99 ár frá upphafi fyrra stríðs

Þann 4. ágúst 1914 sagði Bretland Þjóðverjum stríð á hendur. Vikurnar eftir morðið á Frans Ferdínand og konu hans, 28. júní, gekk á stríðsæsingi og látum á meginlandi Evrópu þar sem Austurríkismenn og Þjóðverjar annars vegar og hins vegar Frakkar og Rússar skóku vopn og létu illa.

Bretland gerði vanvirðingu Þjóðverja á hlutleysi Belgíu að stríðsorsök, en Þjóðverjar þurftu í gegnum Belgíu til að ná í skottið á Frökkum. Með aðild Bretlands varð stríðið alþjóðlegt enda Bretland heimsveldi.

Stríðið 1914 til 1918 fékk löngu síðar, eftir seinni heimsstyrjöld, heitið fyrra stríð. Sagnfræðingar sumir tala núna um seinna 30 ára stríðið í Evrópu, og taka þá fyrra og seinna stríð saman. Tímabilið 1914 til 1945 er þannig borið saman við ,,fyrra" 30 ára stríðið, árin 1618 til 1648.

Fjölmiðlun var komin til sögunnar í upphafi fyrra stríðs. Í leiðara breska dagblaðsins Guardian, sem enn er á róli, er lagt mat á stöðuna þann 5. júlí 1914, daginn eftir stríðsyfirlýsingu Breta.

Sumt er furðu nærri lagi hjá Guardian. Þar segir t.d. um herfræði Þjóðverja að þeir beini öllu afli sínu að Frökkum, til að sigra þá fljótt og vel líkt og 1871, og takast síðar á við Rússa. Þetta gekk eftir nema hvað að Rússar voru nokkuð fljótir til að hervæðast, réðust inn í Austur-Prússland og knúðu Þjóðverja til að beina herdeildum frá Frakklandi áður en sigur var unnin á vesturvígstöðvunum.

Annað í leiðara Guardian sýnir skammsýni mannfólksins. Gert er ráð fyrir að Bretar muni aðeins liðsinna Frökkum með sjóhernaði. Annað kom á daginn. Bretar misstu milljón unga menn í skotgröfum sem lágu frá Ermasundi til svissnesku landamæranna.

Lokaorð leiðarans: ,,innan tveggja, í mesta lagi þriggja, mánaða mun liggja fyrir hvernig þessu lýkur."

Leiðarinn endurspeglar það álit ríkjandi afla í Bretland og á meginlandi Evrópu að stríðið sem hófst sumardagana fyrir 99 árum yrði meira í ætt við skátaleiðangur en iðnvædda stórstyrjöld. Tíu milljónir dóu í stríðinu og aðrar 50 milljónir í seinna stríði.

Ríkjandi öfl í Evrópu klúðruðu málum fyrir 99 árum. Og það gæti gerst aftur að sameiginleg dómgreind æðstu manna á æðstu stöðum vanmeti stöðuna og missi atburðarásina úr höndum sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Það er útbreiddur misskilnimgur að gamla stríðið sé einhver fjarlægur atburður. Það hefur nefnilega ekki svo mikið breyst síðan þetta var. Það er bara tæknin sem hefur tekið framförum. Borgirnar eru nokkurnveginn svipaðar og þær voru og mann fólkið hugsar eins.

Ég hafði þá ánægju að þýða og gefa út bók Cecil Lewis "Sagittarius Rísandi" fyrir nokkrum árum, 2009 nánar tiltekið. Bókin seldist auðvitað dræmt hérlendis en hún er samt mikið rit og gerði orrustuflugmanninn Lewis heimsfrægan.

Það sem kom mér mest á óvart var hversu nálægt okkur þessir atburðir eru í raun og veru. Þó að seinni heimstyrjöld liggi á milli, þá er þetta í rauninni nýskeð og fólkið lifandi fólk af holdi og blóði sem hugsar eins og við. London virðist vera mikið til eins og hún var þá, loftárásir Þjóðverja og ljóskastarar daglegt brauð. Og þetta er fyrri heimstyrjöldin en ekki sú seinni. Lewis barðist líka þá seinni og dó ekki fyrr en 1994 minnir ég.

Hann sá fyrir stofnun Evrópubandalagsins þegar hann skrifaði bókina 1935 held ég og skildi vel hvaða ástæður voru fyrir styrjöldinni og líka hversvegna sú næsta væri að koma. Allavega dýpkaði bókin minn skilning á sögunni.

En hún leiddi mig líka í skilning á því að Bretland er eyja sem mun aldrei verða hluti af sameinaðri Evrópu undir stjórn Þjóðverja. ESB er stundarfyrirbrigði sem mn renna sitt skeið.

Halldór Jónsson, 4.8.2013 kl. 19:47

2 Smámynd: Halldór Jónsson

mun renna sitt skeið

Halldór Jónsson, 4.8.2013 kl. 19:48

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Von Schlieffen hafði lagt upp stórkostlega sóknaráætlun Þjóðverja sem mátti lýsa sem nokkurs konar helmingi af orrustu Hannibals við Terrentius við Canne, hálfri umkringingu (encirclement) .

1914 var varnarhernaður miklu öflugri en sóknarhernaður og herlið gat varist allt að þrefalt fjölmennara óvinaherliði eins og kom á daginn í skotgrafahernaðinum, sem stríðið breyttist fljótlega í á vesturvígstöðvunum.  

Schlieffen ætlaði að færa sér liðsmun sinn í nyt með því að láta lágmarks herlið verjast á suðurhluta víglínunnar en sækja með þeim mun stærra ofurefli liðs, altt að 4falt til 5falt,  í gegnum Belgíu suður fyrir París, vestan við borgina, og loka hana síðan inni úr vestri og suðri.

Sagt er að dánarorð hans hafi verið: "Ekki veikja hægri vænginn!" En yfirherstjórn Þjóðverja var vaklandi og gerði einmitt það. Fyrir bragði var hægri vængurinn ekki nógu öflugur til að komast nógu langt í vestur til að komast íí hálfrhring í kringum borgina, heldur sótti í átt til hennar beint úr norðri.

Ofan á þetta kafnaði Moltke yngri alveg undir nafni,  fór á taugum og keyrði sig út af þreytu og svefnleysi  á sama tíma sem Joffre hinn franski var sallarólegur, hvíldist vel og hét þrekinu og snerpu hugans þegar þess var mest þörf.

Hugsanlega réðu þessi tvö ofangreindu atriði mestu um það að fyrsta sóknin mistökst og þar með fauk öll von um það að endurtaka leikinn frá 1870 og stríðið tapaðist að lokum.  

Ómar Ragnarsson, 4.8.2013 kl. 21:31

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsekið villur, á að vera Cannae og Terentius.

Ómar Ragnarsson, 4.8.2013 kl. 21:39

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Og líka "envelopement".

Ómar Ragnarsson, 4.8.2013 kl. 21:40

6 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Hröð framrás Rússa inn í Austur-Prússland varð til þess að herráð Þjóðverja veikti einmitt hægri vænginn og flutti til austur. Kaldhæðni er að orustan sem kennd er við Tannenberg, þar sem Hindenburg og Ludendorff sigruðu Samsonov og Rennenkampf, var um garð genginn þegar herliðið af vesturvígstöðvunum mætti á staðinn. Þjóðverjar hefðu ekki þurft að veikja hægri vænginn í Frakklandi.

Páll Vilhjálmsson, 4.8.2013 kl. 23:07

7 identicon

Þessi umræða er næsti bær við að leita skýringa á því hvers vegna einhver vann ekki í lottó. Það er óþarfi að finna skýringu á ósigri í taktískum mistökum þegar hin strategíska staða var mjög óhagstæð til að byrja með. 

Þjóðverjar og Austurríkismenn þurftu að berjast á tveimur vígstöðvum en ekki Frakkar og Rússar. Í ofanálagt höfðu Þjóðverjar komið sér upp úthafsflota sem var nægilega stór til að gleypa tilfinnanlega mikið af mannafla, peningum og framleiðslugetu en ekki nógu stór til að takast á við þann breska.

Það var alltaf líklegast að Þjóðverjar töpuðu og er það til marks um slæma dómgreind Vilhjálms keisara að hann skyldi hafa leyft stríðinu að hefjast. Þýskur sigur hefði ekki orðið nema fyrir sérstaka heppni eða taktíska snilld.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 4.8.2013 kl. 23:43

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

,, Það hefur ekki svo mikið breytz síðan þetta var,aðeins tækninni flegt fram,, einmitt Halldór, nú nægir að beyta rafkrónum í stað stríðstóla ógnin er sú sama,þar til kúgaðir gera uppreisn þá er tími til kominn að sækja púðrið. ZZZZ góða nótt.

Helga Kristjánsdóttir, 5.8.2013 kl. 02:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband