Blóðþyrstir fræðimenn, takmörk kennivalds

Nokkrir blóðþyrstir fræðimenn vestrænir krefjast sigurs á vígvellinum yfir Rússum. Pútín er af sama sauðahúsi og Hitler, segja þeir, ekkert nema hrátt ofbeldið stöðvar hann.

Yfirlýsing fræðimannanna er birt í góðborgaralegri þýskri útgáfu, Die Welt, sem andsvar við ákalli annarra fræði- og listamanna um vopnahlé í Úkraínu og birtist í Die Zeit.

Fræðimenn hafa kennivald, sem kallað er, mismikið eftir efnunum og ástæðum. Kennivald býr í menningunni, er einkum miðlað með orðum . Hervald, á hinn bóginn, er hrátt ofbeldi og lætur sig menningu engu skipta; tjáir sig með dauða og tortímingu.

Í kalda stríðinu, 1945-1991, háðu tvenn hugmyndakerfi baráttu um kennivaldið, með ákveðnum greini, á heimsvísu. Borgaralegur kapítalismi annars vegar og hins vegar sósíalismi/kommúnismi. Borgaralegur kapítalismi sigraði með falli Sovétríkjanna.

Vestrænt kennivald freistaði þess, eftir sigurinn í kalda stríðinu, að móta heiminn í sinni mynd, fyrst Austur-Evrópu. Í alþjóðastjórnmálum er hugtakið mjúkt vald (soft power) notað um kennivald þegar það er blandað efnahagshagsmunum.

Með þessari blöndu sigruðu vesturlönd Austur-Evrópu sem allt kalda stríðið var áhrifasvæði Sovétríkjanna/Rússlands. Varsjárbandalagið var lagt niður en Nató óx og dafnaði. 

Ráðandi vestræn ríki, Bandaríkin, Þýskaland og Frakkland, lögðu mjúklega undir sig Pólland, Eystrasaltslöndin, Ungverjaland, Rúmeníu og Búlgaríu. Ríki Balkanskaga komu í humátt á eftir, þegar þau höfðu jafnað sig á Júgóslavíustríðunum. Með vestrænu forræði komu stofnanir, ESB og Nató, er mótuðu ramma og regluverk kennivaldsins.

Rússland stóð eftir, utan vestræns kennivalds og gekk ekki vestrænum stofnunum á hönd. Tilgátur og túlkanir eru um hvers vegna sú varð raunin, en látum þær liggja á milli hluta.

Gömul lýðveldi Sovétríkjanna, t.d. Úkraína og Georgía, höfðu, ekki frekar en Rússland, gengist undir vestrænt kennivald þegar Pútín forseta Rússlands var boðið 2007 að ávarpa öryggisráðstefnuna í Munchen, Þýskalandi. Þar afþakkaði forsetinn pólitíska leiðsögn vesturlanda, sem hann kenndi við einpóla heim er fengi ekki staðist til lengdar. Pútín bauð upp á samtal í anda jafnræðis, þar sem undir væru öryggishagsmunir, afvopnun, efnahagsmál og pólitískur stöðugleiki.

Vestræna kennivaldið lét andmæli forseta Rússlands sem vind um eyru þjóta. Á Nató-fundi í Búkarest, Rúmeníu, nokkrum mánuðum eftir ávarp Pútín í Munchen var bæði Georgíu og Úkraínu boðin aðild að Nató. Rússar brugðust hart við, réðust inn í Georgíu sumarið 2008 og höfðu betur á nokkrum dögum frekar en vikum.

Tapað Georgíustríð hamlaði ekki framrás vestræna kennivaldsins. Stjórnarbyltingin í Úkraínu 2014, hertaka Rússa á Krímskaga og stuðningur við uppreisn í Donbass ekki heldur.

Vestræna kennivaldið steytti á skeri 24. febrúar í ár þegar Rússar hófu hernað eftir að hafa verið sniðgengnir um samtal í 15 ár - frá öryggisráðstefnunni í Munchen að telja.

Vestrænu blóðþyrstu fræðimennirnir sem krefjast sigurs á vígvellinum yfir Rússum viðurkenna, óbeint að vísu, sannleika í alþjóðsamskiptum allt frá dögum Forn-Grikkja. Kennivald getur aðeins sannfært hlustir sem vilja heyra. Sannfæringarmáttur kennivalds án vopna er takmarkaður. 

Vesturlönd höfnuðu samtali 2007-2022. Það stóð alltf til að láta sverfa til stáls. Nató byggði upp úkraínuher frá 2014, eftir stjórnarbyltinguna sem var gerð með vestrænum stuðningi.

Úkraínu er fórnað fyrir framgang vestræns kennivalds. Blóðþyrstu kennimennirnir vilja berjast til síðasta Úkraínumannsins. Að hætti heimsendaspámanna boða þeir ragnarök falli Úkraína. Næst á rússneskum matseðli séu Eystrasaltsríkin og Pólland.

Svo eru til fræðimenn, sem ekki líta á sig sem boðbera fagnaðarerindis. Einn þeirra er sagnfræðingurinn Christopher Clark, höfundur Svefngengla, sem útskýrir á sannfærandi hátt ástæður fyrra stríðs. ,,Pútín er ekki Hitler," segir sagnfræðingurinn og hvetur til yfirvegunar, samtals.

Á sléttum Garðaríkis er háð staðgenglastríð. Vestrið fórnar slavnesku blóði fyrir kennivald sem fær ekki áheyrn í austrinu. Kennivaldið hafði alltaf á bakvið sig Nató, sem hvorki er skátafélag né saumaklúbbur, heldur hernaðarbandalag.  

 

 


Sósíalismi, landsbyggðin og Vísir hf.

Fyrir átta árum, 2014, hætti Vísir hf. fisk­vinnslu á Húsa­vík, Þing­eyri og Djúpa­vogi. Starfsemin var flutt til Grindavíkur.

Fréttaknippa mbl.is sýnir töluverða umræðu fyrir átta árum. Einkum höfðu menn áhyggjur af byggðaröskun fámennra sjávarbyggða. Öflugum fyrirtækjum á landsbyggðinni hefur fækkað og það dregur máttinn úr plássunum.

Núna, árið 2022, kaupir Síldarvinnslan í Neskaupstað Vísi. Síldarvinnslan var einu sinni útgerð austfirskra sósíalista. Samvinnufélag útgerðamanna stofnaði fyrirtækið 1957 með aðild bæjarfélagsins, sem kallað var Litla Moskva.

Útgerðin var stofnuð sem almenningshlutafélag til að efla rekstur í heimabyggð. Í dag er Síldarvinnslan eina hlutafélagið í Kauphöllinni með höfuðstöðvar á landsbyggðinni.

Hér áður, þegar sósíalistar stóðu vaktina með launafólki, hefðu þeir eflaust fagnað eflingu Síldarvinnslunnar, ekki síst landsbyggðasósíalistar. 

Arftakar sósíalista kallast í dag vinstrimenn. Þeir sjá ofsjónum yfir fáeinum krónum er rata í buddu tveggja grunn- og leikskólakennara í Grindavík og systkina þeirra, afrakstur vinnu tveggja kynslóða í útgerð og vinnslu.

Vinstrimenn samtímans gleyma tveim aðalatriðum. Það er hægt að komast í álnir á Íslandi, með vinnu og eljusemi, annars vegar og hins vegar að landsbyggðin þarf á öllu sínu að halda andspænis valdasamþjöppun á SV-horninu.

Vinstrimenn skilja hvorki atvinnustarfsemi né uppsprettu velmegunar. Dæmigerður vinstrimaður situr á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur og pælir í hvernig best sé að eyða skattfé vinnandi fólks. 


mbl.is Kaupin á Vísi hluti af nauðsynlegum breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýskir fjölmiðlar: Úkraína tapar, er spillt

Þýski sagnfræðingurinn Michael Wolffsohn segir Úkraínu hafa tapað stríðinu við Rússa og fær uppslátt hjá borgaralegu útgáfunni Die Welt. Wolffsohn ráðleggur skæruhernað. Þýski herforinginn Erich Vad kemur fram á ntv-sjónarvarpsstöðinni með sama boðskap, en segir skæruliðastríð óráðlegt.

Til að bæta gráu ofan á svart segir Die Welt frá safaríkri spillingarsögu, í gegnum fréttaritara í Moskvu. Úkrínskir hermenn eiga að hafa selt háþróað bandarískt eldflaugakerfi, HIMARS, til Rússa fyrir 800 þús. dollara. Frásögnin er höfð eftir rússneskum bloggara með 2,2 milljónir lesenda.

Engin staðfesting er á frásögninni. Hvort heldur sem er, að fréttin sé rétt eða uppspuni, er stórhættulegt fyrir úkraínsk stjórnvöld að ráðsettir fjölmiðlar gefi gaum frásögninni. Fyrir eru komnar á flot spillingarfrásagnir í Bandaríkjunum. 

Vilji vesturlanda til að styðja Úkraínu er í réttu hlutfalli við trúverðugleika stjórnarinnar í Kænugarði. Ef sú mynd festist í sessi að spilling ráði ríkjum í höfuðborg Garðaríkis dregur það stórlega úr örlæti vesturlanda á vopn og fjármuni. Úkraína lifir á vestrænum stuðningi.

Til að bjarga andlitinu boða stjórnvöld í Kænugarði stórsókn á suðurvígstöðvunum með herafla úr milljón manna herliði, safnað með herkvaðningu. Hluti herliðsins er konur í hælaskóm.

Verði af stórsókninni í suðri, og land vinnst af Rússum, gæti það aukið tiltrú á getu stjórnarhersins.

Fréttir af vígvellinum eru misvísandi. Greinandi hlynntur Úkraínu segir lítið að frétta af bardögum, víglínan sé meira og minna stöðug síðustu daga. Stríðslýsandi hallur undir Rússa segir frá landvinningum Rússa síðasta sólarhring og boðar hratt undanhald Úkraínuhers. Báðir eru mæltir á tungu stríðsaðilja og byggja á margvíslegum heimilum, bæði opinberum og einstaklingum, sumum nærri eða jafnvel á vígvellinum.

Austurrískur herforingi gerir annað slagið úttekt á stöðu mála. Síðasta greiningin, nokkurra daga gömul, segir Rússa hafa yfirtölu í bardagasveitum þrátt fyrir að herlið Úkraínu sé fjölmennara.

Óljósar fréttir af vígstöðunni eru lognið á undan storminum. Ef næsta fréttahrina verður Úkraínu óhagstæð lýkur stríðinu í haust með algerum ósigri Úkraínu. Aftur nái Úkraína að kreista fram betri vígstöðu, þó ekki sé nema á hluta víglínunnar, gætu átökin dregist fram undir vetur. Selenskí forseti sagði í 27. júni að stríðinu yrði að ljúka fyrir árslok. Spurningin er hvernig.


Evran sekkur, dollar og króna rísa

Lækkandi gengi evru skýrist einkum af tvennu. Í fyrsta lagi gat evrópski seðlabankinn ekki hækkað vexti í tíma þegar verðbólga fór á skrið. Efnahagsástand evru-svæðisins stóð veikt, ekki síst vegna ríkisskulda aðildarríkja. Bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti fyrr.

Í öðru lagi bitnar Úkraínustríðið harðar á meginlandi Evrópu en öðrum heimshlutum. Meiri óvissa um efnahagshorfur leiðir til minni tiltrúar á gjaldmiðlinum. 

Lækkandi gengi evru kyndir undir verðbólgunni, einkum á orku- og hrávörumarkaði þar sem keypt og selt er með dollar.

Íslenska krónan styrkist ásamt dollar.

Má ekki búast við að talsmenn Viðreisnar og Samfylkingar biðjist afsökunar á þeirri firru að upptaka evru þjóni íslenskum hagsmunum?


Chomsky-Foucault, nývinstrið og 2 valkostir

Frumvinstrið má kenna við Karl Marx og lærisveina hans, t.d. Lenín. Frumvinstrið á Íslandi er fóstrað af mönnum eins og Einari Olgeirssyni og Brynjólfi Bjarnasyni. Brynjólfur mun hafa séð Lenín í Moskvu á meðan heimsbylting kommúnista var enn á dagskrá. 

Um það bil sem Einar og Brynjólfur drógu sé í hlé frá virku starfi, í kringum 1970, báðir þó iðnir við kolann í andanum, Einar hélt úti Rétti og ritaði endurminningar en Brynjólfur skrifaði heimspeki, verður nývinstrið til úr fransk-bandarískri sambræðslu.

Nývinstrið, ólíkt frumvinstrinu, er ekki höfundarverk eins manns eða fárra. En þróun hugmyndafræði vinstrimanna síðustu 50 ára verður tæpast sögð án Noam Chomsky and Michel Foucault. Chomsky er í grunninn fræðimaður, málvísindamaður og heimspekingur, með hugmyndafræði sem aukabúgrein. Foucault aftur hugmyndafræðingur með kennsluréttindi.

Þeir félagar mættust í frægum sjónvarpskappræðum 1971. Á youtube má finna stubba af kappræðunum. Í einum stubbi, um vald og réttlæti, kristallast hvorttveggja í senn sameiginlegir þættir tvímenningana og andstæður.

Þeir eru sammála um að samfélagið, og áttu við vestrænt samfélag almennt fyrir hálfri öld, væri í heljargreipum valdhafa er sátu yfir hlut almennings. Kúgunin væri bæði formleg, með réttarkerfi, lögreglu og her, og óformleg í gegnum menntakerfið og aðrar stofnanir sem aðeins á yfirborðinu virðast hlutlausar. Þekking er eitt form valdbeitingar, segir Foucault og Chomsky samsinnir.

Aftur eru Foucault og Chomsky ósammála um  viðbrögð við kúguninni. Til að losna við valdið, segir Chomsky, þurfum við anarkó-syndikalisma frjálsra félagasamtaka sem almenningur gæti fundið sig heima í. Foucault andmælir, segir valdakerfi samtímans fyrirfram skilgreina orðræðuna, t.d. hugtök eins og réttlæti, og útiloka nokkurn árangur. Allt kerfið verði að brjóta niður.

Til að gera langa sögu stutta hefur nývinstrið síðustu hálfa öld fylgt boðskap beggja, Foucault og Chomsky. Hvert tækifæri er notað til að rífa niður stofnanir samfélagsins; réttarkerfið, menntakerfið og efnahagskerfið. Anarkó-syndikalismi Chomsky birtist t.d. í félagsskap eins og No Borders sem heimtar afnám landamæra þjóðríkja. Nær allir vinstrimenn hafa fundið sér heimilisfestu í hópi sem telur sig sérstaklega kúgaðan og heimtar hástöfum réttlæti sér til handa og útilokun annarra. Öll samskipti eru skilgreind út frá valdastöðu málsaðila. 

Frelsið undan áþján valdsins verður aðeins keypt með skipulagsleysi, óreiðu. Án valds er ekkert skipulag, heldur viðvarandi upplausnarástand. Í hálfa öld hafa vinstrimenn gengið á höfuðstól samfélagstrausts sem gengnar kynslóðir ávöxtuðu. Enginn veit hvenær sjóðurinn tæmist, aðeins hitt að gjaldþrotið verður tekið út með þraut og pínu.

Mótsögn nývinstrisins er þessi: í orði kveðnu er sóst eftir frelsi og réttlæti en aðferðin, að brjóta niður stofnanir samfélagsins, leiðir til stríðsástands enda ekkert vald til að úrskurða um rétt og rangt og framfylgja lögum.

Söguleg dæmi eru um samfélag er þrífst án ríkisvalds. Frelsi og réttlæti í anda Chomsky og Foucault var víðs fjarri. Íslenska þjóðveldið 930-1262/64 bjó við sameiginleg lög en ekkert ríkisvald. Höfðingjastéttin, goðarnir, um 40, og stórbændur nutu frelsis. Almenningur var aðeins óhlutur með höfðingja sem bakhjarl. Í fámennu ættarsamfélagi virkaði fyrirkomulagið í þrjár aldir. Síðan tók við Sturlungaöld sem lauk með norsku konungsvaldi. 

Samfélag án laga og reglna, og valds sem framfylgir þeim, býður ekki upp á frelsi, aðeins réttlæti frumskógarins, forræði þeirra sterku yfir þeim veiku. Chomsky, ólíkt merkilegri hugsuður en Foucult, segir það hreint út í tilvitnuðum stubbi: óreiða elur af sér fasisma.

Það verður að vera system í galskapet, segja Danir, og það á við samlíf manna. Valið í samtíma okkar stendur á milli borgaralegs meðalhófs og óreiðu sem endar í fasisma.  

 


Fyrst Boris, Selenskí næstur

Bandarískur þingmaður fæddur og fóstraður í Úkraínu, Victoria Spartz, varpar sprengju sem gæti orðið Selenskí forseta hættulegri en allar þær rússnesku. Þingmaðurinn ber sakir á hægri hönd Selenski, Andriy Yermak, um landráð og spillingu.

Í upptalningu í sex liðum ásakar þingmaðurinn Yermak starfsmannastjóra um að leka upplýsingum til Rússa um leynilega aðgerð til að klófesta Wagner-liða, einkaher Rússa, sem nú gerir það gott í Úkraínu; um að klúðra friðarviðræðum fyrir stríð; um að taka ekki mark á viðvörunum um yfirvofandi innrás; um að gefa Rússum Kherson-hérað í Suður-Úkraínu; um að koma í veg fyrir innkaup á nauðsynlegum hergögnum og að hindra rannsókn á spillingu.

Stóralvarlegar ásakanir hver og ein. Einn besti fréttaskýrandi Úkraínustríðsins breytti kynntri dagskrá í gær til að fjalla um málið.

Viðbrögð stjórnarinnar í Kænugarði eru gagnásökun um að Spartz gangi erinda Rússa.

Herskáasti pólitíski stríðsmaðurinn í Úkraínustríðinu, Boris Johnson, féll á sverðið í liðinni viku. Boris les fréttir um gæluyrði til fyrrum ástkonu á meðan rekunum er kastað á pólitískan feril manns sem taldi sig endurfæddan Churchill.

Tímasetningin á ásökunum Spartz er engin tilviljun. Pólitísk veðrabrigði eru í Evrópu og Bandaríkjunum. Úkraína er á undanhaldi í stríðinu sem er orðið óheyrilega kostnaðarsamt fyrir vestrið, mælt í efnahagskreppu og pólitískri úlfúð.

Ef Úkraína tapast líkt og Afganistan, með skilyrðislausri uppgjöf, bætir heimspólitískur ósigur gráu ofan á svart fyrir vesturlönd. Til að minnka skaða vesturlanda verður Úkraína að semja.

Innan tíðar kemur  í ljós hver verða áhrif sprengju Victoriu Spartz. Ef áskanir bandaríska þingmannsins fá hljómgrunn má gefa sér að Selenskí sé stillt upp við vegg: annað hvort semur þú við Rússa, og gefur eftir það land sem til þarf, eða við krefjumst afsagnar ríkisstjórnar þinnar.

Vesturlönd geta ekki si svona gefið Úkraínu upp á bátinn. En þau geta knúið á um stjórnarskipti ef rök standa til að maðkur sé í Kænugarðsmysunni. Ásakanir Spartz gætu orðið þau rök. 

Selenskí-stjórnin er búin að vera um leið og vesturlönd skella í lás með vopn og fjármagn. Sú hætta vofir yfir. Asakanir Spartz, fái þær útbreiðslu, eru stórskotahríð til að velgja Selenskí undir uggum. Ef forsetinn gefur sig ekki, og neitar enn samningum, fær hann á sig pólitíska kjarnorkusprengju.

Áletrun á sprengjuoddinum: Boris var viðvörun, kjáninn þinn.


Selenskí og gelt í Reykjavík

Selenskí forseti Úkraínu er bólverk frjálslyndra vestursins, segir kenningin. Úkraínski fáninn er tákn frelsis og umburðarlyndis, segir kenningin. Rússneski fjölmiðillinn RT segir að 25 þúsund úkraínskar undirskriftir hafi borist Selenskí forseta um að leyfa hjónaband samkynhneigðra og honum beri, lögum samkvæmt, að taka afstöðu.

Hjónabönd samkynhneigðra eru sem sagt bönnuð í Úkraínu. Samkvæmt könnunum, sem RT vísar í, er algjör minnihluti úkraínsku þjóðarinnar, á bilinu 9-14%, hlynntur opinberri viðurkenningu á samkynhneigð. Almennt er Austur-Evrópa íhaldssöm í kynferðismálum. ESB-ríki þar um slóðir, Pólland og Ungverjaland, hafna vestrænni fjölmenningu, nánast a til ö.

Á vesturlöndum varð umskipting í málefnum samkynhneigðra á skömmum tíma (mælt á kvarða þjóðfélagslegra gilda sem eru með innbyggða seiglu). Þeir sem áður földu sig í skápnum geta um frjálst höfuð strokið og eiga hvorki á hættu að missa tiltrú eða virðingu samfélagsins vegna kynhneigðar. Almennt talað. Vísast verða einhverjir enn fyrir fordómum og aðkasti. En það er himinn og haf á milli réttindastöðu samkynhneigðra í dag og fyrir 50 árum.

Samkynhneigðir eru, og hljóta alltaf að vera, eðli málsins samkvæmt, minnihlutahópur. Við sem samfélag ættum, og reynum, að tryggja réttindi, bæði formleg og óformleg, samkynhneigðra.

Hvað sem líður viðurkenningu samfélagsins munu alltaf einhverjir taka annan pól í hæðina og láta þá sem skera sig úr finna fyrir sér með háðsglósum og aðkasti. Mannlífið er þannig; misjafn sauður er í mörgu fé.

Í viðtengdri frétt er sagt frá tveim mönnum sem urðu fyrir aðkasti vegna samkynhneigðar. Þar segir: ,,hóp­ur karla á þrítugs­aldri gelti á þá." Þrem línum neðar í fréttinni segir að gerendurnir hafi verið ,,þrír karl­menn á þrítugs­aldri á raf­hlaupa­hjóli."

Þrír karlmenn eru ekki hópur. Þrír eru ekki einu sinni örfáir - heldur þrír. Hver er tilgangurinn með að láta líta svo út að samkynhneigðir séu ofsóttir hér á landi? 

Fréttin gengur út á að sýna íslenskt samfélag sem hómófóbískt. En það er ekki tilfellið. Í Úkraínu er hægt að tala um íhaldssamt samfélag sem veitir samkynhneigðum takmörkuð mannréttindi. Þó er Úkraínu stillt upp sem fyrirmyndarríki vestræns umburðalyndis, ekki síst af frjálslyndum og vinstrimönnum. Á Íslandi hafa samkynhneigðir full mannréttindi, en gefið er til kynna að þeir sæti ofsóknum. (Nóta bene: blóðgjöf telst ekki til mannréttinda.)

Vinsamleg túlkun á öfgum umræðunnar, þar sem hvítt er gert svart og svart hvítt, er að með því að bera sig illa sé hægt að sækja fastar fram, ná meiri ávinningi. En hvað á að gera þegar fullum árangri er náð?

Raunsæ túlkun er að umræðan sýni að menn hafa glatað skilningi á hugtakinu frelsi.   

Við höfum frelsi til að vera það sem við viljum. En við höfum EKKI frelsi til að gera aðra eins og við erum. Fögnum frelsinu, hættum ýkjum um illsku annarra. Metum samfélag okkar að verðleikum. 


mbl.is Gelt á þá fyrir að vera samkynhneigðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðverjar undirbúa uppgjöf Úkraínu

Þýskaland stendur frammi fyrir pólitískri martröð. Innviðir samfélagsins, t.d. sjúkrahús og elliheimili, gætu þurft að skerða þjónustu. Samfélag okkar kemst að ítrustu þolmörkum.

Skilaboðin hér að ofan eru frá Robert Habeck efnahagsmálaráðherra Þýskalands.

Orkuskortur er ástæða bölsýni ráðherrans. Þýskaland er bjargarlaust án rússneskrar orku. Á sléttum Garðaríkis er háð stríð. Þjóðverjar, ESB og Nató styðja Úkraínu gegn Rússum.

Rússar eru rétt að byrja stríðið, sagði Pútín forseti á fundi með leiðtogum allra flokka i Dúmunni, rússneska þinginu.

,,Rétt að byrja" þýðir að Rússar hafa ekki notað nema brotabrot af vopnabúrinu. Stærsta vopnið er orka, gas og olía.

Rússar hafa ekki hótað að skrúfa fyrir gasið til Vestur-Evrópu. En hótunin liggur í loftinu. Það er nóg til að Þjóðverjar fái martröð.

Þýskaland er lykilríki ESB og stærsta evrópska Nató-ríkið. Þegar þýskur ráðherrar efnahagsmála boðar samfélagslegar hamfarir vegna orkuskorts munu margir spyrja: til hvers styðjum við Úkraínu?

Orðin sem koma úr munni hins þýska Habeck eru hugsanir ráðamanna í fjölmörgum evrópskum höfuðborgum.

Sannleikurinn er sá að Vestur-Evrópa er hvorki með getu né vilja að stríða á sléttum Garðaríkis. Fagrar yfirlýsingar og vopnasendingar, sem fara minnkandi, eru það eina sem Selenskí forseti Úkraínu fær frá vestrinu.

Selenskí átti, þangað til í fyrradag, hauk í horni þar sem var Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. Nú á hann aðeins Biden í Washington, sem þarf hjálp í dag til að muna hvað hann sagði í gær. Í Evrópu ráðast úrslitin.

Orð eru til alls fyrst. Orðræða um martröð sýnir blákalt mat á staðreyndum. Ef Úkraína semur ekki í sumar verður engin Úkraína í haust.


Herská Úkraínustefna felldi Johnson

Að Selenskí forseta Úkraínu meðtöldum er Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, brátt fyrrverandi, herskáastur þjóðarleiðtoga í stríði Rússa og Úkraínumanna.

Í mars síðast liðnum þokaðist í átt að samkomulagi milli Úkraínu og Rússlands. Johnson fór skyndiferð til Kænugarðs og sagði Selenskí að sýna hörku, annars missti hann stuðning Bandaríkjanna og Breta. Í beinu framhaldi var friðarviðræðum slitið og djöfulgangurinn á vígvellinum hélt áfram.

Efnahagskreppa í Evrópu er bein afleiðing Úkraínustríðsins. Orkukreppan, vegna viðskiptaþvingana gagnvart Rússum, hefur áhrif á allt hagkerfi vesturlanda. Korninnflutningur frá Úkraínu og Rússlandi er takmarkaður og eykur verðbólgu á matvörumarkaði.

Vesturlönd voru ekki búin undir viðskiptastríð við Rússland. Þau áttu erfitt með að rétta úr kútnum eftir lokanir vegna kófsins. Hugmyndin var að Rússar myndu gefast upp þegar í stað. Ekki gekk það eftir. Óundirbúin vesturlönd eru aðkreppt og horfur slæmar. 

Pólitísk smámál, þuklandi þingmaður og gleðskapur Boris á tíma útgöngubanns vegna kófsins, urðu stór vegna þess að hann sat uppi með stórpólitískt klúður í utanríkis- og efnahagsmálum.

Stríðið á sléttum Garðaríkis er fullkomlega ónauðsynlegt. Fyrir stríð ógnuðu Rússar í engu öryggishagsmunum vesturlanda. Vesturlönd engdu til vopnaviðskipta en það er ekki vestrænt blóð sem flýtur á vígvellinum heldur slavneskt.

Frá árinu 2008, þegar Úkraínu var boðin aðild að Nató, er öryggishagsmunum Rússlands ógnað. Herstöðvar Nató við nær öll vesturlandamæri Rússlands þýða að vestrið er með öll ráð Rússa í hendi sér. Á tímabilinu 2008-2022 var hægt að semja um gagnkvæma öryggishagsmuni en Nató vildi það ekki undir nokkrum kringumstæðum. Boris og aðrir líkt þenkjandi herskáir valdamenn á vesturlöndunum bera meginábyrgðina á stríðshörmungunum þar eystra.

Dramb er falli næst. Það sannast á Boris Johnson.

 


mbl.is Fimm mál sem leiddu til fallsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laxness endurlífgaður

Halldór Laxness átti sína fegurstu stund um miðbik síðustu aldar og hætti að skipta máli löngu fyrir lok kalda stríðsins - kynnu einhverjir að halda.

Rangt.

Bandaríska tímaritið New Yorker rekur ítarlega endurreisn Laxness í engilsaxneskum bókmenntaheimi.

Tvær sögur eru í forgrunni, Sjálfstætt fólk og Salka Valka. Bjartur í Sumarhúsum er vitanlega höfuðpersóna í andlegu lífi Íslendingsins eftir lýðveldisstofnun. Meira vafamál er með Sölku og misheppnaða kommúnistann Arnald.

Í öllu falli. Ritgerðin í New Yorker er tilfallandi hvatning að nota sumarið til að rifja upp kynnin af söguheimi sem enn á erindi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband