Sjónvarp, félagsmiðlar, bölsýni án sannleika

Netflix sýnir heimildaþátt um félagsmiðla, The social dilemma. Helstu viðmælendur eru ungir menn sem tóku þátt í þróun félagsmiðla en óttast afleiðingarnar.

Rökin fyrir slæmum áhrifum félagsmiðla eru, að breyttu breytanda, áþekk gagnrýni á yfirvald sjónvarpsins yfir samfélaginu undir lok síðustu aldar. Tvær kenningar úr þeirri átt, Miðillinn er merkingin eftir Marshall McLuhan og Skemmtun til ólífis eftir Neil Postman, enduróma í gagnrýninni á félagsmiðla.

Þó er einn veigamikill munur á. Sjónvarpsgagnrýnin á síðustu öld ól á þeim ótta að sjónvarpið steypti okkur öll í sama mót. Sjónvarpssannleikurinn myndi kæfa sjálfstæða einstaklinga. Þarna eimdi af hugsun kalda stríðsins um tvískiptingu heimsins, svart eða hvítt, kommúnismi eða kapítalismi. Félagsmiðlar, aftur á móti, eru ekki tvípóla heldur óreiða.

Undir lok þáttarins á Netflix segir aðalheimildarmaðurinn að við þurfum sannleika, einfaldlega til að skilja á milli þess sem er satt og ósanninda. Óreiða félagsmiðla skilar engu nema sífellt fleiri útgáfum af sannleika - sem þýðir, auðvitað, engan sannleika.

Sannleikurinn mun gera yður frjálsa, segir bók bókanna. Hafa skal það sem sannara reynist, skrifaði Ari Þorgilsson á skinnhandrit á 12. öld.

Tæknin kann að þróast en eilífðarspurningarnar fylgja okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband