Ríkjasmíði í Sýrlandi og breytt Evrópa

Stríðið í Sýrslandi byrjaði veturinn 2011, hluti af arabíska vorinu, lýðræðisvakningu sem náði til margra landa í þessum heimshluta. Assad forseti gerir allt sem hann getur til að halda völdum og andstæðingar hans eru margklofnir. Þeir hættulegustu eru Riki íslams sem stefnir að kalífaríki þar sem Sýrland og Írak eru nú.

Rússland og Kína styðja Assad forseta. Bandaríkin studdu í öndverðu hófsama uppreisnarmenn en þeir hafa tínt tölunni í stríði þar sem öfgarnar ráða. Íran styður einnig Assad forseta. 

Í sumar var haft eftir Obama Bandaríkjaforseta að líkur á samkomulagi um nýtt Sýrland hafi aukist með því að Rússar og Kínverjar skynjuðu að dagar Assad forseta væru senn taldir. Rússnesk uppbygging í Sýrlandi síðustu vikur bendir til hins gagnstæða.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon viðurkennir að öryggisráðið, þar sem voldugustu ríkin sitja, hafi brugðist Sýrlandi. Játning aðalritarans er liður í viðbrögðum alþjóðasamfélagins við holskeflu flóttamanna frá Sýrlandi.

Arabar eru meginhluti Sýrlendinga. Flestir þeirra eru súnní múslímar, einn af hverjum tíu er kristinn og álíka tilheyrir trúflokki alavíta. Assad forseti og nánustu samverkamenn hans eru alavítar. Ef þeir hverfa frá völdum verður til valdatómarúm sem verður að fylla til að Sýrlandi sé stjórnað.

Vestræn nálgun á málefni Sýrlands er að smíða þurfi nýtt ríki utan um þá hópa sem landið byggja. Fæstir þessara hópa finna til samkenndar með sýrlensku þjóðerni. Ríkjasmíðin verður torsótt og tímafrek. Með flóðbylgju sýrlenskra flóttamanna yfir höfði sér er tíminn knappur á vesturlöndum.

Nýtt Sýrland verður ekki smíðað við samningaborðið á næstunni. Stríðsátök verða á dagskrá og heldur mun flóttamannastraumurinn aukast í bráð fremur en að dragi úr honum.

Flóttamenn frá Sýrlandi munu breyta Evrópu, ekki vegna þess að þeir eru svo margir, heldur af hinu að flæði þeirra inn í ríki Evrópusambandsins sýnir að landamæri ESB virka ekki.

Þegar það rennur upp fyrir íbúum ESB-ríkja að flóttamannavandinn mun aðeins aukast verður að breyta ESB verulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ég held að sá straumur flóttamanna sem við horfum uppá í dag sé bara rétt byrjunin á því sem í vændum er.  Eftir því sem fjöldi flóttamanna eykst í Evrópu munu ýmis vandamál aukast samhliða.  Ríki sem ráða ekki við efnahags vanda sem fyrir er munu trúlega lenda í upplausnarástandi þegar innbornir fara að bítast við aðkomufólk um styrki frá stjórnvöldum.

Það er engin einföld lausn til á þeim vanda sem við er að glíma og á enn eftir að versna til muna, því miður.

Tómas Ibsen Halldórsson, 7.9.2015 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband