Fimmtudagur, 20. júní 2019
Löskuð ríkisstjórn
Um drykkfelldan prest var sagt að hann hefði verið ónærgætinn sjálfum sér. Sama má segja um ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Í pólitísku ölæði tók ríkisstjórnin upp á því að framfylgja stefnu ESB-flokkanna á alþingi, Samfylkingar og Viðreisnar, sem eiga að heita í stjórnarandstöðu.
Kjósendur greiddu ekki Sjálfstæðisflokknum, Vinstri grænum og Framsókn atkvæði sitt til að flokkarnir fleyttu Íslandi inn í samrunaferli Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Ónærgætnin sem ríkisstjórnarflokkarnir sýndu kjarnafylgi sínu með misheppnaðri tilraun til að keyra 3. orkupakka ESB inn í íslensk lög gekk í berhögg við ráðandi viðhorf um að hagsmunum Íslands er betur borgið utan ESB en innan.
Bretland er á leið út úr Evrópusambandinu. Þegar að því kemur að samningar milli Bretlands og ESB nást, eða að Bretar fari úr ESB án samnings, verður sú niðurstaða borin saman við EES-samninginn. Viðskilnaður Breta við ESB, með eða án samnings, verður stórum hagfelldari fyrir Bretland en EES-samningurinn er fyrir Ísland.
Allsgáð ríkisstjórn Íslands myndi hafa rænu á að leika eingöngu biðleiki í samskiptum við ESB á meðan Brexit gengur yfir. Orkupakki þrjú var samþykktur af ESB fyrir tíu árum, já árið 2009. Hvers vegna mátti hann ekki bíða samþykktar á Íslandi í nokkur ár enn?
Dómgreindarleysið, sem ríkisstjórnin sýndi í orkupakkamálinu, var alþjóð til sýnis í allan vetur og fram á vor. Máttlaus málflutningur stjórnarinnar var beinlínis hjákátlegur, þeir afrituðu og límdu miðstýrða texta djúpríkisins til stuðnings framsali á orkuauðlindum Íslands.
Frá hruni 2008 eru tvö meginmál á dagskrá íslenskra stjórnmála. Í fyrsta lagi uppgjör við hrunið, sem óþarfi er að ræða í þessu samhengi. Í öðru lagi samskiptin við Evrópusambandið. Þar tókust á tveir hópar, þeir sem vildu Ísland inn í ESB og hinir sem héldu í fullveldi þjóðarinnar og vildu ekki aðild að ESB.
Undir forystu Samfylkingar var aðildarumsókn send til Brussel 16. júlí 2009. Umsóknin strandaði áramótin 2012/2013. Næsta vor tapaði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna stórkostlega í þingkosningum, fylgi Samfylkingar fór úr tæpum 30 prósentum í 12,9 og Vinstri grænir töpuðu helming fylgis, fengu 10,9 prósent. Þar með voru úrslitin ráðin í þessu deilumáli, Ísland skyldi ekki inn í ESB.
Ódrukknir hljóta menn að skilja að þjóðin mun ekki sætta sig við að Íslandi sé laumað inn í samrunaferli ESB í gegnum EES-samninginn. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætti að reyna að halda sér pólitískt edrú í sumar, þakka Miðflokknum, þó ekki sé nema í hljóði, og ákveða að taka orkupakkann af dagskrá alþingis.
Ef sumarið verður ekki notað uppbyggilega af ríkisstjórninni bíður hennar harður vetur.
Þinglok væntanlega á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svei mér ef almenningur verður ekki hvað fegnastur. Eru ekki ungmenni okkar að líða fyrir þetta pólitíska ástand,þau eru næm og kvíðin en tala lítt um það.
Helga Kristjánsdóttir, 20.6.2019 kl. 16:03
Um:Þinglok!
Helga Kristjánsdóttir, 20.6.2019 kl. 16:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.