Verkföll í leit að réttlætingu

Verkalýðsforystan sóttist eftir stuðningi stjórnarandstöðunnar í umræðum á alþingi um kjaradeilurnar en fékk ekki.

Sterkasta útspil vinstrimanna á alþingi, Katrín Jakobsdóttir formaður Vg, gerði ekki meira en að lýsa ástandinu, meiri verkföll en um árabil, formaður Bjartar framtíðar vildi kosningar til að auka á ringulreiðina og formaður Samfylkingar var ekki á dagskrá.

Þrátt fyrir ráðgjöf dýrustu almannatengla fær verkalýðsforystan ekki hljómgrunn fyrir kollsteypusamningum. Sú taktík að herja á ríkisstjórnina skilar sér ekki þegar stjórnarandstaðan, mínus Píratar, er jafn veik og raun ber vitni.

Verkföllin munu hjakka eitthvað áfram en á meðan ríkisstjórnin lætur ekki bilbug á sér finna er ekki spurning hvort heldur hvenær verður samið á vitrænum efnahagsnótum.


mbl.is Mun ekki kasta eldivið á bálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupþing var skáldskapur

Kaupþing, líkt og allir bankar, byggði á trausti. Kaupþing, ólíkt flestum fjármálastofnunum, óx hraðar en traustið. Til að undirstaðan, traustið, hryndi ekki skálduðu Kaupþingsmenn traust.

Al Thani málið var skáldskapur um traust og sömuleiðis hlutabréfakaup bankans í sjálfum sér.

,,Ósmekk­leg­asta spurn­ing sem ég hef fengið,“ sagði Hreiðar Már forstjóri Kaupþings þegar hann var spurður út í skáldskapinn.

Eðlilega bregst forstjórinn illa við þegar komið er að kjarna málsins: Kaupþing byggði á skáldskap.


mbl.is Símtalið umdeilda spilað í dómsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar eru skilaboð, ekki stjórnmál

Píratar standa ekki fyrir nein stjórnmál, utan netpælingar um höfundaréttindamál. Fyrir nokkrum mánuðum boðuðu Píratar til málstofufunda þar sem ræða átti stefnu framboðsins í stærri þjóðfélagsmálum. Ekkert er að frétta af niðurstöðum.

Í Píratakóðanum segir að píratar séu friðelskandi, gagnrýnir, virði skoðanir annarra og séu almennt gott fólk - um það skal ekki efast.

En það er gott fólk í öllum stjórnmálaflokkum en það fær lítið fylgi í skoðanakönnum - aðeins Píratar mælast með öflugt fylgi.

Aðrir stjórnmálaflokkar á alþingi standa fyrir ólíka valkosti; t.d. í málefnum sjávarútvegs, ESB-aðildar, menntamála, stóriðju og umhverfismála. Um þessi mál og mörg önnur er deilt og tekist er á um niðurstöðu þeirra.

Ef Píratar fengju að ráða færu öll deilumálin á alþingi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingmenn gætu sofið fram yfir hádegi, leikið sér í tölvuleikjum eftir hádegi og dreypt á rauðvíni síðdegis - pólitíkin væri ekki á þingi heldur úti í þjóðfélaginu.

Stórfylgi Pírata er skilaboð um óánægju almennings með stjórnmál eins og þau eru rekin í dag. Almenningur biður um meiri samstöðu um stærri mál og minni úlfúð. En í bili er það ekki í boði.


mbl.is Píratar lang vinsælastir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulagsvald flugvalla til ríkisvaldsins

Í borgarstjórn Reykjavíkur ráða kreddur lítillar klíku sem má kenna við póstnúmerið 101. Ein alvarlegasta kreddan er að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni skuli víkja og slíta þar með á flugsamgöngur við landsbyggðina.

Þrátt fyrir margyfirlýstan vilja almennings, bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni, um að flugvöllurinn skuli kjurr lætur borgarstjórn Reykjavíkur sér ekki segjast og sigar jarðýtum verktaka á helgunarsvæði vallarins.

Alþingi er æðsta yfirvald þjóðarinnar. Þegar fullreynt er að undirstofnun í þjóðfélaginu, þ.e. borgarstjórn Reykjavíkur, tekur ekki sönsum í mikilvægu hagsmunamáli almennings og binst vanheilögu bandalagi við verktaka að eyðileggja almannagæði þá er kominn tími til að alþingi skerist í leikinn.

Alþingi ætti að flytja skipulagsvald flugvalla og helgunarsvæðis þeirra til innanríkisráðuneytisins. Þar með væru málefni þjóðarflugvallarins í Vatnsmýri komin í réttan farveg og minni hætta á að sértrúarkennd kredduhugsun ráði ferðinni í hagsmunamáli almennings.


mbl.is Skilaboð til meirihlutans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband