Björn Valur hrósar Óttari - vinstrimenn skilja ekki málamiðlun

Varaformaður Vinstri grænna, Björn Valur Gíslason, hrósar Óttari Proppé fyrir að ganga til stjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokknum. Rök Björns Vals:

Kjósendur sendu stjórnmálamönnum þau skilaboð í kosningunum að þeir ættu að ræða sig til lausna. Óttar Proppé og félagar hafa meðtekið þau skilaboð. Stjórnarsáttmáli næstu ríkisstjórnar verður málamiðlun á milli þeirra flokka sem mynda stjórnina. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf.

Jóhanna Sigurðardóttir og margir vinstrimenn aðrir vilja ekki skilja innsta eðli lýðræðislegra stjórnmála, sem er málamiðlunin.

Vinstrimenn buðu fram fjóra flokka af ýmsum sortum í nýafstöðnum kosningum: Vinstri græna, Pírata, Bjarta framtíð og Samfylkingu. Þessir flokkar fengu samtals 27 þingmenn. Til að ná meirihluta á alþingi þarf 32 þingmenn eða fleiri.

Meirihluti þjóðarinnar kaus annað en vinstriflokkana. Stærsti kjósendahópurinn, 29%, kaus Sjálfstæðisflokkinn. Rétt og sanngjörn niðurstaða er að ríkisstjórn málamiðlunar verði mynduð undir forsæti formanns Sjálfstæðisflokksins.

Vinstrimenn skipta sér í fjóra flokka en krefjast þess að flokkarnir hagi sér eins og þeir væru einn flokkur. Hvers vegna byrja þeir ekki á því að sameinast í einn flokk? Ætli svarið sé ekki að málamiðlun og vinstripólitík eigi ekkert sérstaklega vel saman?

 

 

 


mbl.is „Æ, æ, Óttarr Proppé“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópuher útilokar ESB-aðild til framtíðar

Evrópusambandið er í sjokki eftir sigur Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Tvær ástæður eru í forgrunni. Í fyrsta lagi ætlar Trump ekki að fjármagna varnir Evrópu líkt og áður í gegnum Nató. Í öðru lagi er líklegt að Trump nái samkomulagi við Pútín Rússlandsforseta um skiptingu á umdeildum áhrifasvæðum s.s. í Austur-Evrópu og miðausturlöndum.

Evrópusambandið stóð fyrir útþenslu í Austur-Evrópu eftir fall Sovétríkjanna. Eystrasaltslöndin þrjú, Pólland, Búlgaría og Rúmenía runnu inn í ESB. Útþenslan strandaði í Úkraínu þar sem nú geisar staðgenglastríð milli ESB/Bandaríkjanna/Nató annars vegar og hins vegar Rússlands.

Ef Trump hættir að fjármagna Nató í sama mæli og áður og semur við Pútín um skiptingu áhrifasvæða er öll Austur-Evrópa í uppnámi - en hún er í bakgarði Rússa líkt og Mexíkó er túnflötur Bandaríkjanna.

Andspænis þessari hrollvekju ætlar Evrópusambandið að byggja upp her - í sama mund og eitt öflugasta herveldið innan sambandsins, Bretland, er á leiðinni út.

Ísland er á viðurkenndu áhrifasvæði Bandaríkjanna síðustu 70 árin. Við eigum nákvæmlega engra hagsmuna að gæta í Austur-Evrópu í sögulegu samhengi, nema þeim að viðskiptasamband Íslands og Rússlands er traust. Ef Ísland álpaðist inn í Evrópusambandið undir þessum kringumstæðum jafngilti það að við löðrunguðum Bandaríkin og skitum á stofugólf Pútíns.

Íslenskir stjórnmálamenn sem svo mikið sem íhuga ESB-aðild um þessar mundir eru ekki með öllum mjalla.


mbl.is Vill stefna að Evrópuher
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn völdu áhrifaleysi

Eftir kosningar voru Vinstri grænir leiðandi flokkur vinstrimanna. Þeir stóðu frammi fyrir tveim kostum. Í fyrsta lagi að taka þátt í stjórnarmyndum með sigurvegara kosninganna, Sjálfstæðisflokknum. Í öðru lagi að standa á hliðarlínunni og bíða þess er verða vildi.

Vinstri grænir höfnuðu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og krossuðu fingur í von um að stjórnarmyndunarviðræður Bjarna Ben. steyttu á skeri. Sú von breytist í örvæntingu ef Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð ná saman um ríkisstjórn.

Forysta Vinstri grænna skýlir sér á bakvið Lækjarbrekkufundi vinstriflokkanna fyrir kosningar og segir vegna þeirra hafi þeir ekki getað farið í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Lækjarbrekkufundirnir voru boðaðir af Pírötum sem með aðstoð RÚV settu saman vinstrivalkost til landsstjórnar. Þjóðin veitti ekki Lækjarbrekkubandalaginu umboð, flokkarnir 4 eru með 27 þingmenn.

Vinstri grænir verða ekki í forystu í stjórnarandstöðunni. Píratar eru jafn stór þingflokkur og engar líkur að þeir lúffi fyrir Vinstri grænum. Samfylking er of lítil til að skipta máli. Afleiðingin af hjásetu Vinstri grænna verður áhrifaleysi enda Birgitta og Píratar flinkari að sprikla í fjölmiðlum en Katrín, Svandís og Steingrímur J.

Ósigur Samfylkingar í kosningunum og vangeta Vinstri grænna eftir kosningar dæmir vinstrimenn til áhrifaleysis um fyrirsjáanlega framtíð.


mbl.is Furðar sig á Bjartri framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn meðalhófsins

Þriðja ríkisstjórnin eftir hrun stendur ekki frammi fyrir risavöxnum verkefnum, líkt og stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur strax eftir hrun og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs árið 2013, sem tókst á við skuldaleiðréttingu heimilanna og uppgjör við föllnu bankana.

Næsta ríkisstjórn fær það verkefni að varðveita stöðugleika i efnahagsmálum og gera stjórnmálamenninguna skaplegri. Uppbygging innviða og þróun sáttaleiða í launakerfi landsmanna eru helst á dagskrá.

Ríkisstjórn meðalhófsins þarf ekki sterkan meirihluta á bakvið sig enda tileinkar hún sér öfgaleysi í framgöngu og leitar sátta við þing og þjóð. En hún þarf jafnframt að vera föst fyrir og gefa ekki eftir háværum kröfum aðskiljanlegra hópa samfélagsins, sem telja að nú sé komið einmitt að þeim að fá peninga úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar.


mbl.is Byrjað á sáttmála um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5 til 7 prósent lýðræði í Reykjavík

Íbúakosning um hvort skuli gera frisbígolf í Öskjuhlíð eða róluvöll í Laugarnesi er kynnt sem íbúalýðræði í Reykjavík.

Þátttaka íbúa mælist fimm til sjö prósent. 

Íbúalýðræði af þessu tagi, þar sem kosið er um smáframkvæmdir og sárafáir taka þátt, er afbökun á lýðræðinu en ekki iðkun þess.


mbl.is Aukin þátttaka í hverfakosningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Benedikt svindlar á Katrínu og vill umboð Guðna Th.

Formaður Viðreisnar er með 11 þingmenn á bakvið sig eftir sameiningu við Bjarta framtíð. Á þessari forsendu ætlar Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar að krefjast umboðs til stjórnarmyndunar frá Guðna Th. forseta á undan Katrínu Jakobsdóttur formanni Vinstri grænna, sem er tíu manna þingflokkur.

Benedikt afhjúpar sig sem valdabraskara af áður óþekktri ósvífni. Um leið eyðileggur Björt framtíð allan trúverðugleika flokksins. Á bakvið allar pólitískar yfirlýsingar Bjartrar framtíðar er verðmiði. Spurningin er aðeins hver borgar og hve mikið.

Sameining þingflokka Viðreisnar og Bjartar framtíðar þjónar aðeins þeim tilgangi að styrkja kröfu Benedikts að verða forsætisráðherra. Eftir kosningar kallaði Guðni Th. forseti formenn flokka til sín eftir stærð þingflokkanna. Bjarni Ben. formaður Sjálfstæðisflokksins fékk umboð til stjórnarmyndunar á forsendu stærðar þingflokksins.

Líkur eru á að Bjarni Ben. skili inn umboðinu í dag eða um helgina. Benedikt Jóhannesson ætti ekki að fá umboðið strax enda Viðreisn aðeins með sjö þingmenn. Sameiginlegur þingflokkur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar telur á hinn bóginn 11 þingmenn og er næstur þingflokki Sjálfstæðisflokksins að stærð.

Með sameiningu þingflokka Viðreisnar og Bjartar framtíðar er kjósendum gefið langt nef. Almenningur stóð í þeirri trú að flokkarnir tveir stæðu fyrir ólíkar pólitískar áherslur. Björt framtíð var í kosningabandalagi með Pírötum, Vinstri grænum og Samfylkingu fyrir kosningar. En nokkrum dögum síðar er Björt framtíð orðin að hægriflokki í vasa Benedikts Viðreisnarforingja.

Valdabrask Viðreisnar og Bjartar framtíðar grefur undan lýðræðislegu stjórnarfari í landinu. Maðurinn sem getur komið í veg fyrir hrossakaup um landsstjórnina heitir Guðni Th. Jóhannesson. Hann situr á Bessastöðum.


mbl.is Héldu sameiginlegan þingflokksfund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV líkir Trump-sigri við hryðjuverk

Hádegisfréttir RÚV líktu kosningasigri Donald Trump við hryðjuverkin í Boston fyrir þremur árum þegar þrír létust.

Aðalfrétt RÚV í hádeginu var af mótmælum gegn Trump. Tíðindamaður RÚV í Boston sagði fólk í taugaáfalli og grátandi vegna forsetakosninganna. Sigur Trump bjó til sama hugarástand og eftir hryðjuverkin í Boston, sagði tíðindamaðurinn.

Til að magna upp spennuna spurði fréttamaðurinn: helduru að þetta verði varanlegt ástand?

Samkvæmt RÚV eru Bandaríkin lömuð eftir kosningasigur Trump og ekki einn einasti kjaftur sem er ánægður. Í kvöldfréttum RÚV fáum við sennilega að heyra að kjósendur Trump komi frá Mars.


mbl.is Hvað gæti breyst með Trump?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump og nýíhaldið

Nýíhaldið fylgir félagslegri íhaldsstefnu, vantreystir bæði ríkisafskiptum og forstjóraveldi og hafnar fjölmenningu.

Í Bandaríkjunum bar bandalag nýíhaldsins úr millistéttinni og lágtekjuhópum framboð Donald Trump til sigurs.

Nýíhaldið er róttækt svar hægrimanna við regnabogapólitík vinstrimanna.


mbl.is Millistéttin studdi Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vg er mótmælahreyfing

Vinstri grænir eru mótmælahreyfing sem afþakkar aðild að ríkisstjórn. Þrátt fyrir kosningasigur eru innviðir flokksins of veikir og baklandið sundurleitara en svo að forysta flokksins þori að axla ábyrgð.

Afstaða Vg veitir hægriflokki Viðreisnar lykilstöðu í stjórnarmyndun, sem er með Bjarta framtíð eins og hund í bandi.

Vangeta Vg lýsir í hnotskurn stöðu vinstrimanna á Íslandi. Þeir sérhæfa sig í að velta sér upp úr vandamálum en bjóða engar lausnir og kikna undan ábyrgð.


mbl.is VG hafnar Sjálfstæðisflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit og Trump breyta íslenskum stjórnmálum

Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, Brexit, og sigur Trump í Bandaríkjunum breyta íslenskum stjórnmálum til frambúðar. Breskt nei við ESB kippti fótunum undan alþjóðavæðingunni hér heima; hún var öll undir þeim formerkjum að Ísland ætti að verða ESB-ríki.

Sigur Trump gengur endanlega frá pólitískri stefnu sem kennd er við fjölmenningu og gekk mest út á að hrakmæla þjóðmenningu og upphefja framandi menningu.

Bæði Brexit og Trump-sigurinn voru andóf gegn sérfræðistétt sem taldi sig vita betur en almenningur hvernig ætti að skipa málum innanlands sem utan. Það sést á viðbrögðum íslenskra stjórnmálamanna, sem sumir gráta á meðan aðrir eru ,,harmi slegnir", að þeir skynja veðrabrigði í stjórnmálum.


mbl.is Efast um að Trump verði hættulegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband