Skóli fyrir alla og menntastefna sem talnaleikur

Íslenski framhaldsskólinn þjónar víðtæku félagsmótunarhlutverki og er öllum unglingum opinn. Þegar atvinnulífið hrundi 2008 var spurt hvort framhaldsskólinn tæki við öllum þeim unglingum sem fyrirtækin sögðu upp, jú framhaldsskólinn tók við þeim. Á hverju hausti er spurt hvort allir þeir sem ljúka grunnskóla fái ekki skólavist.

Jú, allir unglingar fá skólavist. En ekki nærri allir unglingar eru í stakk búnir að ljúka stúdentsprófi á fjórum árum. Sumir taka sér fimm eða sex ár til að ljúka stúdentspróf enda vinna þeir meðfram skóla eða stunda tímafrek áhugamál; aðrir búa ekki að námsgetu til að ná stúdentsprófi og hrökklast frá námi.

Á meðan framhaldsskólinn er opinn öllum nemendum verður alltaf ákveðið hlutfall þeirra sem ekki standast kröfur. Skilvirkasta leiðin til að lækka brottfall og stytta námstíma til stúdentsprófs er að herða inntökukröfurnar í framhaldsskólann. En verði það gert þá þjónar framhaldsskólinn ekki lengur því félagsmótunarhlutverki sem hann hefur gert í meira en hálfa öld. Það er ekki lengur jafnrétti til náms, eins og við höfum skilgreint það hingað til.

Menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, fór illa af stað í sínu embætti þegar hann tók sem gilda menntastefnu talnaleik Samtaka atvinnulífsins um að íslensk ungmenni útskrifuðust að meðaltali ári seinna en jafnaldrar þeirra í OECD-ríkjum. Meðaltalstölur af þessum toga eru ónýtar til að móta menntastefnu. Það er svo sérstök spurning hversu gáfulegt það er að láta samtök hrunverja hafa vægi í umræðu um menntamál.

Illugi Gunnarsson verður að gera upp við sig hvort íslenski framhaldsskólinn eigi að þjóna því hlutverki sem hann hefur gert í meira en hálfa öld, og taka við öllum úrskrifuðum grunnskólanemum, eða setja saman nýtt framhaldsskólakerfi sem tekur mið af þeirri staðreynd að hluti unglinga mun aldrei ljúka stúdentsprófi.


mbl.is Námstími veltur á námsbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alfreð K

Óskiljanlegt hvernig ráðherrann virðist hafa bitið í sig þessa gölnu hugmynd, að reyna stytta (rýra) nám í íslenskum framhaldsskólum.

Nær væri nú að skoða fyrst hvernig hægt væri að stytta grunnskólann, enda þar um heil 10 ár að ræða en ekki 4 og oft mjög strembin ár í framhaldsskóla.

Að byrja á þveröfugum enda í mikilvægum málum sem þessum boðar ekki mikla lukku.

Alfreð K, 20.6.2014 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband