Þýska móðurmál Ameríkana

Þjóðverjar, þýskumælandi íbúar keisaradæmis Habsborgara meðtaldir, eru hvað fjölmennasta þjóðarbrotið í Bandaríkjunum, samanber kort sem Welt birtir. ,,Þýska beltið" svokallaða umlauk borgirnar St. Louis, Milwaukee og Cincinnati.

Aldamótin 1900 var þýska málsvæðið í Bandaríkjunum með öflug dagblöð og sterka samkennd. Heimsstyrjöldin fyrri reyndist þýska samfélaginu dýrkeypt, Bandaríkin tóku sér stöðu með Englendingum og Frökkum gegn Þjóðverjum. Ein 26 fylki bönnuðu að þýska væri töluð opinberlega. Og ekki varð seinni heimsstyrjöld með þjóðarmorði Hitlers til að auka stolt þýskra Ameríkana á arfleifð sinni.

Flökkusaga, kennd við Mühlenberg, fyrsta þýskættaða fulltrúardeildarþingmanninn í Bandaríkjunum, segir að aðeins hafi munað einu atkvæði að þýska yrði móðurmál Bandaríkjanna. Flugufóturinn fyrir flökkusögunni er að þýskir innflytjendur fóru þess á leit við fulltrúadeildina 1794 að lög væru þýdd á þýsku til að þeir mættu betur skilja. Tillaga þess efnis var felld með einu atkvæði. Mühlenberg greiddi atkvæði gegn tillögunni með þeim orðum að því fyrr sem þýsku innflytjendurnir tileinkuðu sér ensku því betra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband