Framhjáhald og morð í frönskum stjórnmálum

Framhjáhald Frakkalandsforseta vekur meiri fjölmiðlaathygli en ömurlegur efnahagur landsins sem ógnar evrunni, hornsteini Evrópusambandsins. Fyrir hundrað árum stóð Evrópa frammi fyrir stríðsógn. Franskur almenningur var þó ekki upptekinn af stórveldapólitík, heldur framhjáhaldi stjórnmálamanns og ástríðumorði.

Joseph Caillaux var fyrrum forsætisráðherra Frakklands og einn þekktasti stjórnmálamaður landsins á vinstri væng stjórnmálanna. Caillaux var líkt og núverandi forseti Frakklands ekki við ein fjölina felldur í ástarmálum. Hann tók upp samband við Henriettu áður en hann skildi við fyrri konu sína.

Af hægrimönnum var Caillaux talinn of mikill friðarsinni og hallur undir Þjóðverja. Frakkar voru í nánu bandalagi við Rússa sem beinlínis gekk út á það að ráðast að Þjóðverjum samtímis úr vestri og austri og knésetja þýska keisaradæmið, sem varð til eftir sigur Bismarcks á Frökkum 1871.

Til að grafa undan trúverðugleika Caillaux hótaði ritstjóri Le Figaro, Gaston Calmette, að birta leynilegar skeytasendingar sem farið höfðu á milli Caillaux og þýskra stjórnvalda. Og til að jafna enn betur um Caillaux ætlaði Calmette að birta ástarbréf skrifuð í framhjáhaldi Caillaux og Henriettu.

Caillaux tókst að koma í veg fyrir að Le Figaro birti samskipti hans og Þjóðverja. En ástarbréfin voru enn í vörslu Gaston Calmette ritstjóra. Þá greip Henrietta Caillaux til sinna ráða. Hún fékk áheyrn hjá Calmette ritstjóra en í stað þess að rökræða við orðsins mann gataði hún hann með marghleypu í mars 1914.

Drápið á ritstjóra Le Figaro og réttarhöldin yfir Henriettu Caillaux yfirskyggðu alla opinbera umræðu í Frakklandi síðasta friðarsumarið fyrir einni öld. Drápið á ríkisarfa Austurríkis-Ungverjalands, Frans Ferdínand og Sofíu eiginkonu hans, í lok júní fékk litla umfjöllun í Frakklandi. Í bók Christopher Clark, Svefngenglar, hvernig Evrópa fór í stríð 1914, segir á bls. 406 að ástríðumorð Henriettu ýtti fréttum af ríkisarfamorðinu í neðanmálsumfjöllun stórblaða Frakka.

Henrietta fór fyrir dóm í júlí. Kviðdómur sýknaði hana af morðákærunni enda glæpurinn framinn af ástríðu. Sama dag, 28. júlí 1914, lýsti Austurríki-Ungverjaland yfir stríði gegn Serbíu og fyrri heimsstyrjöldin hófst - fyrir vangá og sauðshátt að margra mati.

Það skyldi þó aldrei vera að evran verði lögð niður í kjölfar framhjáhalds Hollande? Til evrunnar var jú stofnað af vangá og sauðshætti - um það er ekki deilt.


mbl.is Hélt framhjá stóru ástinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Fjölbreytt mannflóra í Evrulöndum! Hollande að eyðileggja “Deauminn.” Fagna því að hann er enginn sauður,sem þýðir á okkar ylhýra ,,vanaður hrútur,,

Helga Kristjánsdóttir, 26.1.2014 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband