Kreppa í hagtölum og kreppa í samfélagi

Í síðustu viku sögðu erlendir fjölmiðlar að engilsaxnesku þjónustuhagkerfin í Bretlandi og Bandaríkjunum myndu fara verr úr kreppunni en framleiðsluhagkerfin í Þýskalandi og Frakklandi. Undir helgina birtust nýjar tölur um samdrátt þýska hagkerfisins á síðasta ársfjórðungi, sem var meiri en búist var við eða rúm átta prósent reiknað á árið. Óðara varð fjölmiðlaumfjöllunin á þann veg að Meginlandsevrópa yrði harðar úti en Bretland og Bandaríkin.

Og kreppan færðist austur á bóginn; mest lesna frétt Daily Telegraph í gær var útskýring á því að Austur-Evrópa væri að hruni komin.

Hér á Íslandi gerist það að Tryggvi Þór Herbertsson prófessor í hagfræði kemur í Kastljós og segir skuldir ríkissjóðs aðeins tæpir 500 milljarðar kr. á meðan aðrir hafa klifað á yfir 2000 milljarða kr. skuld. Menn eru sammála um það eitt að þarna skilji á milli feigs og ófeigs. Við getum lifað við skuldastöðuna sem Tryggvi leggur á borðið en ekki hana fjórfalda eða fimmfalda.

Viðbrögðin við útreikningum Tryggva voru forundran. „Ég bara fatta ekki þennan djók. Bara alls ekki," skrifar Pétur Tyrfingsson í bloggi og í athugasemdum er sömu tilfinningu lýst.

Í Háskólabíó kemur annar hagfræðingur og leggur upp stærri og rosalegri tölur. Þriðji hagfræðingurinn, sem situr í stól viðskiptaráðherra, segir tölur Tryggva of lágar.

Leggjum hagfræði og tölur til hliðar í bili, og gerum það með góðri samvisku þar sem hagfræðingar eru jafn ósammála og raun ber vitni.

Á Íslandi eyddist bankakerfið á einu augabragði. Daginn eftir héldu sömu bankar, þ.e. sama starfsfólk í sama húsnæði, að sinna bankastarfsemi. Hlutabréfamilljarðar gufuðu upp og peningamarkaðsreikningar rýrnuðu um 20 til 40 prósent. Uppsagnir í fjármálafyrirtækjum komu í kjölfarið, enda hlutabréfamilljarðar farnir, og byggingariðnaðurinn varð fyrir snöggum samdrætti þar sem hann byggir jú fyrir framtíðina og hún var allt í einu orðin kolsvört. Fasteignasala dróst saman og fólk hætti að kaupa bíla. Krónan féll.

Hagkerfið brást eðlilega við bankahruninu. Almenningur brást líka rétt við; barði potta og pönnur og fékk nýja ríkisstjórn og kosningar í vor.

Eftir hrunið höfum við gert allt rétt og þess vegna verður allt í sóma á Íslandi upp úr miðju ári, bæði í hagkerfi og mannlífi.

Í Evrópu er ekki eins víst að allt verði með felldu. Þeir sem skrifa um hagkerfin þar óttast að efnahagskreppan leysi úr læðingi átök innan ríkja og milli þjóðríkja sem hægt var að sópa undir teppið í góðæri en verður ekki falið í hallæri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Ég held að Björn frændi hafi þarna haft rétt fyrir sér, enda er sagt að"Oft ratast kjöftugum satt orð á munn". Voru bankarnir ekki fullir af hagfræðingum,og þeir sem koma fram í fjölmiðlum tala út og suður. Maður er fullur bjartsýni eftir viðtalið við Tryggva í gærkvöldi,mikil tilbreyting að fá einn ógrátandi hagfræðing. Væri ekki upplagt að flytja búsáhaldaliðið út til að bjarga ESB.?

Ragnar Gunnlaugsson, 17.2.2009 kl. 10:45

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Mikið vildi ég óska þess að Tryggvi hafi rétt fyrir sér, það væru bestu fréttir síðan í haust. 

Tómas Ibsen Halldórsson, 17.2.2009 kl. 16:30

3 identicon

Hagfræði og hagfræðingar er sú stétt sem sennilega hafað farið verst út úr þjóðarharmleiknum og eru fullkomlega gjaldþrota hvað traust og virðingu varðar.

Flestir segjast hafað vitað hvert stefndi án þess að segja neinum.  Svona eftirá beturvitringar.

Einnig virðast þeir vera meira og minna tengdir einhverjum pólitískum böndum og eða þeim sem bera ábyrgðina umfram öðrum á stöðu mála í dag.

Vonandi getum við fengið aðstoð einhverja sem örugglega kunna fræðin og eru óháðir dægurþrasinu, pólitík og hagsmunamafíum eins og útrásarföntunum.

Til þess þarf sjálfsagt að leita út fyrir eyjuna.

Þas. ef einhverjir slíkir finnast? 

Það er spurning hvort að hinir ættu ekki að halda sig til hlés, yfirleitt?

Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband