Jón Baldvin, Ólafur Ragnar og aldamótamistök vinstrimanna

Um aldamótin síðustu varð uppstokkun á vinstri væng stjórnmálanna, þegar Samfylking og VG urðu til á grunni eldri vinstriflokka, einkum Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Kvennalista.

Tveir menn, Jón Baldvin Hannibalsson formaður Alþýðuflokksins og Ólafur Ragnar Grímsson formaður Alþýðubandalagsins, voru að mörgum öðrum ólöstuðum mennirnir á bakvið uppstokkun vinstriflokkanna þótt báðir væru farnir af vettvangi þegar til kom.

Ólafur Ragnar og Jón Baldvin voru merkisberar ólíkrar hugmyndafræði fyrir vinstripólitík 21stu aldar. Jón Baldvin vildi gera Ísland að hjáríki Evrópusambandsins en Ólafur Ragnar að við myndum reka sjálfstæða utanríkispólitík og ekki gerast aðilar að ESB, - líkt og Egill Helgason rifjar upp.

Stefna Jóns Baldvins var sterkari í Samfylkingunni sem gerði ESB-aðild að lífshugsjón sinni með þeim afleiðingum að flokkurinn fékk 12,9 prósent fylgi í kosningunum í vor.

Útflutningsleið Ólafs Ragnars, sem var hafnað af nýja vinstrinu í Samfylkingu og sniðgengin af öfgafólkinu í VG, var með víðtæka skírskotun og fékk á endanum heimilisfestu bæði í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.

Pólitík Ólafs Ragnars var hönnuð fyrir sigurvegara, eins og glöggt kom fram í síðustu forsetakosningum þegar ESB-sinnar auk forystu VG buðu fram vinsæla sjónvarpsstjörnu sem galt afhroð fyrir Ólafi Ragnari sem naut víðtæks stuðnings fyrir framsýna fullveldispólitík.

Vinstrimenn munu lengi gráta að taka upp hjálendustefnu Jóns Baldvins fremur en fullveldispólitík Ólafs Ragnars. Gráturinn kemur glöggt fram hjá samfylkingarþingmanninum fyrrum, sem varð miðaldra langt fyrir aldur fram, Björgvini G. Sigurðssyni, en hann var einn af alþýðubandalagsmönnunum sem féll fyrir hjálendustefnu Jóns Baldvins.

Vinstriflokkarnir eru núna þrír og hver um sig rekur hjárænupólitík þar sem einhver örmál eru pískuð upp í von um atkvæði, t.d. skapandi greinar hjá VG í dag. Enginn vinstriflokkanna er með neina framtíðarsýn, nema Samfylkingin sem enn vill að Ísland verði hjáríki ESB, sem hægt en örugglega er að sökkva. Samfylkingin er óðum að verða að pólitískri sjálfsmorðssveit sem ætlar sér í Valhöll og sitja þar með embættismönnum úr Brussel; bulla á daginn og svalla á kvöldin.

Aldamótamistök vinstrimanna verða þeim dýrkeypt í áratugi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Það er enginn vinstrflokkur á Íslandi í dag, hvað þá þrír eins og fram kemur í pistli Páls.

Lygin um tilvist einhverra vinstriflokka hér á landi er orðin ansi þreytandi fyrir raunverulega vinstrimenn, sósíalistana, sem þrátt fyrir allt eru þó til.

Allir stjórnmálaflokkarnir sem eiga fulltrúa á Alþingi eru rammkapítalískir og eiga ekkert tilkall til að klína vinstristimpli af nokkur tagi á sig.

Jóhannes Ragnarsson, 19.1.2014 kl. 15:45

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ættingi frú Ingveldar á ekki að gleyma frænku sinni, sanntrúaðri vinstri konu, sem er í VG, sem frændinn  var í, fyrir ekki svo löngu.

Sigurgeir Jónsson, 19.1.2014 kl. 18:28

3 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Herra Sigurgeir Jónsson.

Frú Ingveldur er sönn sjálfstæðiskona, sem hefur verið flokksbundin í Sjálfstæðisflokknum síðan hún var 13 ára. Að ýja að því að hún sé vinstrisinnuð er hreint og klárt guðlast. Þetta skaltu leggja á minnið Sigurgeir minn og láta vera eftirleiðis að hafa stórnmálaskoðanir frú Ingveldar í flimtingum.

http://joiragnars.blog.is/blog/joiragnars/entry/1338349/

Jóhannes Ragnarsson, 19.1.2014 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband