Sunnudagur, 11. júlí 2021
Messi, England og Brexit
Messi beið í hálfan annan áratug eftir stórum titli með argentínska landsliðinu. Í kvöld er England í færi að sækja sinn fyrsta titil í hálfan sjötta áratug.
Æðsti embættismaður Evrópusambandsins er Þjóðverjinn Ursula von der Leyen. Hún styður Ítalíu í leiknum gegn Englandi í kvöld.
Áfram England.
![]() |
Loks vann Messi titil með Argentínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 10. júlí 2021
Meira Ísland, minna útlönd
Ísland stendur sig hvað best í farsóttarvörnum í alþjóðlegum samanburði. Sóttvarnir eru, eðli málsins samkvæmt, bæði almannavörn og lýðheilsa.
Talsmenn verkalýðshreyfingarinnar viðurkenna að Íslendingar stóðu sig einnig þjóða best í glímunni við efnahagslegar afleiðingar Kínaveirunnar. Hér jókst kaupmáttur, einkum lægstu launa. Aðra og verri sögu er að segja frá flestum útlöndum.
Við á Íslandi gerum hlutina nokkuð vel. Engin ástæða er til að ofmetnast og temja okkur sjálfhælni umfram efni. En svo sannarlega eru efni til að efast og gjalda varhug við þegar útlendar pakkalausnir eru okkur boðnar með þeim rökum að útlönd kunna betur en við að reka samfélag. Á Íslandi finnast lausnir á íslenskum málefnum. Það eru einfaldlega sjálfsögð sannindi.
![]() |
Ísland í fremstu röð í heimi í bólusetningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. júlí 2021
Fræðileg kynþáttahyggja nemur land á Íslandi
Fræðileg kynþáttahyggja (critical race theory) er menningarviðhorf af sama skóla og marxismi og póstmódernismi á síðustu öld. Líkt og fyrrum eru það vinstrisinnaðir háskólamenn sem boða kenninguna.
Fræðileg kynþáttahyggja gefur sér að hvíti maðurinn, hvíti kynþátturinn, sé mesta böl sem heimurinn hefur alið af sér. Hvíti kynþátturinn er sjálf erfðasyndin. James Lindsey hefur skrifað bók um fyrirbærið, hægt að hlusta á samtal við hann hér.
Grein Gísla Pálssonar mannfræðings um afkomendur Vilhjálms Stefánssonar er löðrandi í fræðilegri kynþáttahyggju. Lesið þessa tilvitnun og metið sjálf:
Barnabörn Vilhjálms Stefánssonar lifðu af helförina, en öll voru þau löskuð af því samfélagi sem ól þau, enda bjuggu þau við þau mannskemmandi skilyrði sem nú eru rifjuð upp í kjölfar frétta af ómerktum gröfum. Öll urðu þau að hlýða valdboði hinna hvítu á heimavistarskólum, og eflaust hafa þau beint eða óbeint orðið fyrir barðinu á opinberum ofbeldisseggjum á vistinni. Stefánsson-nafnið veitti litla vörn; þau voru Inúítar. (undirstrikun pv)
Hingað til er helförin notuð um meðferð nasista á gyðingum fyrir miðbik síðustu aldar. Fræðileg kynþáttahyggja gefur sér að allir hvítir séu inn við beinið fasískir mannhatarar og njóti þess að misþyrma og meiða.
Fræðileg kynþáttahyggja er lífsviðhorf háskólafólks sem ekki er nema lítillega tengt veruleikanum.
![]() |
Barnabörn Vilhjálms Stefánssonar lifðu af helförina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 8. júlí 2021
Virðing til lögreglunnar
Lögreglan er hornsteinn samfélagsins með það hlutverk að framfylgja lögum. Oft er það starf vanþakklátt.
Höfundur Tilfallandi athugasemda hefur ekki átt tíð samskipti við lögregluna, líklega góðu heilli. En þau fáu tilvik þar sem saman lágu leiðir lögreglu og höfundar, bernskubrek og umferðaratvik, er reynslan að yfirvegun og fagmennska hafi verið í fyrirrúmi af hálfu lögreglu.
Lögreglan er þarfaþing og við eigum að hugsa hlýlega til hennar.
![]() |
Beittu ekki óþarfa valdi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. júlí 2021
Framsóknarsagan 2021
Það er saga til næsta bæjar að Framsóknarflokkurinn er orðinn næst stærstur íslenskra stjórnmála. Án nokkurs hávaða. Kannski er það einmitt lykillinn.
Almenningur er sáttur við að kófið reyndist okkur ekki jafn dýrkeypt og margir óttuðust. Eftirspurn er eftir hægfara, að ekki sé sagt íhaldssömum, stjórnmálum án öfga. Þríeykið var framsóknarlegt í nálgun sinni. Jafnvel mistökin, t.d. þegar Víðir bauð landsbyggðarfólki að gista hjá þér og smitaðist, voru framsóknarleg.
Kófið og farsælar sóttvarnir skýrir þó aðeins hluta meðbyrs Framsóknar. Pólitísk óreiða eftir hrun, regluleg upphlaup og stjórnarkreppur 2016 og 2017 voru ekki kjöraðstæður fyrir mjúkan miðjuflokk.
Löngum var Framsókn helsti skotspónn Samfylkingar, Alþýðuflokks þar á undan. Kratar, líka viðreisnarkratar, sjá í Framsókn stöðnun og afturhald og útmála sjálfa sig frjálslynda alþjóðasinna. En frjálslynd alþjóðahyggja á ekki upp á pallborðið 2021. Ekki á Fróni fremur en í útlöndum. Nú hyggur hver að sínu, kemur reiðu á eigin hús og lætur heimsfrelsun lönd og leið. Ekki er eftirspurn eftir heimsborgara heldur íslenskri kjötsúpu.
Almenningur æskir rólegra svipmóts landsstjórnar og lítur til Framsóknar sem stjórnmálaafls er síst ruggar bátnum. Sæmilegur skriður er á þjóðarskútunni eftir brælu og brotsjói síðustu ára. Framsókn Sigurðar Inga er íslensk kjölfesta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 7. júlí 2021
Meydómur og mannorð
Feðraveldið fyrrum gerði kröfu um að stúlka væri óspjölluð er hún gekk í hjónasæng. Meira en hálf öld er síðan að konur á vesturlöndum gátu stjórnað getnaði, með pillunni, og samhliða varð sú þróun giska hröð að bæði kynin stunduðu kynlíf án þess að festa ráð sitt og þykir ekki tiltökumál. Frelsið til að fara með líkama sinn eins og hverjum hentar er rótfast í menningunni.
Á þetta ber að minnast í samhengi við umræðu um að þessi eða hinn nafngreindi einstaklingur hafi ekki hagað sé sem skyldi við kynlífsathafnir. Áður en lengra er haldið: kynlíf þar sem ofbeldi, þvinganir og hótanir koma við sögu köllum við nauðgun og er réttilega fordæmt af samfélaginu. Hegningarlög og dómavenjur mæla fyrir um refsingu. Jú, það getur verið erfitt að koma við sönnun og fyrir fórnarlamb nauðgunar er þrautin þyngri að kæra og beygja sig undir lögreglurannsókn og mögulega saksókn eða jafnvel frávísun vegna skorts á sönnunargögnum. En það flýtur af eðli máls. Kynlíf, hvort heldur það er með samþykki þátttakenda eða nauðgun, fer ekki fram fyrir opnum tjöldum. Vanalega eru aðeins tveir til frásagnar.
Þegar nauðgun sleppir fer kynlíf fram með ýmsu móti. Það getur verið stuttur aðdragandi eða langur. Þátttakendur þekkjast stundum vel, en til er í dæminu að kunnugleiki sé lítill eða alls enginn þegar athöfnin fer fram. Engin opinber skilgreining er til á eðlilegu kynlífi nema hvað að útlimir og kirtlar koma oftast við sögu, frá munnvatnskirtlum niður í æxlunarfæri. Sjálft fyrirbærið, kynlíf, er teygt og loðið þótt líffærin séu þekkt.
Það gefur auga leið að margvíslegur misskilningur er mögulegur í aðdraganda, framkvæmd og eftirmála kynlífs. Tilfinningar eru í spilinu, ástarorð höfð í frammi sem hafa ólíka merkingu í huga þeirra er gefa sig til hvílubragða. Þegar þeir sem kynlífið stunda þekkjast lítið má gefa sér að þeir leggi gagnólíka merkingu í það sem fram fór. Sá sem býr að reynslu tekur allt annað frá athöfninni en nýgræðingur. Það liggur í hlutarins eðli. Það sem einum finnst léttvægt er öðrum háalvarlegt. Frásögn sem gefin er síðar er auðveldlega lituð af væntingum og vonbrigðum.
Samt er tómt mál að tala um forskrift að kynlífi eða gera kröfu um undirbúning væntanlegra iðkenda. Foreldrar ættu að útskýra þetta með býflugurnar og blómin, og helst eitthvað ítarlegra en það, en lengra nær það ekki. Ekkert opinbert vald getur lagt línur um hvað sé við hæfi og hvað ekki. Nema, auðvitað, það sem sagði um nauðgun hér að ofan.
Í viðtengdri frétt er sagt frá manni sem borinn er sökun um alvarleg kynlífsbrot og jafnvel nauðgun. Tilfallandi athugasemdir fundu að því hvernig staðið var að málinu. Nafnlausum sögum var safnað, e.t.v. ritstýrt, og þeim komið á framfæri af samtökum sem heita Öfgar - réttnefni það.
Nú er hafin undirskriftarsöfnun til stuðnings Ingó veðurguð, eftir að staðarhaldarar þjóðhátíðar í Eyjum ákváðu að hann skyldi ekki leiða brekkusöng vegna málatilbúnaðar Öfga.
Liðakeppni milli stuðningsmanna Öfga og aðdáenda veðurguðsins er leikur án reglna og fyrirséð að allir tapa. Höfundur Tilfallandi athugasemda þekkir ekkert til Ingó veðurguðs og aðeins eitt dægurlaga hans, Í kvöld er gigg (harla skemmtilegur smellur það). Hvernig á maður að bera sig að til að gera upp hug sinn? Stúdera nafnlausu sögurnar eða hringa í vini og vandamenn veðurguðsins? Og ef maður gerir hvorutveggja, yrði maður einhvers vísari?
Það sjá vonandi allir heilir á dómgreind að við getum ekki búið í samfélagi í sæmilegum friði þegar liðakeppni er um æru og mannorð manns og annars og einu málsgögnin nafnlausar sögur. Í villta vestrinu var auglýst eftir útlögum lifandi eða dauðum en aðeins að undangengnum formlegum úrskurði opinbers aðila. Á félagsmiðlum eru aftökusveitir gerðar út í lokaðri spjallrás. Mannorðsmorðið er fullframið þegar það kemur fyrir sjónir almennings.
Um 130 konur skrifuðu undir aftökutilskipun á manni sem ekki fékk færi á að svara ásökunum um alvarleg afbrot áður en aftakan fór fram. Allar eiga konurnar væntanlega föður, einhverjar eiga bræður, eiginmenn og syni. Ef þessi aðferð til að ná fram réttlæti verður viðurkennd og tíðkuð munu margir saklausir eiga um sárt að binda áður en yfir lýkur.
![]() |
Yfir þúsund manns skrifað undir til stuðnings Ingó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 6. júlí 2021
Háskólamenntun: betra eða verra samfélag?
Háskólamenntaðir fá ekki starf við hæfi eftir útskrift og gerast aðgerðasinnar/andófsmenn gegn samfélaginu sem fóstraði þá. Á þessa leið er kenning Peter Turchin, sem m.a. Economist telur eitthvað til í. Aðrir andmæla, segja gögn ekki styðja kenninguna.
Leiðari Viðskiptablaðsins segir þverrandi tekjur af aukinni menntun enda eykst eftirspurn ekki í takt við aukið framboð.
Bæði Peter Turchin og Viðskiptablaðið gera ráð fyrir að menntun sé fyrst og fremst til að auka tekjur og mannaforráð.
Menntun var einu sinni til að auka skilning manna á sjálfum sér, samfélaginu og henni veröld. Menn lærðu iðn til að afla tekna, Sókrates var steinsmiður, urðu stjórnmálamenn eða herforingjar til að fá mannaforráð.
Meiri menntun í sígildum skilningi er til velfarnaðar, bæði einstaklinganna sem hennar njóta og samfélagsins. Aftur getur sá misskilningur, að menntun eigi að færa manni auð og völd, orðið til tjóns.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 5. júlí 2021
Gunnar Smári ætlar ekki á þing - en ætlar samt
,,Ég hef sjálfur engin áform um að fara á þing. Ég sé mig ekki fyrir mér í ræðustól Alþingis að tala um fundarstjórn forseta. Ég er bestur í að byggja upp baráttuna og halda utan um hana, ekkert ósvipað og ég byggði upp blöð á sínum tíma."
Sagði Gunnar Smári fyrir ári.
En nú ætlar Gunnar Smári í framboð til alþingis.
Blöðin sem kappinn ,,byggði upp" urðu öll gjaldþrota.
Spurningin er hvort Sósíalistaflokkur Gunnars Smára verði verði gjaldþrota fyrir eða eftir þingskosningarnar.
![]() |
Gunnar Smári gefur kost á sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 5. júlí 2021
ESB-sósíalismi og Austur-Evrópa
Austur-Evrópa liggur á milli kjarnaríkja Evrópusambandsins, Frakklands og Þýskalands, annars vegar og hins vegar Rússlands.
Við lok kalda stríðsins hrúguðust Austur-Evrópuríki inn í Evrópusambandið til að slíta sig laus frá sovét-kommúnismanum. En þegar frá leið runnu tvær grímur á fyrrum undirokaðar þjóðir Sovétríkjanna.
Á daginn kom að ESB-sósíalisminn var ágengari en búist var við. Frá Brussel komu skilaboð um hvernig innanríkismálum skuli háttað, t.d. dómskerfum. Tilskipanir að taka við hælisleitendum frá Afríku og miðausturlöndum féllu í grýttan jarðveg þjóðríkja nýlega laus undan framandi hugmyndafræði. Til hvers að losna undan kommúnisma en í staðinn múslímavæðast?
Bæði Pólland og Ungverjaland eru langþreytt á afskiptasemi ESB og tilraunum að skapa Stór-Evrópu. Í fersku minni er hvernig fór fyrir draumnum um Stór-Þýskaland fyrir miðja síðustu öld.
Frá aldamótum hækkaði veldissól Evrópusambandsins. Nýr gjaldmiðill bar með sér væntingar um eitt efnahagskerfi. Brussel virtist ætla að verða þungamiðja nýrrar heimsskipunar alþjóðahyggju. Austur-Evrópa lét sér annt um ESB-aðildina til að verða ekki eftirbátur og missa af framþróuninni sem virtist öll vestræn og merkt kratískum sósíalisma.
Þrír atburðir um miðjan síðasta áratug breyttu öllu um stöðu ESB, þótt hvorki Samfylking né Viðreisn skilja það enn hér heima á Fróni. Ekki beittustu hnífarnir í skúffunni að greina alþjóðamálin íslenskir hægri- og vinstrikratar.
Atburðirnir þrír eru Brexit, sigur Trump og þráteflið í Úkraínu.
Brexit vængstýfði ESB, sýndi að fullvalda þjóð bæði getur og vill fara úr klúbbnum. Brexit afhjúpaði þá falssýn að ESB væri söguleg nauðsyn. Trump sagði Bandaríkin ekki ætla að fjármagna Nató til ánægju og yndis fyrir ESB og fagnaði Brexit. Bandaríkin í tíð Obama hjálpaði ESB, notaði til þess Nató, að færa Úkraínu undir áhrifasvæði Brussel-valdsins. Trump setti stopp á slíkar fyrirætlanir og Biden lyftir litla fingri í þágu útþenslu ESB. Trump er ekki lengur forseti en Washington hefur breytt um stefnu gagnvart ESB. Veldissól Brussel hnígur.
Austur-Evrópuþjóðir eru líklegar á næstu árum að finna sér tilvist á milli ESB og Rússlands. Um sinn verða þær áfram í ESB en munu tregast við að innleiða frjálslynda alþjóðahyggju. Rússland undir Pútín er ekki smituð af frjálslyndisöfgum um þrjú, fimm eða sjö kyn og ómenningu fjölmenningarinnar.
Sósíalísk alþjóðahyggja ESB rann sitt skeið fyrir hálfum áratug. Það eru þó ekki allir sem hafa kveikt á perunni.
![]() |
Sá eini sem opnar kampavínið er Pútín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. júlí 2021
Dómgreindardauði
Fjórar tilkynningar um öldauða bárust lögreglunni í nótt. Tæki lögreglan við tilkynningum um dómgreindardauða hefðu þær orðið þrisvar sinnum fjörtíu og tíu betur um helgina.
Dómgreindardauði er að skrifa upp á nafnlausar ásakanir um alvarlega glæpi í þeirri von að þær reynist sannar.
Ólíkt öldauða ber dómgreindardauður ekki utan á sér annarlegt ástandið.
![]() |
Mikið um öldauða í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)