Trump-byltingin: heimurinn tekur hamskiptum

Trump var kjörinn forseti til að skipta út einni hugmyndafræði fyrir aðra. Skarpir rýnendur stjórnmála, t.d. á Spiegel, sjá hamskiptin. Alþjóðahyggja síðustu áratuga rann sitt skeið með sigri Trump. Fjölmenningin, sú hugsun að hópar með gagnólíka lífshætti þrífist í sama samfélagi, er komin á öskuhuga sögunnar.

Trump boðar amerísk gildi um að hollur sé heimafenginn baggi. Eina alþjóðasamstarfið sem fær blessun forsetans er baráttan gegn hryðjuverkum, eins og ísraelskir fjölmiðlar benda á.

Alþjóðasinnar og fjölmenningarfólk eru andstæðingar Trump. Skiljanlega þar sem kjör Trump er bein árás á sannfæringu þessara hópa og lífsviðurværi. Bakland alþjóða- og fjölmenningarsinna er veikt. Stofnanir þeirra, s.s. Evrópusambandið, eru rúnar trausti. Evrópskar útgáfur af Trump eru í meðbyr um alla álfuna.

Í hamskiptum leysast upp gömul bandalög og ný myndast. Það gerist ekki án átaka. 

Öll hugmyndafræði er einfölduð útgáfa af veruleikanum, sem er allt of margbrotinn til að rúmast í einu hugmyndakerfi. Hugmyndafræðin að baki Trump er sneisafull af mótsögnum, líkt og alþjóðahyggjan og fjölmenningin, sem hún leysir af hólmi.

Heimspekingar eins og AC Grayling harma tíma staðleysusanninda þar sem tilfinningar bera staðreyndir ofurliði. En það er einkenni byltingartíma að viðurkenndar staðreyndir tapa sannleiksgildi sínu. Á hinn bóginn vitum við ekki enn hvaða staðreyndir fá gæðastimpil sannleikans eftir hamskiptin. Trump-byltingin er rétt að hefjast.

 


mbl.is Trump orðinn forseti Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég tek undir þessi orð. Við, eins og heimurinn verðum bara að bíða og sjá hvernig fram vindur. Ein heimsmynd er fallin, önnur ekki komin á.

Ragnhildur Kolka, 21.1.2017 kl. 10:48

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Kapítalískur lýðskrumari kemst til valda. Það er engin bylting.

Wilhelm Emilsson, 21.1.2017 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband