Boris: Brexit, loftslag og Úkraína

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands riðar til falls. Hann fékk kjör sem formaður Íhaldsflokksins, og þar með forsætisráðherra, til að framfylgja úrsögn Bretlands úr ESB, Brexit, sem fyrirrennara hans, Theresu May, mistókst.

Valdamenn í lýðræðisríkjum halda völdum eða tapa ef þeir hafa á hreinu stóru pólitísku staðreyndirnar. Smærri atriðin eru hælbítar, gera mein aðeins ef menn eru haltir fyrir.

Stórum pólitískum staðreyndum má skipta í tvo flokka, umræðustaðreyndir og hráar staðreyndir.

Umræðustaðreyndir eru afleiðingar pólitískrar umræðu, s.s. að breskur þjóðarvilji stóð til að ganga úr ESB; íslenskur þjóðarvilji er að ganga ekki ESB á hönd. Finnskur og sænskur þjóðarvilji er að ganga í Nató. Eðli málsins samkvæmt geta umræðustaðreyndir breyst með litlum fyrirvara. Innrás Rússa í Úkraínu bjó til finnskan og sænskan þjóðarvilja að ganga í Nató. Umræðustaðreyndir eru almannavilji hverju sinni. Snjallir stjórnmálamenn eru læsir á vilja almennings.

Hráar staðreyndir eru, ólíkt umræðustaðreyndum, með fótfestu í veruleikanum óháð vilja, smekk eða óskhyggju.

Valdaferill Borisar komst á flug eftir að hann veðjaði á stóra pólitíska umræðustaðreynd, Brexit. Framkvæmum Brexit, Get Brexit done, var slagorðið.

Eftir valdatöku lagði Boris í tvær stöðutökur gagnvart stórum pólitískum staðreyndum, sem byggja á hráum staðreyndum (ekki óskhyggju, vilja eða smekk). Sú fyrri að loftslag jarðar sé manngert og hin seinni að Úkraína gæti sigrað Rússa.

Eins og menn með eitthvað á milli eyrnanna vita er stöðutaka Borisar kolröng. Veðurfar jarðar er náttúrulegt en ekki manngert. Úkraína getur ekki sigrað Rússa á vígvellinum.

Sá sem ekki kann skil á umræðustaðreyndum annars vegar og hins vegar hráum staðreyndum, og eðlismun þeirra, á ekki erindi til æðstu metorða. Veruleikinn afhjúpar slíka menn, sýnir þá úr tengslum við staðreyndir. Hælbítarnir eru óðara mættir og narta í haltrandi forystumann.

Í orði kveðnu er það partístand á tíma kófs og þuklandi þingmaður Íhaldsflokksins sem grafa undan forsætisráðherra Bretlands. En í grunninn er það dómgreindarbestur gagnvart stórum pólitískum staðreyndum er fellir Boris Johnson.

 


mbl.is Tveir breskir ráðherrar sögðu af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestrænt gjaldþrot Úkraínu

Úkraína getur ekki orðið ESB-ríki í bráð. Landið er of spillt, uppfyllir ekki lágmarkskröfur Evrópusambandsins um lýðræðislegt stjórnarfar og ábyrgt ríkisvald. Allir stjórnmálaflokkar eru bannaðir í landinu, utan valdaflokksins. 

Í viðtengdri frétt segir

„Þetta er sam­eig­in­legt verk­efni alls lýðræðis­heims­ins,“ sagði hann [Selenskí forseti] og benti á að „end­ur­reisn Úkraínu væri stærsta fram­lag til stuðnings alþjóðlegs friðar“.

Meintur ,,lýðræðisheimur", a.m.k. sá hluti hans með heimilisfestu í Brussel, segir blákalt að Úkraína sé of spillt til að komast í félagsskapinn. Meint vestræn gildi, sem Selenskí segist berjast fyrir, er herská landvinningastefna, sú sama og galt afhroð í Írak, Sýrlandi, Líbýu og Afganistan - þar áður í Víetnam.

Æ betur kemur á daginn að vestrænt lýðræði er háð stað og stund. Vestræn lýðræðismenning varð fullþroska eftir miðja síðustu öld á vesturlöndum eftir sigur á tvennum öfgum, nasisma og kommúnisma. Frá og með lokum kalda stríðsins gætir innanmeina annars vegar og hins vegar vaxandi andstyggðar annarra menningarsvæða á vestrænum hroka. Hnignuninni fylgja örvæntingarfullar tilraunir að rétta vestrænan hlut með hernaði á framandi slóðum. 

Sigur Úkraínu yfir Rússlandi er óhugsandi án aðildar Nató-hermanna, sem fæli í sér kjarnorkuvopnastríð. ,,Alþjóðlegur friður" með þriðju heimsstyrjöld er slagorð sem minnir á ítalska fasista á fyrri hluta síðustu aldar: lifi dauðinn.

Vesturlönd standa ein að stríðinu í Úkraínu. Ríki Suður-Ameríku, Afríku og Asíu (mínus Japan) þvo hendur sínar af útþenslu Nató og ESB. Þeim gest ekki að einpóla heimi Bandaríkjanna.

Ekkert magn vopna vesturlanda bjargar Úkraínu. Verulega gengur á herinn. Reynslumestu sveitirnar eru orðnar liðfáar. Óreyndir hermenn, oft unglingar og gamlingjar, gera sig ekki á vígvellinum andspænis atvinnuher. Almenna reglan í hernaði er að nýliðar endast skemur en þjálfaðir hermenn. Fleiri nýliðar þýðir hærra mannfall. Baráttuvilji helst í hendur við sigurvon og kunnáttu í hermennsku. 

Vestrænir fjölmiðlar setja úkraínskar fréttir neðanmáls síðustu daga og vikur. Þegar ekkert er að hafa nema frásagnir af rússneskum sigrum skammast sín vestrænir miðlar. Þeir voru jú búnir að lofa úkraínskum sigri í nafni lýðræðis.

Vesturveldin vita að leikurinn er tapaður. Markmiðið verður að lágmarka skaðann. Úkraínu munu bjóðast loforð sem verða illa eða alls ekki efnd. Þannig fer þegar þjóðríki gera sig að verkfæri herskárra afla sem tala um lýðræði en eiga það eitt erindi að valdefla sérgæsku.

 

 

 


mbl.is Kosti 100 billjónir að endurbyggja Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýnun: 0,06 gráður á 40 árum

Meðalhiti lofthjúps jarðar var 0,06 C hærri í nýliðnum júní en nemur meðalhita lofthjúpsins frá 1979, eða í rúm 40 ár.

Hækkun meðalhita á áratug á þessum tíma nemur um rúmlega 0,1 gráðu. Það þýðir að á einni öld hækkar meðalhiti lofthjúpsins um 1 gráðu á Celcíus.

Upplýsingarnar eru á heimasíðu loftslagsvísindamannsins Roy Spencer sem heldur tölfræði yfir breytingar á hitastigi lofthjúpsins.

Mæling á hitastigi lofthjúpsins gefur nákvæmari upplýsingar en mælingar stöðva á jörðu niðri, þar sem ýmislegt hefur áhrif á niðurstöðuna s.s. byggingar og sértækar staðbundnar aðstæður.

Punkturinn er þessi: hækkun á meðalhita jarðar um eina gráðu á einni öld er engin hamfarahlýnun heldur eðlileg náttúruleg þróun.

Jarðsagan geymir upplýsingar um til muna öfgafyllri hitabreytingar en eina á gráðu á öld:

Rannsóknir á borkjörnum úr Grænlandsjökli sýna að veðurfar hefur verið mjög óstöðugt á síðasta jökulskeiði, sem hófst fyrir um 115 þúsund árum og lauk fyrir 11,7 þúsund árum. Á þessu tímabili hlýnaði 25 sinnum mjög snögglega, um 10-15°C í hvert sinn og síðan kólnaði aftur en mun hægar. [...] Mjög athyglisvert er að breytingin frá síðasta jökulskeiði yfir í tiltölulega milt veðurfar, sem markaði upphaf okkar eigin hlýskeiðs (nútíma) fyrir um 11,7 þúsund árum, gerðist á ótrúlega skömmum tíma, eða einungis 3-50 árum, eftir því hvaða breyta er skoðuð. (Undirstrik. pv)

Náttúrulegar sveiflur eru á hitastigi jarðar og hafa verið frá ómunatíð. Harðar staðreyndir um hitastig jarðar, og breytingar s.l. áratugi, staðfesta að náttúran en ekki maðurinn stjórnar hitastiginu.

 


Úkraína tálgar fylgið af Vinstri grænum

Úkraína er verkfæri Nató og ESB að herja á Rússland. Bandaríkin, Bretland og ESB-ríkin fjármagna Úkraínu og skaffa vopn. Úkraína berst gegn ofureflinu eins lengi og vestrið krefst þess. Blóðþorstinn verður minni eftir því sem verr gengur á vígvellinum og stríðið heggur í velmegun vesturlandabúa.  

Margir stuðningsmenn Vinstri grænna eru ekki allof hrifnir af úkraínskum málstað og hernaðarbrölti vestursins þar eystra. En ríkisstjórn Katrínar Jakobs var nánast nauðbeygð að fylgja hagsmunum Nató og ESB á vígvellinum í Garðaríki. Nær öll þjóðríki í Vestur-Evrópu voru knúin til samstöðu, líkt og gagnvart Írak 2003.

Vinstri grænum fer ekki vel að dansa eftir tónfalli hernaðar og vígaferla. Flokkurinn er í grunninn friðarsinnaður.

Úkraínustríðinu lýkur, varla seinna en í haust. Rússar ná meginkröfu sinni, að Úkraína verði ekki Nató-ríki og að auki formleg yfirráð yfir austurhluta landsins. Afgangurinn af Garðaríki verður bæklað land, á framfæri vesturlanda en að einhverju marki undir forræði Rússa. Stríð ýmist búa til ný ríki eða tortíma þeim sem fyrir voru. Úkraína er í seinni flokknum.

Vestrið stendur frammi fyrir tveim kostum þegar vopnin þagna. Í fyrsta lagi að halda í herskáa stefnu og gera Rússa að höfuðóvini. Í öðru lagi að bæta fyrir mistökin 2008-2022 og friðmælast. Þau friðmæli fælu í sér viðurkenningu á öryggishagsmunum Rússlands. Fyrir vestrið er það erfiður biti að kyngja. Ósigurinn á sléttum Garðaríkis markar endalok landvinninga sem hófust við lok kalda stríðsins og stefndu að vestrænum heimsyfirráðum.

Meiri líkur en minni eru að seinni kosturinn verði tekinn. Þrátt fyrir tal um herskáa samstöðu Nató-ríkja er ekki að sjá að almenningur, hvorki í Bandaríkjunum né Evrópu, líti á Rússland sem viðlíka ógn og Sovétríkin voru á dögum kalda stríðsins. Rússagrýlan er frekjuleg ,,woke-frásögn" pólitískra barna sem halda sig hafa andlega yfirburði en kunna samt ekki skil á grunnstaðreyndum lífsins, t.d. að kynin eru tvö en ekki þrjú, fimm eða seytján.

Rússland er ekki með pólitískt kapítal, kommúnisma, eins og gamla sovétið. Svokallaðir ,,pútínistar" á vesturlöndum eru upp til hópa raunsæismenn en ekki handhafar sannleikans líkt og kommúnistar á síðustu öld. Hernaðarmáttur Rússa er töluverður en hann er þó ekki meiri en svo að eiga fullt í fangi að brjóta á bak aftur Úkraínuher.

Til landvinninga, sem einhverju nemur, þarf þrennt. Sigurvissa hugmyndafræði, hernaðarmátt og djúpa vasa í efnahagslegu tilliti. Vesturlönd höfðu tvennt í Írak og Afganistan, þ.e. hernaðarmátt og djúpa vasa, en töpuðu samt. Alþjóðahyggja er pólitískt rusl utan vestrænna landamæra. Rússar eru aðeins með vísi að hernaðarmætti, en enga hugmyndafræði til útflutnings og efnahagurinn er knappur. Þeir sem halda að Pútin hafi augastað á frekari útþenslu í vestur eru fangar kaldastríðshugsunar.

Gangi það eftir, að átökum á sléttum Garðaríkis linni, og samskiptin við Rússland normalíserist, geta Vinstri grænir orðið á ný flokkur friðarsinna - en innan Nató, auðvitað. Friður verður ekki án agavalds.  

Þangað til eru Vinstri grænir eins og vinstrið almennt. Sjálfum sér sundurþykkir og veikburða og lifa á pólitískum höfuðstól hægrimanna.


mbl.is Flokkur forsætisráðherra með 7,2% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin kona: ekkert jafnrétti kynjanna

Ríkisvaldið býr ekki að skilgreiningu á konu, segir Katrín forsætis í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs.

Ha?

Er ekki svo að í mörg, mörg ár er talað um jafnrétti kynjanna? Margvíslegar aðgerðir stjórnvalda á liðnum árum miða við að rétta hlut kvenna; lög eru sett, peningum úthlutað, nefndir skipaðar og stofnanir settar á laggirnar. Allt í nafni kynjajafnréttis.

En svo veit ríkið ekki hvað kona er. Öll umræðan um jafnrétti kynjanna var byggð á vanþekkingu, tíma og fjármunum var eytt til einskis. Til hvers að berjast fyrir einhverju sem ekki er vitað hvað er?

Strax á mánudag hlýtur Katrín forsætis að gefa út yfirlýsinu um að öll jafnréttisbarátta kvenna síðustu ára og áratuga sá einn allsherjar misskilningur.

Því við vitum ekki hvað er kona. Væntanlega ekki heldur hvaða fyrirbæri kallast karl.

Afmenntun, að ekki sé sagt afmennskun, tekur á sig furðulegustu myndir.


Baldur og sykur-pabba kenningin

Smærri þjóðríki eiga að leita sér skjóls hjá stórveldum. Þetta er kenning Baldurs Þórhallssonar prófessors í HÍ. Kenninguna smíðaði Baldur til að rökstyðja aðild Íslands að ESB. Smáríkjastofnun HÍ, sem Baldur setti á laggirnar, fær peninga frá Evrópusambandinu fyrir boðskapinn.

En þegar kemur að Úkraínu gildir sykur-pabba kenning Baldurs ekki. Þá heitir það ,,að leyfa ríkj­um að ákveða sjálf, í krafti full­veld­is síns, hvernig þau vildu haga sinni ut­an­rík­is­stefnu..." Kenningarleg nauðsyn verður frjálst val á augabragði.

Samkvæmt kenningu Baldurs ætti Pútín að vera sykur-pabbi Selenskí, rétt eins og Ísland ætti að vera hjálenda ESB. Baldur er ekki fræðimaður heldur aðgerðarsinni sem teygir og togar kenningar eftir hvernig vindurinn blæs hverju sinni. 

Baldur beyglar og afflytur staðreyndir í þágu málstaðarins. Hann segir: ,,Pútín hef­ur í raun haft neit­un­ar­vald um inn­göngu þeirra í NATO. Úkraína er ekk­ert á leið í NATO og hef­ur ekki verið það síðan 2008.“

Allir sem fylgjast með alþjóðamálum vita að Nató hefur frá 2014 þjálfað og vopnað úkraínska herinn og samhæft hann Nató-stöðlum. Úkraína var á fullri ferð að verða Nató-ríki, vantaði aðeins stimpil frá Brussel. Alvöru stjórnmálafræðingar, John Mearsheimer til dæmis, hafa vakið athygli á þessari staðreynd. Baldur stingur höfðinu í sandinn að hætti aðgerðasinna sem rekast á staðreyndir er henta ekki málstaðnum.

Ástæða stríðsins í Úkraínu er að ráðamenn í Kænugarði gerðust málaliðar Nató og ESB gegn Rússlandi. Í staðinn kæmi sú umbun að fá aðild að Brusselklúbbunum tveim. 

Rússar létu um og eftir aldamótin það yfir sig ganga að Nató stækkaði í austur, þrátt fyrir vilyrði, ef ekki loforð, um að það yrði ekki gert þegar Rússar samþykktu sameiningu Þýskalands eftir fall Berlínarmúrsins.

Nató gekk á lagið og innbyrti gömul Varsjárbandalagsríki og setti upp herstöðvar á vesturlandamærum Rússlands. Nató er hvorki skátafélag né saumaklúbbur heldur hernaðarbandalag. Rússum fannst sér ógnað, lái þeim hver sem vill, og sögðu hingað og ekki lengra þegar Nató lýsti því yfir á fundi í Búkarest 2008 að næst yrðu Úkraína og Georgía tekin inn í bandalagið.

Síðsumars 2008 réðust Rússar inn í Georgíu, sem ekki verður Nató-ríki í bráð. Þá var eftir Úkraína sem bjó við óstöðugt stjórnarfar og talið spilltasta ríki Evrópu og þó víðar væri leitað. Stjórnarbylting 2014, studd af Bandaríkjunum og ESB, steypti af stóli forseta vinveittum Rússlandi. Í framhaldi tóku Rússar Krímskaga og studdu uppreisnaröfl í Donbass.

Friðarsamningar milli Rússlands og Úkraínu, Minsk I og II, voru gerðir 2015 en ekki uppfylltir. Úkraínuher fær fjármagn, þjálfun og stuðning frá Nató allar götur síðan. 

Aðdragandi Úkraínustríðsins er að Rússum fannst sér ógnað af Nató. Fullvalda ríki skilgreina sjálf öryggishagsmuni sína þótt Baldur geri því skóna að vesturlönd ein eigi þann rétt. Einu sinni hét það heimsvaldastefna, núna alþjóðahyggja. Frá og með 24. febrúar tala vopnin.

Ráðandi frásögn vestrænna fjölmiðla er raðlygi að Úkraínuher gjörsigri Rússa, sem kunni varla að halda á vopnum og sé stjórnað af fjöldamorðingjum. Staðreyndir á vígvellinum segja aðra sögu. Mun liðfærri, með um 150 - 200 þús. hermenn, sigra Rússar hægt en örugglega um 500 þús. manna her Úkraínu.

Heiðarlegir fræðimenn, t.d. Martin van Creveld, viðurkenna villur síns vegar. Baldur rígheldur í blekkinguna og falsar söguna til samræmis við sniðmát alþjóðahyggjunnar.

 

 


mbl.is Rússnesk lygi sem menn á Vesturlöndum falli fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttablaðið hafnar sjálfstæðri rödd

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifaði leiðara sem gerðu Fréttablaðið lestursins virði. Kolbrún er gamalreynd í faginu og fyrir lifandi löngu orðin sjálfstæð rödd er lét sér fátt um finnast þjónkun við óformlegt bandalag sem mestu ræður í umræðunni.

Ekki svo að skilja að tilfallandi höfundur hafi jafnan verið sammála Kolbrúnu. Lýðræðisleg umræða er, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki spurning um að vera sammála þessu sjónarmiði eða hinu. Heldur hitt að sem flestar skoðanir fái að heyrast. Umræðan sjálf tálgar og skerpir hugmyndir og skoðanir sem eiga erindi.

Í skrúðgarði skoðana sáði Kolbrún fræjum sem festu rætur. Sjálfstæð hugsun og launfyndinn texti er aðall Kolbrúnar.

Uppsögnin á Fréttablaðinu gefur til kynna að heldur þrengist um þá er byrja ekki daginn á spurningunni: hvernig get ég þóknast? 

Vonandi finnur Kolbrún sér hentugan vettvang að segja sína skoðun. Þögnin er afleitur kostur fyrir sjálfstæða hugsun. 

 


mbl.is Kolbrúnu sagt upp hjá Fréttablaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauðhetta var ekki fjárkúgari

Saga Vítalíu Lasarevu er samtímaútgáfa sögunnar af Rauðhettu sem rataði í gin úlfsins. Vítalía fór í sveitina, líkt og stúlkan í ævintýrinu. Þar beið hennar ekki úlfur heldur þrír hvítir miðaldra karlar með mannaforráð, loðnir um lófana og til í tuskið.

Í sumarbústaðnum í sveitinni fór eitthvað fram sem var nógu ósiðlegt til að karlarnir þrír ,,stigu til hliðar", eins og sagt er á kurteisan hátt, eftir að Vítalía varð á augabragði þjóðkunn fyrir ásakanir sínar.

Fjölmiðlar kveiktu óðara galdrabál og fuðruðu upp þrenn mannorð (raunar fern, en það er hliðarsaga). Femínistar notuðu frásögnina til að kynda undir fordómum um að allir karlar séu inn við beinið nauðgarar.

Þáverandi kærasti Vítalíu var með í för og hefur staðfest að frásögn hennar sé í meginatriðum rétt. Ekki hefur komið fram hvað kærastinn aðhafðist á meðan karlarnir þrír misbuðu stúlkunni. Fálkaorðan fyrir riddaramennsku verður ekki í bráð næld á brjóst Arnars Grant.

Endurskoðuð saga af sumarbústaðaferð Vitalíu og Arnars í október 2020 er að skötuhjúin hafi átt það erindi að flá feita gelti. Höfundar endurskoðuðu útgáfunnar eru Þórður Már Jóhannesson, Ari Edwald og Hreggviður Jónsson sem Vitalía sakar um misgjörð við sig. Þremenningarnir kæra Vitalíu og Arnar fyrir fjárkúgun.

Framtakssemi af þessu tagi er ekki ný af nálinni. Tvær stúlkur hirtu nokkrar millur af knattspyrnumanni fyrir nokkru með hótunum að væna hann um alvarlegt brot. Þær guldu Stígamótum tíund. Hákirkjan fær sitt fyrir erja akurinn og búa í haginn fyrir fjárkúgara.

Rauðhetta er ekki lengur lítil saklaus stúlka heldur kynferðisleg tálbeita, samkvæmt endurskoðuðu útgáfunni. Í ljósi afsagna þremenninganna gleyptu þeir agnið. Úlfarnir stigu ekki ,,til hliðar" fyrir þær sakir að þeir horfðu á Rauðhettu og stunduðu hugrenningasyndir. Eitthvað meira gekk á. Loðnir um lófana eru þeir kannski en kunna síður að halda að sér höndunum.

Réttlætið sem Vitalía krafðist þegar hún kynnti alþjóð raunir sínar virtist þetta hefðbundna í anda Stígamóta og metoo. Opniber smánun gerenda og samfélagsleg útilokun. En ef  fiskur undir steini er sá að 150 milljónir krónu áttu að skipta um hendur verður málið allt annars eðlis. Andstæðurnar eru ekki lengur sekt og sakleysi heldur siðleysi og ósvífni - að ekki sé talað um lögbrot. Gott efni í skáldsögu en lélegt fjölmiðlaefni þar sem hlutirnir þurfa að vera annað tveggja svartir eða hvítir til að blaðamenn skilji.  

Rauðhetta fékk uppreist æru fyrir heimsku sína, að halda úlf ömmu, og var frelsuð heil og óspjölluð úr kviði dýrsins sem fékk makleg málagjöld og drukknaði í brunni. En Rauðhetta, sum sé, var ekki fjárkúgari.

Ævintýrin í sveitinni enda ekki öll vel.

 


mbl.is Engin kæra frá Vítalíu í Löke
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýkristni, fóstureyðingar: tilgáta um heift

Fóstureyðingar eru pólitískt hitamál í Bandaríkjunum af trúarlegum ástæðum öðrum fremur. Guðs útvalda þjóð á rætur í púrítisma sem tekur mannhelgi alvarlega. Hæstiréttur sneri við úrskurði um rétt kvenna til fóstureyðinga frá 1973, sem var tími hippa, frjálsra ásta, eiturlyfja og andófs gegn feðraveldinu.

Bann við fóstureyðingum er kristin hugmynd. Rómverjar höfðu sérstaka öskuhauga fyrir óæskilega nýbura. Í íslenskri heiðni tíðkaðist útburður barna. Eftir kristnitöku lagðist sá siður af.

Kristin mannhelgi er undirstaða vestrænnar stjórnmálamenningar. Í deilunni um fóstureyðingar takast á um rétt konu yfir líkama sínum annars vegar og hins vegar rétt fósturs til lífs.

Eftir seinna stríð dofnuðu kristin gildi samtímis sem veraldleg mannréttindi fengu meira vægi. Veraldleg mannréttindi hvíla á lagabókstafnum einum saman, eru aðskilin frá trúarkenningunni. Mannasetningum má breyta, það leiðir af sjálfu sér. Réttindi sem styðjast við trú, t.d. kristin mannhelgi, eru aftur með innbyggðri seiglu og verður ekki auðveldlega kastað fyrir róða.

Úrskurður hæstaréttar vestan hafs snýst formlega um að fylkin sem mynda Bandaríkin ákveði sjálf staðbundin lög um fóstureyðingar. Í reynd er opnuð ný víglína í menningarstríði íhaldsmanna og frjálslyndra vinstrimanna.

Þótt bandaríska menningarstríðið hafi áhrif á Evrópu, það sást t.d. í Black Lives Matter, er harla ólíklegt að umræða um rétt kvenna þar vestra til fóstureyðinga skipti sem slík meginmáli í Evrópu. Engu að síður lögðust menn í gamla heiminum á árarnar og reru undir orðræðunni. Jafnvel á friðsæla Fróni kastast í kekki milli manna.

Nýkristni er pólitísk hugmyndafræði sem fléttar saman púrítanisma, félagslegri og efnahagslegri íhaldssemi, einstaklings- og þjóðhyggju. Í Bandaríkjunum eru menn kjörnir forsetar út á þessa hugmyndafræði, yngstu dæmin eru Reagan 1980 og Trump 2016.

Ákefð Evrópumanna að taka þátt í bandarísku umræðunni um fóstureyðingar stafar líklega af þeim grun að úrslit deilunnar hafi stórpólitísk áhrif á vesturlöndum almennt og langt út fyrir deiluefnið sjálft.

Tilfallandi spurn er hvort trúarlegir tímar séu á næsta leiti.   


mbl.is Sviptingar í bandarísku réttarkerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra-vestrið tapar vinum og áhrifum

G7 löndin, stóra-vestrið, eru Norður-Ameríka, 4 stærstu ríkin í Vestur-Evrópu og Japan. Íbúafjöldi er samtals 771 milljón. Viku fyrir G7 fundinn, hittust leiðtogar BRICS-ríkjanna á fjarfundi. Ásamt Indónesíu og Argentínu, væntanleg aðildarríki, telja BRICS-ríkin 3 milljarða íbúa. Hlutföllin eru 1 á móti 4.

BRICS er andvestræna alþjóðabandalagið skrifar þýska borgaralega útgáfan Die Welt. Höfundur greinarinnar, Stefan Aust, er stórt nafn í þýskri blaðamennsku. Ekki fréttabarn, sem sagt.

BRICS-ríkin eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka. Stór lönd í fjórum heimsálfum. Þau styðja öll Rússa í staðgenglastríðinu við stóra-vestrið í Úkraínu. 

Heimspólitísk umskipti standa fyrir dyrum, segir fjármálavesírinn Ray Dalio. Alþjóðakerfið sem Bandaríkin settu upp eftir seinna stríð er komið að fótum fram. Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hæðist að aldamótakenningu Fukuyama um sigur stóra-vestursins með endalokum sögunnar.

Kenningin um að heimsbyggðin yrði vestræn hvíldi á þeirri forsendu að frjálslynda vinstrið í bandalagi við nýfrjálshyggju kynni uppskriftina að menningarverðmætum annars vegar og hins vegar sjálfbærri fjársýslu.

Árangurinn er sá að vestræn menning veit ekki hvort kynin séu þrjú, fimm eða seytján. (Nýjasta talan er 150). Vestrænt fjármálavit er búið að kokka upp verðbólgu sem hefur ekki sést í Evrópu frá dögum Weimar-lýðveldisins. Miðjan hrynur á vesturlöndum, nýjasta dæmið er þingkosningarnar í Frakklandi þar sem flokkar yst til hægri og vinstri eru í stórsókn.

Við vitum hverjum klukkan glymur þegar forsætisráðherra Íslands er orðin stórstjarna í menningarstríðinu vestan hafs. Katrín tók sér málhvíld frá transumræðunni hér heima og sló í gegn með ummælum um rétt bandarískra kvenna til fóstureyðinga. Kvenréttindi eru aftur ósamrýmanleg transréttindum. Í transheimi getur karl verið kona þótt engu móðurlífi sé til að dreifa.   

Menning sem ekki kann skil á einföldustu atriðum mannlífsins er ekki upp á marga fiska. Stóra-vestrið gerir heimsbyggðinni tilboð sem auðvelt er að hafna. BRICS-ríkin eflast en G7-ríkin veikjast.   


mbl.is Biden setur tóninn fyrir G7-ráðstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband