Teljaralýðræði á Bessastaði? Nei, takk

Þegar ákveðið var að Sigurður Ingi Jóhannsson yrði nýr forsætisráðherra, eftir að RÚV, Kastljósþáttur og mótmæli á Austurvelli leiddu til þess Sigmundur Davíð vék úr embætti, sögðu margir: við vildum ekki Sigurð Inga.

Sem er eflaust laukrétt. Fólk fór ekki á Austurvöll til að fá þennan eða hinn sem forsætisráðherra, heldur til að mótmæla fjármálum forsætisráðherra sem kom illa út úr sænsk-íslenskri fyrirsát í ráðherrabústaðnum. En enginn veit neitt umfram það hvað mótmælendur vildu.

Mótmælin á Austurvelli voru birtingarform teljaralýðræðis. Kjánaprik á sjötugsaldri í fréttasetti RÚV spurðu fréttamann á staðnum: er margmennt á Austurvelli? Þegar frá leið tóku fréttabörn við og sögðu ,,það er bylting."

Teljaralýðræði er þegar aðgerðasinnar boða til mótmæla og hafa í hendi teljara sem eiga að upplýsa fjölda mótmælenda. Engin viðurkennd aðferðafræði er notuð og engin leið er til að sannreyna fjöldann. Þegar maður kaupir eitt kíló af kjötfarsi í búð vill maður magnið samkvæmt viðurkenndri mælingu en ekki það sem kaupmanninum finnst hæfilegt. ,,Mældu rétt," var viðkvæði dönsku einokunarkaupmannanna þegar þeir seldu Íslendingum úldið mjöl, naumt skammtað.

Þeir sem hafa mælt flatarmál Austurvallar og dregið frá styttuna af Jóni Sigurðssyni og gróðurrunna, segja að í kringum fimm til sjö þúsund manns komist á svæðið, sé gert ráð fyrir í kringum einn fermetra á mann. Teljararnir á Austurvelli á mánudag sögðust hafa talið 20 til 22 þúsund manns. Þetta er skáldskapur aðgerðasinna og í takt við fréttahönnunina sem hratt úr vör atburðarásinni.

Andstæða teljaralýðræðis er stjórnskipulagt lýðræði. Skúli Magnússon útskýrði í Morgunblaðsgrein hvað það þýðir:

Það er grundvallaratriðið í lýðræðishugtaki íslenskrar stjórnskipunar að helstu valdastofnanir hafi lýðræðislegt umboð með því að í þær er skipað til ákveðins tíma með kosningum sem fram fara á grundvelli skýrra leikreglna þar sem miðlun upplýsinga, virk umræða og jafnræði á að vera tryggt. Þannig er kosið til Alþingis á fjögurra ára fresti, svo sem flestir vita, og sitjandi ríkisstjórn verður að njóta stuðnings eða a.m.k. hlutleysis þingsins.

Teljaralýðræðið á Austurvelli myndi gera lýðveldið stjórnlaust. Sérfræðingur í teljaralýðræði er ekki heppilegasti maðurinn til að verða forseti lýðveldisins. Jafnvel þótt hann fái blessun RÚV.

 

 


mbl.is Forsetaefni afsprengi pólitísks umróts?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Merkilegt hversu talningin skiptir þig og þína líka miklu máli.

Nýskipaður forsætisráðherra sagði í viðtali að sér þætti í lagi að auðmenn geymdu peningana sína í skattaskjólum og á sama tíma ætlar hann að reyna að skapa traust. Ekki góð byrjun hjá minum gamla sveitunga.

Sigurður Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 10.4.2016 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband