Pútín: allt eða ekkert

Í Úkraínudeilunni ætlar Pútín sér allt eða ekkert. ,,Allt" þýðir hér stríðsmarkmið Rússa, sem fela í sér forræði yfir Úkraínu beint eða óbeint. ,,Ekkert" þýðir stríð með kjarnorkuvopnum - steinöld fyrir Evrópu.

Stríð Rússa í Georgíu árið 2008 tók 12 daga. Í framhaldi rússneskur friður, þ.e. forræði Rússa. Úkraína er mun stærra land en Georgía. En á fimmta degi átaka er höfuðborgin umkringd. Án höfuðborgar er stjórnsýslan lömuð. Þótt styrkleikahlutföllin séu Rússum hliðholl, um 1,2 milljón manna her á móti 200 þús. Úkraínumönnum, er ekkert gefið í þessu stríði, fremur en öðrum.

Vesturlönd veita Úkraínu vopn en ekki hermenn. Vopnin auka manntjón en breyta ekki styrk á vígvelli. Til að ná landsvæði og halda þarf mannskap. 

Ef Rússar hafa undirbúið sig fyrir stríðið sæmilega, þeir hafa haft átta ár til þess, munu efnahagslegar refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir ekki hafa teljandi áhrif næstu vikur og mánuði. 

Eina ófyrirséða atriðið sem gæti brotið innrás Rússa á bak aftur er vilji úkraínsku þjóðarinnar að berjast. Enn er ekki hægt að dæma um stríðsvilja almennings. Fréttir berast af fádæma fórnfýsi en líka flótta karlmanna á herskyldualdri í átt að vesturlandamærum Úkraínu. Stjórnin í Kænugarði bannaði karlmönnum á aldrinum 18-60 ára að yfirgefa borgina. Borgin er umkringd. Ef íbúarnir berjast til síðasta blóðdropa er aldrei að vita um úrslit.

Forseti Úkraínu hefur fallist á friðarviðræður. Það er veikleikamerki. Á meðan friðarviðræður standa yfir koma Rússar sér betur fyrir í landinu og stækka hernámssvæði sitt. Friður í skugga rússneskra vopna er uppgjöf.

Pútín telur Úkraínudeiluna snúast um tilvist Rússlands. Zelenskí forseti er tilbúinn að semja um tilvist Úkraínu. Nokkur munur þar á. 

Í sumum stríðum eignast sigurvegarinn heimsveldi, Rússland-Úkraína yrði orkuheimsveldi. Sá sem tapar missir allt, veldi sitt og ríki. Úkraínustríðið er þannig stríð. Þegar til mikils er að vinna - og tapa - hætta menn öllu, jafnvel heimsfriðnum.


mbl.is Kjarnorkusveitir Rússa í viðbragðsstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Rússlandi Pútins hefur verið úthýst. M.a.s. Þýskalandi er nóg boðið. Pútín sér sína sæng upp reidda. Páll Vilhjálmsson, aðdáandi Pútíns, veit ekki hve nærri lá að Georgía ynni stríðið. Fólksfjöldi vinnur ekki stríð, heldur hernaðargeta. Hana hefur Rússland ekki. Bretland og Frakkland, hvort um sig hefðu Rússland undir í stríði.

Ég velti fyrir mér hversu lengi eigandi blog.is hyggst leggja fasistanum Páli Vilhjálmssyni til pláss undir áróður fyrir Pútín?

Einar Sveinn Hálfdánarson, 28.2.2022 kl. 20:55

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Það er tvennt ólíkt að standa með Pútín eða íhuga stöðuna á gagnrýninn hátt og án þess að gleypa allan Kanaáróðurinn hráann. Nú standa fullyrðingarnar orð gegn orði hvor sé meiri fasisti Zelenski eða Pútin. Fullyrðingar um að Úkraína sé full af vafasömum stríðsrostungum er studd með þeirri staðreynd að þeir verja sig af fullum krafti, og til þess þarf þjóðerniskennd, stríðsæsingafólk ekki ósvipaða nazistum seinni heimsstyrjaldarinnar. Það þarf tvo eða fleiri í stríði, verum ekki að einfalda hlutina of mikið.

Bæði Napóleon og Hitler töpuðu sínum heimsstyrjöldum er þeir réðust inní Rússland, sem sýnir hversu óvinnanlegt vígi það er. 

Pútín gæti útrýmt mannkyninu 100 sinnum með sínum kjarnorkuvopnum, sýklavopnum og efnavopnum. En hann veit að það væri sjálfsmorð, jafnvel minnsta tilraun til þess ylli einhverju líku heimsendi þannig að mannkynið næði sér aldrei eftir það, jafnvel takmörkuðu gereyðingarstríði. Rússland yrði heldur ekki sigurvegari eftir það frekar en aðrir. Þær hræður sem myndu lifa eftir á jörðinni myndu berjast fyrir lífinu, og lífið yrði sprengt 10.000 ár aftur í tímann, að minnsta kosti.

Hernaður á jörðu niðri er alltaf erfiður. Bandaríkjamenn hafa notað fjarstýrð vopn gegn sínum óvinum, þó ekki gereyðingarvopn. 

Pútín hélt að þetta yrði eins og þegar Talíbanar náðu Afganistan á sitt vald. 

Rússneski herinn er hugsanlega ekki nógu vel skipulagður, þó sýninst manni eins og flestir hafa sagt að Rússar muni ná Úkraínu á sitt vald með svona hernaði, en mannfallið fer líka eftir mótspyrnunni. Hefðu Úkraínumenn ekki sýnt Nató áhuga eða ekki reynt að berjast gegn Rússum hefðu þeir sloppið betur.

Menn missa sig í skítkastinu yfir þessu máli eins og öðru, hafi þeir aðrar pólitískar skoðanir.

Ingólfur Sigurðsson, 1.3.2022 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband