Beygður eða brotinn Steingrímur J.?

Stjórnmálaspurning helgarinnar er hvort Steingrímur J. Sigfússon formaður Vg og fjármálaráðherra sé beygður eða brotinn. Beygður maður getur rétt úr sér, brotinn ekki.  Mælikvarðinn á formanninum er afstaðan til Evrópusambandsaðildar.  

Á flokksráðsfundi í byrjun desember á síðasta ári reyndu Steingrímur J. Sigfússon formaður og nánasti samverkamaður hans, Árni Þór Sigurðsson, að milda afstöðu flokksins til Evrópusambandsins. Þeir voru gerðir afturreka og ályktun fundarins var fremur snautleg en tiltölulega skýr. „Hagsmunum Íslands er best borgið utan ESB," stóð þar. Ekkert meira en heldur ekkert minna.

Starfsstjórn Samfylkingar og Vg hafði eðli málsins samkvæmt ekkert annað á dagskrá sinni en að bregðast við aðsteðjandi vanda veturinn og vorið 2009. Engum blandaðist hugur um að Samfylkingin myndi gera umsókn að Evrópusambandinu að höfuðmáli fyrir kosningar og gekk það fram.

Formaður Vg þurfti að skapa sér möguleika að semja við Samfylkinguna og líkindi að hann hafi átt viðræður um málið við forystumenn þar á bæ. Á landsfundi var Árni Þór enn gerður út af örkinni og honum tókst að fá eftirfarandi samþykkt um Evrópumál.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrábreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.

Textann er hægt að klippa til og fá út að landsfundurinn hafi opnað á að leggja inn aðildarumsókn til Evrópusambandsins. Þegar Steingrímur J. reyndi að afsaka svik flokksins við hornstein róttækra vinstristjórnmála alla lýðveldissöguna snyrti hann textann svona til, í bréfi til flokksmanna 17. júlí, daginn eftir að Steingrímur J. og klíka hans í þingflokknum hafði staðið að samþykkt ályktunar um aðildarumsókn.

 

Þannig er þessi niðurstaða vel samrýmanleg landfundarályktun í mars síðastliðnum sem lögð var fram í kjölfar mikils starfs innan flokksins sem allir flokksmenn gátu tekið þátt í.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vissulega voru uppi hugmyndir um leiða málið til lykta á annan hátt og mörgum innan okkar raða er það óljúft að standa yfir höfuð að nokkurri hreyfingu málsins í þessa átt. Ég dreg enga dul á að þetta mál hefur verið erfitt fyrir mig eins og okkur öll enda hefur flokkurinn frá upphafi tekið afstöðu gegn aðild Ísland að sambandinu. Þessi leið varð hins vegar niðurstaða stjórnarmyndunarviðræðna við Samfylkinguna

 

Steingrímur J. veit upp á sig klækjapólitíkina og vill dreifa ábyrgðinni á flokksmenn. Ekki aðeins fórnaði hann stefnuyfirlýsingunni um að Ísland stæði utan Evrópusambandsins heldur líka varnaglanum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Til að þjóðaratkvæðagreiðsla verði bindandi þarf að breyta stjórnarskrá og þar með boða til kosninga. Sitjandi ríkisstjórn ætlar sér framhjá þeirri hindrun með því að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna ráðgefandi.

Ef Steingrímur J. og stuðningsmenn hans ætla að telja okkur trú um að formaður Vg sé beygður en ekki brotinn verða þeir að rísa upp og taka til við að berjast af alefli gegn inngönguferli Íslands í Evrópusambandið.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Utanflokkamaður skrifar:

Á flokksráðsfundi vinstri grænna nýverið sluppu formaðurinn og þingmálaforystan með eins atkvæðis mun frá rækilegri hirtingu vegna ESB, hefi ég heyrt á skotspónum. Fá þyrfti fram fyllri upplýsingar um þetta hér á vefsíðunum; til einskis er að leita um slíkt frétta í öðrum miðlum.

Hjalti Kristgeirsson (IP-tala skráð) 6.9.2009 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband