Lífeyrissjóðum á að loka

Lífeyrissjóðirnir tóku þátt í útrás og töpuðu stórfé. Lífeyrissjóðirnir lærðu ekkert af hruninu og eru þess albúnir að endurtaka leikinn. Lífeyrissjóðirnir eru úrelt fyrirbrigði.

Í stað lífeyrissjóða eiga að koma lífeyrisreikningar hjá fjármálastofnunum sem yrðu undir opinberu eftirliti. Launþegar gætu valið um hvar þeir ættu lífeyrisreikning. Samtryggingarþáttur lífeyrissjóðanna yrði yfirtekin af almannatryggingum.

Með lífeyrisreikningum væri vald lífeyrissjóðanna til að tapa peningum almennings afnumið. 


mbl.is Vilja fækka lífeyrissjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það held ég að allflestir Íslendingar myndu samþykkja. Augu okkar opnast eftir ,miklaskell, og ekki vanþörf á tiltekt svo um munar.

Helga Kristjánsdóttir, 10.5.2013 kl. 11:45

2 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Magnað hve mörgum rangfærslum og rökleysum þú kemur fyrir í svo stuttum texta!

Fyrsta: „Lífeyrissjóðirnir tóku þátt í útrás og töpuðu stórfé.” Þetta er rangt. Engir lífeyrissjóðir tóku þátt í útrás. Lífeyrissjóðirnir fjárfestu í hlutabréfum, eðlilega. Í hruninu hrundu bankarnir til grunna og mörg önnur fyrirtæki með. Sum hlutabréf urðu verðlítil eða verðlaus. Lífeyrissjóðirnir urðu fyrir tjóni, en stóðu engu að síður sterkir eftir, öfugt við önnur fyrirtæki. Ástæðan er einföld: Þeir dreifðu áhættunni og þeim var vel stjórnað, sem er meira en sagt verður um útrásarfyrirtækin, sérílagi fjármálafyrirtækin.

Annað: „Lífeyrissjóðirnir lærðu ekkert af hruninu og eru þess albúnir að endurtaka leikinn.” Þetta er rakalaus þvættingur og algjörlega rangt. Af hruninu mátti draga margan lærdóm og það gerðu lífeyrissjóðirnir sannarlega. Þú ættir að taka þig til og kynna þér hvað gerst hefur í þeirra ranni áður en þú geysist fram með svona rangfærslur. Endurtaka hvaða leik? Hvað áttu við?

Þriðja: „Lífeyrissjóðirnir eru úrelt fyrirbrigði.” Þetta er skrítin fullyrðing, að ekki sé meira sagt! Hvað áttu við? Er það úrelt að tryggja almenningi afkomu í ellinni? Hvenær varð það úrelt? Áratuga baráttumál íslenskrar alþýðu og samtaka almennings á borð við verkalýðsfélög og samtök þeirra (ASÍ, BSRB t.d.) varð að veruleika sumarið 1969 með allsherjaramkomulagi um lífeyrissjóði, sem höfðu þá og hafa enn það hlutverk að tryggja almenningi afkomu í ellinni. Ég spyr aftur: Hvenær varð það úrelt?!

Fjórða: „Í stað lífeyrissjóða eiga að koma lífeyrisreikningar hjá fjármálastofnunum sem yrðu undir opinberu eftirliti.” Enn ein furðufullyrðingin. Lífeyrissjóðirnir ERU undir opinberu eftirliti, reyndar margföldu eftirliti. Yrði það eftirlit betra ef fjármunirnir yrðu settir í hendur „fjármálastofnana” eins og þeirra sem töpuðu öllu og meira til í hruninu? Og skildu eftir sig skuldafjall eins og það sem ógnar þjóðinni nú og kallast „snjóhengjan.” Hvaða rök er hægt að færa fyrir því?

Fimmta: „Launþegar gætu valið um hvar þeir ættu lífeyrisreikning.” Launþegar hafa valið um þetta í kjarasamningum sínum og í mörgum tilvikum hafa þeir umfram það val um í hvaða sjóði þeir eru félagar.

Sjötta: „Samtryggingarþáttur lífeyrissjóðanna yrði yfirtekin af almannatryggingum.” Hvernig ætlar þú að færa rök fyrir því að hagsmunum lífeyrisþega (ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega, makalífeyrisþega, barnalífeyrisþega) sé betur borgið í höndum stjórnmálamanna við fjárlagagerð frá ári til árs? Hefur það farið framhjá þér þegar þeir hikuðu ekki við að skerða lífeyri frá tryggingastofnun sumarið 2009 til að spara í ríkisrekstrinum?

Sjöunda: „Með lífeyrisreikningum væri vald lífeyrissjóðanna til að tapa peningum almennings afnumið.” Hvað ertu að fara þarna? Þetta er rakalaus þvættingur og mætti rifja upp það sem hér er að framan: Viltu setja þessa fjármuni í hendur þeirra sem töpuðu gjörsamlega öllu í hruninu? Láta þá fá afganginn af eignum almennings til að „tapa”?

Þórhallur Birgir Jósepsson, 10.5.2013 kl. 12:30

3 Smámynd: Birnuson

Kærar þakkir, Þórhallur.

Birnuson, 10.5.2013 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband