur samfélagið.

Sölva saga Tryggvasonar er um tilraun til að afla sér samúðar sem snýst upp í andhverfu sína, leiðir til fordæmingar. Í upphafi sögu er Sölvi fórnarlamb en varla er tveim blaðsíðum flett og sá grátbólgni er orðinn gerandi. Sagan er sögð í fjölmiðlum og á félagsmiðlum. Sölvi er nafnkenndur í aðalhlutverki, ónefndar konur í stórum hlutverkum og heil hrúga af fólki í aukahlutverki; þeir sem studdu aðalleikarann í upphafi, sneru síðan við honum baki og svo hinir sem keyptu ekki fyrstu útgáfu fórnarlambsfrásagnarinnar en biðu færis.

Á yfirborðinu virðist sagan um réttlæti og ranglæti, sakleysi og sekt, tilræðismann og fórnarlamb. En undir niðri er önnur frásögn um samfélagið okkar. Þar takast á tvö meginsjónarmið. Í fyrsta lagi að hér þrífist stórglæpamenn í kynferðismálum sem að mestu óáreittir komast upp með að leggja líf kvenna í rúst með nauðgunum og ofbeldi. Í öðru lagi að við búum í réttarríki þar sem sekt þarf að sanna áður en menn eru dæmdir. 

Í orði kveðnu eiga fylkingar meginsjónarmiðanna það sameiginlegt að krefjast réttlætis. En sá misskilningur svífur yfir vötnum að ásakanir og gagnásakanir í fjölmiðlum og félagsmiðlum skili sér í réttlæti. Forsenda réttlætis er íhygli og yfirvegun um málsatvik, atvikalýsing og sönnunarfærsla. Sú málsmeðferð er ekki í boði á félagsfjölmiðlum.

Hliðarafurð yfirstandandi frásagnar er að fólk fær tækifæri að játa syndir sínar á altari félagsfjölmiðla. Trúarleg stef er þar að finna. Sölvi er til dæmis ekki nefndur á nafn í viðtengdri frétt. Í frumstæðri trúariðkun er djöfullinn svo alltumlykjandi að það eitt að nefna hann er synd.

Lærdómurinn í Sölva sögu Tryggvasonar er að trúa frekar hægt en hratt. Jafn freistandi og það er að stökkva á fordæmingarvagninn þegar hann fer framhjá verður óþægilegt að sitja eftir með sárt ennið þegar annar vagn sýnu stærri og margmennari þýtur í gagnstæða átt.

Svo er það þetta lítilræði með samfélagið okkar. Það er ekki fullkomið en í samanburði við flest ef ekki öll önnur þá er það harla gott. Gleymum því ekki.


mbl.is „Ég gerðist skólabókardæmi um meðvirkni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Millistéttin hallar sér til hægri og þjóðhyggju

Hægribylgjan í bresku kosningunum er ótvíræð. Íhaldsflokkurinn tekur Verkamannaflokkinn í bakaríið, jafnvel í kjördæmum þar sem vinstrimenn áttu sigurinn vísan í áratugi.

Skammtímaskýringar, t.d. farsóttin og vel heppnaðar varnir íhaldsstjórnar Boris Johnson gegn henni, eru hluti kosningasigurs hægrimanna. En það eru heil fimm ár síðan Bretar undir forystu hægrimanna ákváðu að segja skilið við Evrópusambandið og kusu Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Strandhögg hægrimanna í gömul vígi vinstrimanna hófst einmitt með Brexit. Þjóðhyggja, sú hugsun að staðbundið vald samfélags sem deilir sömu gildum og siðum, fékk staðfestingu i baráttunni gegn Kínaveirunni. Bretar náðu árangri en Evrópusambandið klúðraði. Jafnvel æðstu embættismenn í Brussel viðurkenna það.

Hægrimenn leiða endurreisn þjóðhyggju gegn alþjóðahyggju og sjálfhverfustjórnmálum vinstrimanna.

Millistéttin sér mótsögnina í málflutningi vinstrimanna, sem í einn stað boða alþjóðaríkið en í annan stað að sérhver einstaklingur sé eyland án samfélagslegrar ábyrgðar.

Brexit og farsóttin senda sömu skilaboð. Frelsi, velferð og mannréttindi eru aðeins tryggð í samfélagi með lögum og reglum. Það er þjóðhyggja og þar liggur framtíðin.


mbl.is Kutarnir á loft í Verkamannaflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldgosið og leyndarhyggjan

Fagradalsgosið losar á hverj­um degi 6.150 tonn af koltvísýringi, CO2, út í andrúmsloftið auk annarra gróðurhúsalofttegunda.

Samkvæmt Umhverfisstofnun losar Ísland innan við 5000 kílótonn af CO2-ígildum á ári.

Þegar Umhverfisstofnun talar um Ísland er átt við Íslendinga en ekki landið sjálft.

Fagradalsgosið er auðvitað hluti af Íslandi en það er ekki Íslendingur.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Jú, koltvísýringur er náttúruleg lofttegund. Hún verður fyrst og fremst til í náttúrunni en einnig af mannavöldum, t.d. þegar jarðefnaeldsneyti er brennt.

Þegar ný uppspretta koltvísýrings verður til, sbr. Fagradalsgosið, þarf að reikna það inn í samhengið við aðra losun.

En það er ekki gert. Bæði vísindamenn og meintir umhverfisverndarsinnar keppast við að þegja um áhrif eldgossins á CO2-losun Íslands og Íslendinga. 

Hvers vegna þessi leyndarhyggja? Líklegasta svarið er að allt reikniverkið er merkingarlaust. Hugmyndafræði klædd í búning vísinda.


mbl.is Eldfjallagas getur ógnað heilsu fólks á SV-horninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem ekki verður í skýrslu Gumma umhverfis

Guðmundur Ingi umhverfisráðherra lætur ,,vinna vís­inda­skýrsl­ur um áhrif lofts­lags­breyt­inga á nátt­úruf­ar og sam­fé­lag á Íslandi."

Í skýrslunni verður eflaust að finna svokallað ,,kolefnisspor" Jóns og Gunnu sem eiga fjölskyldubíl og skreppa annað veifið til útlanda. Tíundað verður hvílíkur háski það er að keyra bíl knúinn jarðefnaeldsneyti og kaupa sæti í flugvél.

Aftur verður ekki sagt frá kolefnisspori eldgossins í Fagradalshrauni. Náttúran er að verki í Geldingadölum og það er náttúran sem stjórnar loftslagi jarðar.

Skýrslur eins og Gummi umhverfis lætur gera eru sniðnar og hannaðar til að vekja ugg og ótta. Ekki til að upplýsa.


mbl.is Skipar nefnd um loftslagsbreytingaskýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn, krónan og veiran

Þingmaður Viðreisnar, Jón Steindór Valdimarsson, segir íslensku krónuna en ekki Kínaveiruna ábyrga fyrir efnahagssamdrætti síðustu missera. Með evru væru engin vandræði.

Jón Steindór sagði nýverið að ESB hefði bjargað okkur í bóluefnamálum. Jafnvel æðstu embættismenn í Brussel, t.d. Michel Barnier, viðurkenna að fullvalda þjóðir standa sig betur en Evrópusambandið í að bólusetja þegna sína.

Aðdáun Viðreisnar á ESB er þráhyggja, ekki pólitík.


mbl.is Segir íslensku krónuna hafa verið „blessun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og alþjóðahættan

Alþjóðleg nefnd, m.a. skipuð fyrrum forsætisráðherra Dana, kemst að þeirri niðurstöðu að Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti skuli ekki fá tækifæri til að tjá skoðanir sínar á Facebook.

Örfá alþjóðleg fyrirtæki ákveða í raun hverjir eigi aðgang að umræðu á félagsmiðlum.

Alþjóð stafar ekki hætta af Trump heldur valdi samfélagsmiðla til að ákveða réttar skoðanir og rangar.

 


mbl.is Eftirlitsnefnd Facebook staðfestir bann á Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svandís og sérhagsmunir dópista

Fíkniefnaneytendur vilja dópa sig í friði fyrir lögum og reglum. Svandís heilbrigðisráðherra vill koma til móts við eiturlyfjaneytendur og lögleiða fíkniefni.

Sérfræðingar í málaflokknum, læknar og lögregla, mæla eindregið gegn lögleiðingunni en ráðherra situr við sinn keip.

Sérhagsmunir fíkniefnaneytenda trompa álit sérfræðinga og almenna skynsemi. Verði af lögleiðingunni er ungu fólki á aldr­in­um 18 og 19 ára, sem í dag er óheim­ilt að hafi áfengi við hönd, heim­ilt að hafa í fór­um sín­um neyslu­skammta af fíkni­efn­um, eins og segir í fréttinni.

Hér er á ferðinni eitt skýrasta dæmi seinni tíma um að almannahagsmunum er fórnað fyrir sérhagsmuni fárra.

Alþingi verður að stöðva sérgæsku heilbrigðisráðherra sem hefur sagt skilið við dómgreind og heilbrigða skynsemi.

 


mbl.is Sammála sérfræðingum um áfengi en ekki fíkniefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband