Afhroð aðildarsinna og ósigur elítunnar

Evrópusambandssinnar guldu afhroð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær þar sem grasrót flokksins tók völdin af forystunni og samþykkti ályktun sem krafðist tafarlausrar afturköllunar á umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Ósigur aðildarsinna í Sjálfstæðisflokknum er jafnframt niðurlæging flokkselítunnar í þrem stjórnmálaflokkum.

Umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu var ákveðin af forystufólki tveggja flokka, Samfylkingar og Vg. Forysta vinstriflokkanna vissi um stuðning eða vinsamlegt hlutleysi í forystu Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var aðildarsinni og Bjarni Ben. formaður hafði ásamt samherja sínum, Illuga Gunnarssyni, skrifað alræmda blaðagrein haustið 2008 þar sem daðrað var við umsókn.

Almenningur er afgerandi á móti aðild að Evrópusambandinu. Umræðan er þannig vaxin að meginrök aðildarsinna eru þau að við eigum að bíða og sjá hvaða afburðagóðu undanþágur við fáum frá reglum Evrópusambandsins. Þýlyndi virðist sumum aðildarsinnum í blóð borið, enda eru hópar aðildarsinna innan Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks útrásarkámugir og baugsklístraðir.

Móðursýkisleg viðbrögð aðildarsinna við niðurstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins draga fram annað einkenni þeirra. Aðildarsinnar eru í fjarska litlum tengslum við íslenskan veruleika. Hversu heimskur þarf maður að vera til trúa því að hjárænuhópur sem kallaður er auðrónadeildin í Sjálfstæðisflokknum geti búið til nýja stjórnmálahreyfingu? 

Hvorki mannval né málefni hópsins eru líkleg til stórafreka. Sveinn Andri Sveinsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Þorsteinn Pálsson, Ólafur Stephensen, Árni Þór Sigfússon og bróðir hans Þór eru allir ágætis menn - svo lengi sem þeir halda sig fjarri stjórnmálum. Fyrir utan ESB-aðild gætu félagarnir sameinast um pólitíska, siðferðilega og lagalega sakaruppgjöf handa meðhlaupurum útrásarinnar.

Þegar búið er formlega að draga tilbaka umsókn Íslands að Evrópusambandinu blasir við nýtt landslag í íslenskum stjórnmálum. Þeir sem sigruðu umræðuna eru komnir á bragðið og vilja meira.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er náttúrulega gífurleg hótun að Gulli Gull styrkjakóngur og Árni Sigfússon sem tapaði Reykajvíkurborg, seldi HS og skuldsetti Reykjanesbæ upp fyrir rjáfur ásamt bróður sínum Þór sem skrifaði upp á milljarða veðsetningu bótasjóðs Sjóvá til veðsetningar 68 íbúðaturns í Macau fyrir Wernersbræður án þess að vita hvað hann skrifaði undir ásamt Sveini SVR-Klandra. Þorsteini Pálssyni sem klauf Vísi, xD 1987 og nú þjóðina í ESB og Ólaf Stephensen Baugspennan á ofurlaunum.

Þakka þeim samferðina og það að yfirgefa flokkinn loksins.

Jóhann Gunnarsson (IP-tala skráð) 27.6.2010 kl. 12:21

2 identicon

Það er mjög gott að banna spillingu í flokkinum, en það að banna ákveðna skoðun á ESB útilokar því miður ekki spillingu, kannski þvert á móti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á lengi verið flokkur góðra hugsjóna, en virðist nú ætla sér að verða flokkur andstæðinga ESB aðildar. Það eru fjölmörg önnur mikilvæg mál þar sem sjálfstæðisflokkurinn leyfir ennþá skiptar skoðanir, t.d. Icesave samningar, AGS, kvótakerfið, landbúnaðarstyrkir, o.s.frv. ESB er hins vegar að því virðist of mikið hitamál, og þótt ótrúlegt sé þá virðist sjálfstæðisflokkurinn nú vera sammála VG í þessum málaflokki. Undarlegt hvernig stjórnmálin þróast.

Bjarni (IP-tala skráð) 27.6.2010 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband