Fimmtudagur, 10. júlí 2014
Pólitík þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB
Talsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og Styrmir Gunnarsson, gleyma því iðulega að þingkosningar eru þjóðaratkvæðagreiðsla um helstu mál samfélagsins hverju sinni.
Í aðdraganda þingkosninga bjóða framboð upp á stefnumál og fram fer allsherjarumræða um hvaðeina sem fólk telur skipta máli. Í þingkosningum er einatt góð kjörsókn, sem staðfestir stjórnmálaáhuga almennings.
Til að þingkosningar missi ekki gildi sitt verður niðurstaða þeirra að vera marktæk. Það er til dæmis óboðlegt að meirihluti sem kosinn er 2013 á þeim forsendum að Ísland afturkalli ESB-umsóknina láti fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina. Þau framboð, sem fengu meirihlutafylgi í síðustu þingkosningum, eiga vitanlega að framfylgja umboðinu sem þjóðin gaf þeim - að afturkalla umsóknina, sem raunar var löngu strönduð í Brussel.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. efndi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsóknina. Þingmenn VG, sem studdu umsóknina, sögðu í þingsal að þeir væru á móti ESB-aðild. Umsóknin átti aldrei að fara frá Íslandi.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um einstök mál kemur ekki í stað niðurstöðu þingkosninga - jafnvel þótt dæmi séu um að svikulir þingmenn selji sannfæringu sína og gangi bak orða sinna gagnvart kjósendum.
Spáir ríkisstjórninni fylgishruni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Í aðdraganda þingkosninga bjóða framboð upp á stefnumál......"
Ertu þá að meina eins og t.d. þungavigtarmál V.g. í aðdraganda kosninga 2009 þar sem áherslan var að hafna algerlega umsókn í ESB -
ásamt afdráttarlausum yfirlýsingum um innköllun aflaheimilda og fjálsar handfæraveiðar.
Svo eitthvað sé nefnt?
Má reyndar bæta því við að bæði S og V höfðu afdráttarlaus fyrirmæli frá landsfundum sínum um innköllun aflaheimilda og uppstokkun á lögum um stjórnun fiskveiða.
Það er líklega rétt að dæmi séu um að svikulir þingmenn selji sannfæringu sína og gangi bak orða sinna gagnvart kjósendum!
En nú eru framsókn og íhald búin að vinna kosninguna um Ísland og styttist í að fullnustuð verði lög sem þjóðinni verða dýr.
Árni Gunnarsson, 10.7.2014 kl. 20:42
Það má satt vera hjá Styrmi að tap stjórnarflokkanna gæti orðið stórt í næstu kosningum.
Það tap mun þó ekki verða vegna þess að ekki verði boðað til kosninga um aðildarmálið, heldur af þeirri einföldu staðreynd að ríkisstjórnin stendur ekki við stjórnarsáttmálann og samþykktir æðstu stofnanna beggja stjórnarflokkanna.
Einungis með því að standa við þær samþykktir munu þessir flokkar eiga von í næstu kosningum. Umsóknina verða þeir að draga til baka.
Því fyrr sem það er gert, því betra. Að draga það til loka kjörtímabilsins gæti orðið banabiti ríkisstjórnarinnar.
Hitt atriðið, þjóðarkosning um málið, skiptir minna máli. Þó er sjálfsagt að samhliða afturköllun umsóknarinnar verði þannig gengið frá málinu að það verði ekki hafið að nýju nema með kosningu meðal þjóðarinnar um vilja hennar til aðildar að ESB.
Gunnar Heiðarsson, 10.7.2014 kl. 20:49
Lygar og plat Steingríms og VG koma þessu ekki við. Fólkið kaus samt viss stefnumál. Og hvort sem stjórnmálamenn eins og Steingrímur og stuðningsmenn lugu seinna eða ekki. Og svo er ég sammála Gunnari.
Elle_, 10.7.2014 kl. 23:50
Og Páli.
Elle_, 10.7.2014 kl. 23:55
Fín grein, Páll. Þú segir það, sem segja þurfti.
Mér lízt illa á þessar nýju áherzlur Styrmis, og hann er enginn spámaður.
Jón Valur Jensson, 11.7.2014 kl. 02:55
Hvernig geturðu sagt að lygar Steingríms - eða öllu heldur svik - komi þessu máli ekki við Elle?
Þær koma málinu við, einfaldlega vegna þess að þar sannast það sem margir hafa áður sagt.
Að innblásnar kosningaræður um pólitísk stefnumál eru ekki marktækar.
Og þá gildir einu hvort þær koma frá hægri eða vinstri.
Stjórnmálaforingjar okkar eru ómarktækar hentistefnudulur.
Árni Gunnarsson, 12.7.2014 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.