Skrítið lýðræði? Nei, breskt

Vinstrimenn sumir, t.d. Egill Helgason, agnúast út í þá bresku hefð að sitjandi stjórnarflokkur getur boðað til kosninga með skömmum fyrirvara. Bretar státa þó af lengri lýðræðishefð en nokkurt annað þjóðríki.

Lýðræði er ekki eitt sniðmát. Útfærslur á lýðræði eru ólíkar milli landa. Kjörmannakerfið í Bandaríkjunum, tvöföld umferð í forsetakosningum í Frakklandi og reglulegar minnihlutastjórnir á Norðurlöndum flokkast allt undir lýðræði.

Ef leikreglurnar eru skýrar, kosningar almennar og leynilegar og umræðan nokkurn veginn frjáls, tja, þá er lýðræði.


mbl.is Myndi styrkja mjög stöðu May
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Che Smári: gagnrýni á sósíalista er hótun

Óstofnaður Sósíalistaflokkur Íslands er kominn í gírinn. Aðalritarinn, Che Smári, segir gagnrýnendur flokksins hafi í frammi hótanir. Bloggaranum Jónasi Kristjánssyni varð á að halla flokknum orði og var óðara rekinn úr samkvæminu.

Í ætt við sósíalistaflokka austan tjalds fyrr á tíð líðast ekki sjálfstæðar skoðanir. Þeir sem ekki fylgja flokkslínunni í hvívetna komast að því fullkeyptu.

Che Smári lifir sig inn í hlutverkið, eins og hann jafnan gerir, hvort heldur sem málpípa auðmanna eða fátæklinga.

 


Trump, Pútín og Erdogan: plott á mörgum hæðum

Pútín og Erdogan urðu vinir eftir misheppnaða stjórnarbyltingu gegn Erdogan síðast liðið sumar. Vesturveldin urðu óvinir Erdogan enda grunar Erdogan meinta vini sína í Nató um stuðning við byltingartilraunina.

Trump tók við embætti um áramótin og virðist ætla að bæta samskiptin við Erdogan, sem bæði glímir við innanlandsvanda og erfiðleika við suðurlandamærin þar sem Kúrdar gera sig líklega að stofna sjálfstætt ríki með stuðningi Bandaríkjanna.

Helsta bandaríska tímaritið um utanríkismál, Foreign Affairs, segir bandalag Pútín og Erdogan ástlaust hagkvæmnihjónaband. En þjóðríki þurfa ekki ást, aðeins sameiginlega hagsmuni.

Í áratugi er Tyrkland helsti bandamaður Bandaríkjanna í gáttinni að miðausturlöndum. Flugbækistöð Bandaríkjanna í Incirlik er notuð til árása- og eftirlitsflugs í Sýrlandi og Írak. Duldar hótanir Tyrkja að loka stöðinni sýna hve súrt var á milli Erdogan og Obama-stjórnarinnar.

Þrátt fyrir hagkvæmnihjónaband Erdogan og Pútín er aldagömul saga misklíðar Rússa og Tyrkja í þessum heimshluta. Trump gæti nýtt sér það.

En maðurinn sem gæti samhæft þremenningana Trump, Pútín og Erdogan í einu bandalagi heitir Alexander Dugin, kallaður Raspútín Pútíns, með vísun í munkinn sem naut trúnaðar síðustu keisarafjölskyldu Rússlands. Samkvæmt Bloomberg er Dugin maðurinn sem sætti Pútín og Erdogan. Og Dugin er aðdáandi Trump.

Í plottinu í kringum héraðshöfðingjana þrjá er nærliggjandi heimsálfa algerlega útundan. Hún heitir Evrópa og er án marktæks héraðshöfðingja í alþjóðamálum.


mbl.is Trump óskar Erdogan til hamingju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erdogan og Hitler: lýðræði og veik ríki

Lýðræði er ekki stjórnskipun líkt og lýðveldi á Íslandi og Bandaríkjunum eða konungsbundið þingræði eins og í Bretlandi. Lýðræði er einkenni á stjórnarfari þar sem umræða, nokkurn vegin frjáls, er undanfari almennra kosninga um hverjir skuli fara með opinbert vald.

Ekkert ríki býr við fullkomið lýðræði. Nægir þar að nefna að nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, fékk færri atkvæði en mótframbjóðandinn en náði samt kjöri samkvæmt gildandi og viðurkenndum reglum þar í landi.

Þjóðir eiga það til að kjósa á móti lýðræði. Hitler náði völdum í þingkosningum, fékk þó ekki meirihluta, vegna þess að Weimarlýðveldið stóð veikt. Í fernum þingkosningum 1928 til 1932 óx fylgi nasista úr 2,6% í um og yfir þriðjungsfylgi. Þjóðverjar vissu ósköp vel að Hitler boðaði ekki lýðræði sem lausn á vanda Þýskalands - þvert á móti. Lýðræðið hafði veikt þýska ríkið, það sem eftir var af því í lok fyrra stríð.

Tyrkland samtímans er veikt. Landamæri ríkisins eru í uppnámi. Tvö ónýt ríki, Sýrland og Írak, liggja suður af Tyrklandi. Líkur eru á að nýtt ríki Kúrda verði stofnað á suðurlandamærum Tyrklands. Kúrdar eru um 35 milljónir og um 14 milljónir þeirra eru í Tyrklandi. Nýtt ríki Kúrda væri ógn við tilvist tyrkneska ríkisins.

Í hundrað ár, frá dögum Kemal Ataturk, hafa Tyrkir reynt að vesturlandavæðast. Lýðræðið þar í landi var veikt, herforingjar ýmist taka völdin eða hafa hönd í bagga með hverjir stjórna áratugina eftir seinna stríð.

Erdogan forseti Tyrklands stóð frammi fyrir valdaránstilraun fyrir nokkrum mánuðum. Hann hélt naumlega völdum. Flokkur hans er bandalag múslímahópa sem eru tortryggnir ef ekki í beinni andstöðu við vestræn gildi. Þegar innanlandsólga vex og tilvist tyrkneska ríkisins verður tvísýnni eykst eftirspurnin eftir manni sem á grunni fornra trúarsiða getur varið Tyrkland.

Lexían af samanburði Hitlers og Erdogan er að lýðræði þrífst illa í ríkjum sem eru sjálfum sér sundurþykk og standa frammi fyrir tilvistarógn.


mbl.is Segja leikvöll kosninganna ójafnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-sinni gefst upp: hvað gera Viðreisn og Samfylking?

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, var ESB-sinni og starfaði með samtökum sem vildu Ísland inn í Evrópusambandið. Jón skrifar grein þar sem hann lýsir yfir að aðild Íslands að ESB sé ekki lengur á dagskrá - a.m.k. ekki í fyrirsjáanlegri framtíð.

Misheppnaða ESB-umsókn Samfylkingar frá 16. júlí 2009 var dauð úr öllum æðum áramótin 2012/2013 þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu hana á ís.

ESB-sinnar reyndu þó að halda lífi í umræðunni. Heill stjórnmálaflokkur, Viðreisn, var stofnaður um endurnýjaða aðildarumsókn.

Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, skýtur loku fyrir allar frekari áætlanir ESB-sinna á Íslandi að sækja um aðild. Flokkarnir tveir sem helga sig málefninu, Samfylking og Viðreisn, eiga sér ekki tilvistarvon með ESB-aðild sem baráttumál.


Tyrkir kjósa múslímskt einræði

Í hundrað ár reyndu Tyrkir að veraldarvæðast, hverfa frá múslímskum miðöldum til vestrænna siða og hátta. Erdogan forseti skrúfar klukkuna tilbaka og múslímavæðir Tyrkland undir einræðisstjórn. Tyrkir samþykkja ráðslagði í þjóðaratkvæði.

Vegferð Tyrkja frá vestrænum gildum til miðalda er enn eitt dæmið um að trúarmenning múslíma verður ekki samrýmd lýðræði, jafnrétti og mannréttindum.

Vesturlönd ættu að gleyma öllum áformum um að nútímavæða miðausturlönd. Múslímar eru einfaldlega á öðru menningarstigi en vesturlönd.


mbl.is Meirihluti sagði já
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaust-gefið-sósíalismi og full bílastæði í Keflavík

Vinstrimenn ætla að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn vegna þess að ,,það er vitlaust gefið." Á sama tíma eru öll langtímastæði við Keflavíkurflugvöll full enda tugþúsundir Íslendinga í útlöndum.

Það er ekki elítan sem er í útlöndum heldur almenningur. Vitlaust-gefið-sósíalismi er stofnaður til að jafna kjörin niður á við. Ótækt er að almenningur leyfi sér þann munað ferðast. Við eigum að sitja heima með sultardropa í nefinu og velta okkur upp úr ímyndaðri eymd.

Um síðustu aldamót stofnuðu vinstrimenn tvo flokka, Samfylkingu og Vinstri græna. Borgarahreyfingin var stofnuð fyrir átta árum; hún klofnaði og varð Hreyfingin og síðar Píratar en sumir urðu að Dögun. Björt framtíð var stofnuð sem klofningur úr Samfylkingu.

Núna er það Sósíalistaflokkurinn sem mætir til leiks undir óopinberu slagorði vinstrimanna: Ónýta Ísland, hvenær kemur þú?


mbl.is Taki rútu eða láti aka sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvikastjórnmál og uppákomur

Atvikastjórnmál ganga út á að bregðast við uppákomum. Þau eru alþjóðlegt einkenni. Trump er sagður hafa fyrirskipað flugskeytaárás á Sýrland í framhaldi af uppnámi dóttur hans, Ivönku.

Hér heima er afsögn Sigmundar Davíðs fyrir rúmu ári dæmi um atvikastjórnmál. Vandræðalegt sjónvarpsviðtal fékk pólitískar afleiðingar vegna uppnámsins sem tókst að skapa.

Fjölgun fjölmiðla leiðir til lélegri blaðmennsku. Í því skjóli er auðvelt að búa til uppákomur sem fela í sér pólitískar afleiðingar atvikastjórnmála. Ýkjur og falsfréttir eru hráefni atvikastjórnmála.


Karlaveldi og hnignun siðmenningar

Rómarveldi byggði á bændaher, feðrahyggju og aðlögunarhæfni. Rómverjar tóku verkfræði Etrúra, grísk goð og viðskiptahætti Föníkumanna og gerðu úr þúsund ára stórveldi. Goðsagan um nauðgun sabínsku kvennanna er Boko-Haram kvennaveiðar forsögulegs tíma.

Feðraveldi Rómverja fékk framhaldslíf í kristni, eingetinn sonur þríkarlkynjaðs guðs þar sem konan var aðeins útungunarvél. Eftir miðaldir, sem Evrópa notaði til að endurskipuleggja sig, birtist heimsvaldastefna Rómar í líki landvinninga kristinna Vestur-Evrópuríkja í öllum heimsálfum. Í kjölfar nýlendustefnu kom iðnbylting og nýjungar í stjórnskipun, samanber amerísku og frönsku byltingarnar. Allt var þetta karlamiðað, aðeins seint og um síðir var konum hleypt í atvinnurekstur og stjórnmál.

Karlmennska komst í kreppu á síðustu öld. Tvær heimsstyrjaldir og skipulögð þjóðarmorð á minnihlutahópum þóttu fullmikið af því góða. Sagnfræðingurinn Philipp Bloom segir reyndar að ein ástæða heimsstyrjaldarinnar fyrri sé viðbragð við hnignun karlmennskunnar. Frá því sjónarhorni eru heimsstríðin ekki skelfilegur hápunktur karlmennsku heldur krampakennd andspyrna gegn kvenvæðingu.

Eftir stórstríðin tvö reyndu menn að haga sér og skiptu heiminum upp í austur og vestur, kapítalisma og kommúnisma. Smástríð, Kórea og Víetnam, voru undantekningar. Kjarnorkuvopnaður friður var reglan.

Einföld skipting heimsins í tvo hluta er háttur karla, gott eða vont, engin blæbrigði þar. Hrun kommúnismans fyrir aldarfjórðungi kippti stoðunum undan skiptingunni. Alþjóðastjórnmál tóku  að líkjast verslunarferð kvenna, þar sem allt var á huldu hvað á að kaupa og til hvers.

Heimurinn beið ekki lengur eftir skilaboðum frá Washington, Brussel eða Moskvu um hvað má og hvað ekki. Í miðausturlöndum blossaði upp stríðsbál múslímskrar karlamenningar. Vestræn ríki bera töluverða ábyrgð, Bandaríkin sérstaklega, sem gerðu sér að leik að steypa af stóli einræðisherrum eins og Saddam Hussein og Gadaffi án þess að hafa hugmynd um hvað tæki við.

Óöldin í miðausturlöndum afhjúpar vestræna veikleika. Evrópa er í hnignun, bæði veik inn á við og á útstöðvum. Bandaríkin þora ekki að heyja stríð án útgönguleiða. Samskiptin við Rússland eru í frosti vega þess að Pútín þykir of mikil karlremba.

Heimsveldi er skammaryrði, karllægt og forpokað. Kristnu trúargildin eru farin veg allrar veraldar. Uppeldi snýst um að verja börn fyrir köldum staðreyndum lífsins. Pólitískur rétttrúnaðar bannar að kalla hlutina réttum nöfnum. Ross Barkley er górilla á fótboltavellinum, burtséð hvaðan hann er ættaður.

Siðmenningu hnignar þegar þeir sem bera hana uppi vita ekki lengur fyrir hvað hún stendur. Áratugina eftir seinna stríð var reynt að gera hugmyndina um algild mannréttindi að nokkurs konar hjáguði. En algild mannréttindi fela í sér að hver og einn gerir kröfur um að heimurinn lúti persónulegum dyntum. Algild mannréttindi gera ekki ráð fyrir samfélagi, aðeins réttindum einstaklinga. Lífið verður í anda Hobbes: einangrað, fátækt, kvikindislegt, ofbeldiskennt - og stutt.

 

 

 


Óvænt þróun í Frakklandi - kommúnisti sækir fram

Marine Le Pen er með 24 prósent fylgi í Frakklandi, miðjumaðurinn Emmanuel Macron mælist með sama fylgi. Þessi tvö eru líklegust til að komast í aðra umferð forsetakosninganna. En þriðji frambjóðandinn, Jean-Luc Mélenchon, gæti sett strik í reikninginn.

Mélenchon nýtur stuðnings franska kommúnistaflokksins. Hann vitnar í Maó formann og Hugo Chavez, sem gerði sósíalistatilraun í Venesúela. Mélenchon er í stórsókn, mælist með 18 prósent fylgi.

Telegraph segir fjöldafundi Mélenchon draga að sér tugþúsundir sem vilja róttækt brotthvarf frá frjálshyggjupólitík. Almennt er talið að Mélenchon taki fremur fylgi frá Macron en Le Pen.

Le Pen og Mélenchon eru bæði gagnrýnin á Evrópusambandið og höll undir Pútín Rússlandsforseta. Le Pen er með smekk fyrir Donald Trump en Mélenchon ekki.

Fari svo að þau tvö bítist um forsetaembætti Frakklands, með því að verða efst í fyrri umferð forsetakosninganna 23. apríl, er komin upp sérstök staða í vöggu borgaralegs lýðræðis í Evrópu.


mbl.is Vilja aflétta friðhelgi Le Pen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband