Ísland yrði skiptimynt Evrópusambandsins

Um miðja 19. öld áttu Danir í erjum við Þjóðverja vegna hertogadæmanna Slésvík og Holstein. Í stuttu stríði voru Danir gersigraðir og sáu fram á að tapa hertogadæmunum, þar með talið aldanskri byggð nyrst í Slésvík. Danir leituðu hófanna hjá Þjóðverjum að taka Ísland og einhverjar nýlendur í þriðja heiminum en leyfa Dönum í staðinn að halda nyrsta hluta Slésvíkur.

Þjóðverjar vildu heldur Slésvík alla en Ísland. Löngu seinna sameinuðust Danir beggja vegna landamæranna, eftir að Þjóðverjar töpuðu stærra stríði.

Danir höfðu vitanlega ekki fyrir því að spyrja Íslendinga hvort þeir vildu undir Þjóðverja. Íslendingar voru í þeirra augum skiptimynt og höfðu sem slíkir minni þýðingu en Slésvíkurdanir.

Evrópuþjóðir lærðu af reynslu 19. aldar ófriðar og þó enn frekar af tveim heimsstyrjöldum næstu öld þar á eftir að vígaferli væru heldur óhagkvæm leið að leysa deilumál. Evrópusambandið varð til eftir seinni heimsstyrjöld og hafði það að meginmarkmiði að tryggja frið í álfunni. Í aðalatriðum hefur það tekist. Mínus illindin í ríkjum gömlu Júgóslavíu er gamla Evrópa búin að vera stillt í meira en hálfa öld.

Ágreiningur milli ríkja er tíðast leystur við samningaborð. Evrópusambandið sér um hagsmunagæslu fyrir sambandsríkin gagnvart öðrum, til dæmis Rússum. Í samningum stórvelda á milli er margs að gæta. Ef ólík deilumál eru til umræðu á sama tíma er reynt að semja um pakkalausnir þar sem aðskiljanlegum málum er steypt saman í heildarsamning.

Íslendingar eiga margvíslegra hagsmuna að gæta gagnvart Evrópusambandinu annars vegar og Rússum hins vegar. Margir þessara hagsmuna lúta að sjávarútvegi og náttúruauðlindum. Eftir því sem norðurslóðir verða mikilvægari, vegna hlýnunar og greiðari siglinga, verða þessir hagsmunir víðtækari.

Ísland sjálfstætt og fullvalda semur sem slíkt við aðrar þjóðir og þjóðabandalög eins og Evrópusambandið. Ef við myndum ganga inn í Evrópusambandið yrðu íslenskir hagsmunir settir í pakka með hagsmunum annarra Evrópuþjóða.

Evrópa er háð gasi frá Rússlandi, svo dæmi sé tekið. Í samningum milli Rússa og Evrópusambandsins um gas gætu aðrar auðlindir auðveldlega verið undir. Olíuleit á norðurslóðum eða fiskveiðiheimildir.

Væri Ísland aðili að Evrópusambandinu myndu stjórnarerindrekar frá Brussel meta íslenska hagsmuni í réttu samræmi við Evrópubúa sem eiga hér heima. Hagsmunir 300 þúsund Íslendinga myndu allaf víkja fyrir hagsmunum meginlandsins með sínar rúmlega 400 milljónir íbúa.

Evrópusambandið myndi ekki bjóða okkur Rússum í heildsölu, líkt og Danir buðu Þjóðverjum fyrir 150 árum. En Evrópusambandið myndi bjóða hagsmuni okkar gegn öðrum hagsmunum sem það áliti mikilvægari.

Ísland er fullveðja nútímasamfélag (ok, að bankastarfsemi frátaldri) vegna þess að Íslendingar fara sjálfir fyrir sínum málum og eru eigin fulltrúar í alþjóðasamfélaginu.

Innganga í Evrópusambandið fæli í sér víðtækt framsal á þjóðarhagsmunum. Útlendingar ókunnugir íslenskum aðstæðum myndu semja fyrir okkar hönd. Með tíð og tíma græfi framsalið undan sannfæringunni um að hér sé gerlegt fullveðja þjóðríki.

Taugaveiklunin í kjölfar bankahrunsins má ekki leiða til þess að við köstum á glæ sjálfsforræði okkar sem þjóðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég legg til að við fáum annan Jörund Hundadagakonung hingað til valda,en á komandi ári eru akkúrat tvöhundruð ár frá því hann var hér örskammt við völd.Jörundur blessaður karlin lét setja spillta embættismenn í stofufangelsi og sólarhringsvaktir yfir mörgum þeirra,og svei mér þá efað hann notaði ekki gapastokkin líka.Ætli Danir eigi annan Jörund handa okkur?En að öðru máli án gríns,þá er ég sammála því að inní Evrópusambandið höfum við ekkert að GERA.

Númi (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 23:49

2 identicon

Heill og sæll; Páll, sem aðrir skrifarar og lesendur !

Páll ! Þetta er; afar vel samansett skilgreining, hjá þér, á kjarna málsins, eins og við blasir, öllum þeim, sem eitthvað vilja skoða málið, út frá öllum meginhliðum þess.

Þakka þér; góða grein hér, sem oftar. Hljótum; að virða ungæðishátt Ægis blessaðs, hvar hann hefir lítt sett sig inn í sögu okkar, hinna fyrri alda, sem og seinni, greinilega. Ungmennum er hægt að fyrirgefa, þekkingarskort sinn, hvar reynslan kemur jú; með árunum, hjá hverjum og einum.

Með beztu kveðjum, sem fyrr /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 23:57

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ægir, það er einföld lausn á þínum vanda, ekki lesa þessa síðu :)

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.12.2008 kl. 12:48

4 identicon

Mjög skarplega hugsuð grein hjá þér Páll. Auðvitað er þetta svona að svona apparöt hugsa um stóru heildina þegar kemur að samningum um mikla og dreifða hagsmuni.

Við Arnþór vil ég segja það að fram að þessu bankahruni þá hefur íslensku þjóðinni vegnað einstaklega vel í að stjórna sínum málum. Íslenskir stjórnmálamenn sýndu mikinn dug og mikla framsýni margsinnis í útfærslum landhelginnar. Þar var haldið vel á og ekkert gefið eftir, enda stóð íslenska þjóðin einhuga að baki stjórnvöldum. Eins hefur okkur tekist vel í að byggja upp þjóðfélagið almennt. Menntakerfi, menningu og almannahjálp. Hér hefur atvinnuleysi nánast verið óþekkt og mikil gróska í atvinnulífinu almennt.

En vissulega sváfu stjórnvöld á verðinum gagvart gríðarlegri útþennslu bankanna sem settir höfðu verið í einkaeigu nokkrum árum áður. Eins var regluverkið kringum fjármálastofnanirnar komið beint frá ESB og átti að vera alveg rosalega flott og pottþétt og við því þorði vart nokkur maður að hreifa andmælum, þetta var svo heilagt og búið til og samið af þessum líka miklu sérfræðingum ESB valdsins. En svo kemur bara í ljós að þetta er rammgötótt og meingallað kerfi og er ekki aðeins að bitna harkalega á okkur heldur líka mörgum öðrum ríkjum Evrópu. 

Við getum því ekki nú í fáti og paniki sagt bara að það sé lang best að framselja fullveldi okkar og frelsi til ESB valdsins. 

Frelsi og fullveldi sem barist var fyrir í mörg hundruð ár og sem svo sannarlega til lengri tíma litið hefur reynst okkur ákaflega farsællt.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 12:50

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Að öðru leyti: Heyr! Takk fyrir þetta Páll.

Innlimun í Evrópusambandið yrði í raun ávísun á erlent einræði einfaldlega vegna þess að við hefðum í fyrsta lagi nánast ekkert vægi innan þess og möguleika á áhrifum eftir því og í annan stað vegna þess að hægt væri að taka ákvarðanir um flest án okkar samþykkis. Og þeim sviðum þar sem við hefðum eitthvað segja fækkar sífellt enda neitunarvald einstakra aðildarríkja á hröðu undanhaldi þar á bæ. Þetta þýðir einfaldlega að þeir sem eftirleiðis stjórnuðu Íslandi væru ekki aðilar sem kjósendur á Íslandi kysu heldur aðilar sem íbúar annarra ríkja kysu en þó fyrst og fremst embættismenn Evrópusambandsins sem enginn kysi. Stjórn landsins, og um leið yfirráðin yfir auðlindum þess, yrði þannig í höndum flestra annarra en Íslendinga eftirleiðis ef af innlimun í sambandið yrði. Í raun þýddi það erlent einræði.

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.12.2008 kl. 13:11

6 identicon

Ægir. Fleiri lesa þessa síðu en þína. Segir það eitthvað?

blaðamaður (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 17:04

7 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

:D

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.12.2008 kl. 17:07

8 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka góða grein.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.12.2008 kl. 18:52

9 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Sæll Páll og þakka þér góða grein,  er sammála þér að öllu leyti, og þá sérstaklega þar sem þú fjallar um framtíðarhagsmuni okkar á norðurslóðum, sem ég tel að í felist gríðarleg tækifæri fyrir Íslendinga.  Við eigum aldrei að fremselja vald yfir þessum auðlindum til Brussel.

Vil svo í leiðinni óska þér til hamingju með að vera búsettur á Seltjarnarnesi, mínu gamla sveitarfélagi, sem mér sýnist ætla að koma óskaddað a.m.k. í bili út úr þessari svikamyllubankastarfsemi allri.  Sem betur fer var ekki nein áhætta tekin með opinbera fjármuni hjá ykkur.

Sigurður Sigurðsson, 28.12.2008 kl. 19:58

10 identicon

Enn og aftur; aldrei í Evrópusambandið, við höfum ekkert þangað að gera. Að fara í slíkt samband með sárafátækum austur evrópuþjóðum og öðrum sem eru engan veginn eins vel í stakk búin til að taka á sig áföll eins og nú eru að ganga yfir heiminn. Ég held að þjóðarframleiðsla íslendinga sé hærri en allstaðar í Evrópu miðað við mannfjölda, hef heyrt jafnvel 25%, Hvað eigum við að gera í haft spillingar í Brussel. Notum kreppuna til að læra af henni, rekum þjófa hyskið út úr bönkunum og af höndum okkar og byggjum upp betra þjóðfélag.

Pétur.

pétur (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 20:08

11 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Svo má vekja athygli á því að Evrópusambandið er að koma sér upp sameiginlegri orkustefnu til viðbótar við sameiginlegu sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnuna. Sbr.:

http://en.wikipedia.org/wiki/European_energy_policy

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.12.2008 kl. 20:26

12 identicon

Olli Rehn stækkunarstjóri ESB og fleiri ráðamenn ESB segja að við getum verið kominn inn í ESB fyrir árslok 2009 og jafnvel á undan Króötum.

Hvað býr þarna að baki?

Og við sem erum með allt niður um okkur og samningsaðstaða okkar er afleit. 

Hver er ástæðan fyrir þessum skyndilega áhuga ESB á því að fá okkur inn í ESB?  

Af hverju liggur þeim svona á á að fá okkur inn í ESB?

Hvað vilja þeir fá í staðinn??

Er þetta ekki merkilegt?????  Hvað býr eiginlega að baki hjá ESB gagnvart okkur?  -  og hví þessi skyndilegi áhugi á að fá okkur inn í ESB??

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 21:58

13 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Tja, harðir Evrópusambandssinnar myndu væntanlega í einfeldni sinni gefa þá skýringu að ráðamenn Evrópusambandsins séu upp til hópa bara miskunnsamir Samverjar uppfullir af náungakærleik og ekki vitund að hugsa um eigin hag :D

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.12.2008 kl. 22:01

14 identicon

Evrópusambandið vill fá ; í fyrsta lagi fiskinn, síðan orkuna og síðan landbúnaðinn. Hreinann og hollan mat.

Pétur (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 22:04

15 Smámynd: Jón Jónsson

þakka þér fyrir góð skrif Páll.

Jón Jónsson, 28.12.2008 kl. 22:51

16 identicon

Heilir og sælir; skrifarar sem lesendur, þessarar síðu og annarra, nær og fjær.

Vil bara; benda á, að Íslendingum hefur alltaf vegnað best, í samtökum við aðrar, fullvalda þjóðir.

Dæmin tala; sínu máli. Nato, Efta, EES, SÞ.

Þar sem; við höfum kúkað, langt upp eftir bakinu, hefur það verið, í þeim, tilvikum, að þjóðarrembingurinn hefur blekkt okkur, til þess að snúa baki við, vinaþjóðum. Dæmi; klúðursleg útganga, úr Alþjóða Hvalveiðiráðinu, og sneypuleg, innganga, í það aftur. Dæmi tvö; alþjóðleg rassskelling Íslendinga, allra með tölu, í tengslum við Icesave og umsókn um lán frá IMF.

Bendi líka á; mönnum til upprifjunar, að þegar á bjátar hjá Íslendingum, leitum við til vinaþjóða, og alþjóðastofnana, eftir björgunarbátum. Það er; undir okkur komið, hvort við erum, eður ei, hluti af því alþjóðasamfélagi, sem aðrar þjóðir, hafa kosið, að sameinast um, til varnar hagsmunum, sínum og sinna vina !

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 23:05

17 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Er aðild að Evrópusambandinu einhvers konar eðlilegt framhald af aðild Íslands að til að mynda Atlantshafsbandalaginu (NATO), Fríverslunarbandalagi Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðinu (EES)?

http://www.andriki.is/default.asp?art=06072008

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.12.2008 kl. 23:41

18 Smámynd: Magnús Birgisson

Sæll; Hjörtur

Svo ég svari

Magnús Birgisson, 29.12.2008 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband