Tíu aðgerðasinnar á Austurvelli - hvar er RÚV?

Tíu mótmælendur á Austurvelli og RÚV lætur ekki svo lítið að minnast á mótmælin. RÚV sem betlar til sín skylduframlög frá almenningi undir þeim formerkjum að stofnunin sinnir öryggishlutverki bregst almannahagsmunum illilega nú sem gjarnan áður.

Þegar aðeins tíu aðgerðasinnar mæta á mótmæli á Austurvelli, sem fjölmiðlar boða, þá er Ísland orðið öruggt fyrir atvinnumótmælendum. Upplausnaröflin láta undan síga, það er orðið friðsælla hér á landi.

RÚV lítur bersýnilega svo á að stofnunin eigi ekki að færa fréttir af öryggi landsmanna heldur aðeins auka á upplausn, ofstæki og hávaða með þar til gerðum fréttum þegar aðgerðasinnar véla nógu marga til mótmæla.

RÚV vinnur skipulega gegn allsherjarreglu í samfélaginu. Algerlega er út í hött að almannafé skuli fjármagna slíka starfsemi.


mbl.is Mótmælendur og túristar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússar vefengja landamærin við ESB

Í Úkraínudeilunni standa Bandaríkin og Evrópusambandið saman að því verkefni að færa Úkraínu undir forræði ESB og Nato. Rússar telja það beina ögrun við sín öryggishagsmuni.  Eystrasaltslöndin standa vel til höggs fyrir rússneskum hersveitum og það ætlar Pútín að nýta sér.

Með endurskoðun á lögmæti þess að Sovétríkin viðurkenndu sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháen, fyrir 25 árum, opnar Pútín á þann möguleika að afturkalla viðurkenninguna. Þar með yrði þjóðréttarlegur vafi, a.m.k. hvað Rússland áhrærir, á stöðu Eystrasaltslandanna, sem öll tilheyra Evrópusambandinu.

Rússar ætla ekki að tapa friðnum í Austur-Evrópu og leyfa Bandaríkjunum, ESB og Nato að þrengja meira að sér.

Lái þeim hver sem vill.


mbl.is Endurskoða viðurkenningu sjálfstæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tsipras dinglar í snöru Merkel

Angela Merkel kanslari Þýskalands ætlar ekki að semja við Tsipras forsætisráðherra Grikklands fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna á sunnudag. Merkel ætlar ekki einu sinni að opna samningaviðræður við vinstri róttæklingana í Aþenu fyrir sunnudag. Skilaboðin frá Merkel eru þau að Evrópa þarf ekki á Grikklandi að halda.

Tsipras er búinn að spila út tveim síðustu trompumnum á þrem dögum. Hann boðaði þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag og í gær borgaði hann ekki af láni til AGS. Tsipras og fjármálaráðherra hans, Varoufakis, töldu að evran myndi hrynja ef Grikkland neitaði að borga.

Evran og hlutabréfamarkaðir í Evrópu eru yfirvegaðir þrátt fyrir grísku ókyrrðina. Þar með er ekki hægt að nota þá ógn lengur að stórfellt efnahagshrun leiði af grísku þjóðargjaldþroti.

Merkel og aðrir leiðtogar ESB-ríkja munu ekki flýta sér að bjarga Grikkjum frá sjálfum sér. Það breytir engu fyrir efnahagsástand Evrópu þótt Grikkir taki upp viðskiptahætti steinaldar og stundi vöruskiptaverslun vegna þess þeir eiga ekki evrur.

Tsipras varð forsætisráðherra í janúar, en það er ekki líklegt að hann endist út fyrstu vikuna í júlí.


mbl.is Nýtt sáttaboð Grikklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tsipras gefst upp - eða segist gera það

Erlendir fjölmiðlar segja bréf forsætisráðherra Grikkja, Tsipras, til Euro-hópsins sem hefur öll ráð Grikkja í hendi sér, fela í sér uppgjöf gagnvart skilmálum lánadrottna.

Bankar í Grikklandi eru lokaðir og landið er gjaldþrota með því að greiða ekki afborgun til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þá er björgunaráætlun nr. 2 runnin út.

Tsipras biður um þriðju björgunaráætlun fyrir Grikki og lofar að efna skilmálana í þetta sinn. Sumir fjölmiðlar, t.d. Die Welt, spyrja hvers virði loforð Grikkja eru og þá sérstaklega Tsipras.

Án nýs björgunarpakka munu grískir bankar ekki opna í næstu viku, nema þá með drökmu sem lögeyri í landi Sókratesar.


mbl.is Grikkland greiddi ekki AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband