Föstudagur, 21. desember 2018
Trump-friður veldur evrópskri örvæntingu
Trump lítur á Sýrland sem einskinsverða eyðimörk, segir þýska útgáfan Die Welt, og sakar Bandaríkjaforseta um að eyðileggja vestræna samstöðu. Guardian dregur fram rauða dregilinn fyrir evrópska ráðamenn sem harma ákvörðun Trump er leiddi til afsagnar varnamálaráðherra Bandaríkjanna.
Allt þetta vegna þess að tvö þúsund bandaríkir hermenn eru kallaðir heim frá Sýrlandi? Nei, meira hangir á spýtunni.
Bandaríkin ásamt Nató ætluðu að fella Assad Sýrlandsforseta og leiða til valda ríkisstjórn vinveitta vesturlöndum. Til hliðar var látið líta svo út að vestrænu ríkin stæðu í baráttu við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams. En aðalverkefnið var að koma Assad frá.
Innrásin í Írak 2003 til 2011 skyldi búa til hjálendu vestrænna ríkja eftir að Hussein forseta var steypt. Bandaríkjaher fór með skottið á milli fótanna frá borgarastyrjöldinni í Írak sem skóp Ríki íslams. Í Sýrlandi frá og með 2011 átti að nota arabíska málaliða, kallaða frelsisvini, til valdaráns.
Assad Sýrlandsforseti fékk frá haustinu 2015 stuðning frá Rússum að berja niður uppreisnina, sem fjármögnuð var af vesturveldunum. Valdaránið mistókst. Ein meginástæðan fyrir afskiptum Rússa var að Bandaríkin og Nató unnu markvisst að því að gera Úkraínu, í bakgarði Rússa, að vestrænni hjálendu. Rússar gátu illa beitt hernaðarmætti sínum í Úkraínu en auðveldlega í Sýrlandi.
Trump fékk kosningu 2016 m.a. út á loforð um að binda endi á tilgangslaus hernaðarævintýri í miðausturlöndum.
Trump-friður í miðausturlöndum gerir ráð fyrir að heimshlutinn ráði sjálfur fram úr vandamálum sínum. Örvænting ESB-ríkja og Bretlands stafar af fyrirséðu tapi valda og áhrifa, sem þau nutu í skjóli bandarísks hernaðarmáttar.
Sigurvegarinn í Sýrlandi er Pútín Rússlandsforseti. Bæði í Úkraínu og miðausturlöndum er Pútín raunsær á meðan vesturveldin eru blinduð af draumsýn um að hægt sé að flytja út vestræna stjórnskipun og planta henni niður með árangri í framandi menningu. Það er einfaldlega ekki hægt.
Verkinu í Sýrlandi ólokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
McCain gortaði sig af góðu talsambandi við frelsisvini í Sýrlandi...
Guðmundur Böðvarsson, 21.12.2018 kl. 15:22
Er það nú ekki Erdogan sem kætist mest?
Hörður Þormar, 21.12.2018 kl. 15:45
Nú getur Erdogan gengið frá Kúrdum.
Þökk sé DT.
Sigurður Kristján Hjaltested, 22.12.2018 kl. 02:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.