Jörundur var okkar Napoleón

Í dag, 18. júní, eru 200 ár frá orustunni við Waterloo þar sem Napoleón tapaði fyrir herjum Breta og Prússa. Napoleón er tvíeggjaður í sögunni. Hann er einræðisherrann sem bar fram hugsjónir frönsku byltingarinnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Enskir vinstrimenn eru tvíbentir í afstöðu sinni til arfleifðar herstjórans frá Korsíku sem talaði alltaf frönsku með ítölskum hreim. Í einn stað markaði Waterloo endalok yfirvofandi hættu af franskri innrás í Bretland. Í annan stað urðu afturhaldsöfl Evrópu ráðandi eftir Waterloo. Konungar, aðall og krikja í álfunni vildu hverfa tilbaka og ómerkja frönsku byltinguna.

Íslendingar eignuðust sinn Napoleón í Jörundi sem kallaður er hundadagakonungur. Sumarið 1809, sex árum fyrir Waterloo, tók Jörundur völdin hér á landi í skjóli ensks kaupmanns sem vildi versla í friði fyrir dönsku yfirvaldi. Jörundur hélt á lofti hugsjónum frönsku byltingarinnar og boðaði Íslendingum frelsi undan Dönum.

 

Íslendingar höfðu ekki áhuga á boðskap frönsku byltingarinnar. Anna Agnarsdóttir, helsti sérfræðingur okkar um þetta tímabil, segir um stjórnarbyltingu Jörundar

Frá sjónarmiði Íslendinga var árangurinn hins vegar næstum enginn. Jörgensen ætlaði að koma miklu í verk en tíminn var of naumur. Hann var of snemma á ferðinni á Íslandi. Ólíkt Napóleon var hann ekki réttur maður, á réttum tíma, á réttum stað. Leiðtogi Íslendinga, Magnús Stephensen, hafði enga trú á að Íslendingar væru undir það búnir að verða sjálfstæð þjóð.

Hugmyndir frönsku byltingarinnar fengu ávöxt upp úr miðri öldinni þegar íslenskir menntamenn, t.d. Fjölnismenn og Jón Sigurðsson, fléttuðu þær inn íslenska sögu. Hálfdanska valdastéttin á Íslandi móaðist gegn nýmælum aldarinnar en almenningur tók undir fullveldiskröfur þegar leið á 19. öld.

Jörundi, greyinu, var um megn að setja framandi hugmyndir inn í íslenskan veruleik. Hann var jú aðeins danskur túlkur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband