Laugardagur, 25. maí 2024
Nám, strákar og samfélag
Tvöfalt fleiri ungir karlar á aldrinum 18 til 24 ára hverfa frá námi hér á landi en jafnöldrur þeirra. Tveir af hverjum tíu körlum hætta námi en ein af hverjum tíu konum. Aldurinn 18 til 24 ára nær yfir síðustu ár í framhaldsskóla, iðnnám og fyrstu háskólagráðu.
Brottfall ungra karla frá námi á Íslandi er það mesta meðal Evrópuþjóða.
Tölfræðin býður upp á tvær túlkanir. Í fyrsta lagi að íslenskir ungkarlar séu þeir skynsömustu í viðri Evrópu. Þeir átta sig á að háskólanám er æ meira húmbúkk kjánafræða sem lítt eða ekkert eru í tengslum við hversdagslegan veruleika. Í háskólum er haft fyrir satt að kynin séu þrjú, fimm eða seytján; að veðrið sé ekki náttúrufyrirbæri heldur manngert; og að Hamas séu samtök mannvina.
Fyrir utan almennan hálfvitahátt og hindurvitni skaffar háskólanám ekki það sem menn hafa öðrum þræði auga á - meiri tekjur. Fyrir sex mánuðum sagði í Viðskiptablaðinu:
Kaupmáttur launafólks með meistaragráðu hefur staðið í stað frá aldamótum á sama tíma og kaupmáttur launþega með grunnmenntun hefur vaxið um 44% og lágmarkslauna um 84%.
Meistaranám tekur að jafnaði tvö ár að lokinni grunngráðu í háskóla, BA/BS, sem tekur þrjú ár. Með vinnu, eins og algengt er hér á landi, tekur oft 6 til 8 ár að ljúka meistaranámi. Áfram skrifar Viðskiptablaðið:
Samkvæmt nýjustu tölum gefur háskólamenntun 17% hærri laun en grunnmenntun hér á landi sem er langtum lægst meðal samanburðarlanda þar sem meðaltalið er 50%.
Jafnlaunalandið Ísland gerir minni greinarmun á háskólamenntun og grunnmenntun en samanburðarlönd. Það einfaldlega borgar sig ekki, mælt í krónum og aurum, að ná sér í háskólagráðu. Sé maður ekki þess meira fyrir vókfræðslu er einboðið að gera eitthvað frjórra við líf sitt en skrá sig í háskólanám.
Í öðru lagi má túlka tölfræðina um brottfall karla á þann veg að skólakerfið sé sniðið að stúlkum en ekki strákum. Meginþorri kennara, 70-80 prósent, er kvenkyns. Kennsla er kvenlæg og notar hugtök og viðmið úr heimi kvenna. Yndislestur, þægð og samvera eru forskriftin en ekki hasarsögur, fjör og stríðsleikir. Strákum er á unga aldri óbeint kennt að skólinn sé fremur fyrir konur en karla.
Vandamálið er ekki nýtt. Fjöldi útskrifaðra kvenna úr framhaldsskólum fór fram úr fjölda karla fyrir síðustu aldamót. Menn fara ekki í háskólanám án þess að ljúka stúdentsprófi. Fyrir áratug birtist grein á heimasíðu Jafnréttisstofu um kynjahalla í háskólum. Lokaorðin:
Ef ekkert verður að gert munu háskólar á Íslandi þegar fram líða stundir standa undir nafni sem hinir nýju kvennaskólar.
Tíu árum síðar má slá föstu að ekkert var gert. Háskólar eru svo gott sem kvennaskólar.
![]() |
Brottfall karla mest á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 24. maí 2024
Helvegur háskóla: fjölbreytileiki, jöfnuður og inngilding
Vísindi efla alla dáð eru einkunnarorð Háskóla Íslands. Þau eru frá miðri 19. öld, úr smiðju Jónasar Hallgrímssonar:
Vísindin efla alla dáð
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð.
Einstaklingur sem tileinkar sér fræðilega hugsun skapar verðmæti sem alþjóð nýtur góðs af. Páll heitinn Skúlason þáverandi rektor Háskóla Íslands gerði kjörorðin að umtalsefni við brautskráningu fyrir rúmum aldarfjórðungi:
Sá, sem vill breyta heiminum til hins betra, getur hvergi byrjað nema á sjálfum sér. Hann er verkfærið sem á að koma hinu góða til leiðar. [...] Það er ósk mín til ykkar, ágætu kandídatar, að sú frjálsa, gagnrýna hugsun, sem þið hafið tamið ykkur við nám í Háskóla Íslands, hjálpi ykkur til að feta braut viskunnar og hafa hugsjónir hennar að leiðarljósi í lífi og starfi.
Til að breyta heiminum af viti byrja menn á sjálfum sér. Verkfærið er frjáls gagnrýnin hugsun sem allir hafa jafnan aðgang að, enda er hún í meðvitundinni. Frjáls umræða tekur við öllum hugmyndum sem slípast og styrkjast, nú eða veikjast, í gagnrýnni umræðu. Útkoman er ekki algildur sannleikur heldur gildar skoðanir og þekking með fyrirvara. Vitneskja er ávallt með takmörkunum, eins og Páll rektor segir. Í grunninn er aðferðin sú sama og Sókrates kenndi Forn-Grikkjum til að skilja merkingu hugtaka.
Frjáls gagnrýnin hugsun, og þar af leiðandi frjáls umræða, á undir högg að sækja í háskólasamfélaginu. Frá útlöndum, einkum henni Ameríku, koma boðorðin um fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu (diversity, equity, inclusion). Á yfirborðinu falleg orð en kjarni þeirra er alræðishyggja. Frjáls hugsun skal víkja, banna, ef einhver móðgast. Einkum og sérstaklega ef sá móðgaði segist tilheyra bágindahópi af einhverri sort. Úr verður aumingjavald sem með hugsanalögreglu sér til halds og trausts kæfir frjálsa hugsun. Menn eiga ekki að hugsa gagnrýnið heldur tileinka sér dáðleysi frammi fyrir rétttrúnaði. Kapphlaupið er niður á við, markmiðið er að allir verði botnfall.
Breski sagnfræðingurinn Njáll Ferguson, einn örfárra sem standa undir nafninu stjörnusagnfræðingur, fékk stöðu við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum í byrjun aldar. Hann heimsótti fósturjörðina og varaði sterklega við amerísku boðorðunum um fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu. Harvard, áður fremsta menntastofnun vesturlanda, er aðhlátursefni, segir Ferguson.
Frelsi og jöfnuður eru andstæður í heimi hugsunar. Sumir eru heimskir, flestir meðalgreindir, fáeinir snillingar. Náttúrulegur fjölbreytileiki er bannfærður á helvegi háskólanna. Inngilding bágindanna sér til þess. Dáðlaus sauðsháttur er æðsta boðorðið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 23. maí 2024
Fjöldamorð fá viðurkenningu, vestrið klofnar
Norðmenn verðlauna fjöldamorð Hamas 7. október með viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Hamas stjórnar Gasa en hinn hluti Palestínu, vesturbakkinn, er undir stjórn Fatha-samtakanna. Palestínuríkin eru tvö, aðskilin landfræðilega og með tvenn stjórnvöld.
Norska stjórnkerfið þekkir mætavel átakasögu Ísraela og Palestínuaraba. Á tíunda áratug síðustu aldar voru fundir í Osló, höfuðborg Noregs, um tveggja ríkja lausn. Tilraunin bjó til heimastjórn Palestínuaraba, þá undir stjórn PLO. Vonir um gagnkvæma viðurkenningu Ísraela og Palestínuaraba á tilvist tveggja ríkja fóru út um þúfur um aldamótin.
Núverandi átök milli Ísrael og Palestínuaraba byrja með fjöldamorðum Hamas 7. október á síðasta ár. Hryðjuverkamenn drápu um 1200 óvopnaða borgara og tóku um 200 gísla. Í framhaldi kemur innrás Ísraelshers á Gasa. Viðurkenning á Palestínu sem sjálfstæðu ríki er umbun sem veit á frekari hryðjuverk. Samlandar Breivik ættu að vita betur en að verðlauna skepnur í morðhug.
Frá Óslóar-samningum er stríðsástand með hléum, líkt og verið hafði frá stofnun Ísraelsríkis um miðja síðustu öld. Palestínuaröbum vegnar vel í áróðursstríðinu og fá nú viðurkenningu Noregs, auk Írlands og Spánar.
Kjarninn í deilu Ísraela og araba er sá sami og frá miðri síðustu öld. Þorri araba afneitar tilvist Ísraelsríkis. Þar stendur hnífurinn í kúnni.
Ef vestræn ríki fylgdu fordæmi Norðmanna, Íra og Spánverja væri skammt í endalok Ísraelsríkis. Hamas-vinir í vestrinu myndu fagna. Ísraelar sætu ekki með hendur í skauti og biðu eftir annarri helför. Stórstríð í landinu helga ylli hamförum á heimsvísu.
Vestrið mun ekki snúa baki við Ísrael að svo komnu máli. En hættuleg teikn eru á lofti. Útspil Norðmanna sýnir vestræna hnignun. Í Úkraínu stendur vestrið frammi fyrir töpuðu stríði sem aldrei átti að heyja. Eftirgjöf í miðausturlöndum tvíeflir þá sem vilja vestrið feigt. Þar eru meðtaldar fimmtu herdeildirnar í vestrænum háskólum.
Álitsgjafi norska ríkisútvarpsins, NRK, segir með kurteisu orðalagi að við núverandi aðstæður sé fávitaháttur að viðurkenna palestínskt ríki. Við munum næstu daga sjá íslenska fáráðlinga lepja upp norska fávisku.
Noregur og Írland eru smáríki. Spánn er í evrópskri millivigt. Ekkert þessara ríkja skiptir sköpum um alþjóðaþróun. Dvergarnir fyllast oflæti vegna sofandaháttar risanna. Axarsköft vestursins minna óþægilega á heimskupörin í aðdraganda fyrra stríðs. Vestfirsk kerling ku hafa sagt sumarið 1914 að hætti menn ekki þessari vitleysu endi þeir á að drepa einhvern.
Til dæmis heimsfriðinn.
![]() |
Danir geti ekki viðurkennt Palestínu sem stendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 22. maí 2024
Blaðamenn valkvæðir á tjáningarfrelsið
Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi kærði til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands teikningu í Vísi þar sem hann var sýndur í búningi þriðja ríkisins. Siðanefnd BÍ tekur við kærum frá almenningi sem telur að blaðamenn/fjölmiðlar fari út fyrir þau mörk sem siðareglur BÍ setja.
Siðanefndin er ekki dómstóll. Að jafnaði eru mál afgreidd án fjárhagslegs kostnaðar fyrir málsaðila, hvort heldur kærendur eða kærða. Lögfræðingar koma ekki endilega við sögu enda um að ræða fagnefnd.
Siðareglur BÍ eru grunnur úrskurða siðanefndarinnar. Tilfallandi þykir líklegt að máli Arnars Þórs verði vísað frá á grunni 12. greinar er kveður á um að siðareglurnar setji ,,ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna." Það má kalla þetta Illuga-ákvæðið. Fyrir margt löngu, líklega nærri 30 árum, kærði útgefandi Illuga Jökulsson fyrir að segja, efnislega, að útgefandinn skrifaði svo lélega íslensku að hann ætti heima á bakvið lás og slá. Kærunni var vísað frá á þeim grunni að Illugi iðkaði frelsi sitt til tjáningar, væri ekki að stunda blaðamennsku. Síðar var ákvæðinu bætt við siðareglurnar.
Strax inngangi núgildandi reglna, samþykktar í fyrra, er afdráttarlaust kveðið á um tjáningarfrelsið. Þar segir: ,,Öflug og vönduð blaðamennska, þar sem tjáningarfrelsið er í fyrirrúmi, er forsenda lýðræðis." Fyrsta grein siðareglnanna klappar sama stein.
Nokkur umræða er um kæru Arnars Þórs, að frumkvæði blaðamanna sem er annt um tjáningarfrelsið. Jakob Bjarnar á Vísi kallar til Róbert Spanó, lagaprófessor og fyrrum forseta Mannréttindadómsstóls Evrópu og innir hann eftir lögfræðilegu áliti. Spanó er ótvíræður í sinni afstöðu, segir kærða teikningu innan ramma tjáningarfrelsis. Haft er eftir Spanó:
Það er áhyggjuefni að löglærður forsetaframbjóðandi, sem segist annt um tjáningarfrelsið, skuli bregðast svona við þessari umræðu.
Blaðamenn og fyrrum forseti Mannréttindadómsstóls Evrópu marséra samræmdu göngulagi til varnar málfrelsi. Aftur skerast blaðamenn úr leik er spjótin standa ekki að þeim sjálfum. Þrír blaðamenn, allir á Heimildinni, stefndu tilfallandi bloggara í tveim dómsmálum fyrir að skrifa fréttir um byrlunar- og símastuldsmálið þar sem þeir sjálfir eru sakborningar. Þeir vildu þögn um málið og fengu hana að mestu frá félögum sínum meðal starfandi blaðamanna en bloggari sagði tíðindin af byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, stuldi á síma hans í þágu blaðamanna. Fyrir það fékk tilfallandi tvær málssóknir fyrir héraðsdóm þar sem hann tapaði. Báðum málum var áfrýjað til landsréttar. Dómur fellur á næstu dögum í máli Þórðar Snæs Júlíussonar ritstjóra Heimildarinnar og Arnars Þórs Ingólfssonar blaðamanns gegn bloggara.
Er dómur féll í fyrra málinu í héraðsdómi sagði Þórður Snær í viðtali við Morgunblaðið:
Ég og Arnar Þór Ingólfsson vorum sakaðir um alvarleg hegningarlagabrot og það má ekki segja hvað sem er um hvern sem er, hvenær sem er, hvar sem er.
Bloggari hafði sagt að blaðamennirnir ættu ,,beina eða óbeina" aðild að málinu þar sem þeir eru sakborningar og að ákæra yrði líklega gefin út. Það eru öll ósköpin, í raun aðeins ályktun um stöðu mála í lögreglurannsókn á byrlun og stuldi í þágu blaðamanna. Sakborningar verða þeir einir sem rök standa til að verði ákærðir.
Enginn starfandi blaðamaður hefur vakið máls á að það sé ,,áhyggjuefni" þegar blaðamenn sem segjast ,,annt um tjáningarfrelsið" stefni bloggara fyrir að nýta sér það. Þá virðist gilda að ekki megi segja ,,hvað sem er um hvern sem er." En þess á milli má kenna mann og annan við nasisma.
Í blaðmannastéttinni fer ekki saman mynd og hljóð þegar kemur að tjáningarfrelsinu. Í einn stað segjast þeir láta sér annt um það en í annan stað stefna þeir mönnum sem nýta sér málfrelsið til að segja fréttir - sem blaðamenn vilja að liggi í þagnargildi.
Blaðamenn er leita til dómstóla að banna tjáningu í ræðu og riti stunda ekki ,,öfluga og vandaða blaðamennsku, þar sem tjáningarfrelsið er í fyrirrúmi, [og] er forsenda lýðræðis" eins og segir í siðareglum Blaðamannafélags Íslands.
![]() |
Kærir teiknara Vísis til siðanefndar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. maí 2024
Skoðanablaðamennska
Leiðréttingar mátti einu sinni lesa í fjölmiðlum. Dagblað sem rangnefndi viðmælanda átti til að leiðrétta daginn eftir. Ef rangt var farið með staðreyndir þótti sjálfsagt að leiðrétta þær. Fyrir daga félagsmiðla var strangur greinarmunur gerður á leiðurum, sem voru skoðanapistlar, og fréttum sem voru staðreyndamiðaðar og áttu að byggja á traustum heimildum.
Leiðréttingar eru sjaldséðar nú á dögum. Trauðla er það meiri nákvæmni blaðamanna að þakka. Skoðunum og staðreyndum er hrært saman. Leiðarafréttir eru ráðandi sniðmát þar sem áður voru staðreyndafréttir.
Í sígildri blaðamennsku skipta fimm atriði meginmáli. Atriðin fimm eru kjarninn í um 400 siðareglum blaðamanna á alþjóðavísu, samkvæmt manni sem þekkir til, Aiden White á Ethical Journalism Network. Hann segir 5 kjarnaatriði blaðamennsku vera:
1. Nákvæmni, byggja á staðreyndum, ekki blekkja.
2. Sjálfstæði, stunda ekki í hagsmunagæslu, vera óháður.
3. Óhlutdrægni, segja frá báðum (öllum) hliðum máls.
4. Mannúð, upplýsa en ekki meiða.
5. Ábyrgð, leiðrétta og viðurkenna mistök þegar þau eru gerð.
Lesendur íslenskra fjölmiðla vita að ekki líður sá dagur að eitt eða fleiri megingildi blaðamennsku er fyrir borð borið.
Blaðamenn leita ekki frétta vítt og breitt um samfélagið. Þeir eru, skrifar Sigurður Már Jónsson,
skrifstofumenn sem afla frétta í gegnum símann eða hanga á borðsenda samfélagsmiðlanna í von um að eitthvað bitastætt hrökkvi af. Óhætt er að segja að 90% af fjölmiðlaefni verði til með þeim hætti.
Auðveldari aðgangur að upplýsingum, staðreyndum, t.d. úr gagnasöfnum opinberra stofnana, draga úr sérstöðu og mikilvægi staðreyndafrétta. Meira máli skiptir hvaða skoðun menn hafa á staðreyndum en hverjar þær eru. Ef nógu margir eru sömu skoðunar er hægt að knýja fram atburðarás sem verður raðfréttaefni. Blaðamennskan eltir skoðanir til að missa ekki af hraðferð næsta fordæmingarvangs. Tilvera blaðamanna gengur út á að lesa sig sem best inn á síkvika hópsál samfélagsumræðunnar.
Af sjálfu leiðir að hráar upplýsingar, staðreyndir, verða aðeins viðbit í skoðanablaðamennsku. Úrslitum ræður að endurtaka skoðanir nógu oft og víða. Er vel tekst til verður ein fjöður að fimm hænum. Skoðanir, ólíkt staðreyndum, krefjast ekki leiðréttinga. Mælikvarðinn á skoðanir er annar og óljósari en sá sem lagður er á staðreyndir.
Skoðanablaðamennska er sjálfstæð uppspretta óeiningar og sundurlyndis í samfélaginu. Skýtur skökku við að ríkisvaldið telji það sitt hlutverk að setja almannafé í fjölmiðla sem flytja minnst fréttir en mest skoðanir. Það er ekki ríkisvaldsins að blása í glæður átaka og óánægju. Skoðanablaðamennska ætti eingöngu og alfarið að vera fjármögnuð af þeim sem hana stunda, blaðamanna og eigenda fjölmiðla.
Skoðanablaðamennska á Fróni er iðulega kölluð rannsóknablaðamennska. Á ritstjórn ónefndrar útgáfu sitja fjórir blaðamenn með stöðu sakborninga í opinberu refsimáli. Yfirmaður þeirra er titlaður rannsóknaritstjóri. Brandari.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 20. maí 2024
Kirkjan tekur fjölgyðistrú
Fjölgyðistrú, ólíkt eingyðistrú, getur sem best bætt við nýjum guðum í það goðasafn sem fyrir er, gerist kaupin þannig á eyrinni. Rómverjar nýttu sér fyrirkomulagið á sinni tíð og innlimuðu í sinn átrúnað sniðugheit er þeir fundu meðal undirokaðra þjóða.
Í Júdeu krossfestu þeir uppreisnarmann er lét sér ekki vel líka rómverska hentisemi margra guða. Með krossinum reis mikil menning, nú komin að fótum fram, er greindi á milli sannleika og lygi.
Nýr biskup yfir Íslandi tekur sér til fyrirmyndar opingáttartilbeiðsluna, sem var góð latína áður en menn lærðu lexíuna um veginn, sannleikann og lífið, og bætir við hinsegin guði.
Fyrir tilfallandi þjóðkirkjumann er úr vöndu að ráða. Hann var skírður og fermdur til eingyðistrúar. Er kristni víkur fyrir kyndugleika er tímabært að leita sér að nýjum söfnuði.
Heiðinn siður er eldri en kristni hér á landi. Samkvæmt Ásatrúarfélaginu eru gildin eftirfarandi:
Ásatrú eða heiðinn siður byggist á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir fornum menningararfi og náttúrunni. Eitt megininntak siðarins er að hver maður sé ábyrgur fyrir sjálfum sér og sínum gjörðum.
Tilfallandi getur skrifað upp á ásagildin. Einstaklingsábyrgð og virðing fyrir náttúru og fornum menningararfi er forvörn gegn múgsefjun sem kennir að karl geti orðið kona komi andinn yfir hann. Sá andi er nýlegt eðjót, hvorki til í fornri menningu né náttúrunni.
Imbafræðin gera sig stofuhæf sem trúarbrögð. Ekki spyrja eða efast, trúðu að hvítt sé svart. Vertu imbi og þú munt landið erfa.
![]() |
Segir kirkjuna hafa brugðist hinsegin samfélaginu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 19. maí 2024
Samfylkingin svíkur lit, vill opin landamæri
Í orði kveðnu játar Samfylking að opin landamæri og velferðarþjónusta séu mótsögn. Sífellt meira aðstreymi útlendinga i íslenska velferð eyðileggur innviði og veldur samfélagslegri upplausn. Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingar skrifar í grein í Morgunblaðið 16. maí þar sem hún segir flokkinn styðja opin landamæri og sjái ekki mótsögnina milli ótakmarkaðan fjölda útlendinga og takmarkaðra velferðarfjármuna. Þórunn afhjúpar tvöfeldni Samfylkingar. Skynsemi er játað í orði en á borði skal áfram grafið undan íslensku samfélagi.
Inga Sæland formaður Flokks fólksins svarar Þórunni með grein í Morgunblaðinu í gær og segir:
Í greininni gerir Þórunn tugum þingmanna upp útlendingaandúð og skítlegt eðli sem er lýsandi fyrir öfgafullar skoðanir hennar sjálfrar og undirstrikar það landamæraleysi og óheft flæði hælisleitenda sem þingmaður Samfylkingarinnar aðhyllist. [...] Staðreyndin er sú að fyrir 10 árum var kostnaður við málaflokkinn 464 milljónir króna en hleypur nú á 25 milljörðum á ársgrundvelli.
Þórunn og opingáttarfólkið segir aldrei hve marga útlendinga Íslendingar eigi að taka upp á sína arma og ekki heldur hvað eigi að setja mikla fjármuni í útlendinga í velferðarleit.
Inga Sæland hefur þetta að segja um Þórunni og félaga hennar í Samfylkingunni:
Þórunn Sveinbjarnardóttir kemur ekki á óvart með framgöngu sinni þar sem popúlismi, upphrópanir og útúrsnúningar ein kenna allan hennar málflutning. Þessar heimasmíðuðu upphrópanir um meinta útlendingaandúð allra þeirra sem ekki eru á hennar skoðun segja allt sem segja þarf og eru þessum blygðunarlausa og kjaftfora hrunráð herra til ævarandi skammar. Það er löngu tímabært að yfirveguð og raunsæ stefnumótun um málaflokkinn líti dagsins ljós.
Inga kjarnar málið, það þarf yfirvegun og raunsæi í útlendingamálin. Samfylkingin býður hvorugt.
![]() |
Stefna á að afgreiða málið í júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 18. maí 2024
Pútín ógnar ekki Íslandi
Í Úkraínu er stríð sem kemur Íslandi ekki við. Á leiðtogafundi Nató í Búkarest árið 2008, já, fyrir 16 árum, var tilkynnt að Georgíu og Úkraínu yrði brátt boðin aðild að hernaðarbandalaginu. Í framhaldi varð eitt smástríð, í Georgíu, og annað langvinnt í Úkraínu.
Ástæða átakanna er að Rússum þótti þjóðaröryggi sínu ógnað með væntanlegri inngöngu tveggja ríkja, Úkraínu sérstaklega, í hernaðarbandalag sér óvinveitt. Frá landamærum Úkraínu er dagleið á skriðdreka til Moskvu.
Menn geta sagt margt um Nató, að það sé friðarbandalag, saumaklúbbur eða bólverk vestrænnar menningar. En ekki er hægt að álykta annað um rússneskt þjóðaröryggi en að það sé Rússa sjálfra að meta það. Eftir að Sovétríkin fóru á öskuhaug sögunnar fyrir 35 árum stóð eftir Rússland, ásamt smærri lýðveldum. Bandaríkin og ESB, með Nató sem verkfæri, færðu út kvíarnar, juku áhrif sín, á fyrrum áhrifasvæði Sovétríkjanna/Rússlands í Austur-Evrópu.
Fyrst um sinn, á tíunda áratug síðustu aldar, létu Rússar sér næga að æmta. Eftir aldamót varð tóninn alvarlegri. Rússar myndu ekki láta yfir sig ganga að Nató-her sæti öll vesturlandamæri ríkisins.
Árin 16 frá Búkarestfundinum eru ekki löng spönn. En á ekki lengri tíma tókst vestrinu að forheimskast svo undrun sætir. Í vestrinu er átrúnaður á manngert veðurfar, menn trúa að karlar geti fæðst konur, og öfugt, og að Hamas séu mannvinir í anda móður Theresu. Engin furða að sama liðið trúi að spilltasta ríki Evrópu, Úkraína undir stjórn Selenskí, sé vagga vestræns lýðræðis og mannréttinda.
Pólitík, hvort heldur innanríkis eða utanríkis, verður til í samhengi við félagslegar og menningarlegar aðstæður. Ímyndin um vestræna yfirburði fékk steraskot á sama tíma og veruleikinn sýndi takmarkanir vestursins. Tilraunir að skapa vestrænar hjálendur í Írak og Afganistan í byrjun aldar mistókust. Menning á sigurbraut getur ekki endurskoða sig, tamið sér hóf þar sem áður var hroki. Stundum splundrast slík menning, líkt og þriðja ríkið vorið 1945, eða koðnar niður eins og kommúnisminn frá innrásinni í Tékkóslóvakíu 1968 til falls Berlínarmúrsins rúmum tveim áratugum síðar. Eldri dæmi um hægfara hnignun eru Rómarveldi og heimsveldi kennt við Tyrki.
Úkraínustríðið er endastöð sigurvegara kalda stríðsins í menningarlegum, hernaðarlegum og pólitískum skilningi. Enn er opin spurning hvort sléttustríðið verði staðbundið eða fari með Evrópu og heiminn allan fram af bjargbrúninni. Tilfallandi skoðun er kellíngarnar í vestrinu hafi ekki pung í Pútín. Ekki að það skipti máli hvort Pútín eða Medvedev sitji Kreml. Einstaklingar koma og fara en öryggishagsmunir ríkja eru varanlegir.
Hjaðningavíg slavnesku bræðraþjóðanna liggja utan öryggishagsmuna Íslands. Úkraína var blekkt til fylgilags við stjórnmálamenningu á síðasta söludegi. Vestrið ofmat eigin styrk og vanmat rússneska staðfestu. Þar liggur hundurinn grafinn.
![]() |
Nýi ráðgjafinn leggur til spurningu fyrir frambjóðendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 17. maí 2024
Sigríður Dögg og blaðamannaelítan
Formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, er búinn að ganga frá einkakjarasamningi fyrir sig þótt lítið gerist í kjarabótum blaðamanna almennt. Í frétt í prentútgáfu Morgunblaðsins 15. maí, með fyrirsögninni Tvær á framkvæmdastjóralaunum, segir:
Á sama stjórnarfundi [Blaðamannafélags Íslands] var samþykkt að endurnýja ráðningarsamning félagsins við Sigríði Dögg út þetta ár með 100% starfshlutfalli, ásamt því að samningurinn verði endurskoðaður í september. Þá verður metið hvort framhald verður á samningssambandinu árið 2025. Jafnframt var bókað í fundargerð að vilji fundarmanna væri að formaður verði ekki á lægri kjörum en fyrrverandi framkvæmdastjóri.
Sigríður Dögg rak fyrrum framkvæmdastjóra, Hjálmar Jónsson, í byrjun árs. Forsagan er að síðast liðið haust varð Sigríður Dögg uppvís að skattsvikum þegar hún leigði út íbúðir á Airbnb. Hún neitaði að gera grein fyrir málavöxtu, sagði skattsvikin einkamál, og varð að hætta á RÚV, sem gat illa sagt skattsvikafréttir með Sigríði Dögg á fréttastofu.
Látið var heita að hún hefði farið í leyfi frá ríkisfjölmiðlinum til að sinna starfi brottrekins Hjálmars. Raunin er önnur. Sigríður Dögg varð að fá annað starf. Hún og félagar hennar treystu á hugleysi blaðamannastéttarinnar. Það gekk eftir, blaðamenn hvorki æmtu né skræmtu við óvinveittri yfirtöku á skrifstofu og sjóðum félagsmanna.
Tilvitnunin hér að ofan sýnir að Sigríður Dögg fer með Blaðamannafélagið eins og sitt einkalén. Jafnframt er látið í það skína að stjórnarmenn nánast grátbiðji Sigríði Dögg að starfa í þágu félagsins og ,,verði ekki á lægri launum en fyrrverandi framkvæmdastjóri." Undirlægjuhátturinn er áþreifanlegur. Í maílok tekur nýr framkvæmdastjóri við störfum en Sigríður Dögg er búin að tryggja sér launatékka félags blaðamanna út árið hið minnsta.
Hvers vegna láta almennir félagsmenn BÍ það yfir sig ganga að sjóðir félagsins séu mjólkurkú skattsvikara sem er svo lélegur pappír að jafnvel Glæpaleiti segir pass, hingað og ekki lengra?
Sigríður Dögg tilheyrir valdaelítu blaðamanna, kennd við RSK-miðla, RÚV og Heimildin (áður Stundin og Kjarninn). Valdaelítan þarf á Sigríði Dögg að halda sem málssvara. Fimm úr elítunni eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þeir þurfa sinn talsmann sem í nafni íslenskra blaðamanna kemur fram fyrir þeirra hönd og opnar sjóði félagsins vegna fyrirsjáanlegs málskostnaðar upp á tugi milljóna króna. Skel hæfir kjafti að talsmaðurinn sé skattsvikari og sjóðirnir félagsgjöld hugleysingja.
![]() |
Kjaraviðræður BÍ og SA mjakast áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 16. maí 2024
Þórður Snær um spillingu Dags og Stefáns
Ritstjóri Heimildar, áður Kjarnans, er Þórður Snær Júlíusson. Hann álítur sjálfan sig sérfræðing í spillingu. Spillingarauga Þórðar Snæs er þó valkvætt. Hann sér ekki vanþrifin i eigin ranni og samherja en þess betur rykkornin í stofum annarra.
Sigurður Már Jónsson blaðamaður hlustaði á Þórð Snæ er hann var til útvarps á RÚV daginn eftir að María Sigrún fréttamaður afhjúpaði spillinguna í ráðhúsi Reykjavíkur, gjafagjörning Dags borgarstjóra til olíufélaganna. Sigurður skrifar:
Það vakti athygli pistlaskrifara að í vikulegu spjalli Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra, Heimildarinnar, á Rás eitt í morgun var ekki vikið orði að þessu máli og það þótt öll umræðan væri helguð fjármálum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Nei, Þórði Snæ þykir ekki spillingarfnykur af gjöfum Dags til olíufélaganna. Almannafé má fara til spillis er pólitískir vinir ritstjórans eiga í hlut.
Það vill svo til að Þórður Snær hefur útskýrt spillinguna sem hann á aðild að. Hann gerði það í samtali við alræmdan danskan blaðamann, Lasse Skytt, í viðtali þar sem ritstjórinn reyndi að bera af sér sakir í byrlunar- og símastuldsmálinu, en þar er hann sakborningur ásamt fjórum öðrum blaðamönnum. Gefum Þórði Snæ orðið:
Á Íslandi hafa margir nokkuð óþroskaðar hugmyndir um hlutverk fjölmiðla sem eins af burðarstólpum lýðræðisins. Þeir álíta blaðamenn ekki skipta máli. Þess í stað er samfélagið okkar gegnsýrt af spillingarmentalíteti, þar sem reglan um greiða gegn greiða gildir. Aðgangur að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra byggist á því að þú standir inni í tjaldinu og pissir út, frekar en að standa utan við það og pissa inn.
Þórður Snær stendur inn í tjaldinu. Hann er ritstjóri vinstriútgáfu sem haldið er uppi af nafnlausum auðmönnum. Þá er hann á launum hjá RÚV, mætir vikulega í settið að ræða viðskipti og efnahagsmál. En þótt spillingin sé rekin í trýnið á Dodda sér hann ekki vanþrifnaðinn er pólitískir félagar eiga í hlut.
Tilvitnuð orð ritstjóra Heimildarinnar útskýra einnig háttsemi Dags borgarstjóra og Stefáns útvarpsstjóra og fyrrum staðgengil Dags. Þar gildir ,,greiði gegn greiða". Dagur bjargaði RÚV frá gjaldþroti, eins og rakið var í bloggi gærdagsins. RÚV er rakki Dags - með Stefán sem hlýðniþjálfara.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)