Fréttablaðið birtir skoðanir sem fréttir

Í gær skrifaði Aðalheiður Ámundadóttir leiðara í Fréttablaðið um meint kosningasvindl í NV-kjördæmi. Leiðarar eru skoðanir og túlkun. Fréttir eru annað, hlutlæg frásögn.

En þessu er öfugt farið á Fréttablaðinu. Þar á bæ eru fréttir skrifaðar til að styðja við skoðanir.

Í dag skrifar Aðalheiður forsíðufrétt Fréttablaðsins undir fyrirsögninni Óvissan er bæði lagaleg og pólitísk. Þar er leiðarinn frá í gær, um svindl í NV-kjördæmi, klæddur í búning fréttar.

Aðalheiður talar máli Pírata. Hún mætti sem slík í RÚV á kosninganótt. Píratar, eins og aðrir vinstriflokkar, töpuðu kosningunum.

Nú notar Aðalheiður aðstöðu sína á Fréttablaðinu til að skapa óvissu. Úr óvissu sprettur óreiða. Í óreiðu liggur von vinstrimanna að komast til valda.

Skoðanir Aðalheiðar eru forsíðuuppsláttur Fréttablaðsins. Það er verið að svindla á lesendum; vinstriskoðanir eru settar fram í búningi hlutlægra frétta.

Fréttablaðið fær ríkisfé til að standa undir útgáfunni. Í reynd er ríkið að niðurgreiða skoðanir. Hvað voru þeir að hugsa sem ákváðu að svo skyldi vera?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Fólkið sem vill bannfæra þá sem efast um loftslagvána krefst þess nú að mannana verk séu "hafin yfir allan vafa"
En vissulega væri gaman að sjá Spanó koma með álit um að stjórnarskrá Íslands væri handónýt - þá færi fólk ef til vil loks að efast um að allt sé heilagur sannleikur sem kemur frá MDE

Grímur Kjartansson, 30.9.2021 kl. 13:51

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Grímur.

Heilagur sannleikur finnst aðeins í trúarbrögðum, ekki lögfræði.

Stjórnarskráin er ekki ónýt, en eitt ákvæði hennar sem aldrei áður hefur reynt á, brýtur í bága við Mannréttindasáttmálann. Það er alveg skýrt að enginn á að geta verið dómari í sínu eigin máli.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.9.2021 kl. 19:10

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það var vissulega óheppilegt hvernig staðið var að talningu atkvæða í NV kjördæmi og vissulega má taka undir að þar hefði betur mátt fara. Hitt er undarlegra, að lögfróðir menn, sumir jafnvel sem voru í framboði og fengu ekki næg atkvæði, skuli bera fyrir sig brotum á stjórnarskrá og kosningalögum í þessu sambandi. Þessu fólki væri hollt að lesa stjórnarskránna og kosningalögin.

Það er fljótlesið hvað stjórnarskrá segir um kosningar til Alþingis, þar er í raun einungis rætt um kjördæmaskipan og hverjir eru kjörgengir. Að öðru leyti er vísað til kosningalaga. Í þeim er aftur að finna hvernig skuli farið með kjörgögn, hvernig skuli staðið að talningu og annað er snýr að kosningunni sjálfri, auk ákvæða um kjördæmaskipan og kjörgengi.

Skemmst er frá að segja að samkvæmt þeim lögum er talað um að kjörkassar skuli innsiglaðir á kjörstað, á leið frá kjörstað til talningarstöðvar og á leið frá talningarstöð í geymslu, þar sem þau eru geymd í ákveðinn tíma en síðan eytt. Ekki segir að kjörkassar þurfi að vera innsiglaðir meðan þeir eru á talningarstað. Ekki segir að kjörgögn skuli flutt til geymslu strax að lokinni talningu, einungis að talningarstaður skuli vera í innsigluðu rými. Ekkert segir til um hvernig skuli staðið að flutningi kjörgagna, til og frá kjörstað, hvort einn eða fleiri eigi að vinna það verk.

Varðandi viðurlög við brotum á kosningalögum er ansi fátæklegt um að litast í þeim. Meint vald Alþingis virðist vera ofmetið. Það hefur einungis vald til að skoða hvort hver sá er hlýtur kjör þangað inn sé með löglegt umboð þjóðarinnar. Til að Alþingi geti ákveðið nýjar kosningar þarf annað tveggja að vera fyrir hendi, að ágallar séu svo miklir að veruleg áhrif það hafi á fylgi flokka og ef ágallar leiði til að heill þingflokkur telst vera án umboð þjóðarinnar.

Nú liggur fyrir að þessi skekkja sem varð í talningu atkvæða í NV kjördæmi breytti ekki fylgi stjórnmálaflokka, hafði einungis áhrif á uppbótarþingmenn innan hvers flokks. Því er ljóst að fyrra atriðið er ekki fyrir hendi. Hvort þeir uppbótarþingmenn er komu inn í stað þeirra sem fóru út, hafi umboð þjóðarinnar, má kannski deila um. Ljóst er þó að einungis er þar um að ræða fjóra þingmenn frá fjórum flokkum.

En upphlaupið sýnir kannski kjarna málsins. Þeir þingmenn sem duttu út láta mikinn, þó flokkar þeirra hafi ekki borið neinn skaða. Horfa fyrst og fremst á eigin hag. 

Svo má auðvitað deila um hvort stjórnarskrá og lög um kosningar séu sanngjörn. Það er bara allt önnur saga.

Um meint vantraust er það eitt að segja að þeir sem velja að túlka og snúa lögum sér í hag eru þeir menn sem grafa undan trausti til stjórnsýslunnar. Sorglegt að þar skuli lögfræðingar vera á bekk. Mistök geta hins vegar alltaf átt sér stað. Þegar þau uppgötvast er það merki um styrk að ráðast strax í að leiðrétta þau.

Gunnar Heiðarsson, 1.10.2021 kl. 01:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband