Fimmtudagur, 15. júní 2017
Víkingar, vopn og síðasta ferðalagið
Ísland var numið á tíma vopnaskaks víkingaaldar sem hefð er fyrir að tímasetja 793 til 1066. Öld víkinganna hófst þó fyrr, í sveitasamfélögum norrænna manna sem lærðu vopnaburð til að verjast nágrönnum en nýttu síðar þá kunnáttu, ásamt skipasmíði og siglingafræðum, til að leggja undir sig byggðir og óbyggðir í Evrópu og jafnvel Ameríku.
Bátskumlin í Eyjafirði eru upphaf síðasta ferðalags víkingaaldarmanna. Báturinn flytur þá til nýrra heimkynna og sverðið er til taks ef kemur til ófriðar. Hundi er lógað til að húsbóndinn verði ekki án förunautar.
Víkingar færðu samtíma sinn ekki í letur. Elstu ritheimildir um menningu þeirra eru kristnar. Tilraunir seinni tíma að skilja samtíma víkinganna eru þessu marki brenndar.
Við þykjumst vita að Ísland var óbyggt, eða því sem næst, þegar norrænir menn tóku sér búsetu á níundu og tíundu öld. Ófriðurinn á Íslandi var þar af leiðandi milli víkinganna sjálfra en ekki við sameiginlegan óvin.
Bátskumlin í Eyjafirði geyma ekki plóg heldur sverð. Það gefur til kynna að fyrstu íslensku bændurnir voru tengdari stríðsmenningu víkinga en brauðstritinu.
Þetta er óvanalegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.