2014: lýðræðið í Evrópu á tímamótum

Efnahagskreppan í ríkjum Evrópusambandsins leiðir til pólitískrar kreppu á næstu mánuðum. Kosningar til Evrópuþingsins í vor verða löðrungur fyrir ráðandi valdablokkir í ESB og uppreisn gegn miðstýringarvaldinu í Brussel.

Efnahagspólitískir stjórnmálaskýrendur, t.d. Wolfgang Münchau í Spiegel og Ambrose Evans-Pritchard í Telegraph, draga fram aldarafmæli fyrri heimsstyrjaldar og harma báðir að lýðræðislegar stofnanir séu ekki í stakk búnar að takast á við afleiðingar efnahagskreppunnar sem hófst 2008.

Keðjuverkun atvika, pólitískra bandalaga og fordóma leiddi til fyrri heimsstyrjaldar. Evans-Pritchard sér hliðstæðu í valdastreitu Kínverja og Japana við þráteflið í Evrópu fyrir hundrað árum. Münchau lítur sér nær og deilir með lesendum áhyggjum af því að hvert og eitt ESB-ríki lítur á vanda evru-svæðisins með þjóðarhagsmuni í huga - en ekki evrópska heildarhagsmuni.

Báðir stjórnmálastýrendurnir telja að samfélagsfriðurinn sé úti í jaðarríkjum evrunnar vegna þess að gjaldmiðlasamstarfið veldur ógnarháu atvinnuleysi, nær annar hver maður undir þrítugu er atvinnulaus. Kynslóðin sem fær ekki vinnu er tilbúinn að brjóta af sér hlekkina.

Fátæktin og eymdin í Suður-Evrópu er bein afleiðing af evru-samstarfinu og vangetu Evrópusambandsins að stýra efnahagskerfi þeirra 18 ríkja sem búa við sameiginlegan lögeyri.

Miðstýringarvaldið í Brussel vill meiri völd til að stjórna ríkisfjármálum evru-ríkja. Stjórnkerfi ESB er þannig hannað að það ber ekki lýðræðislega ábyrgð. Af því leiðir hefur miðstjórnarvaldið í Brussel ekki lýðræðislegt umboð til að reka efnahagskerfi evru-ríkjanna. En án aukinnar miðstýringar mun evru-svæðið brotna upp. Münchau vekur athygli á því að samstaða um þetta atriði er mun meiri meðal hagsögufræðinga en samstaðan er hjá sagfræðingum um orsakir fyrri heimsstyrjaldar.

Í vor, þegar íbúar ESB-ríkjanna fá tækifæri til að kjósa sér þingmenn, á nær valdalaust Evrópuþing, verður kjörsókn lítil. En þeir sem mæta munu ekki kjósa ESB-sinnaða flokka, sem bera ábyrgð á hörmunginni, heldur stjórnmálaöfl sem vilja Evrópusambandið feigt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband