Frjálshyggja í þágu fákeppni; áfengi og vopn

Bókstafur frjálshyggjunnar segir að frelsi einstaklingsins til orðs og æðis sé æðra rétti samfélagsins til öryggis og heilbrigðis. Á þessum frjálshyggjugrunni beita nokkrir þingmenn sér fyrir því að auka aðgengi að áfengi með því að afnema ríkiseinkasölu og færa áfengisverslunina í matvörubúðir.

Með því að máta frjálshyggjurökin til afnáms ríkiseinkasölu á áfengi við vopnalögin sést hversu frámunalega heimskuleg rökin eru.

Bókstafur frjálshyggjurnnar segir að opinberar takmarkanir á vopnaeign þrengi að rétti einstaklingsins til að ákveða sjálfur hvort hann eigi byssu, eina eða fleiri, og hvar hann kaupir vopnin. Rétt eins og áfengi eitt og sér er byssa sem slík saklaus hlutur sem ekki gerir neinum mein.

Á hinn bóginn er deginum ljósara að með betra aðgengi að skotvopnum aukast líkurnar á misnotkun þeirra. Nákvæmlega sama gildir um áfengi.

Reynslurökin sýna og sanna að samfélagið gerir rétt með því að setja sérstakar reglur um sölu og meðferð skotvopna og áfengis.

Frjálshyggjumenn láta það yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust að vopnalög skuli þrengd um leið og þeir berjast fyrir rýmri áfengissölu og auglýsa þar með hentistefnu sína. Frjálshyggjan er ekki prinsipp heldur verkfæri til að þóknast viðskiptahagsmunum fákeppnisverslunarinnar sem rekur Bónus, Hagkaup og Krónuna.

Frjálshyggja í þágu fákeppni þar sem almannahagsmunum er fórnað fyrir hagnað stórfyrirtækja er varla það sem meirihluti alþingis Íslendinga stendur fyrir.


mbl.is Vopnalög þrengd í þágu almannahags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinarr Kr.

Eigum við ekki líka að taka aftur upp mjólkurbúðirnar, viðtækjaverslun ríkisins, nú eða bara fara aftur einokunartímann. Allt þetta er af sama stofni og einkasala ríkisins á áfengi.

Steinarr Kr. , 11.10.2014 kl. 12:48

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

"Á hinn bóginn er deginum ljósara að með betra aðgengi að skotvopnum aukast líkurnar á misnotkun þeirra. Nákvæmlega sama gildir um áfengi."

Það sem er ekki til skaðar þig ekki.

Þannig verður þú seint veikur á lyfi við Ebólu. Svona sem dæmi. Og enginn myndi deyja í bílslysi ef það væru engir bílar, þannig er nú reynzlan.

Hitt er annað, að ef einhver hefur í hyggju að myrða þig, þá mun hann gera það, hvort sem hann hefur aðgang að byssu eða ekki.

Ásgrímur Hartmannsson, 11.10.2014 kl. 18:26

3 Smámynd: Elle_

Mér finnst það ætti að banna bíla.  Og hjól.  Nú eða skipa ríkiseftirlitsmann í alla bíla og aftan á hvert einasta hjól.

Elle_, 11.10.2014 kl. 23:09

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Elle er með þetta.

Annars hef ég verið tvístígandi um hvort ætti að aflétta einokuninni af vínsölunni. Ekki vegna þess að ég telji ríkið best hæft til að stjórna drykkju siðum almennings heldur af pjúra eiginhagsmuna hvötum, þ.e. Að vöruúrval í matvörubúðum verði of einhæft. Hallast þó að því að láta einstaklinginn sjá um að hafa vit fyrir sér sjálfum.

Hitt er svo umhugsunarefni hvort sú staða geti komið upp að maður þurfi að verja líf sitt fyrir ýmiss konar ribbaldaliði. Við lifum á víðsjálverðum tímum. Ég vona að ekki komi til þess að maður þurfi að fara að ganga með byssu á sér, en ef svo færi þá fékk ég að reyna mig á hríðskotariffli í Víetnam síðastliðinn vetur. Og reyndist bara liðtæk þótt ég segi sjálf frá.

Ragnhildur Kolka, 12.10.2014 kl. 00:05

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég tek undir með þér Ragnhildur, er svolítið tvístígandi varðandi þetta.

Það er ljóst að matsöluverslunin mun aðeins verða með á boðstólnum þau vín sem tryggt er að seljist, að vöruúrvalið muni minnka verulega. Þetta er einföld staðreynd, enda þær verslanir undir fárra manna höndum sem hugsa fyrst og fremst um gróðann. Að halda því fram að samkeppni muni valda einhverju aðhaldi að þeim er nánast fáviska. Til þess er markaðurinn einfaldlega of lítill og fákeppnnin í matvöruverslunum mikil.

Hitt er svo alltaf spurning hvort ríkið eigi að stunda smásöluverslun. Það samrýmist ekki minni hugsun.

Kannski væri lausnin að selja verslanir ÁTVR og setja kaupendum strangar reglur um álagningu og vöruúrval. Að áfram verði sérverslanir á þessu sviði. Samkeppnin gæti síðan verið á sviði þjónustunnar.

Gunnar Heiðarsson, 12.10.2014 kl. 11:25

6 Smámynd: Elle_

Eins og allt er að verða er ekki ólíklegt að fólk verði að ganga um og sofa vopnað svo eins gott að æfa sig.  En það er hálf-steinaldarlegt að ríkið eitt reki 'ríkið'.  Það er ekki þar með sagt að það verði að vera þar sem matur er seldur.

Elle_, 12.10.2014 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband