Róm, Reykjavík og lýðhyggja

Ísland er lýðveldi og á það sameiginlegt öðrum lýðveldum í henni veröld að sækja stjórnskipunina til Rómarlýðveldis sem stóð í hálft árþúsund fyrir Krist. 

Res publica kölluðu Rómverjar fyrirbærið og þýðir það sem varðar almenning. Megineinkennið var að æðstu embættismenn, tveir konsúlar eða ræðismenn, voru valdir árlega í kosningum. Konsúlar komu úr frumfjölskyldum Rómar, patríörkum, sem áttu sæti í öldungaráði, senati, og nefndust senatorar. Þeir Rómverjar sem ekki tilheyrðu patríörkum voru almenningur, plebeijar.

Til að viðhalda jafnvægi milli stéttanna, patríarka og plebba, var komið á fót embætti alþýðuforingja, tribúna. Alþýðuforingjar gerðu kröfur fyrir hönd alþýðunnar, til dæmis um jarðnæði og aðild að dómsvaldi.

Skammstöfun lýðveldisins, sem enn má sjá í Róm, er SPQR. Merkingin er þessi: senatið og Rómarlýður.

Ársaga Rómar, skráð af Livíus, er saga togstreitu senatora, elítunnar, og plebbanna, almennings. Það sem sameinar lýð og elítu er óvinur í nágrannahéruðum Rómar. Sígld saga lýðvelda.

Lýðhyggja er samstofna hugmyndinni um lýðveldi. Þessari stjórnskipun fylgir að tilkall til valda er tvinnað úr tveim þáttum. Fyrri þátturinn er oft ofinn úr auði, ætt, skólagöngu, sbr. MR og sex forsetar Íslands, og starfsferli. Seinni þátturinn er lýðhylli.

Stjórnmálaskýranda kosningasjónvarps RÚV til margra ára, Ólafi Þ. Harðarsyni, tókst með snotrum hætti að koma á framfæri greiningunni að sitjandi forseti fékk lýðhylli sína á RÚV. Í forföllum Ólafs var Guðni Th. um margra daga skeið í beinni útsendingu, þegar Efstaleiti felldi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs vorið 2016. Nokkrum dögum síðar bauð Guðni Th. sig fram til forseta og fékk sigur.

,,Ég var þá í Harvard í rannsóknaleyfi," sagði Ólafur Þ. og gaf þar með til kynna að lýðhylli Guðna Th. væri tilviljun. Það er laukrétt, hylli lýðsins er hvikul og ekki til að reiða sig á.

 

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Snoturlega sagt.

Ragnhildur Kolka, 28.6.2020 kl. 12:27

2 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Tek undir það

Benedikt Halldórsson, 28.6.2020 kl. 14:05

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Lýðhylli er ekki sami hlutur og lýðhyggja.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.6.2020 kl. 15:22

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Davíð Oddsson var stúdent úr M.R.

Ómar Ragnarsson, 28.6.2020 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband