Kosturinn við hægfara hrun ESB-umsóknar

Hægfara hrun ESB-umsóknarinnar eykur pólitískan kostnað þeirra sem bera ábyrgð á umsókninni, Samfylkingar og VG, og því meir sem dauðastríðið verður langvinnara. Þegar við loksins köstum rekunum á umsóknina verður fælingarmáttur blóðugs vígvallar Evrópumála slíkur að aðeins pólitískir sjálfsmorðskandídatar láta sér til hugar koma að berjast fyrir aðild að ESB.

Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu áttu glæsilega viku. Fréttablaðið, sem er aðildarsinnað, birti könnun þar sem staðfest er að meirihluti landsmanna vill stöðva ESB-ferlið og að stuðningur við viðræðuferlið hefur fallið úr 65,3% í desember 2011 í 48,5%. Ritstjóri Fréttablaðsins þverbrýtur meginreglur blaðmennsku þegar hann matreiðir könnunina, eins og Björn Bjarnason bendir á.

Fylgiskönnun stjórnmálaflokka, sem birtist í gær, var stórsigur andstæðinga ESB-aðildar. Svikaflokkurinn VG er kominn niður í 7 prósent fylgi. Fullveldissinnar hafa sótt að VG úr öllum áttum með þeim árangri að flokkurinn sem sveik stórt 16. júlí 2009 er í útrýmingarhættu. Öflugt framboð til vinstri við VG, Alþýðufylkingin, er til alls líklegt enda keyrir það á harðri ESB-andstöðu.

Í Morgunblaðinu í dag viðurkenna nær allir formenn aðildarfélaga Samfylkingar að Evrópumálin verða aðalefni kosninganna í apríl. Markmið ríkisstjórnarinnar á aukafundi í vikunni um að ,,hægja á" ESB-ferlinu var að draga úr umræðu um ESB-umsóknina. Í staðinn varð aukafundurinn tilefni til að rifja upp lygasullið sem umlykur ferlið. Þá viðurkenndi ríkisstjórnin, hinum margfræga c-lið samþykktarinnar, að Ísland væri í aðlögunarferli.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. er talin ónýt í útlöndum þar sem ekkert er að marka hvað hún segir í stærri málum, hvort heldur Icesave, þar sem þjóðin gerði stjórnina afturreka í tvígang, eða í ESB-málinu þar sem samþykkt ríkisstjórnarinnar á mánudag var talin fyrsta skrefið í afturköllun umsóknarinnar. Flokkspólitískar yfirlýsingar utanríkisþjónustunnar gerðu ekki annað en að auglýsa enn betur eymd ríkisstjórnarinnar.

Verkefni andstæðinga ESB-umsóknarinnar fram að kosningum er eftirfarandi: sjá til þess að VG nái ekki vopnum sínum enda formaðurinn þess albúinn að svíkja á ný. Í öðru lagi er verkefnið að herja á Samfylkinguna og Litlu Samfylkinguna og halda á lofti einangrun þessara flokka í Evrópumálum.

Þrír mánuðir eru til kosninga þar sem kosið verður um ESB-umsóknina. Látum andstæðinga ESB-aðildar Íslands njóta sannmælis og rekum flótta ESB-sinna, bæði þeirra sem gangast við stefnunni og lúmsku ,,viðræðusinnanna" sem tala tungum tveim og sitt með hvorri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyr Heyr!!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.1.2013 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband