Lágmarksríkið og Sjálfstæðisflokkur ríka fólksins

Frelsi er gæði sem einstaklingar eiga og verður ekki með rétti frá þeim tekin, segir aðalverjandi siðferðilegrar frjálshyggju á síðustu öld, Robert Nozick. Lágmarksríki Nozick sér um lögreglu, hervernd og dómstóla. Annað er frjálsra samtaka og fyrirtækja að sinna.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri hallur undir siðferðilega frjálshyggju væru skilaboð frá landsfundi flokksins að afnema ætti skólaskyldu. Frekt brot á einstaklingsfrelsi er að skylda hvern og einn í skóla tíu ár ævinnar. Einnig ætti að vera valkvætt hvort einstaklingurinn skrái sig í þjóðskrá. Ótækt er að allir eigi að skrá sig í gagnabanka stóra bróður.

En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur siðferðilegrar frjálshyggju þar sem einstaklingsfrelsi ræður ferðinni. Samkvæmt Hannesi Hólmsteini:

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur þeirra, sem eru ríkir, heldur flokkur þeirra, sem vilja verða ríkir

Öruggasta leiðin til að verða ríkur er að stjórnvöld úthluti manni ríkidæmi, til dæmis með því að selja manni ríkisbanka.

Ef maður er eigandi að matvörukeðju og vill auka veltuna er pottþétt aðferð að fá Flokkinn til að afnema þaulreynt fyrirkomulag á áfengissölu og leyfa áfengi í matvörubúðum. Skítt með lýðheilsusjónarmið, aðalatriðið er að gróðinn skili sér á réttan stað - til einkaaðila.

Frelsið sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar er frelsi hinna fáu að maka krókinn á kostnað almennings. Þegar fyrir liggur, samanber reynslu af útrás og hruni, að frelsi auðmanna til sjálftöku á gæðum almennings skilar sér í þjóðargjaldþroti þarf verulega pólitíska blindu, að ekki sé sagt siðferðilega, til að boða meira af því sama.

Horfinn er Sjálfstæðisflokkur borgaralegra gilda, stöðugleika og jafnræðishugsunar, ,,stétt með stétt." Flokkurinn leitar til jaðarhópa samfélagins sem sameinast í áhuga á þjófnaði, á hugverkum annars vegar og hins vegar ríkisbönkum.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2015 blandaði saman píratapólitík um frjálsar hassreykingar og sjálfselsku ríka fólksins og kallaði ,,frjálslyndi." Sjálfstæðisflokkurinn stækkar ekki með kverúlantapólitík heldur festir hann sig í sessi sem örflokkur jaðarhópa. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Ég vona innilega að aflétt verði einokur ríkisins á að versla með áfengi í verslunum. Það er fáheyrð afturhaldsemi að viðhalda slíku og í flestum löndum heims fellur slíkt undir sjálfsagða verslunarhætti og hefur lítið með afdankaða skilgreiningu á frjálshyggju.

Einnig er ljóst að það getur talist góður og frjálslyndur siður að skylda ungviði til skólagöngu - skilningurinn liggur í orðinu ungviði; treysta á heilbrigðum einstaklingum til þess að ráða eigin lífi en styðja börn og unglinga fram á fullorðinsár, þegar reynsla og þroski getur leitt þau áfram í lífinu. 

Kverúlantaskapurinn liggur í því að skilja ekki frelsishugtakið. Taka að sér að afskræma það og byggja á vanþekkingu og fordómum. Nú er það svo að ég hef lengi stutt Sjálfstæðisflokkin, því hann hefur reynst eina tæka stjórnmálaaflið til þess að blása lífi í vonarglæður frjálslyndis. Hvort hann hafi að sama skapi fjarlægst hugtök á borð við "stétt með stétt" og "að eignast þak yfir höfuðið" skal ég ekku fullyrða um en vont er ef svo sé. Við, sem fyllum "frjálshyggjuhluta" flokksins, höfum yfirleitt verið alsælir með að starfa með borgaralegum öflum, sem hafa þrátt fyrir allt ekki verið jafn einhuga um að færa "allt" í frelsisátt - enda má segja að hugsjón sé eitt, veruleiki annað.

En áfengi á ríkið ekki að versla með. Það er bilun.

Ólafur Als, 26.10.2015 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband