Valdaflokkur og andstöðuflokkur para sig

Fyrir áratug var stofnað til Samfylkingarinnar til að félagsmenn hallærisflokka gætu náð völdum. Á sama tíma stofnaði Steingrímur J. Vinstri græna til að vera í andstöðu við ríkjandi stjórnmálahugmyndir. Flokkarnir ganga í ríkisstjórnarsamstarf eftir stutt tilhugalíf í starfsstjórn. Dægurmálin eru nokkur þegar komin á borð stjórnarinnar, svo sem tæplega tíu prósent atvinnuleysi, tröllaukinn halli á ríkissjóði og niðurskurðarkröfur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á ríkisútgjöldum

Dægurmálin falla í skugga stærsta úrlausnarefnis lýðveldissögunnar: Hvort Ísland fórni fullveldinu og sæki um aðild að Evrópusambandinu eða verði áfram með forræði eigin mála.

Stjórnarflokkarnir báðir kenna sig við vinstristjórnmál. Nokkur kaldhæðni liggur í þeirri staðreynd að þá fyrst ná íslensku vinstriflokkarnir að mynda meirihlutastjórn þegar hugtökin vinstri og hægri skipta engu máli í stjórnmálaumræðunni. Til marks um það er að enginn stjórnmálamaður á vinstri kanti litrófsins hefur vakið máls á auknum ríkisrekstri í kjölfar stórkostlegasta hruns einkarekstrar sem sögur fara af. Samanlagðir íslenskri vinstrimenn gera ráð fyrir að þegar öldur lægir muni einkareksturinn taka við þeim fyrirtækjum sem núna eru gjaldþrota í höndum ríkisvaldsins.

Hvernig stjórn verður ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna? Í fyrsta lagi verður hún úrvinnslustjórn fjármálahrunsins. Í öðru lagi verður hún ráðleysisstjórn þar sem engin merki sjást um að heildstæð hugmynd liggi fyrir um hvert beri að stefna með íslenskt samfélag.

Opin spurning er hvort ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verði samstjórn kvislinga og júdasa. Úr því fæst skorið síðdegis sunnudaginn tíunda maí tvöþúsundogníu.


mbl.is Ný ríkisstjórn á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,,Opin spurning er hvort ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verði samstjórn kvislinga og júdasa. "

Þú sem sjálfstæðismaður og þeirra ,,kvisling" og ,,júdas"  ættir að hafa þig til hlés ! 

Hef stundum hugleitt hver þinn þáttur og hvers vegna verið er að spyrja þig  ?

Þú ert ekkert merkilegri en svartur steinn í rigningunni, með fullri virðingu fyrir steininum  !

JR (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 01:08

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er einmitt núna sem hægri og vinstri fara að fá aftur sína merkingu. Þegar afurðin af hugmynd frjálshyggjunnar að ósýnilegar hendur muni leysa alla hluti og að best sé að ríkið komi hvergi nærri fellur sem innantóm spilaborg.

Já, þá fer "áætlanabúskapur" að fá vægi og menn með heildarsýn að vera mikilvægir. Þá hverfur gildi flokks sem hefur það eina hlutverk að vera með fjármálalega fyrirgreiðslu til útvalinna einstaklinga og fyrirtækja. Þá er tími allra ykkar samfélagslega vitgrönnu Árna Johnsena liðinn.

Þá er ekki lengur þörf á hrokafullum einstklingum með einræðistilburði líkt og George Bush og Davíð Oddsson. Þá þarf réttu aðilana til að hanna nýju dílana sem koma okkur út úr vandanum. Að því er Barack Obama að vinna í USA og Jóhanna Sigurðardóttir á Íslandi. Ekki reyna að halda því fram að íhaldið eigi eitthvað erindi næstu misserin.

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.5.2009 kl. 04:13

3 Smámynd: Björn Birgisson

"Opin spurning er hvort ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verði samstjórn kvislinga og júdasa."

Páll, þú ert hreinræktaður viðbjóður í afstöðu þinni. Skammastu þín!

Björn Birgisson, 10.5.2009 kl. 04:32

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Páll. ekki örvænta. þú átt eftir að læra og þroskast. Gangi þér það vel.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.5.2009 kl. 09:04

5 identicon

Pál haltu áfram að skrifa, þessi grein fer greinilega firri brjóstið á þeim. Þau eru greinilega kvíðin framtíðinni ég líka.

Sigurbjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 10:15

6 identicon

Bláa höndin hans Hallgríms

„Tíu árum, nokkrum einkavæðingum og einum hlutabréfamarkaði síðar virðist flokkur sjálfstæðra manna hinsvegar hafa séð eftir öllu saman: Ný kynslóð leikmanna á hinum „frjálsa“ markaði raskar ró hinna gömlu peninga og þeirra hefðbundna taki á völdum lands og gæða. Frelsið er orðið of frjálst ...

Hvað eftir annað hefur okkur brugðið í brún. Hinn eitt sinn frelsisboðandi forsætisráðherra hefur ítrekað veist að spútnik-fyrirtækinu Baugi: Hótað að brjóta það upp sem og brjálast yfir kaupum þess á hlut í FBA. Við sem heima sitjum skiljum ekki hvers vegna guðfaðir nýja hagkerfisins snýst gegn bestu börnum þess. Við skiljum ekki hvers vegna sjálfstæðismenn beita öllu sínu gegn sjálfstæðustu mönnum landsins ...

Við sem heima sitjum og skiljum ekki andúð forsætisráðherra gagnvart bestu viðskiptasonum Íslands, við spyrjum: Hvers vegna? Og eina svarið sem okkur dettur í hug er að hann sé einfaldlega búinn að sitja of lengi. Gamla góða góðæris-sólin geislar nú engu frá sér öðru en ótta.“

- Sagði Hallgrímur Helgason rithöfundur, spunameistari og hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar í grein í Morgunblaðinu 13. september 2002 undir fyrirsögninni: Baugur og Bláa höndin.  

Það er þetta með hvaða flokkur er í raun hinn eini sanni frjálshyggju og qvislingaflokkur sem var lykillinn að því að auðrónunum tókust ætlunarverk sín?  

Hefur eitthvað breyst hjá Samfylkingunni frá því að Hallgrímur áróðursmeistari flokksins skrifaði þetta? 

Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 11:06

7 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ég get nú ekki annað en hlegið í morgunsárið þegar fákænir menn úti í bæ eru farnir að kalla Pál Vilhjálmsson Sjálfstæðismann.

Páll lýsti yfir stuðningi við VG fyrir kosningarnar. Hann ritstýrði Þjóðviljanum í gamla daga. Mér hefur yfirleitt þótt tillögur hans í þjóðmálum bera sterkan keim af vinstri sjónarmiðum.

En stóri kosturinn við Pál er sá að hann hefur undraverðan hæfileika til að koma ferskur að hverju máli. Það er eins og hann geti horft á stöðu dagsins eins og hann sé að meta hana í fyrsta skipti, í stað þess að láta fyrri skoðanir og fyrri stöður rugla dómgreind sína.

Þess vegna er mikill fengur að skrifum Páls Vilhjálmsson. Hann er einn af sárafáum blaðamönnum/bloggurum landsins sem ég les alltaf.

Baldur Hermannsson, 10.5.2009 kl. 12:02

8 Smámynd: Júlíus Valsson

Það ætti að heyrast meira og oftar í blaðamönnum eins og Páli Villhj., sem reyndar fór á kostum í dag í Slfri Egils. Elítublaðamennirnir hafa nánast heilaþegið þjóðina.

Það er reyndar fyrir löngu kominn tími til að Baldur Hermannsson geri nýja heimildamynd um "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins".

Júlíus Valsson, 10.5.2009 kl. 13:13

9 Smámynd: Baldur Hermannsson

Allt á sinn tíma, Júlíus, takk fyrir mig. Sammála um Pál, hann fór á kostum.

Baldur Hermannsson, 10.5.2009 kl. 13:17

10 identicon

Fyrir mér virkar Páll stundum sem flautaþyrill og tækisfærissinni,en ágætur penni þess á milli.

Númi (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 15:56

11 Smámynd: Jóhann Frímann Traustason

vá hvað þú ert svekktur og virkar púkalega heimskur kv jft

Jóhann Frímann Traustason, 10.5.2009 kl. 16:31

12 identicon

Landráðastjórnin er tekin við.

pjakkurinn (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 17:43

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður pistill hjá Páli og vitmeiri miklu en innlegg andstæinga hans hér.

En Baldur! ég sem hélt hann Páll væri gamall krati!

Já, sannarlega var Páll frábæri í Silfrinu í dag – fekk bara of lítið að tala.

Jón Valur Jensson, 10.5.2009 kl. 19:40

14 Smámynd: Baldur Hermannsson

Jón, eiginlega er ég ekki sammála þér um þessa síðustu athugasemd þína. Mér finnst það frekar veikleikamerki þegar menn kappkosta að tala sem mest og lengst í sjónvarpinu. Menn koma hugmyndum ekkert betur til skila þannig. Páll er hnitmiðaður og skýr og slíkir menn hagnast á því að tala minna - orðræða þeirra verður mönnum minnisstæðari fyrir vikið.

Baldur Hermannsson, 10.5.2009 kl. 19:58

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er alveg rétt hjá þér, Baldur. Ég vona bara að kjarnmikill málflutningur Páls hafi náð í gegnum hlustir manna og hverfi þaðan ekki, ólíkt hinum ómarkvissari vífillengjum Auðunar.

Jón Valur Jensson, 10.5.2009 kl. 20:03

16 identicon

Páll sýndi þann manndóm að segja af sér sem formaður Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi þegar hann komst að því hvernig tök auðsvín voru búin að ná á flokknum.  Auðsvín sem eru kunnust í dag fyrir að hafa stundað óumbeðinn útfluttning á peningum þjóðarinnar sem þeir síðan stálu og lögðu þjóðfélagið á hliðina.  Páll stóð keikur vaktina og réðist á þessa aðila að hörku löngu áður en aðrir áttuðu sig á hverslags landráðamenn þar voru á ferðinni, og fékk heldur betur bágt fyrir frá Baugslygaveitunni og Samfylkingarritsóðunum sem stórveldið keypti til að nýðast á honum með viðurstyggilegum skrifum sem flest ef ekki öll voru persónulegar árásir og höfðu ekkert með málefni að gera.  Sömu ritsóðar eru tíðir gestir hér á kommentakerfinu og með velþekktan sóðaskapinn og þá helst fyrir hönd Samfylkingunnar til að reyna að draga úr slagkraftinum sem fylgja skrifunum.  Því meira sem þeir væla og kveinka sér, því betur hefur Páli tekist til með gagnrýnin og óvægin skrifin sem eru hans pólitík og ekki eins né neins flokks, -  sýnist manni.

Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 20:49

17 Smámynd: Baldur Hermannsson

Örlögin hafa falið Páli það hlutverk að vera einn og utangarðs, einskonar hrópandi í eyðimörkinni - og honum fellur það hlutverk vel úr hendi. Ég er nú trúlega oftast andvígur afstöðu hans en met hann mikils fyrir heiðarleika og frumleika.

Baldur Hermannsson, 10.5.2009 kl. 21:02

18 identicon

Það er ekki ónýtt fyrir stuðningsmenn ESB aðildar að eiga andstæðinga sem skrifa: „Opin spurning er hvort ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verði samstjórn kvislinga og júdasa. Úr því fæst skorið síðdegis sunnudaginn tíunda maí tvöþúsundogníu" Júdasar og Kvislingar ! Umræða á þesssum nótum er fyrir neðan og utan allt velsæmi.

Það er umhugsunarefni að upplifa svona talsmáta „...sunnudaginn tíunda maí tvöþúsundogníu" Meðan ESB andstæðingar hjakka í hjólförum fullveldishugtaksins frá 1918 og tala um 1262 eins og það hafi verið í gær, þá sést best hversu órafjarri þeir eru frá veruleika samtímans og þess heims sem við byggjum.

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 22:54

19 Smámynd: Baldur Hermannsson

Heldurðu það, Eiður? Mér sýnist Páll miklu fremur horfa á þetta í skörpu ljósi sögunnar.

Baldur Hermannsson, 10.5.2009 kl. 23:09

20 Smámynd: Björn Birgisson

"Örlögin hafa falið Páli það hlutverk að vera einn og utangarðs, einskonar hrópandi í eyðimörkinni - og honum fellur það hlutverk vel úr hendi."

Nákvæmlega, Baldur. Honum fellur það hlutverk úr hendi. Ekki vel. Bara illa.

Honum Páli fer það ekki vel í hendi.

Eiður Guðnason, takk fyrir þína færslu.

Björn Birgisson, 10.5.2009 kl. 23:12

21 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nú, ég hafði þá rétt fyrir mér um það, að Páll var í Samfylkingunni!

PS. Sammála þér, Baldur, um illa rökstutt innleggið frá Eiði Sæ.

Jón Valur Jensson, 11.5.2009 kl. 02:47

22 identicon

Hvernig er það Páll, sveikst þú ekki jafnaðarhugsjónina og gekkst auðvaldinu á hönd, þegar þú gekkst úr Samfylkingunni og í Sjálfstæðisflokkinn? Ert þú ekki sjálfur sá Júdas sem þú ætlar öðrum að vera?

Anna (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 18:02

23 identicon

 Endurek það sem ég hef áður sagt, - hvernig á að vera hægt að  ræða af skynsemi við fólk eins og JVJ sem  heldur  sig  við að uppnefna fólk.  Þegar rök  þrýtur  er fólk uppnefnt og  annar talar um júdasa og kvislinga.  Þetta segir  meira um málstaðinn og mennina  sem  styðja hann en  nokkuð annað  sem ég get ímyndað mér.

Eiður (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 20:26

24 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Takk fyrir skelegga umræðu öll

a) Hugtökin kvislingar og júdasar eru sígild, og dúkka iðulega upp á ólíklegustu stöðum. Eina sem má furða sig á er hvað fólk er viðkvæmt fyrir þessum hugtökum. Bæði lýsa svikum og illu heilli tíðkast svik og eru sum af grófari gerðinni.

b) Ég er stofnfélagi í Samfylkingunni og fyrsti formaður Samfylkingarfélags Seltirninga, en kom úr Alþýðubandalaginu. Ég sagði mig úr Samfylkingunni haustið 2006 þegar mér ofbauð Baugsauðmannadekur flokksins og Evrópustefnu.

Páll Vilhjálmsson, 11.5.2009 kl. 20:48

25 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hr. Eiður S. Guðnason, fyrrverandi sendiherra og sjónvarpsfréttamaður, mér er eiður sær, að ég hélt í alvöru, að það væri rétt, sem mér hafði verið talin trú um fyrir löngu (gæti verið einhver Þjóðviljalygi), að þú hétir Eiður Sær. Nú sé ég, að það er alrangt, og bið þig velvirðingar og afsökunar á þessum illa til fundna gantaskap mínum með hið ranga nafn. Lifðu heill.

Jón Valur Jensson, 12.5.2009 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband