Staðreyndavakt Facebook er skoðun

Facebook er með á sínum snærum staðreyndavakt. Einnig aðrir samfélagsmiðlar. Tilgangurinn er að fanga rangar staðreyndir og koma í veg fyrir falsfréttir og upplýsingaóreiðu. En nú ber svo við að Facebook viðurkennir að staðreyndavakt miðilsins sé byggð á skoðunum.

Fréttamaðurinn John Stossel var fyrir barðinu á staðreyndavakt Facebook. Frétt Stossel var um meint manngert veðurfar. Samfélagsmiðillinn ritskoðaði - í nafni staðreynda - og merkti frétt Stossel ,,ranga og misvísandi." Fréttamaðurinn stefndi Facebook fyrir dóm til að fá ritskoðuninni hnekkt. Vörn Facebook fyrir dómi er að staðreyndavakt samfélagsmiðilsins byggir á skoðunum en ekki staðreyndum.

Hér heima hafa sumir fjölmiðlar gefið sig út fyrir að standa staðreyndavaktina. Fyrir fimm árum sakaði Kjarninn t.d. Bjarna Benediktsson um að fara með ,,haugalygi" í krafti staðreynda sem Kjarninn þóttist hafa á hreinu. Morgunblaðið staðreyndatékkaði Kjarnann og fann staðreyndavillur í ásökun jaðarútgáfunnar.

Staðreyndir máls flækjast fyrir mönnum. En líka hitt að greina á milli hvað staðreyndir eru og hvað skoðanir. 

Vandlifað er í heimi margra staðreynda og enn fleiri skoðana. Maðurinn hefur ekki í annan tíma átt greiðari aðgang að öllum heimsins staðreyndum og þorra skoðana. En skilningur mannsins á sjálfum sér og henni veröld virðist í öfugu hlutfalli við aðgengi upplýsinga.

Sumt í heiminum, sem má kalla hráar staðreyndir, er óháð mannlegri vitund. Fjallið Esjan er hvort heldur okkur líkar það betur eða verr, sama gildir um Atlantshafið. Annað í heiminum er aðeins til í vitund mannsins. Verðbólga er ekki hrá staðreynd heldur manngerð, brúðkaup sömuleiðis, vinnutími, sumarfrí og ótal margt annað í mannlífinu. 

Manngerðar staðreyndir eru háðar samkomulagi. Jón og Gunna eru hjón vegna samkomulags um að tiltekin athöfn með áfastri yfirlýsingu geri þau hjón. Verðbólga er rúm 4 prósent á grunni samkomulags um hvernig verðbreytingar skulu mældar.

Það liggur í hlutarins eðli að í nær öllum manngerðum staðreyndum er innbyggður skoðanaþáttur. Manngerðar staðreyndir lýsa sameiginlegum vilja til að hafa þetta eða hitt svona eða hinsegin, hafa eitt fyrir satt en telja annað ósatt. Það er til dæmis satt að tveir eru í hjónabandi, hvorki fleiri né færri. En Píratar láta sér detta í hug að þrír, fimm eða sjö gætu áttu sameiginlega hjónasæng.

Við lifum tíma lausungar. Því miður gildir það bæði um hráar staðreyndir og mennskar.

Margt sem áður þótti gott og gilt sem hrá staðreynd er það ekki lengur. Til dæmis að veðurfar sé náttúrulegt en ekki manngert. Að kynin séu tvö en ekki þrjú, fimm eða seytján. Af sjálfu leiðir að þegar hráar staðreyndir eru í uppnámi gildir það í enn ríkari mæli um manngerðar staðreyndir.

Í brimróti staðreynda og skoðana er ekki auðvelt að aðgreina hvað er gegnheilt og ekta og hvað bull, vitleysa og firra. Boðskapur alkabænarinnar, sem byggir á Markúsi Árelíusi, á erindi við samtímann: sumt er háð vilja okkar og vitund en annað ekki. Við getum unnið með vit og vilja en Esjan og Atlantshafið verða á sínum stað burtséð hvað okkur finnst. Grétu Thunberg og fylgismönnum hennar má finnast að maðurinn stjórni veðurfarinu. En það er náttúran sem sér um þann þátt tilverunnar og hefur alltaf gert.

Skortur á samkomulagi um hvað er og hvað ber einkennir samtímann. Menningin er ófyrirséð og spennandi. En það er ekki þrautalaust að lifa tíma þegar meintar staðreyndir eru í raun skoðanir.

 

 

(Það sem segir hér að ofan um hráar staðreyndir og mennskar er fengið frá gömlum manni vestur í Kaliforníu. Sá heitir John Searle og kennir heimspeki þar vestra. Enginn tilfallandi hugverkastuldur hér.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loncexter

https://www.youtube.com/watch?v=AmKPbYbAnKE

Loncexter, 19.12.2021 kl. 10:58

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Páll.

Það er staðreynd að það blasir við uppsafnað hraun þegar horft er yfir sundið, það er líka staðreynd að þetta uppsafnað hraun er skilgreint sem fjall, en það er ekkert sem segir að það sé ekki hægt að skilgreina þetta sem hól eða fell, skilgreiningar eru mannanna verk.

Það er líka staðreynd að þetta uppsafnaða hraun, sem skilgreint er sem fjall, heitir Esja á landakortum, en ekkert sem segir að það sé ekki kallað öðrum nöfnum, bæði í núinu sem í fortíðinni.

Skilgreiningar eru nefnilega bara ákveðin sátt, yfirleitt byggðar á kerfi, og settar fram til að fá reglu á óreiðuna.  Það að vísa í skilgreiningar sem staðreyndir er því alltaf einföldun, en samt nauðsynleg regla til að hafa reiðuna á óreiðunni, það sem við köllum þekkingu dags daglega.

Hins vegar er það skoðun hvort grjóthrúgan sem þið fyrir sunnan kallið Esju sé falleg eða ljót, svipmikil eða rislítil.

Skoðanir eru nefnilega valfrjálsar, geta hvorki verið sannar eða ósannar, og þó þú gefir annað í skyn í pistli þínum hér að ofan, þá falla menn ekki á fakttékki vegna skoðana, menn falla þegar þeir fara rangt með.

Svo við höldum okkur við Esjuna þína, þá er hún afskaplega ljótt fjall við fyrstu kynni, svona miðað við fjöllin fyrir austan, en vissulega vinnur hún á.  Enda heitir hún ekki Esja á landakortum, heldur Gráma því hún er ekki fjall, ekki úr neinu grjóti eða fornu hrauni, heldur er hún skuggaleiftur kvöldhúmsins, sjónhverfing útí grámann og af því dregur hún nafn sitt.

Sú skoðun að Esja sé ljótt fjall miðað við fjöllin fyrir austan er ekki hægt að fakttékka, en allt hitt, og myndi falla á tékkun Feisbókar, sem og allra fjölmiðla sem eru farnir að fakttékka umræðuna til að draga úr upplýsingaóreiðu, falsi og blekkingum.

Á þessu fakttékki féll læknirinn Peter McCullough  sem þú kaust að vitna í sem heimild í pistli þínum gegn vestrænum læknavísindum, sem þú skrifaðir síðastliðinn föstudag.  Allt sem þú sagðir þar var rangt, og þú blekktir vísvitandi með því að vísa í mann sem þú vissir að hefðir fallið á öllum fakttékkum, ekki vegna skoðana sinna, heldur að hann fer rangt með. Og ég tel mjög líklegt að þú vitir að hann sé einn af þeim mannlegum viðbjóðum sem hefur vísvitandi blekkt fólk varðandi bólusetningar, ber því beina ábyrgð á þeim mikla fjölda í Bandaríkjunum sem hefur ekki bólusett sig, og hefur fallið umvörpum frá því 1.júní þegar bólusetningar voru almennt í boði fyrir fólk utan áhættuhópa. 

Ein helsta fullyrðing þessa falslæknis er að kóvid veiran sé hættulaus fólki utan áhættuhópa, fólk sem trúði honum og hans líkum, lét því ekki bólusetja sig, með þeim afleiðingum að yfir 150 þúsund manns í þeim hópi hefur fallið frá júní byrjun.  Fólk sem er ekki í áhættuhópi, fólk á besta aldri.

Eins er það með þessa örfáu lofslagsvísindamenn sem þú vitnar í Páll.  Til að þjóna hagsmunaöflunum sem fóðra þá, treysta þeir sér ekki til að fara rétt með staðreyndir þegar þeir afneita hlýnun jarðar af mannavöldum, eða í besta falli spila sig fífl eins og Judit Curry með því að segja að áhrifin hafi ekki verið sönnuð fyrir víst.

Afneitun á áhrif mannsins, sem byggist á staðreyndafölsun eins og að jörðin hafi ekki hlýnað, eða afneita vísindunum um hlutverk CO2 í lofthjúpnum, eða falsa vísindaniðurstöður með handtínslu, er ekki merkileg skoðun, ekki frekar en að segja að Esjan sé ljót, og benda því til staðfestingar á einhverja grjóthrúgu eftir Björgun á Gufunesinu.

Það er hægt að segja allt, en staðreyndir krefja hinn vitiborna mann að fara rétt með.

Þessi pistill þinn er aumt yfirklór hjá manni sem vísvitandi leikur sér að því að fífla lesendur sína með því að vitna ítrekað í fólk sem fer ekki rétt með.

Falleinkunn út frá sjónarmiði áróðursmannsins sem passar sig alltaf á að láta ekki hanka sig á staðreyndatékki, heldur lætur aðra um fara rangt með.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.12.2021 kl. 12:05

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Fact-Check eru ekki skoðanir heldur viljand bull inngrip í skoðanskipti til þess að valda sundrungu og koma í veg fyrir að uppbyggileg umræða geti átt sér stað.

FaceBook er stjórnað af glæpamönnum sem hafa það markmið að rífa niður vestræna velferð og menningu. 

Guðmundur Jónsson, 19.12.2021 kl. 22:41

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Það er ekki aðeins Peter Mccullough sem þekkir lyf sem vinnur á Covid-19,það gerir íslenski læknirinn Gðmundur Snær sem kom fram á útvarpi Sögu (vinnur/vann í Svíþjóð) og hjálpaði mörgum hér,en undarlegt að Lyfjastofnun Íslands skyldi ekki leyfa það hér,þangað til nýlega og þá var það orðið margfalt dýrara.   

Helga Kristjánsdóttir, 20.12.2021 kl. 03:05

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Lyfið heitir Ivermectin.

Helga Kristjánsdóttir, 20.12.2021 kl. 03:10

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Helga.

Ef Ivermectin væri þetta kraftaverkalyf sem átrúnaðurinn heldur fram, þá þyrfti ekki að ljúga til um ágæti þess, með því til dæmis að vitna í niðurstöður rannsókna sem eru augljóslega falsaðar til að ná þóknanlegum niðurstöðum, en sleppa því að vitna í vandaðar rannsóknir sem sjá engan marktækan mun. Hvað þá að ljúga því að sum lönd eins og til dæmis Malasía hafi ætlað að hætta við bólusetningar vegna þess að þau ætluðu að nota kraftaverkalyf eins og ivermectin í staðinn.

Glæpurinn við svona lygar Helga er að hrekklaust gott fólk eins og þú trúir þeim, og um allan heim er verið að jarða fólk vegna þessarar trúar, fólk sem kaus að hafna bólusetningu og ákvað að lækna sig sjálft með lyfjum eins og Ivermectin.

Fakttékk afhjúpar svona lygar, þess vegna er svo mörgum í átrúnaðinum uppsigað við það, eftir standa staðreyndir sem ekki er um deilt, eða þar til ný þekking breytir þeim.

Varðandi ivermectin eru þær helstar að jákvæð áhrif þess á covid hafa ekki ennþá mælst í rannsóknum, en lyfið er samt talið þess virði að rannsaka, Oxford háskóli er til dæmis með mjög vandaða rannsókn í gangi.  Ivermectin hefur verið leyft í mörgum löndum sem viðurkennt lyf við covid, af þeim löndum hafa allavega 2 afturkallað leyfið, Indland og Perú, heilbrigðisyfirvöld þar hafa ekki séð neinn marktækan árangur.  Það er leyft í nokkrum ESB ríkjum, til dæmis Slóvakíu og Tékklandi.

Slóvakar leyfðu það í byrjun þessa árs, það eru allar götur auðar í Bratislava í dag, eða eins og sagði í vídeóinu sem ég horfði á rétt áðan þegar ég tékkaði á árangrinum af notkun ivermectin þar í landi; "Slovakia Enters Strict Covid Lockdown as Hospitals Get Overrun".

Raunveruleikinn hefur sem sagt líka hafnað ivermectin,svo hvað stendur eftir??

Mér skilst Helga að kennslan hafi verið þitt ævistarf, þú hefur örugglega lent í því að gefa v fyrir röng svör á prófi, til dæmis að höfuðborg Danmerkur héti Osló eða 3*3 væru 6.  Það var þitt fakttékk að gefa rétt fyrir Kaupmannahöfn, eða töluna 9, þú gafst rétt fyrir staðreyndir, ekki skoðun, og það hefur ekkert breyst.

Það eru bara aðeins fleiri í dag sem hafna þekkingu en það er ekki þekkingunni að kenna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.12.2021 kl. 09:06

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ómar.  Allt sem þú skrifar um Ivermectin eru endursagnir úr fjölmiðlum. Það vill til að þetta eru sömu fjölmiðar og sögðu þér í marga mánuði að Pfizer sprautan mundi færa þér 95% vörn geng því að smitast af SarsCov2 og frelsi til samvista við annað fólk.

Guðmundur Jónsson, 21.12.2021 kl. 13:04

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur minn.

Þetta er eiginlega of heimskt til að ég nenni að svara þessu.

Meir að segja Moskvutrúboðið virti ákveðin lágmörk skynseminnar.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 21.12.2021 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband