Menntun, fátækt og mótmælendur á Austurvelli

Langskólagengnir Íslendingar tapa peningum á skólagöngunni, segir Jón Daníelsson hagfræðingur:

Ávöxt­un vegna mennt­un­ar er minnst á Íslandi þegar litið er til Evr­ópu. Það borg­ar sig frek­ar að hætta námi á Íslandi en að halda því áfram. Það skil­ar meiri tekj­um. Þetta á ekki við í neinu öðru Evr­ópu­landi. Jón sagði nem­end­ur sína í London fá svipuð laun við út­skrift og ís­lensk­ir jafn­ingj­ar þeirra. Eft­ir tutt­ugu ár get­ur sá sem er í London hins veg­ar reiknað með að vera með fimm­falt hærri laun en sá sem held­ur sig á Íslandi.

Ástæða mótmæla í samfélaginu er munurinn á milli ríkra og fátækra, segir Styrmir Gunnarsson i viðtali á RÚV.

Hér er eitthvað málum blandið. Þegar við bætist að menntuðu fátæklingarnir, sem Styrmir segir mótmæla, kunna ekki einu sinni að fara rétt með tölur, samanber talnaspuna aðgerðasinna á Austurvelli, virðist Jón hafa nokkuð til síns máls: ,,Íslend­ing­ar leggja of mikla áherslu á magn mennt­un­ar en ekki gæði henn­ar."

Samantekið hjá Jóni: Íslendingar eru ofmenntaðir kjánar. Við værum betur sett með minni menntun á höfðatölu. Við sætum uppi með menntaelítu og menntasnauðan almenning. Styrmir myndi á hinn bóginn ekki fá minni launamun heldur aukinn.

Niðurstaða: það er hvorki menntun né efnamunur sem skýrir mótmælin á Austurvell. Mótmælin voru vegna þess að forsætisráðherra stóð vel til höggsins.

 

 

 


mbl.is Útlitið er ekki alveg svart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spéhræðsla Íslendinga

Öfgar þjóðarsálar okkar sveiflast á milli ,,Ísland best í heimi" og ,,Ísland er ónýtt í samanburði við aðrar þjóðir."

Öfgarnar stafa af landlægri spéhræðslu um hvað útlendingum finnst um land og þjóð. Viðkvæmni fyrir orðspori þjóðarinnar er ekki ný af nálinni. Arngrímur lærði skrifaði á 16. öld varnarrit vegna þess að honum þótti útlendingar bera landið út.

Í dag sjá samlandar okkar um að bera út Ísland. Við því er ekkert að segja, það er málfrelsi og sérhver má þjóna sínu eðli.

Ísland er hvorki verst í heimi né er það ónýtt. Við erum hversdagslegt fólk í landi sem öldum saman var á mörkum hins byggilega heims. Forfeður okkar lifðu af, við njótum hagfelldari tíðar og tækni sem gerir landið giska ágætt ábúðar.

Við ættum að venja okkur af spéhræðslunni. Hún ætti að fá sama sess og íslenski afdalabóndinn; sniðugt fyrirbæri sem tilheyrir fortíðinni.


mbl.is Ímynd Íslands ólöskuð að mestu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantraust elur á valdabaráttu, sem eykur vantraust

Vantraust dettur ekki af himnum ofan, það verður til í samskiptum fólks. Alvarlegasta meinsemd íslenskra stjórnmála er vantraustið sem grefur um sig eins og krabbamein.

Pólitísku vantrausti má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er það á milli almennings og stjórnmálakerfisins, í öðru lagi á milli stjórnmálaflokka og í þriðja lagi innan stjórnmálaflokka.

Það stendur upp á flokksmenn stjórnmálaflokkanna að byggja upp traust sín á milli. Valdabarátta innan flokks eykur ekki traust, heldur þvert á móti.

 


mbl.is Klára ákveðin mál - svo kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlendir bakhjarlar Samfylkingar

Erlend huldufélög leigja Samfylkingunni húsnæði undir höfuðstöðvar flokksins. Formaðurinn kemur af fjöllum, segist ekkert vita hverjir eiga huldufélögin í útlöndum sem hýsa Samfylkinguna.

Það samrýmist illa að gera kröfu um siðbót í stjórnmálum og samtímis fela bakhjarla sína undir erlendri kennitölu.

Samfylkingin hlýtur að gera hreint fyrir sínum yrum tilkynna alþjóð hverjir eigendurnir eru og útskýra hvers vegna eignarhaldi á höfuðstöðvum flokksins er haldið leyndu.


mbl.is Þekkir ekki eignarhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnleysi vex, fylgi Pírata minnkar - næsta ríkisstjórn

Þjóðin þolir ekki stjórnleysi og refsar þeim sem auka óreiðuna. Vinstri grænir stækka í pólitíska umrótinu eftir afsögn forsætisráðherra en fylgi Pírata minnkar. Þetta sýna skoðanakannanir.

Vinstri grænir skarta formanni sem ekki elur á sundrungu á meðan Píratar tala fyrir óreiðupólitík.

Kosningabarátta fyrir næstu þingkosningar þjófstartaði með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þrír flokkar eru í góðum færum. Ríkisstjórnarflokkarnir báðir, enda geta þeir látið verkin tala. Í stjórnarandstöðunni er aðeins einn flokkur sem á raunhæfa möguleika að gera sig gildandi, Vinstri grænir.

Samfylkingin flokkur sundurlyndis, ásamt Pírötum. Samfylkingin stendur frammi fyrir aukalandsfundi í sumar og engar líkur að flokkurinn nái vopnum sínum.

Vinstri grænir gætu átt aðild að næstu ríkisstjórn, spurningin er hvort það verði tveggja eða þriggja flokka stjórn.


mbl.is Engin hótun í tímasetningu kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Teljaralýðræði á Bessastaði? Nei, takk

Þegar ákveðið var að Sigurður Ingi Jóhannsson yrði nýr forsætisráðherra, eftir að RÚV, Kastljósþáttur og mótmæli á Austurvelli leiddu til þess Sigmundur Davíð vék úr embætti, sögðu margir: við vildum ekki Sigurð Inga.

Sem er eflaust laukrétt. Fólk fór ekki á Austurvöll til að fá þennan eða hinn sem forsætisráðherra, heldur til að mótmæla fjármálum forsætisráðherra sem kom illa út úr sænsk-íslenskri fyrirsát í ráðherrabústaðnum. En enginn veit neitt umfram það hvað mótmælendur vildu.

Mótmælin á Austurvelli voru birtingarform teljaralýðræðis. Kjánaprik á sjötugsaldri í fréttasetti RÚV spurðu fréttamann á staðnum: er margmennt á Austurvelli? Þegar frá leið tóku fréttabörn við og sögðu ,,það er bylting."

Teljaralýðræði er þegar aðgerðasinnar boða til mótmæla og hafa í hendi teljara sem eiga að upplýsa fjölda mótmælenda. Engin viðurkennd aðferðafræði er notuð og engin leið er til að sannreyna fjöldann. Þegar maður kaupir eitt kíló af kjötfarsi í búð vill maður magnið samkvæmt viðurkenndri mælingu en ekki það sem kaupmanninum finnst hæfilegt. ,,Mældu rétt," var viðkvæði dönsku einokunarkaupmannanna þegar þeir seldu Íslendingum úldið mjöl, naumt skammtað.

Þeir sem hafa mælt flatarmál Austurvallar og dregið frá styttuna af Jóni Sigurðssyni og gróðurrunna, segja að í kringum fimm til sjö þúsund manns komist á svæðið, sé gert ráð fyrir í kringum einn fermetra á mann. Teljararnir á Austurvelli á mánudag sögðust hafa talið 20 til 22 þúsund manns. Þetta er skáldskapur aðgerðasinna og í takt við fréttahönnunina sem hratt úr vör atburðarásinni.

Andstæða teljaralýðræðis er stjórnskipulagt lýðræði. Skúli Magnússon útskýrði í Morgunblaðsgrein hvað það þýðir:

Það er grundvallaratriðið í lýðræðishugtaki íslenskrar stjórnskipunar að helstu valdastofnanir hafi lýðræðislegt umboð með því að í þær er skipað til ákveðins tíma með kosningum sem fram fara á grundvelli skýrra leikreglna þar sem miðlun upplýsinga, virk umræða og jafnræði á að vera tryggt. Þannig er kosið til Alþingis á fjögurra ára fresti, svo sem flestir vita, og sitjandi ríkisstjórn verður að njóta stuðnings eða a.m.k. hlutleysis þingsins.

Teljaralýðræðið á Austurvelli myndi gera lýðveldið stjórnlaust. Sérfræðingur í teljaralýðræði er ekki heppilegasti maðurinn til að verða forseti lýðveldisins. Jafnvel þótt hann fái blessun RÚV.

 

 


mbl.is Forsetaefni afsprengi pólitísks umróts?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk stjórnmál eru einstök

Stórar stjórnmálakenningar, til dæmis frjálshyggja og marxismi, kenna altækar lausnir á sértækum vanda. Hvarvetna sem slíkar kenningar eru reyndar verður útkoman ólík. Marxismi í Sovétríkjunum var annar en í Kína og á Kúbu. Frjálshyggja í Chile var ekki sú sama og í Nýja-Sjálandi.

Þegar altækar stjórnmálakenningar mæta staðbundnum aðstæðum verður til útfærsla á pólitík sem dregur dám af hvorutveggja.

Af þessu leiðir eru íslensk stjórnmál ein sinnar tegundar, rétt eins og færeysk stjórnmál eru einstök og íröksk einnig. Samt má finna samnefnara. Fjölskyldu- og ættartengsl skipta máli á Íslandi, Færeyjum og í Írak; trúmál sömuleiðis í Færeyjum og Írak.

Altækar stjórnmálakenningar skýra sjaldnast einkenni stjórnmála samfélaga. Það verður að grípa til sértækari hugtaka. Á Íslandi eru til dæmis öll stjórnmál einhver útgáfa af framsóknarpólitík.

 


mbl.is Stjórnmál á Íslandi eru ekki einstök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sighvatur: frystum Samfylkinguna

Síðasti formaður Alþýðuflokksins, Sighvatur Björgvinsson, notar líkinguna ,,snúum bökum saman" um Samfylkinguna í grein í Morgunblaðinu í dag. Líkingin er forn, ættuð frá rómverska fótgönguliðinu, sem sneri bökum saman þegar það var umkringt og gereyðing blasti við.

Sighvatur vill að samfylkingarfólk hætti við að skipta um forystu og standi ekki fyrir uppgjöri við mistök í stefnumótun flokksins, sem fyrirhugað er að gera á aukalandsfundi í byrjun júní.

Sighvatur vill með öðrum oðrum frysta stöðu Samfylkingarinnar, eins og hún er núna. Flokkurinn mælist með 8 prósent fylgi.

Tillaga Sighvats er skynsamleg. Samfylkingin er best fryst með 8 prósent fylgi.


Skúli um valdarán Birgittu

Birgitta Jónsdóttir leiðtogi Pírata segir valdarán framið af meirihluta alþingis, þegar ný ríkisstjórn var mynduð. Á Eyjunni eru þessi orð af fésbók Birgittu:

Ríkisstjórnin hefur framið fullkomið valdarán. Þetta skrifar Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, í færslu á Facebook.

Skúli Magnússon lögfræðingur skrifar grein í Morgunblaðið í dag til að útskýra stjórnskipun lýðveldisins:

Þegar litið er yfir íslensku stjórnarskrána, uppruna hennar og meginreglur er þannig ljóst að hún byggist á þeirri hugmynd að vernd grundvallarréttinda, svo og skýrar og fyrirsjáanlegar leikreglur í anda réttarríkisins, séu bæði forsenda lýðræðislegrar ákvarðanatöku og setji þeim mörk. Með öðrum orðum er íslensk stjórnskipun reist á hugmynd um stjórnskipulegt lýðræði sem líta má á sem andstæðu óhefts meirihlutaræðis, skrílræðis og lýðhyggju (poppúlisma).

 Það er grundvallaratriðið í lýðræðishugtaki íslenskrar stjórnskipunar að helstu valdastofnanir hafi lýðræðislegt umboð með því að í þær er skipað til ákveðins tíma með kosningum sem fram fara á grundvelli skýrra leikreglna þar sem miðlun upplýsinga, virk umræða og jafnræði á að vera tryggt. Þannig er kosið til Alþingis á fjögurra ára fresti, svo sem flestir vita, og sitjandi ríkisstjórn verður að njóta stuðnings eða a.m.k. hlutleysis þingsins.

Valið stendur um tvennt: skrílræði Birgittu og Pírata annars vegar og hins vegar stjórnskipulegt lýðræði.

Skýrara getur það ekki verið.


Fyrirgefið; stöðugleika, bætt lífskjör og ekkert Icesave

Stjórnarandstaðan vill að ríkisstjórnin biðjist fyrirgefningar á verkum sínum. Meðal verka ríkisstjórnarinnar er að koma á efnahagslegum stöðugleika með hagvexti sem allar Evrópuþjóðir öfunda okkur af.

Á Íslandi er full atvinna, lág verðbólga, launajöfnuður og meira jafnrétti kynjanna en þekkist meðal annarra þjóða.

Við losnuðum við Icesave-skuldbindingar vinstristjórnarinnar á síðasta kjörtímabili. Við gerðum samning við kröfuhafa föllnu bankanna sem enginn trúði að hægt væri að ná - og allra síst vinstriflokkarnir.

Já, það er margt sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er með á samviskunni.


mbl.is „Enginn sagt fyrirgefðu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband