Fimmtudagur, 9. júní 2016
Hanna Birna og sagnaheimur ósanninda
Hanna Birna Kristjánsdóttir hrökklaðist frá stjórnmálum að ósekju. Lekamálið, sem felldi hana, var DV-fjöður sem með aðstoð annarra fjölmiðla, stjórnarandstöðu á alþingi og embættismanna varð að hænsnakofa.
Dómurinn sem gekk í lekamálinu segir skýrt og ákveðið að Hanna Birna reyndi ekki að afla sér ávinnings af lekamálinu. Ekki var hlustað á dómsniðurstöðuna heldur réð sagnaheimur ósanninda ferðinni.
Hanna Birna talar um reynslu sína í viðtali:
Og það var kannski lærdómurinn minn af lekamálinu, að það var alveg sama hversu oft ég sagði sannleikann, hversu mikið ég reyndi að útskýra, það voru allir búnir að ákveða einhvern annan sannleika sem ég kannaðist aldrei við.
Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari sló í gegn með þeirri kenningu að maðurinn, en ekki aðrar dýrategundir, sigraði heiminn í krafti sagnakunnáttu. Maðurinn er eina tegundin sem býr til sagnaheim. Við lifum og hrærumst í sagnaheimi sem er raunverulegri en veruleikinn sjálfur, einkum og sérstaklega í stjórnmálum.
Pólitískur sagnaheimur okkar var til skamms tíma mótaður af fáeinum fjölmiðlum, umræðu á alþingi og skrafi á vinnustöðum og heimilum. Veldisvöxtur varð í þessum sagnaheimi um og upp úr síðustu aldamótum með nýmiðlun; bloggi, netfjölmiðlum og samfélagsmiðlum.
Eitt einkenni sagnaheims nýmiðlunar er að ósannindi, ýkjur og undirróður eiga greiðari leið í umræðuna. Í gömlu fjömiðlunum voru mestu ósannindin flokkuð frá því efni sem birtist opinberlega. Ritstjórar og fréttastjórar voru hliðarverðir fjölmiðla og sinntu gæðaeftirliti. Eflaust var ýmislegt kæft í fæðingu sem vel átti heima í opinberri umræðu. En gæðaeftirlitið kom í veg fyrir að hægt væri að búa til frásagnir sem áttu litla sem enga málefnalega stoð.
Í heimi nýmiðlunar er ekkert eftirlit með rökum og málefnalegum undirstöðum þeirra frásagna sem settar eru á flot. Við hrunið skaddaðist tiltrú almennings á stjórnmál almennt og stjórnvöld sérstaklega. Almenningur var tilbúinn að hlusta á meiri ýkjur og ósannindi en áður. Eftir því sem fleiri tóku undir ósannindin urðu þau trúverðugri.
Hanna Birna var ekki, frekar en aðrir stjórnmálamenn, hafin yfir gagnrýni. En lekamálið var ekki gagnrýni heldur tilbúinn sagnaheimur ósanninda.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 8. júní 2016
Dóttir Kára, Frankenstein og forspá Sigmundar Davíðs
Kári Stefánsson skrifar grein í Fréttablaðið þar sem hann líkir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni við Sólveigu dóttur sína þegar hún tveggja ára gerði í buxurnar annars vegar og hins vegar við skrímslið Frankenstein.
Burtséð frá blindu hatri Kára á Sigmundi Davíð eru samlíkingarnar með því ljótari sem sést hafa í fjölmiðlum í seinni tíð.
Sigmundur Davíð sá fyrir atlögu Kára þegar hann á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins síðustu helgi sagði árásir á sig sem formann flokksins minna á herferðin gegn Jónasi frá Hriflu á sínum tíma. Læknir sakaði Jónas um geðveiki í málinu kallað er Stóra bomban.
Miðvikudagur, 8. júní 2016
Hverjir stjórna Íslandi - og hvernig?
Þjóðhagsráði er ætlað að móta efnahagslegan ramma fyrir allt samfélagið. Í grunninn að leggja línur um hvernig þjóðarkökunni skuli skipt. Deilan stendur um hvort ,,félagslegur stöðugleiki" eigi að vera hluti af viðfangsefni Þjóhagsráðs.
Laun er hægt að mæla en ekki félagslegan stöðugleika. Það veltur á pólitísku mati hvort félagslegur stöðugleiki sé fyrir hendi eða ekki. Verkföll, mótmæli á Austurvelli, sveiflur á fylgi flokka, vantraust á stjórnmálaflokkum og aukin glæpatíðni geta allt verið merki um félagslegan óstöðugleika.
Uppspretta félagslegs óstöðugleika getur verið af ýmsum toga. Nýverið voru samþykkt ný útlendingalög. Lögin auðvelda innflæði útlendinga og voru samþykkt án mikillar umræðu á alþingi og nær engri umræðu í þjóðfélaginu. Sumir telja æskilegt að stórauka innflutning fólks til landsins. Í öllum nágrannalöndum okkar skapar aukið flæði útlendinga félagslegan óstöðugleika. Ekki síst hjá þeim sem keppa við útlendinga um atvinnu, húsnæði og félagsleg úrræði.
Í fréttaskýringu Morgunblaðsins um Þjóðhagsráð er rammagrein um hækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Nú þegar stjórna lífeyrissjóðir stórum hluta atvinnulífsins og sá hlutur fer stækkandi. Atvinnulífið er á þensluskeiði og þarf aukið vinnuafl - sem aðeins fæst með fleiri útlendingum.
Þjóðhagsráð er ekki lýðræðislega kjörið, heldur tilnefnt af sterkustu hagsmunasamtökum landsins. Alþingi stimplar kröfur Þjóðhagsráðs svotil án umræðu og almenningur fær lítið sem ekkert að heyra um málið.
Félagslegur stöðugleiki án lýðræðis er einkenni alræðisríkis. Þjóðhagsráð er áfangi á hættulegri vegferð.
![]() |
Greinir á um Þjóðhagsráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 7. júní 2016
Fasismi byrjar á uppgjöf - hver er forsetaframbjóðandi fasista?
Jón Ólafsson heimspekingur skrifar grein til að vara okkur við fasisma og stalínisma. Samkvæmt Jóni á fasismi upptök sín í smávægilegum afslætti sem við veitum frá frelsi, til dæmis tjáningarfrelsi eða akademísku frelsi. Jón segir:
Stundum eru það litlu hlutirnir, frekar en þeir stóru, sem benda til að það séu að verða breytingar í sjálfu samfélagsmunstrinu þannig að eitthvað sem áður var óhugsandi verður fyllilega mögulegt og jafnvel eðlilegt.
og
Smávægilegar breytingar í viðhorfum og talsmáta geta verið til vitnis um grundvallarbreytingar í samfélagsmunstri.
Greining Jóns er í grundvallaratriðum röng. Hvorki fasismi né stalínismi eru lúmskar breytingar sem læðast að okkur ef við höldum ekki vöku okkar. Einræðishyggja af þessum toga byrjar með uppgjöf. Rússar gáfust upp á keisaraveldinu; úr varð þjóðfélagsleg upplausn og einbeittir menn með altæka hugmyndafræði buðu lausnir sem almenningur keypti. Nasisminn í Þýskalandi byrjaði líka með uppgjöf - á Weimarlýðveldinu. Án uppgjafar Ítala á konungsveldinu hefði Mússólíni ekki náð völdum.
Hverjir eru það á Íslandi sem boða uppgjöf og ala á sundrungu? Hvaða öfl eru það á Íslandi sem boða altæka lausn á öllum vanda - inngöngu í Evrópusambandið. Jú, það eru vinstrimenn.
Eftir hrun voru það vinstrimenn á Íslandi sem kröfðust uppgjafar lýðveldisins, sem töluðu um ónýta Ísland sem þyrfti nýja stjórnarskrá og yrði að afsala sér fullveldinu.
Hver er frambjóðandi fasista til forseta lýðveldisins?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 7. júní 2016
Skuldir, skemmtun og kapítalismi
Skuldir eru ekkert gamanmál, allra síst skuldir í vanskilum. Sjónvarpsatriði þar sem þáttarstjórnandi kaupir vanskilaskuldir og afskrifar þær í beinni er skemmtiatriði í krafti þess að grimmur fáránleiki innheimtufyrirtækja er afhjúpaður.
Efnahagskerfið sem við búum við, kapítalismi, gengur mikið til út á skuldsetta neyslu. Síðustu misseri er kreppa sem birtist í tregðu almennings að taka lán og kaupa neysluvörur sem það í flestum tilfellum getur verið án. Svar kapítalismans er að gera peninga eins ódýra og mögulegt er til að fá fólk í meiri neyslu. Ef peningar án vaxta duga ekki verður peningum til þrautavara dreift úr þyrlu - í takt við hugdettu Milton Friedman.
En peningar geta aðeins í skamma stund verið ókeypis. Efnahagskerfið myndi brenna upp peningana í verðbólgu ef þeir yrðu til langframa ókeypis. Við færum aftur á stig vöruskipta ef peningar verða verðlausir.
Kapítalismi er skásta efnahagskerfið sem þekkt er. Erfitt er að sjá fyrir að lýðræði, eins og við þekkjum það, fái þrifist án kapítalisma. Kommúnismi var prófaður en brást, bæði sem efnahagskerfi og stjórnkerfi. Á miðöldum var reynt lénskerfi sem hélt samfélaginu í skorðum en byggðist á arðráni og misrétti.
Til að kapítalismi virki verða peningar að halda gildi sinu, innan eðlilegra vikmarka, og skuldir að innheimtast, aftur innan eðlilegra vikmarka. Án innheimtu á skuldum tapast gildi peninga og þar með hrynur kapítalisminn.
Það er kaldhæðni að í háborg kapítalismans, Bandaríkjunum, skuli enn ekki fundin lausn á þeim alvarlega vankanta að útgjöld einstaklinga vegna heilsubrests eru ekki neysla. Enda keypti þáttastjórnandinn John Oliver einmitt skuldir sjúklinga á hrakvirði og afskrifaði þær.
Félagslegur kapítalismi, líkt og rekinn er í Vestur-Evrópu, er snöggtum mannúðlegri en sá ameríski.
![]() |
Oliver sló gjafamet Opruh |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. júní 2016
Egill ýjar að gengi Guðna Th.
Egill Helgason álitsgjafi rifjar upp þá kenningu að útrásin hafi verið barátta gengja. Egill nefnir þessa kenningu í samhengi við forsetaframboð Guðna Th. Jóhannessonar.
Álitsgjafinn gefur til kynna að Guðni Th. tilheyri ákveðnu gengi án þess þó að nefna það á nafn.
Sennilega er það of viðkvæmt.
Mánudagur, 6. júní 2016
RÚV-handritið, sænsk hræsni og breskur heiðarleiki
RÚV skipulagði aðför að forsætisráðherra Íslands með sænsk-íslenskum undirverktökum. Gústaf Adolf Skúlason rekur í bloggfærslu herfræðina á bakvið Kastljósþáttinn sem knúði Sigmund Davíð til afsagnar.
Til að svara ásökunum um skipulagða aðför að forsætisráðherra teflir RÚV fram sænska undirverktakanum sem segir óheiðarleg vinnubrögð nauðsynleg til að ,,afhjúpa hræsni."
Kastljósþátturinn og fréttir RÚV í aðdraganda þáttarins voru ekki til að afhjúpa meinta hræsni forsætisraðherra heldur til að bola honum frá völdum. RÚV og undirverktakarnir héldu fram þeim áróðri að forsætisráðherrahjónin væru skattsvikarar og lögbrjótar - sem er annar og miklu alvarlegri hlutur en hræsni.
Blaðamenn breska blaðsins Guardian höfðu aðgang að sömu gögnum, þ.e. Panama-skjölunum, og RÚV. Niðurstaða Guardian er skýr og ótvíræð:
Guardian hefur ekki séð neinar sannanir fyrir skattaundanskotum eða óheiðarlegum ávinningi Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar eða Wintris.
(The Guardian has seen no evidence to suggest tax avoidance, evasion or any dishonest financial gain on the part of Gunnlaugsson, Pálsdóttir or Wintris.)
Umfjöllun RÚV gekk út á að gera hlut Sigmundar Davíðs sem verstan. RÚV margbraut siðareglur stofnunarinnar í umfjöllun sinni um Panama-skjölin. RÚV misnotaði vald sitt til að flæma úr embætti forsætisráðherra landsins og ætti að biðjast afsökunar á framferðinu.
![]() |
Gert til að koma höggi á flokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 5. júní 2016
RÚV laug til að koma höggi á Sigmund Davíð
Kastljós RÚV, í samvinnu við félagana Jóhannes Kr. Kristjánsson og Sven Bergman, laug blákalt að Sigmundi Davíð í upphafi viðtalsins sem leiddi til afsagnar forsætisráðherra.
Netútgáfa Aftenposten sýnir svart á hvítu að Sven Bergman segir við Sigmund Davíð að viðtalið sé um hrunið og endurreisnina. Blaðamaður Aftenposten segir: ,,hér mætir forsætisráðherra í viðtal í þeirri trú að umræðan verði um hvernig tókst að endurreisa Ísland eftir hrun."
Kastljós sýndi ekki þessa útgáfu af viðtalinu enda afhjúpar það siðlausa blaðamennsku.
Kastljós RÚV segist hafa boðið Sigmundi Davíð sex sinnum í viðtal eftir fyrirsátina í ráðherrabústaðnum. Vitanlega gaf Sigmundur Davíð ekki siðlausum fréttamönnum RÚV annað færi á sér.
![]() |
Hafna fullyrðingum Sigmundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 4. júní 2016
Samfylkingin sópar ESB undir teppið
Evrópumál eru snaran í hengds manns húsi Samfylkingar. Þau eru ekki nefnd í stefnuræðu nýkjörins formanns, Oddnýjar Harðardóttur, og heldur ekki í landsfundarályktun.
Öll pólitík Samfylkingar snerist í meira en áratug um að Ísland yrði aðildarríki Evrópusambandsins. Haustið 2002 beindi forysta Samfylkingar þessari spurningu til flokksmanna:
Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?
Á þessum veika grunni hélt Samfylkingin í leiðangur sem náði hámarki 16. júlí 2009 þegar alþingi samþykkti tillögu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að sækja um aðild að ESB.
Samfylkingin tapaði þingkosningunum 2013 vegna þess að ESB-umsóknin var í beinni andstöðu við þjóðarhagsmuni.
ESB-draugurinn mun fylgja Samfylkingunni nema flokkurinn kveði hann í kútinn. Það kallar á uppgjör við misheppnuðustu utanríkispólitík landsins frá Gamla sáttmála.
![]() |
Barátta við að sannfæra kjósendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 4. júní 2016
Samfylkingin er fórnarlamb misskilnings
Samfylking var stofnaður sem sósíaldemókratískur flokkur áratugum eftir að meginverkefni flokksins var lokið. Velferðarsamfélagið, sem fylgir okkur frá vöggu til grafar, var byggt upp með lítinn krataflokk, Alþýðuflokkinn.
Kratar í öðrum flokkum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi, sáu um uppbyggingu velferðar.
Þegar Samfylkingin var stofnuð, um síðustu aldamót, vantaði flokkinn baráttumál til að hreyfa við fólki. Í stað þess að finna þau mörg og smá og prjóna saman stefnuflík úr þeim flokkum sem samfylktu fór Samfylkingin aðra leið.
Samfylkingin fór einföldu leiðina og gerði aðild Íslands að Evrópusambandinu að málinu eina. Kjósendur voru ekkert ýkja spenntir og forysta flokksins gerði ESB-umsókn ekki að úrslitaatriði í þingkosningunum 2003 og 2007.
Samfylkingin átti sinn hlut í hruninu, sat í stjórn með Sjálfstæðisflokki þegar það skall á. En í stað þess að læra af mistökum var stóra málið dregið fram, bæði til að draga fjöður yfir ferilinn í hrunstjórninni og ekki síður til að flagga einhverju stefnumáli í miðju hruni.
Umsóknin um ESB-aðild var keyrð í gegnum alþingi sumarið 2009. Umsóknin var án umboðs þjóðarinnar, illa ígrunduð og strandaði áður en kjörtímabilið var á enda.
ESB-aðild Íslands var aldrei raunhæf. Strandríki í okkar heimshluta, Grænland, Færeyjar og Noregur eru öll þeirrar skoðunar að ESB-aðild þjóni ekki hagsmunum þeirra. Saga Íslands og sjálfstæðisbarátta mælti öll gegn ESB-aðild. Samfylkingin taldi sig vita betur. Það reyndist dýrkeyptur misskilningur.
![]() |
Fórnarlömb eigin velgengni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)