Evru-kanína Árna Páls

Evru-svæðið er í upplausn vegna innbyrðis ójafnvægis þar sem hallarekstur Suður-Evrópuríkja, bæði hins opinbera og einkaaðila,  stórhækkar lántökukostnað í þessum ríkjum og ríður þessum efnahagskerfum á slig. 

En hvers vegna fékk þessi hallarekstur að viðgangast ár eftir ár? Jú, við upphaf evru-samstarfsins gerðu lánveitendur ráð fyrir að lán til gríska ríkissjóðsins væri jafn öruggt og til þess þýska. Þegar á daginn kom að þau voru ekki ekki trygg þá snarhækkuðu lánin til Grikkja.

Árni Páll Árnason þingmaður er að skrifa sig upp í formannsstól Samfylkingar með greinaflokki í Fréttablaðinu. Í dag ræðir hann evruna. Árni Páll viðurkennir ójafnvægið á evru-svæðinu, sem er lýst hér að ofan, en hann nefnir ekki ástæðuna því að sumir eru gjaldþrota á evru-svæðinu en aðrir ekki. Árni Páll er í evru-liðinu og getur ekki fengið sig til að viðurkenna að sameiginlegur gjaldmiðill var mistök. Hann skrifar

Evran hafði þannig áhrif til að auka skuldsetningu sumra evruríkja og hún ýtir - við núverandi aðstæður - undir misvægi milli aðildarríkja, en hún er sem slík hvorki orsök vanda allra evruríkja né hindrun í vegi skynsamlegra lausna á vandanum. Ekki má gleyma því að evran kemur líka í veg fyrir að menn geti beitt hefðbundnum lausnum sem ríki hafa gripið til í alvarlegum fjármálakreppum hingað til - stórfelldum gengisfellingum, höftum á fjármagnsútstreymi og einangrunarstefnu í milliríkjaviðskiptum. Það er auðvelt að mæla með hinni "íslensku leið" stórfelldrar gengisfellingar - sem felur í sér launalækkun um tugi prósenta - en við vitum líka að slík leið skapar engin verðmæti heldur einfaldlega flytur þau til. Ef allir færu hana, væru allir á sama stað.

Gengisaðlögun felur í sér að hagkerfi lækkar kostnað gagnvart samkeppnishagkerfum. Hagkerfi breyta ekki genginu öll á sama tíma enda aðstæður ólíkar. Evru-ríkin eru ekki í þeirri stöðu að gera breytt genginu heldur verða þau að lækka kosnað í hagkerfum sínum með beinum inngripum í kjarasamninga, lækkun lífeyris og niðurskurði í ríkisfjármálum. Þessi inngrip eru uppskrift að langvinnri innanlandsólgu með óeirðum og pólitískri upplausn.

Evran skilur eftir sig sviðna jörð í jaðarríkjum. Ójafnvægið mun vaxa áfram þangað til að rökrétt niðurstæða fæst. Aðeins tveir möguleikar eru í boði. Í fyrsta lagi að evru-ríkin taki upp opinbert greiðslumiðlunarkerfi líkt og Bandaríkin þar sem alríkið veitir fjármunum frá ríkum fylkjum til þeirra fátækari - þetta fæli í sér nýtt ríki, Stór-Evrópu. Í öðru lagi að hætta evru-samstarfinu alfarið eða í áföngum þar sem Suður-Evrópa færi fyrst út. 

Árni Páll þorir ekki að fjalla um rökrétta niðurstöðu af evru-vandanum vegna þess að þá blasir við hversu vitlaus hugmynd hans er um að Ísland eigi heima í Evrópusambandinu.

Evran hans Árna Páls er kanínan úr hatti sjónhverfingamannsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þið hafið báðir (Páll og Árni Páll) rangt fyrir ykkur varðandi orsök þessa ójafnvægis á evrusvæðinu. Ójafnvægi á evrusvæðinu er hvorki vegna leti Suðurevrópubúa eða ráðdeildarleysis í ríkisrekstri suður Evrópuríkja.

Orsökin er eignavandi Þjóverjar, og norður Evrópu. þeir safna peningum í stað þess að eyða þeim. þeim peningum sem þeir þó eyða ,eyða þeir svo í Asíu eða Ameríku.

Guðmundur Jónsson, 21.8.2012 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband