Hreinsanir í Blaðamannafélaginu

Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands stendur að tillögu um að taka atkvæðisréttinn af hluta félagsmanna. ,,Ég kaus Sigríði Dögg sem formann," segir gamalreyndur blaðamaður, ,,það er það versta sem ég hef gert félaginu." Tillaga Sigríðar Daggar er á dagskrá framhaldsaðalfundar BÍ í næstu viku.

Sigríður Dögg játaði skattsvik fyrir ári en hefur neitað að gera nánari grein fyrir umfangi og fjárhæðum, segir skattsvikin einkamál. Hún var látin fara frá fréttastofu RÚV eftir að upp komst um undanskotin frá samneyslunni. Margir blaðamenn telja ófært að skattsvikari stjórni félaginu. Til að koma ár sinni betur fyrir borð í sjóðsstreymi stéttafélagsins rak Sigríður Hjálmar Jónsson framkvæmdastjóra BÍ um síðustu áramót og tók sér fullt starf í félaginu. Formennska í BÍ var áður hlutastarf.

Sigríður Dögg tilheyrir hópi blaðamanna sem kenndur er við RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn, sem heita nú Heimildin). Hópurinn hefur ráðið ferðinni í stéttafélaginu síðustu ár. Fimm blaðamenn á RSK-miðlum eru með stöðu sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu. Formaður BÍ hefur lagt sig í líma að taka undir ófrægingarherferð sakborninga gagnvart lögreglu, sem rannsakar alvarleg afbrot, byrlun og símastuld. Eins og formaðurinn segir, þá er það einkamál, en ekki opinbert mál, þegar blaðamenn komast í kast við lögin.

Andspyrna er gegn vegferð Sigríðar Daggar og RSK-liða. Trúverðugleiki stéttarinnar er í húfi. Fyrir skemmstu sendu 26 félagar í BÍ fyrirspurnir til formannsins um útgjöld sem stofnað var til að hrekja Hjálmar Jónsson úr starfi framkvæmdastjóra og hirða af honum mannorðið í leiðinni. Í hópnum eru eldri blaðamenn, flestir ef ekki allir komnir á eftirlaun.

Sigríður Dögg hugsar blaðamönnum með múður þegjandi þörfina. Áður hefur hún úthýst hópnum úr húsnæði BÍ en þar höfðu eldri blaðamenn vikulega fundi til að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Hópurinn flutti fundi sína í Gunnarshús, húsnæði Rithöfundarsambandsins.

Nú lætur Sigríður Dögg kné fylgja kviði, hyggst með lagabreytingu svipta blaðamenn á elli- og örorkulífeyri atkvæðisrétti á félagsfundum. Núgildandi lagagrein er eftirfarandi:

2.3. Félagsmaður, sem kominn er á eftirlaun og er ekki lengur í fullu starfi eða býr við örorku, skal vera undanþeginn greiðslu félagsgjalda. Hann skal þó sem áður njóta félagsréttinda.

Tillaga Sigríðar Daggar er að lagagreininni verði breytt. Nýja útgáfan hljómar svona: 

Félagsmanni, sem hættir störfum vegna aldurs eða örorku, skal vera heimilt að vera áfram félagi hafi hann greitt félagsgjöld til félagsins næstliðna 6 mánuði áður en hann lét af störfum. Hann skal eftir það vera undanþeginn greiðslu félagsgjalda og hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en ekki atkvæðisrétt. (leturbr. pv)

Rökstuðningur formannsins er að ekki sé tilhlýðilegt að örorku- og ellilífeyrisþegar fari með atkvæðisrétt í félagi sem þeir þó hafa, margir hverjir, átt aðild að mestan hluta starfsævinnar. Fremur kaldar kveðjur frá formanni Blaðamannafélags Íslands til eldri félagsmanna og þeirra sem glíma við örorku. Atkvæðisréttur í stéttafélagi er hliðstæður kosningarétti í þjóðfélaginu. Að taka réttinn af fólki til að greiða atkvæði er félagslegt ofbeldi. 

,,Fyrst var rænt úr félaginu, nú á að ræna félaginu," sagði sami blaðamaður, og vitnað er í að ofan, í samtali við tilfallandi.

Skattsvikarinn í formennsku stéttafélags blaðamanna lætur ekki að sér hæða. Framhaldsaðalfundurinn, sem tekur afstöðu til lagabreytinganna, er 4. september, haldinn í húsnæði sem ekki er (enn) komið í svarta Airbnb-útleigu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þetta er harðskeyttur sérhagsmunahópur sem nýtur góðs af lýðræðislegum réttindum sem hann meinar þó öðrum um að njóta. Þétta er hópurinn sem hrópaði hvað hæst á tjáningarfrelsi, en fótum treður það núna. Ekki skrýtið þó maður þurfi að leita inn á aðra miðla til að fá upplýsingar.

Ragnhildur Kolka, 29.8.2024 kl. 08:27

2 Smámynd: Indriði Þröstur Gunnlaugsson

Það sem stendur upp úr í þessari umræðu er sú staðreynd að takmarkanir á atkvæðisrétti innan félaga, líkt og þær sem nú eru til umræðu, geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir lýðræðislega stjórnun. Í sögu mannkyns hafa dæmi um slíkar takmarkanir oft reynst hættulegar. 

Að taka atkvæðisréttinn af örorku- og ellilífeyrisþegum, sem hafa eytt starfsævinni í að byggja upp stéttarfélagið, minnir á þessi dæmi þar sem reynt er að útiloka ákveðna hópa frá lýðræðislegu ferli. Slíkar aðgerðir geta skapað hættulegt fordæmi þar sem hópar eru útilokaðir frá áhrifum og þátttöku í málefnum sem snerta þeirra eigin framtíð og hagsmuni.

Að auki er gagnrýni á aðgerðir formannsins, sem tengist persónulegu orðspori hennar og fyrri gjörðum, áminning um mikilvægi þess að leiðtogar félagasamtaka séu hafðir til ábyrgðar og að farið sé eftir ströngum siðareglum. Þetta er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir traust innan félagsins heldur einnig fyrir almenning sem horfir til stéttarfélaga sem fyrirmyndar um lýðræðislega stjórnarhætti og gott siðferði.

Með því að verja lýðræðisleg réttindi allra félagsmanna, óháð aldri eða heilsu, tryggir Blaðamannafélag Íslands að það standi undir þeim gildum sem það á að vera byggt á. Það er einmitt í þessum anda sem félagið ætti að leita að lausnum sem efla samstöðu og þátttöku allra félagsmanna, frekar en að skerða réttindi þeirra.

Með þessa nálgun má vonast til þess að félagið nái að sameina alla blaðamenn undir merkjum gagnsæis, réttlætis og lýðræðis, sem eru hornsteinar heilbrigðs félagslegs samtals.

Indriði Þröstur Gunnlaugsson, 29.8.2024 kl. 13:30

3 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

26. apríl 2023 urðu breytingar á lögum Prestafélags Íslands á aðalfundi, sem svipti presta á eftirlaunum atkvæðisrétti og málfrelsi á vettvangi félagsins.

Af því tilefni sögðu sig nokkrir eldri prestar úr félaginu, þar á meðal sr. Örn Bárður Jónsson og sr. Geir Waage, en sá síðarnefndi var fyrrum formaður Félagsins og heiðursfélagi.

Þegar krosstré bregðast, hví skyldu þá ekki önnur tré gera það?

Nú stendur Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands að tillögu um lagabreytingu þar sem svipta skal blaðamenn á elli- og örorkulífeyri atkvæðisrétti á félagsfundum Blaðamannafélagsins.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 29.8.2024 kl. 22:52

4 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Eitt þarf að nefna í þessu. Kvennakirkjuprestar sem nú eru næsta einráðir innan Þjóðkirkjunnar og femínistar innan blaðamannastéttarinnar með svipuð völd eiga það sameiginlegt að vera ekki þjóðin öll og að tilheyra aðeins minnihluta þjóðarinnar, hávær minnihluti sem með menningarkúgun á alþjóðavísu hefur frekjazt meira áfram en aðrir og komizt upp með það.

Nú hitnar jörðin undir þessum valdhöfum og logar Vítis sleikja viðkomandi og þá skal herða skrúfur á pyntingatækjum.

Unglingar og börn eru ráðvillt þótt alin séu upp af þessu ofstækisliði (þó ekki öll því foreldrar eru misjafnir). Þau vita af því að femínískt ofstæki og jafnaðarfasískt ofstæki undanfarinna áratuga er eiginlega að hrynja til grunna, því efasemdirnar eru miklar og víða og innan allra kynslóða.

Rétt eins og með það sem lesa má um á Krossgötum, vefritinu ágæta, að þegar þrengt er að tjáningu með sífellt harðari reglum, þá þýðir það að valdið hræðist.

Eða á mannamáli: Hrun kommúnismans sem varð 1989-1991 það er að endurtaka sig. Að þessu sinni hrun femínisma og jafnaðarstefnu, jafnvel nýfrjálshyggju líka. Hvenær lýkur þeirri umbyltingu? Ekki gott að segja.

Alla vega ekki rétt að gefast upp þótt harkan sé mikil í andlegri baráttu. Sigurinn er þá oft mögulegastur þegar harkan er mest í hinu liðinu. Þá er örvæntingin merki um að árangur náist.

Ingólfur Sigurðsson, 29.8.2024 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband