Wikileaks, Heimildin og huldufé

,,Við vorum bara núna að ráða sex blaðamenn," segir Þórður Snær ritstjóri Heimildarinnar nýliðin áramót. Ritstjórnin telur þá 18 til 20 manns. Forverar Heimildarinnar, Stundin og Kjarninn, töpuðu 51 milljón króna 2022, skv. Viðskiptablaðinu. Heimildin skrapar botninn í fjölmiðlamælingu Gallup, er með litlu meiri lestur en bloggsíða einyrkja.

Hvernig getur fjölmiðill í taprekstri stækkað ritstjórnina um þriðjung? Auglýsingatekjur eru hlutfall af útbreiðslu og geta ekki verið skýringin. Ríkisframlag upp á 55 milljónir kr. hjálpar upp á sakirnar, en gerir ekki meira en að vega upp tapið árið 2022. Varlega áætlað kostar blaðamaður 700 þús. kr. á mánuði í laun og launatengd gjöld. Þessir sex sem voru ráðnir nýverið kosta 50 milljónir króna á ári. Dæmið gengur ekki upp. Sporlausir peningar koma til sögunnar. Huldufé.

Heimildin er með ritstjórann Þórð Snæ sem sakborning í byrlunar- og símastuldsmálinu. Auk hans eru sakborningar á ritstjórninni þeir Arnar Þór Ingólfsson, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Aðalsteinn Kjartansson. Annar blaðamaður til, sjálfur rannsóknaritstjórinn Helgi Seljan, tengist byrlunar- og símastuldsmálinu, en er ekki sakborningur svo vitað sé.

Það liggur í augum uppi að áskrifendur sópast ekki að fjölmiðli þar sem reyndustu blaðamennirnir eru grunaðir í alvarlegu refsimáli. Heimildin hefur ekki ráðist í auglýsingaherferð til að fjölga áskrifendum. Menn vita að það er tilgangslaust. Bjargráða verður að leit hjá öðrum en almenningi.

Ekki eru fréttir af nýju hlutafé í reksturinn. Við sameiningu Stundarinnar og Kjarnans undir merkjum Heimildarinnar í ársbyrjun 2023 var reksturinn ekki endurfjármagnaður.

Heimildin kom fyrsta starfsárið ekki með þeim slætti inn á fjölmiðlamarkaðinn og eftir var tekið. Fréttir miðilsins fá litla útbreiðslu. Aðrir fjölmiðlar veigra sér við að endurflytja efni frá fjölmiðli sakborninga sem eru grunaðir um undirferli í fréttavinnslu, taka við efni sem unnið er út í bæ og gera að sinni frétt. Heimildin er jaðarútgáfa í öllu tilliti nema fjölda starfsmanna. Það kallar á skýringar.  

Einhver með djúpa vasa leggur fé til Heimildarinnar án þess að vera hluthafi eða auglýsandi. Kannski eru áskriftir keyptar í massavís eða peningum dælt í hítina með öðrum hætti. Huldufjárfestir vill eitthvað í staðinn. Fjölmiðill býr yfir óefnislegum verðmætum, tiltrú og trausti, kallast oft trúverðugleiki. Heimildin og forverar, Stundin og Kjarninn, seldu aðgang að trúverðugleika. Um það eru staðfest dæmi. Þau viðskipti eru undir yfirborðinu, koma aldrei fram í bókhaldi.

Síðustu daga eru fréttir af undarlegum yfirráðum Kristins Hrafnssonar ritstjóra Wikileaks yfir Stundinni, forvera Heimildarinnar. Kristinn bjó til efni, fréttir, sem Stundin birti sem sína eigin frásögn, seldi trúverðugleika sinn. Þegar danskir blaðamenn spurðust fyrir um málið vísaði blaðamaður Stundarinnar á Kristin, sem hafði enga formlega stöðu á Stundinni, enda ritstjóri Wikileaks. Tilfallandi fjallaði um sérkennileg yfirráð ritstjóra Wikileaks á Stundinni.

Kristinn á Wikileaks býr yfir töluverðum fjárráðum. Árlegt innstreymi fjármagns er vel yfir einn milljarður íslenskra króna, skv. upplýsingum um stofnanda Wikileaks, Julian Assange. Kannski eru það ýkjur en Wikileaks er alþjóðlegt vörumerki sem má fénýta. Aðrar fréttir segja lekasíðuna hagnast á stafrænum gjaldmiðlum, s.s. bitcoin. Hér á Íslandi fékk Wikileaks rúmlega milljarð í skaðabætur í dómsmáli fyrir tæpum fjórum árum. Til samanburðar voru rekstartekjur útgáfufélaga Heimildarinnar árið 2022 um 240 milljónir króna. Örlítill hluti af veltu Wikileaks væri nóg til að halda Heimildinni á lífi, sem annars þrifist ekki á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Fjármagn Wikileaks í Heimildina, þar áður Stundina, skýrði óeðlilegt ritstjórnarvald Kristins yfir útgáfunni. Fyrirkomulagið þverbrýtur yfirlýsta stefnu Heimildarinnar um sjálfstæða ritstjórn. Um leið og það vitnast að fjölmiðill selji trúverðugleika sinn eyðast verðmætin. Enda má enginn vita af iðjunni. Hún Heimild þarf að sýnast heiðvirð. Í reynd er hún portkona.

Kristinn er á kafi í málatilbúnaði blaðamanna Heimildarinnar, bæði fyrr og síðar. Daginn eftir að Namibíumálið var sett á flot í nóvember 2019 kom hann fram í Morgunblaðinu sem guðfaðir. Formlega var málið á forræði RÚV og Stundarinnar en Wikileaks með Kristin sem ritstjóra kippti í spottana enda bjó hann málið til.

En hvað er ritstjóri alþjóðlegrar lekasíðu, Wikileaks, að þvælast inn á íslenskan fjölmiðlamarkað? Jú, til að ná sér í trúverðugleika sem verður söluvara á erlendum mörkuðum, þar sem Wikileaks aflar sér tekna. Í þessu tilfelli ekki aðeins trúverðugleika ríkisfjölmiðilsins heldur einnig íslenskra yfirvalda.

Namibíumálið, ásakanir um mútugjafir Samherja í Afríkuríkinu, var selt útlendum fjölmiðlum, eins og Kristinn útskýrir í Morgunblaðinu. Til að sannfæra erlenda blaðamenn að alvöru skandall væri á ferðinni, en ekki fyllibytta og fíkill sem seldi sögu sína, varð að sýna þeim útlendu að íslensk yfirvöld tækju málið alvarlega. Þar kom við sögu séríslensk fjölskylduspilling. Ingi Freyr Vilhjálmsson á Heimildinni, einn sakborninganna í byrlunar- og símastuldsmálinu, átti jafnframt hlut að Namibíumálinu. Bróðir hans, Finnur Þór Vilhjálmsson, er saksóknari hjá héraðssaksóknara. Finnur Þór hóf rannsókn samtímis sem Namibíumálið var kynnt til sögunnar í fjölmiðlum. Bingó, trúverðugleikinn kominn. Þeir útlendu ginu við agninu. Ríkisfjölmiðillinn á Íslandi og ákæruvaldið segja sömu söguna. Wikileaks gat innheimt í útlöndum. 

Namibíumálið er keypt fyllibytta með skrök til sölu. Ekkert meira.  Vitnisburður Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara er ekki tækur í dómsmál, hvorki í Namibíu né á Íslandi. Finnur Þór er ekki lengur saksóknari, hann er orðinn dómari við héraðsdóm Reykjavíkur, stundum kallaður Samfylkingardómur Reykjavíkur. Valdavinstrið sér um sína; Þóra Arnórsdóttir flutti sig á Landsvirkjun þegar henni var óvært á RÚV vegna byrlunar- og símastuldsmálsins.

Eftir ritstjóra Wikileaks er haft í Morgunblaðsviðtalinu daginn eftir frumsýningu Namibíumálsins

Ég held líka al­mennt séð að þessi birt­ing og þessi um­fjöll­un sé ákveðinn próf­steinn og prófraun á ís­lenskt sam­fé­lag, og einnig á ís­lenska fjöl­miðla, hvernig þeir mat­reiða og verka þessi mál, sér­stak­lega með til­liti til þess hvernig eign­ar­haldið er þar víða.

Takið eftir síðustu setningunni. Ritstjóri Wikileaks hefur áhyggjur af dreifðu eignarhaldi íslenskra fjölmiðla. Síðan gerist það að Stundin og Kjarninn sameinast í Heimildinni. Guðfaðirinn leggur línurnar. En ekkert gerist ókeypis. Sporlausir peningar eru í dreifingu. 

Wikileaks er útlent fyrirtæki, þótt ritstjórinn sé íslenskur. Það er ekki við hæfi að forsvarsmaður erlendra hagsmuna leggi íslenskum fjölmiðlum lífsreglurnar. Enn síður er hæfilegt að fjölmiðill á styrk ríkissjóðs Íslands stundi vændi, selji það sem ekki skal vera falt; traust og tiltrú.

Huldufé heldur lífinu í Heimildinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég er eiginlega ekkert hissa að ég skuli ekki vera hissa á þessum pistli. Með forustu blaðamanna eins og hún er er ekki að undra að stéttin sé komin á þennan stað. Leitt fyrir hina sem reyna að halda haus og vinna sína vinnu af samviskusemi. 

Ragnhildur Kolka, 25.1.2024 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband