Fréttamoggi er feigðarflan

Sameining Morgunblaðsins og Fréttablaðsins er samsæri gegn almannahagsmunum. Eigendur útgáfufélagsins Árvakurs, Björgólfur Guðmundsson fyrrum Landsbankaeigandi og Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi, skipta með sér dagblaðamarkaðnum og útiloka að aðrir eigi þar innkomu.

Ríkir almannahagsmunir mæla gegn sameiningu blaðanna. Samþjöppun í fjölmiðlun er lýðræðinu hættulegt. Fjölmiðlar í lýðræðisþjóðfélagi eiga að veita valdahópum aðhald, hvort sem um er að ræða auðmenn eða stjórnmálamenn.

Það eru ekki rök í málinu að rekstrarerfiðleikar séu hjá fyrirtækjunum tveim, Árvakri og 365 miðlum, og að annað hvort félagið verði gjaldþrota ef ekki verður af sameiningu. Ef annað hvort eða bæði félögin fara á hausinn er svigrúm fyrir nýjar útgáfur. Versti kosturinn er að félögin sameinist. Gangi það fram eru þau búin að útiloka að aðrir komist að á þessum markaði.

Ef Fréttamoggi verður að veruleika með blessun Samkeppniseftirlitsins er komið fordæmi fyrir því að olíufélögin þrjú sameinist í eitt félag, Krónan og Bónus, Húsasmiðjan og Byko og svo framvegis. Þar með væri búið að gefa auðmönnum frítt spil til að stunda einokunarverslun á Íslandi.

Ef Samkeppniseftirlitið stöðvar ekki gjörninginn ætti Alþingi að láta málið til sína taka. Núna þegar þingmenn vita sem er að auðmenn munu ekki fjármagna næstu kosningabaráttu þeirra ættu þeir kannski að fara að vinna í þágu almannahagsmuna. En kannski er of seint í rassinn gripið. Mögulega er þýlyndi þingmanna orðið að lífsstíl.

Núverandi eigendur útgáfufélags Morgunblaðsins hafa með samningum við 365 miðla eyðilagt trúðverðugleika Morgunblaðsins. Morgunblaðið er orðið að druslu í skiptisamningum auðmanna sem bera höfuðábyrgð á bankagjaldþrotinu. Morgunblaðið hefur reynt að stunda faglega blaðamennsku og byggt upp trúnað við lesendur á síðustu áratugum. Það er þyngra en tárum taki að sjá blaðinu nauðgað af ellihrumum afglapa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri Páll. Gott að fá þig aftur fram á bloggvöllinn ! Ég tek undir sjónarmið þau sem þú skrifar um í þessum pistli. Stöndum vörð um Morgunblaðið sem og almannahagsmunina þessu tnegdir eins og þú bendir réttilega á.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 10.10.2008 kl. 21:01

2 identicon

Það skyldi þó aldrei verða að maður segi upp áskrift að Mogganum eftir 35,ára áskrift.Þessu hefði maður ekki trúað,en vonandi handstýra ekki þessir nýju eigendur blaðinu.Öllu er trúandi þessa dagana.

Númi (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 23:36

3 identicon

Það er mun betra að hafa eitt blað, heldur en í þykjustunni tvö. Eitt olíufélag frekar en í þykjustunni þrjú. Einn banka heldur en í þykjustunni þrjá. Vandamálið með kapítalisma er að honum hættir til að kæfa samkeppnina.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 23:52

4 identicon

Málið er mjög alvarlegt.  Allir hljóta að vona að eftir uppstokkunina, sem núna fer fram komist að meira frelsi verði í fjölmiðlun en verið hefur.  Slíkt frelsi hefur aldrei reynst langvarandi og núna er útlitið dökkt.  Sérstaklega er slæmt að enginn sjálfstæður miðill hefur burði til að fjalla um viðskipti.  Í öllum nálægum löndum starfa slíkir miðlar og byggja á langri hefð.  Þeir hafa síðustu ár reynt að opna augu Íslendinga fyrir því sem var að gerast en miðlar íslenskra auðmanna hafa svarað með því að höfða til þjóðernishyggju.  Þar hefur RÚV hjálpað til.  Varnaðarorð erlendra miðla hafa verið kæfð sem öfund og illvilji erlendra manna - einkum Dana - í garð Íslendinga.  Þjóðernishyggjan í bland við misbeitingu auðmanna á fjölmiðlum hefur þannig reynst landsmönnum dýrkeypt.  Og núna er engin ástæða til að ætla að úr rætist.  Frjáls fjölmiðlun er forréttindi fárra vestrænna þjóða og það hlýtur að vera markmið Íslendinga að komast í þann klúbb.

Jón jónsson (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 07:24

5 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Hvað segja menn um fjölmiðlalögin núna? Hefði ekki verið betra ef þau hefðu fengið samþykki forsetans? Sagan dæmir.

Eyþór Laxdal Arnalds, 11.10.2008 kl. 09:08

6 identicon

Enginn vafi er á að forsetinn beitti neitunarvaldinu í þágu Baugsmiðla og braut um leið eina af grundvallarreglum stjórnskipunarinnar - hann afnam þingræðið.

Jón Jónsson (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 09:37

7 identicon

Ég hef keypt Mbl. frá  1951 og aldrei svo mikið sem leitt hugann að svoleiðis fjarstæðu að hætta.

Nú er mér aldeilis nóg boðið og er hættur .

Helgi Ormsson (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband