Skemmtikraftar sem stjórnmálamenn

Íslandshreyfingin verður með þekkt andlit á forystusveit sinni og þarf ekki að glíma við kynningavandamál á borð við, ´hver er aftur þessi formaður nýja framboðsins'. Aftur gæti orðið snúnara fyrir menn sem þjóðin þekkir sem skemmtikrafta að sanna sig sem stjórnmálamenn.

Jakob Magnússon Stuðmaður og fyrrum varaþingmaður Samfylkingarinnar kann flest sem lýtur að framkomu, skipulagstarfi samtaka og framsetningu stefnumála. Og er að auki þjóðþekktur. Þrátt fyrir það náði hann ekki þeim árangri í Samfylkingunni sem efni stóðu til. Jafnvel ekki í prófkjörinu fyrir síðustu kosningar þegar Jakob virtist búa að digrum kosningasjóði.

Af einhverjum ástæðum gerði Jakob sig ekki sem stjórnmálamaður í Samfylkingunni. Kannski er honum líkt farið og knattspyrnumanni sem þrátt fyrir ótvíræða hæfileika fellur ekki að leik liðsins. En núna er Jakob kominn í nýtt lið og ef til vill rætist úr hjá honum.

Ómar Ragnarsson er skemmtikraftur en jafnframt þekkur sem fréttamaður og á síðustu árum sem umhverfisverndarsinni. Í Ómari sameinast elja, hugmyndaauðgi, fjör og græskuleysi. Ef Ómar væri enn ungur maður yrði hann kosinn vænlegasti tengdasonurinn af mæðrasamtökunum. En munu mæður og feður þessa lands kjósa stjórnmálamanninn Ómar?

Þjóðfélagsstraumarnir sem fleyta mönnum áfram í stjórnmálum eru óútreiknanlegir. Hvað varð til þess að þjóðin samþykkti orðljótan æsingamann sem forseta lýðveldisins fyrir rúmum áratug? Hvernig víkur því við að Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna, sem til skamms tíma var erkitýpa eilífðrarandstöðunnar, er kominn með yfirbragð stjórnvitrings og nánast ávísun á ráðherradóm?

Jakob, Ómar og félagar í Íslandshreyfingunni hafa burði til að gera sig gildandi í stjórnmálalífinu. Ef hreyfingunni tekst að komast klakklaust í gegnum röðun á framboðslista, sem hefur reynst mörgu nýframboðinu erfitt, er þannig undiralda í samfélaginu að allt er mögulegt.

Líklega verður eitt fyrsta verkefni nýja framboðsins að sannfæra almenning að hreyfingin sé komin til að vera, að eftir sýninguna sem opnar núna og lýkur á kosninganótt verði áfram til Íslandshreyfing og skemmtikraftarnir orðnir að stjórnmálamönnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ásgeir Tómasson spurði Svavar Gests útvarpsmann og skemmtiþáttastjórnanda eitt sinn í viðtali hvort það vantaði ekki fleiri húmorista á þing. ,,Nei," svaraði Svavar. ,,Það vantar fleiri menn sem taka stjórnmál alvarlega."

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.3.2007 kl. 11:24

2 identicon

Tja eru stjórnmálamenn ekki bara orðnir skemmtikraftar? Svo að segja engin virðing eftir hjá þjóðinni á alþingi og þeim sem þar sitja í okkar nafni.

Ég sé ekki fyrir mér Ómar sem er einhver ofvirkasti maður sem ég hef hitt fyrir geti setið kjurr í 2 mín í þingsal, eins sem mig hlakkar til er að sjá hann í ræðustól.

Hannes Þórisson (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 18:22

3 identicon

Ég átta mig ekki á hvernig þetta tengist Baugi!

Kristján Sig Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 20:08

4 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Ekki skal ég um það segja hvort núverandi þingmenn taki staf sitt alvarlega þó að þeir séu upp til hópa lausir við húmor og skemmtilegheit. Jakob Frímann verður víst seint talinn til skemmtilegra manna og ætti því að falla vel inn í þann hóp sem fyrir er á þingi.

Jóhannes Ragnarsson, 25.3.2007 kl. 07:55

5 identicon

Verðum við ekki að vona að þegar tilfinningar bera eina þjóð ofurliði að þá komi vitið til skjalanna og taki í taumana.

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband