Blaðamenn valkvæðir á tjáningarfrelsið

Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi kærði til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands teikningu í Vísi þar sem hann var sýndur í búningi þriðja ríkisins. Siðanefnd BÍ tekur við kærum frá almenningi sem telur að blaðamenn/fjölmiðlar fari út fyrir þau mörk sem siðareglur BÍ setja.

Siðanefndin er ekki dómstóll. Að jafnaði eru mál afgreidd án fjárhagslegs kostnaðar fyrir málsaðila, hvort heldur kærendur eða kærða. Lögfræðingar koma ekki endilega við sögu enda um að ræða fagnefnd.

Siðareglur BÍ eru grunnur úrskurða siðanefndarinnar. Tilfallandi þykir líklegt að máli Arnars Þórs verði vísað frá á grunni 12. greinar er kveður á um að siðareglurnar setji ,,ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna." Það má kalla þetta Illuga-ákvæðið. Fyrir margt löngu, líklega nærri 30 árum, kærði útgefandi Illuga Jökulsson fyrir að segja, efnislega, að útgefandinn skrifaði svo lélega íslensku að hann ætti heima á bakvið lás og slá. Kærunni var vísað frá á þeim grunni að Illugi iðkaði frelsi sitt til tjáningar, væri ekki að stunda blaðamennsku. Síðar var ákvæðinu bætt við siðareglurnar.

Strax inngangi núgildandi reglna, samþykktar í fyrra, er afdráttarlaust kveðið á um tjáningarfrelsið. Þar segir: ,,Öflug og vönduð blaðamennska, þar sem tjáningarfrelsið er í fyrirrúmi, er forsenda lýðræðis." Fyrsta grein siðareglnanna klappar sama stein.

Nokkur umræða er um kæru Arnars Þórs, að frumkvæði blaðamanna sem er annt um tjáningarfrelsið. Jakob Bjarnar á Vísi kallar til Róbert Spanó, lagaprófessor og fyrrum forseta Mannréttindadómsstóls Evrópu og innir hann eftir lögfræðilegu áliti. Spanó er ótvíræður í sinni afstöðu, segir kærða teikningu innan ramma tjáningarfrelsis. Haft er eftir Spanó:

Það er áhyggjuefni að löglærður forsetaframbjóðandi, sem segist annt um tjáningarfrelsið, skuli bregðast svona við þessari umræðu.

Blaðamenn og fyrrum forseti Mannréttindadómsstóls Evrópu marséra samræmdu göngulagi til varnar málfrelsi. Aftur skerast blaðamenn úr leik er spjótin standa ekki að þeim sjálfum. Þrír blaðamenn, allir á Heimildinni, stefndu tilfallandi bloggara í tveim dómsmálum fyrir að skrifa fréttir um byrlunar- og símastuldsmálið þar sem þeir sjálfir eru sakborningar. Þeir vildu þögn um málið og fengu hana að mestu frá félögum sínum meðal starfandi blaðamanna en bloggari sagði tíðindin af byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, stuldi á síma hans í þágu blaðamanna. Fyrir það fékk tilfallandi tvær málssóknir fyrir héraðsdóm þar sem hann tapaði. Báðum málum var áfrýjað til landsréttar. Dómur fellur á næstu dögum í máli Þórðar Snæs Júlíussonar ritstjóra Heimildarinnar og Arnars Þórs Ingólfssonar blaðamanns gegn bloggara.

Er dómur féll í fyrra málinu í héraðsdómi sagði Þórður Snær í viðtali við Morgunblaðið:

Ég og Arn­ar Þór Ing­ólfs­son vor­um sakaðir um al­var­leg hegn­ing­ar­laga­brot og það má ekki segja hvað sem er um hvern sem er, hvenær sem er, hvar sem er.

Bloggari hafði sagt að blaðamennirnir ættu ,,beina eða óbeina" aðild að málinu þar sem þeir eru sakborningar og að ákæra yrði líklega gefin út. Það eru öll ósköpin, í raun aðeins ályktun um stöðu mála í lögreglurannsókn á byrlun og stuldi í þágu blaðamanna. Sakborningar verða þeir einir sem rök standa til að verði ákærðir. 

Enginn starfandi blaðamaður hefur vakið máls á að það sé ,,áhyggjuefni" þegar blaðamenn sem segjast ,,annt um tjáningarfrelsið" stefni bloggara fyrir að nýta sér það. Þá virðist gilda að ekki megi segja ,,hvað sem er um hvern sem er." En þess á milli má kenna mann og annan við nasisma.

Í blaðmannastéttinni fer ekki saman mynd og hljóð þegar kemur að tjáningarfrelsinu. Í einn stað segjast þeir láta sér annt um það en í annan stað stefna þeir mönnum sem nýta sér málfrelsið til að segja fréttir - sem blaðamenn vilja að liggi í þagnargildi.

Blaðamenn er leita til dómstóla að banna tjáningu í ræðu og riti stunda ekki ,,öfluga og vandaða blaðamennsku, þar sem tjáningarfrelsið er í fyrirrúmi, [og] er forsenda lýðræðis" eins og segir í siðareglum Blaðamannafélags Íslands. 

 


mbl.is Kærir teiknara Vísis til siðanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband